Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vangaveltur fyrrverandi, ári síðar

Ekki fannst mér það spennandi að vera í hópi fyrrverandi flokksmanna þegar ég var starfandi í stjórnmálastarfi.  Upp til hópa biturt og tapsárt fólk sem tuðaði yfir öllu áður en það hætti og versnaði svo um allan helming eftir að það loksins hundskaðist út.  Neikvætt lið með allt á hornum sér.   Fyrir rúmu ári komst ég þó endanlega á þá skoðun að það væri mitt hlutskipti að kveðja Framsóknarflokkinn sem ég hafði verið í frá 1997 og setjast á bekkinn hjá fýlupúkunum. 

 

Um ástæðurnar fyrir því að ég komst á þá skoðun ætla ég ekki að fjölyrða nú, en frekar reyna að koma einhvern veginn í orð hvernig ég tel flokksanda geta skekkt gagnrýna hugsun hjá fólki.  Nú ætla ég samt að reyna af veikum mætti að skilja mig frá fýlupúkunum og koma því á framfæri að ég tel flokksstarf sannarlega geta verið mjög af hinu góða.  Þegar það er vel skipulagt er þetta afskaplega þroskandi, lærdómsríkt og skemmtileg félagsstarf.  Ég eignaðist frábæra vini og félaga í gegnum þessi ár og ég met það mikils.  Sé því hreint ekki eftir að hafa varið öllum þessum tíma í flokki sem ég ákvað síðan að kveðja.  

 

Þegar ég var í flokknum reyndi ég svo sannarlega að vera gagnrýninn.  Þó ég hafi í megindráttum verið sammála stefnu flokksins þessi ár komu oft upp einhver mál þar sem maður var gapandi yfir einhverju smáu eða stóru.  En eftir að ég varð óflokksbundinn áttaði ég mig betur á einu.  Ósjálfrátt gefur maður flokksbræðrum sínum á þingi meiri "slaka" heldur en öðrum á þinginu.  Maður ætlar þeim frekar að vinna að heilindum heldur en keppinautunum.  Vafalítið spilar þar inní að maður er í einhverjum tilfellum ágætlega kunnugur viðkomandi og telur sig einfaldlega vita að þar fari gott og heiðarlegt fólk.  En það er ekki þar með sagt að andstæðingarnir séu síðra fólk.  Það er svo sannarlega að vinna af heilindum í jafn miklu hlutfalli og fólkið í "þínum flokki".   Þú þekkir þá bara ekki jafn vel.

 

Þarna kem ég að því sem varð kveikjan að þessum pistli.  Skekkjan eða brenglunin sem það getur valdið að vera í stjórnmálaflokki.  Með því að vera í flokki, starfa í honum og gera það "opinbert" að þú styðjir flokkinn (þó það sé bara á vinnustaðnum eða vinahópnum) ert þú búinn að "fjárfesta" nokkuð í því að flokkurinn sé að starfa vel og af heilindum.   Þú vilt frekar geta verið stoltur af þeim félagsskap sem þú ert skráður í heldur en ekki.  Það er miklu leiðinlegra fyrir flokksbundinn framsóknarmann að horfa uppá forystu flokksins fara að hitta rugludall í Noregi og ræða lánveitingar heldur en fyrir óflokksbundinn mann útí bæ.  Þess vegna er sá flokksbundni miklu fremur til í að trúa því að þetta sé gáfulegt.  Enda hver vill tilheyra félagsskap þar sem menn reyna að vekja upp væntingar hjá örvæntingarfullri þjóð um einhver lán sem aldrei var nokkur von með?  Auðvitað viltu frekar að þetta hafi verið vel meint.  Þess vegna hlustarðu frekar á "þinn" formann þegar hann segir frá fundinum með norska kverúlantinum og vilt frekar trúa honum til að hafa verið að vinna vel heldur en ef erkióvinurinn færi í slíka ferð og "þinn" formaður gæfi það út að þetta væri spuni og moðreykur.

 

Nú veit ég að ýmsir minna gömlu félaga hrista hausinn.  Auðvitað er þetta ekki svona, fólk kaupir ekki allt hrátt í flokknum.  Nei, enda á ég ekki við það, heldur það hvaða áhrif það hefur að innst inni viltu miklu frekar að þinn formaður sé að vinna af meira viti heldur en sá næsti.  Þú ert búinn að gefa það út að þú styðjir viðkomandi, jafnvel búinn að fá vini og kunningja, eða ókunnugt fólk til að kjósa hann, auðvitað viltu ekki vera gerður að ómerkingi eða líða þannig eins og þú hafir hvatt fólk til að taka vonda ákvörðun í kjörklefanum.  

 

Hafandi sagt þetta, þá er ég nú á því að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegir.  Fólk þarf bara að taka þetta minna alvarlega allt saman.  Ekki hafa svona miklar áhyggjur af afleiðingum þess að segja sig úr flokki, já eða ganga inn í flokk.  Ég velti því fyrir mér í næstum ár að segja mig úr flokknum áður en ég loksins varð endanlega ákveðinn.  Það er náttúrulega rugl-tími þó það sé ágætt að hugsa málin vel.  Fólk breytist og flokkar líka.  Það er allt í góðu með það þó flokkar klofni, sameinist öðrum eða hreinlega deyi út.  Þó manni þyki vænt um sögu flokks og fólkið í honum eru stjórnmálaflokkar fyrst og fremst tæki fólks til að koma hugmyndum í framkvæmd.  Ef það er ekki mögulegt því öll orkan fer í að halda í einhvern vinnufrið í flokknum sjálfum er bara hið besta mál að fólk segi bless.  Þó þú, mamma & pabbi og afi & amma hafi verið þarna í 100 ár.  Bless Framsókn - þetta var gaman, framan af...


Alltaf er þetta bankahrun að þvælast fyrir íhaldinu

Ekki held ég stöðu minni sem froðusnakkur án þess að hella reglulega úr skálum reiði minnar yfir lyklaborðið. Það hef ég ekki gert lengi og því hef ég alls ekki innistæðu fyrir því að sleppa þeirri óskrifuðu reglu meðal froðusnakkara að missa stjórn á mér vegna landsdómsmálsins. Hér eru því nokkrir punktar, í samhengislausu samhengi.

Sjálfstæðismenn fara eins og við var að búast skemmtilegar leiðir til að rökstyðja mál sitt. Áður en ég fer í málflutning varaformannsins Ólafar Nordal má ég bara til með að fara í smá upprifjun. Ólöf Nordal missti útúr sér skoðun sína á skýrslu RNA í hinum merka íhaldsþætti Hrafnaþingi. Sjálfstæðismönnum líður þar (eðlilega) bara eins og heima í stofu, umkringdir skoðanabræðrum í notalegu spjalli og það eina sem vantar er rauðvínið. Þess vegna kemur stundum hinn óritskoðaði, pólitískt rangt þenkjandi íhaldsmaður óvart þar fram í þættinum. Ólöf sagði og ég veit að ég er bloggari nr. 5.000 að ítreka þetta, en þetta er bara of gott til að þetta sé ekki rifjað upp reglulega:

Þessi rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið. 

Daginn eftir kom hin ritskoðaða og pólitískt rétt þenkjandi Ólöf Nordal fram og sagðist auðvitað sjá eftir þessu.  Einhverjir keyptu sjálfsagt þá skýringu, en ekki ég, enda var tónninn einfaldlega svo einlægur heima í Hrafnaþingsstofunni að hún gleymdi að myndavélin var í gangi og einhver að horfa.

Nú er nýjasta hraðahindrunin á leið Sjálfstæðisflokksins til æðstu metorða á ný þessi hugmynd að ákæra fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm. Það finnst Ólöfu fráleitt meðan þeir ganga enn lausir sem ollu hruninu.  Þessi punktur vakti athygli mína enda kunnugleg málsvörn.  Bíddu við, hver tók aftur svipaðan pól?  Það var ekki amalegri fyrirmynd fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur en fyrrv. stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson!  Honum svíður mikið að verið sé að eyða tíma í Kaupþing á meðan ekki er búið að hefja sakamálarannsókn á Icesave reikningunum.  

Ekki skal ég skera úr um forgangsröðun þeirra sem rannsaka þennan stóra skítahaug. En mér finnst vert að taka þennan forgangslista réttlætisins, útdeilt af Sigurði Einarssyni og Sjálfstæðisflokknum til frekari skoðunar. Maður sem beitir hníf í líkamsárás og stingur í læri hlýtur til að mynda að eiga skýlausan rétt á frestun síns máls meðan alvarlega mál annars manns sem stakk fórnarlamb í brjóstkassa er leitt til lykta. Svona mætti lengi halda áfram í ómálefnalegum samlíkingum ef menn vilja.

Fleira skemmtilegt hafa íhaldsmenn sagt. Ólöf og Siggi Kári tala um að næg refsing fyrir ráðherrana sé að fá svona slæma umsögn í skýrslunni og sú staðreynd að þau eru ekki lengur (utan Björgvins sem er í leyfi) þingmenn/ráðherrar í dag. Með útúrsnúningi má því segja að ef aðalgjaldkeri fyrirtækis yrði uppvís af fjárdrætti væri næg refsing fyrir hann að missa starfið og að um málið yrði skrifuð frétt á innraneti fyrirtækisins.  Jæja, hendum jafnvel inn frétt á baksíðu Moggans um aðalgjaldkerann líka til að fá fullkomna útrás fyrir refsigleðina!

Ég veit ekki hvort þessir fyrrv. ráðherrar eru sekir eða saklausir um vanrækslu. Ég treysti hinsvegar Rannsóknarnefnd Alþingis svo miklu miklu betur en Ólöfu Nordal og Sigga Kára til að fjalla um það (sjá kafla 21 í skýrslunni).   Það er hart að vera ákærður fyrir Landsdóm og sér í lagi þar sem sumir pólitíkusar hugsa að því er virðist meira um dóm sögunnar frekar en samtímans. En það er líka grafalvarlegt mál fyrir þolendurna að viðkomandi hafi tekið að sér ráðherraembætti og sýnt af sér vítaverða vanrækslu ef marka má skýrsluna. Leita ekki aðstoðar AGS mun fyrr þegar augljóst er að stjórnvöld hafa algjörlega misst tökin á efnahagsmálunum, hlusta ekki á viðvörunarorð og leyfa Landsbankamönnum að opna sparireikninga í nýjum löndum fram að síðustu mínútum kerfisins eða því sem næst.

Mín kenning er þessi og hún er ekki síst í boði Hrafnaþings-Ólafar: Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kæra ráðherrana af þeirri einföldu ástæðu að þá mun enn á ný fara fram krufning á því hver ósköpin þeirra fólk var að gera, eða öllu heldur, ekki gera!  Þau vilja ekki að þetta mál þvælist fyrir lengur og því er best að kæra engan og segja bara bless sem fyrst við þessa óþægilegu skýrslu!


Að vera með bindi eða ekki og meira til

Ekki getur maður látið taka sig alvarlega sem nöldrandi kverúlant öðruvísi en að blogga um bindi alþingismanna eða hugsanlegan skort á þeim.  Hvernig fólk fær það út að það sé mikilvægur þáttur í virðingu fyrir Alþingi að karlmenn séu með hálstau er mér ofan skilningi.  Það er grunnhyggið og ber þess merki að sérstakt útlit, ákveðin ímynd af karlmanni með bindi, skipti viðkomandi meiru en innihald.  Sjálfsagt mál að gera þá kröfu að fólk sé snyrtilega klætt, en að bindi/slaufa spili lykilrullu í því er furðuleg míta.

Best ég setji þetta í annað samhengi.  Nú er Dalai Lama á leið til landsins, ef honum myndi líka svo vel hérlendis að hann ákvæði að setjast hér og bjóða sig fram til Alþingis (hann færi auðvitað fram fyrir Framsóknarflokkinn fyrst ég gaf honum þessa hugmynd),  þætti talsmönnum hálstaua Alþingi setja mikið niður ef Lama dirfðist til að mæta bindislaus?

Kannski ekki raunhæfasta dæmið.  En ef Dalai Lama getur komist með vott af virðingu í gegnum lífið bindislaus, af hverju má Þór Saari ekki gera það líka?

Breytt kl. 22:10.  Ég vissi að Dalai Lama samlíkingin væri hæpin en ekki að hún væri stolin, eða amk stolin í gáleysi!  Frúin sagðist sem sagt hafa séð þetta einhversstaðar áður Blush  Ekki man hún hvar þannig að ég heiðra viðkomandi með link þegar hann finnst!

---
Mikill fjöldi fólks hefur velt því fyrir sér á undanförnum mánuðum hvort hag þeirra sé betur borgið erlendis en á Íslandi.  Ég neita því ekki að sjálfur hefur maður haft þetta bakvið eyrað og hugsað útí þennan möguleika.  Það sem ýtir eiginlega stöðugt við mér er þetta gríðarlega framboð á neikvæðri umræðu.  Enda hef ég heyrt í mörgum viðtölum við brottflutta samlanda hvað þeir eru fegnir að komast "útúr þessu andrúmslofti".  Vissulega eru erfiðleikar í efnahagslífi nágrannalandana en hérlendis eru þeir af slíkri stærðargráðu að þessi umræða gegnsýrir alla umræðu útum allt!  Ég tók þá meðvituðu ákvörðun fyrir einhverjum mánuðum að hætta að horfa á alla fréttatíma, það vissulega hjálpar, en ég get einhvern veginn ekki lokað bara augunum fyrir öllum þessum fréttum, andsk. þjóðmálaáhuginn er böl.

Síðan neita ég því ekki að það fyllir mig ákveðnu vonleysi fyrir hönd lífvænlegra fyrirtækja í landinu hvernig bankarnir og ríkið virðist vera að spila úr fyrirtækjunum sem koma í fangið á þeim.  Sbr. grein forstjóra Office1 um helgina og viðlíka ummæli fjölmargra í atvinnulífinu að undanförnu.  Það gengur ekki að þetta litla hlutfall fyrirtækja sem þrátt fyrir allt stendur vel, þurfi að fara í fyrirfram vonlausa baráttu við ríkið.  Hvort eignaumsýslufélag ríkisins sé besta lausnin á þessum vanda veit ég ekki en ég tek alvarlega ráðleggingar frá jafn reyndum sérfræðingum og hinum sænska Mats Josefsson.

---
Úff... las þetta yfir og talandi um að kasta steinum úr glerhúsi,  ég að kvarta yfir offramboði á neikvæðri umræðu og býð svo uppá þetta!  Mæli með að þið kíkið á Baggalút til að hressa ykkur við.


ESB hnúturinn - stjórnarmyndun - afskrifum ekki Gylfa en afskrifum skuldir

Ég skil ekki alveg æsinginn vegna lekans frá stjórnarmyndunarviðræðum um mögulega á lausn á deilu S og VG um Evrópusambandsaðild.  Mestur hefur hann auðvitað verið hjá íhaldinu en er þetta ekki það sem við viljum?  Að þingið taki ákvarðanirnar og segi framkvæmdavaldinu fyrir verkum en ekki öfugt! 

Það er meira vit í svona lausn en að ágreiningsmál milli flokka verði "leyst" með því að leggja þau í dvala í 4 ár (eins og Samfylkingin samþykkti að gera með Evrópumálin í maí 2007).  Það er þá eins gott að VG-ráðherrarnir hlíti niðurstöðunni og taki ekki Þórunni-Sveinbjarnar á þetta og reyni að tefja málið ef þingið felst á aðildarumsókn.

Ef þingið felst ekki á aðildarumsókn..., þá fyrst verður tilefni til að draga fram breiðu spjótin á þessu bloggi.

---
Eins og fleiri vil ég að þessar viðræður myndu ganga hraðar, enda gerist ekkert í stjórnkerfinu fyrr en ný stjórn verður mynduð. Vitna í góðan mann og segi að Alþingi ætti að vera á sólarhringsvöktum við að bjarga því sem bjargað verður.  Þó það skemmi þriggja daga helgarnar hjá Ástu Ragnheiði.  Ódýrt skot, en verðskuldað!

---
Ég vona innilega að Gylfi Magnússon verði áfram í Ríkisstjórninni.  Mér þykir miður að hann skuli ekki vera tilbúinn að reyna að semja um afskriftir skulda, en ég tel samt að hann sé yfirburðamaður úr hópi líklegra kandídata til að mynda næstu Ríkisstjórn.  Fyrst ég fór inná þetta mál, afskriftir skulda, er vert að benda á hvernig Sænska fjármálaeftirlitið lítur íslenskar eignir.   Frétt sem lítið fór fyrir í lok árs 2008 en segir að FI meti íslenskar eignir sem verðlausar.   Væntanlega ekki eina erlenda stofnunin sem gerir það?  Hvernig væri að skuldarar fengju að njóta þess líka?  Fjármagnseigendum voru færðir 200 milljarðar til að bæta þeim upp tapið af peningamarkaðssjóðunum, gleymum því ekki.

Lausnarsetningin er: "...miðað við umhverfið þá"

Sjálfstæðismenn hafa svör við öllum erfiðum vandræðamálum.  "Þetta var rétt ákvörðun á þeim tíma miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir", "í því andrúmslofti sem þá ríkti", eða nýjasta tuggan "...miðað við umhverfið þá"

Ósjaldan var eitthvað á þessa leið notað fyrir síðustu kosningar til að afsaka stuðninginn við innrásina í Írak og nú skal nota þennan frasa á ný, í þetta skiptið til að afsaka milljóna styrki vegna prófkjara. 

En það þýðir einfaldlega ekkert að vera með svona bull.  Sjálfstæðismenn samþykktu ásamt öðrum flokkum þetta ár að hámarksframlag til hvers stjórnmálaflokks ætti að vera 300.000 kr. á ári.  Sú tala var ekki tilviljanakennd heldur rædd í þaula í hópnum sem samdi drögin að lögunum.  Þannig að "í þessu umhverfi" árið 2006 fannst flokkunum nú samt 300 þús eðlilegt hámark. 

Ekki reyna að halda fram að 2.000.000 kr. styrkir hafi því þótt jafn sjálfsagðir og 2-3 kex-kassar frá Frón árið 2006.

---
Vil þakka DV fyrir að hjálpa mér að koma útúr skápnum sem Framsóknarmaður.  Eins og þeir sem mig þekkja eða eru lesendur hér vita hef ég farið gríðarlega leynt með þetta alla tíð, sem mannsmorð.  En þökk sé tímamóta uppljóstrunum "leyniskjala" get ég ekki falið mig lengur.  Vil svo annars biðja DV og Flokkinn afsökunar á að hafa ekki verið duglegri að "reka erindi flokksins á síðum mínum".

---
Þó það komi auðvitað lítið á óvart nú eftir þessa Watergate frétt frá DV er best ég upplýsi að ég hyggst kjósa Framsóknarflokkinn á laugardaginn.  Eins og ég hef rakið hér áður er Flokkurinn ekki hvítþveginn og mikil mistök voru svo sannarlega gerð undir hans stjórn.  En hinn venjulegi flokksmaður ákvað að því þyrfti að skipta út fólki og það hefur svo sannarlega verið gert.   Á meðan Framsóknarflokkurinn er með tvo núverandi þingmenn sem oddvita (af sex kjördæmum) er okkar gamli samstarfsflokkur með þingmenn í öllum kjördæmum utan eins á toppnum.  Samfylkingin sem "axlaði ábyrgð með því að fara úr einni Ríkisstjórn í aðra" (ég lýg því ekki, Össur sagði þetta í kvöld!  Hann hefði örugglega skrifað uppá syndaaflausn íhaldsins ef þeir hefðu gert hið sama) er með núverandi þingmenn sem oddvita í öllum kjördæmum.  Meira að segja gamli bankamálaráðherrann sem taldi sig þurfa að víkja fyrir korteri síðan telur sig vera kláran í slaginn strax aftur!

Efnahagstillögurnar frá Framsókn eru heldur ekki bara endalausar frestanir á lánum sem í tilfelli okkar unga fólksins, eru mjög löng fyrir, það finnst mér góð tilbreyting frá tillögum vinstri flokkanna og nú hefur íhaldið hoppað á þann vagn.  Pdf skjal með þeim má nálgast hér.  

 Þetta blogg varð of langt fyrir 100 setningum síðan - segjum þetta því gott í apríl, sjáumst í maí


Útdráttur úr ræðu Davíðs

Mikill áhugi er á ræðu Davíðs Oddssonar (Seðlabankastjórinn sem kom Seðlabankanum á hausinn) frá landsfundi íhaldsins í dag, en þar sem nú er laugardagur á fólk að eyða tímanum betur en í lestur á slíkum pistlum.  Fyrir lesendur er hér því útdráttur úr ræðu Davíðs:

Ég er snillingur.  Þið hin eruð fífl.


Fyrst Davíð og Baldur, svo þið hin

Fyrir nokkrum dögum var mér bent á af fyrrverandi kjósanda íhaldsins að fylgjast með aðsendum greinum manna í innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins.  Ekki var ástæðan sú að þarna mætti finna innblásna og skemmtilega lesningu á erfiðum tímum heldur til að vekja athygli á  forgangsröðunina hjá Sjálfstæðisflokknum.  Miklu púðri er eytt í atvinnuöryggi eins formanns bankastjórnar, eins ráðuneytisstjóra en hvar eru allar greinarnar eða bloggin frá lykilmönnum íhaldsins um 14 þúsund atvinnulausa Íslendinga og lausnir handa þeim?

Hvar eru stóru orðin um þessa fjórtán þúsund?  Af hverju skrifar fyrrv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins ekkert um þá?

Ástæðan er einföld, fyrst kemur flokkurinn og hans dyggu liðsmenn, síðan (ef tími vinnst til, í Guðs bænum ekki halda í ykkur andanum) er það rest.

Eiga Framsóknarmenn ekki að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni?

Nú er uppi fótur og fit vegna þess að Framsóknarmenn voru ekki tilbúnir að samþykkja drög að stjórnarsáttmála VG og S.  Telja margir æstir bloggarar að athyglissýki og sýndarmennska ráði för.  Hvernig fólk fær það út er mér hulin ráðgáta þar sem augljóslega enginn vill að landið sé án ríkisstjórnar og því varla mikið á því að græða að tefja myndun stjórnar.

Það er mun heiðarlegra að útkljá álitaefni núna, áður en stjórnarsáttmálinn er naglfestur heldur en þegar þessi gríðarlegu stóru mál munu koma upp í þinginu.  Eða hvernig er það, vill fólk ekki að sjö þingmenn Framsóknarflokksins greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni?  Ekki hefur mér heyrst vera mikil stemming fyrir því í þjóðfélaginu að þingmenn greiði bara atkvæði eftir pöntun, hvað sem þeim raunverulega finnst um málin. 

Framsóknarflokkurinn ætlaði aldrei að gefa út óútfylltan tékka fyrir stuðning við þessa ríkisstjórn.  Strax í upphafi voru skilyrðin sett fram þannig að það þarf ekki að koma neinum á óvart.

Samþykkjum raunhæfar aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum sem sérfræðingar meta sem framkvæmanlegar, en ekki innihaldslaust orðagjálfur sem mun ekki ganga upp þegar á reynir!

Utanþingsstjórn útrásarvíkinga

Geir H Haarde (og sjálfsagt fleiri ráðamönnum) var tíðrætt í haust um ábyrgð sína við að koma þjóðinni í gegnum erfiðleika vegna bankahrunsins.  Því ætti hann ekki að víkja.  Þá ábyrgð mat hann þó veigaminni en ábyrgð sína sem formanns Sjálfstæðisflokksins að halda í forsætisráðherrastólinn.  Ef samstarfið strandaði bara á því en ekki málefnunum hefði verið hægur leikur að gefa stólinn bara eftir, er ekki sama hvaðan gott kemur?

En í það sem þessi færsla átti að snúast um, tillögu um utanþingsstjórn!  Geir hefur verið tíðrætt um ábyrgð þeirra sem ráku bankana í þrot.  Í anda þess að hann vildi stýra landinu uppúr erfiðleikunum og axla þannig ábyrgð hefði hann auðvitað átt að stinga núna uppá ríkisstjórn útrásarvíkinga í stað þjóðstjórnartals.  Ég geri það þá fyrir Geirs hönd hér með.  Um þennan hóp ætti að nást víðtæk samstaða og sátt, sé fyrir mér Arnarhólshyllingu eins og þegar Silfurliðið kom heim í fyrrasumar þegar tilkynnt verður um þennan ráðahag:

Forsætisráðherra
Sigurður Einarsson, fyrrv. stjórnarformaður Kaupþings.  Stýrði stærsta bankanum og þeim sem lifði lengst, þangað til hið breska FME gat ekki lengur horft uppá að íslenskur banki lifði hrunið af.  Hefur því harma að hefna gegn Bretum sem er ótvíræður kostur fyrir sameiningartákn þjóðarinnar.

Fjármálaráðherra
Ólafur Ólafsson.  Mörgum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hefur verið þyrnir í augum dýralæknamenntun Árna Mathiesen.  Ólafur er viðskiptafræðingur þannig að um þetta embætti verður full sátt hjá dómstóli götunnar.

Dóms- og kirkjumálaráðherra
Jón Ásgeir Jóhannesson.  Hefur víðtæka reynslu af dómsmálum og þekkir því málaflokkinn vel.  Hefði þarna möguleika á að gera föður sinn að biskup yfir Íslandi sem ætti að falla stórum hluta þjóðarinnar í geð.

Umhverfisráðherra
Lilja Pálmadóttir.  Hefur tök á að kaupa CO2 útblásturskvóta úr eigin vasa og þarf því ekki að eyða dýrmætum tíma í samninga um sérákvæði fyrir Ísland.

Menntamálaráðherra
Róbert Wessmann.  Lét veskið tala og gaf HR milljarð.  Sýndi þar ótvírætt áhuga sinn á bættri menntun þjóðarinnar.

Heilbrigðisráðherra
Róbert Wessmann.  Hefur að sögn Árna Sigfússonar sýnt skurðstofum í Keflavík áhuga.  Gerum þetta milliliðalaust og setjum hann í heilbrigðismálin.

Samgönguráðherra
Hannes Smárason.  Með víðtæka reynslu af flugrekstri, eða öllu heldur kaupum og sölum flugfélaga.  Gæti þjóðnýtt flugfélög og selt þau svo aftur, þjóðnýtt svo á ný.

Utanríkisráðherra
Karl Wernesson.  Með sterk tengsl í Svíþjóð og austurlöndum.

Sjávarútvegs-, landbúnaðar-, iðnaðar og viðskiptaráðuneyti
Þessi ráðuneyti ætti auðvitað vera búið að sameina.  Maðurinn til að leiða þá sameiningu er Hreiðar Már Sigurðsson.  Hefur marga sameininguna sopið og myndi klára dæmið fyrir páska.

Félagsmálaráðherra
Ólafur Ragnar Grímsson.  Var öflugur málsvari útrásarfyrirtækja og þekkir því vel samstarfsfólkið í utanþingsstjórninni.

Við þetta má bæta tveimur umdeildum embættum:

Forstjóri FME

Davíð Oddsson.  Sá bankahrunið fyrir eins og hann hefur margoft ítrekað og ekki hefur Geir H Haarde borið það til baka.  Dældi samt milljörðum í bankana fram undir síðustu mínútu þannig að hann þarf að axla ábyrgð á tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans (sem Árni M reddaði með pennastriki fyrir áramót).

Formaður bankastjórnar Seðlabankans
Geir H Haarde.  Hagfræðingur og því fáum við loksins hagfræðing í þetta umdeilda embætti.  Ótvíræð sátt mun því verða um Geir.

---
Um allt hefur verið bloggað þúsund sinnum á dag síðustu mánuði, biðst því velvirðingar ef þessi pistill er nánast copy/paste af hugmyndum annarra bloggara sem eru fljótari til lyklaborðsins en ég!  Ég á mikið inni í skrifum, s.s. um nýja og glæsilega forystu Framsóknarflokksins, um "samheldni Ríkisstjórnarinnar" eftir vantrauststillöguna í haust, komu Guðmundar Steingrímssonar í Flokkinn ofl. en með þessum blogg-afköstum skulið þið ekki vaka eftir þeim pistlum lesendur góðir.

Hvað voru þau eiginlega að gera?

Samfylkingarráðherrarnir koma upp um sig hver af öðrum.  Staðfesta aftur og aftur það meðvitaða aðgerðarleysi sem Ríkisstjórn Íslands hefur hér staðið fyrir.  Björgvin G bankamálaráðherra ræddi ekki við bankastjóra Seðlabankans í ár.  Í mestu bankakreppu seinni tíma eða allra tíma sá hann ekki ástæðu til þess.  Hann taldi sig líklega vera að skjóta á Davíð með þessari uppljóstrun en þarna skaut hann sig fyrst og fremst í fótinn.

Ingibjörg Sólrún sagði okkur frá því að formenn S og D hittu ekki Seðlabankastjóra allan júní.  Þó voru lög um aukningu gjaldeyrisforðans sett í lok maí og þótti nú mörgum þau koma full seint.  Ekki lá formönnum stjórnarflokkana meira á en svo að þau hittu ekki Seðlabankastjóra í júní, en ef mig misminnir ekki fékk Seðlabankinn verkefnið að afla lánanna. Í júní veiktist krónan hratt en það virðist þó ekki hafa raskað ró foringjana.  Samræðustjórnmálin voru greinilega í sumarfríi í júní.

Það litla sem gerist er á hraða snigilsins.  Þegar Davíð mætti ekki á fund viðskiptanefndar var hann boðaður aftur, viku seinna!  Venjulegt fólk hefði bara boðað hann þá daginn eftir eða jafnvel haldið símafund fyrst þetta var svona mikið erfiði fyrir hann að koma niðrí þing.  En nei, þó bankakerfið hér hafi hrunið liggur okkur ekki meira á en þetta.

Geir hefur auðvitað engan trúðverðugleika.  Þegar hann segist ekki muna samtöl eða hvað fór fram í þeim trúir honum ekki nokkur maður.  Af hverju í ósköpunum ættum við að gera það?

---
Allt þetta bliknar samt við tíðindi dagsins, okkar langmesti töffari fallinn.  Held ég eigi eftir að muna lengi hvernig ég frétti þetta. Þó ég hafi ekki verið svo lánsamur að þekkja meistarann persónulega snerti þetta mig mikið.  Rúnar Júl var lifandi goðsögn og að fá að hitta hann og sjá spila eru auðvitað forréttindi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband