Skálmöld er upprisin

Plötudómar eru góð afþreying. Því hef ég haft í hyggju um nokkra vikna skeið að setja nokkur orð á Internetið um plötu Skálmaldar, Baldur, sem kom út í litlu kynningarupplagi í tilefni Eistnaflugs í júlí. Hin formlega útgáfa mun vera á dagskrá í haust en engar dagsetningar liggja enn fyrir eftir því sem ég hef heyrt. Ástæða þessarar skyndilegu lyklaborðsræpu eftir 15 mánaða bloggdauða er sú að með þessari plötu hafa tímamót átt sér stað í íslenskri tónlist. Þarf að biðja lesendur afsökunar á óhóflegri lengd þessarar færslu en mér liggur mjög mikið á hjarta.

Ég ætlaði að skrifa um Baldur fljótlega eftir fyrstu hlustun en ég vildi ekki að dómurinn væri eins og 13 ára skríkjandi táningsstelpa hefði haldið á penna þannig að ég ákvað að bíða þangað til ég kæmi niðrá jörðina og gæti skrifað um málefnið af sérstakri hófsemi og yfirvegun. Sú stund hefur ekki komið ennþá og ég sé ekki að það gerist neitt á næstunni. Ég fékk ítrekaða gæsahúð við fyrstu hlustun og eftir tugi hlustana fæ ég enn gæsahúð! Ekki ávallt á sömu stöðum en það eru nokkrir fastir punktar sem ég hreinlega kemst ekki yfir og 13 ára gelgjan mætir aftur og aftur.

Til að lýsa þessu fyrir þeim sem hafa ekki reynt er vert að taka fram að Skálmöld spilar að eigin sögn víkingametal. Fyrir mér er þetta þungarokk í sinni hreinustu mynd, ætti að eiga sér sinn stað í lotukerfinu, frumefnið metall. Ég hef eiginlega öðlast algjörlega nýja trú á þungarokk við þessa hlustun, en eftir gott uppeldi Erlings og Ingvars Þórs á Hlíðarenda vildi ég ekki sjá annað sem ungur ormur. Platan er heildstæðari en nokkur plata sem ég hef heyrt á ævinni. Þetta er svokölluð concept plata þar sem sagan af Baldri er sögð með textum sem eru meistaralega samdir af Bibba og framburður þeirra ótrúlega góður, hef aldrei heyrt jafn harðan söng koma efninu betur á framfæri. Sagan og tónlistin passa svo fullkomlega saman, tónar sem maður heyrir ekki endilega við fyrstu hlustun styðja við hvað er að gerast í sögunni og uppbygging plötunnar er magnþrungin eins og sagan. Það hljómar lygilega en ég verð hálf miður mín í hvert einasta skipti sem komið er að lokum lagsins Dauða, en eins og nafnið gefur til kynna boðar það ekki mikil partýhöld án þess að ég vilji kjafta frá sögunni. Svipuð tilfinning eins og þegar maður hefur horft á eitthvað ægilegt drama í sjónvarpinu. Alveg ótrúlegur fjandi, eins og ég er laginn að leiða texta hjá mér, enda sjaldnast merkilegir. Með því að hlusta á plötuna aftur má þó hressa sig verulega við enda allir sáttir að lokum!

 Algjört lykilatriði er að hlusta á verkið í heild sinni, en fyrst ég er að setja mig í spor Arnars Eggerts og Árna Matt verð ég auðvitað að taka einhver lög sérstaklega fyrir. Freistandi er að velja Kvaðningu sem lag plötunnar, enda epískt stórvirki, tæpar 8 mínútur og það lag sem maður hefur heyrt oftast enda fór það fyrst í Myspace-dreifingu. Lagið Dauði hefur þó sótt sérstaklega á mig, bæði vegna þess hvað textinn er dramatískur, uppbyggingin og stígandinn í laginu svo magnaður, fyrir utan hvað ég verð alltaf meyr eins og ólétt kona eftir að síðasta lína lagsins hefur verið sögð. Fyrst ég byrjaður að nefna lög get ég þó ekki sleppt Árás, enda svo grafískt lag og ægilega reitt að ég sem sérlegur aðdáandi reiðrar tónlistar get ekki annað en fagnað því sérstaklega. Upprisa er einnig frábært umbrotalag og passar svo fullkomlega við söguna. Heima og Valhöll frábær byrjun og endir, ramma verkið fullkomlega inn. Í Hefnd mætir söngvari Sólstafa sem gestur og gerir mig skíthræddan í hvert skipti, ekkert nema illskan uppmáluð þetta helvíti og gerir okkar sögupersónu litla greiða. Var smástund að venjast hans innkomu, en finnst þetta frábært samspil í dag. Ekki mörg lög eftir ónefnd núna, en til að einhver taki mig trúanlegan sem gagnrýnanda verð ég náttúrulega að segja stopp núna áður en ég klára öll lögin.

Ég þyrfti að skrifa meira um textana, enda eru þeir lykiltromp þessarar plötu og algjör undirstaða verksins, en ef ég á einhvern tímann að geta hætt þarf ég að koma mér í spilamennskuna sjálfa. Þar eru þvílíkir endemis meistarar sem stýra för að ég get ekki á heilum mér tekið. Böbbi, minn uppáhalds metal-söngvari í sögunni fær loksins plássið sem hann á skilið og gerir svo vel að við hans örgustu fylgismenn gátu varla séð fyrir hversu stórbrotinn frontmaður hann er! Þráinn í Torfunesi sem sólógítarleikari er ekki neitt eins og íslenskur sveitadrengur, heldur eins og besti gítarleikari í heimi skv. Böbba og þar sem Böbbi hefur aldrei haft rangt fyrir sér um þungarokk sé ég ekki ástæðu til að rengja þann dóm. Trommurnar hjá Jóni Geir algjörlega trylltar og tvöfalda bassatromman þar sérstaklega vinsamleg. Hæfileikaríkustu bræður í íslenskri tónlist síðan McCartney/Lennon (og þeir voru ekki einu sinni bræður, hvað þá íslenskir), Baldur og Bibbi, virðast geta gert allt í tónlist sem þeim dettur í hug. Gunnar Ben, óvæntasti liðsmaður metalsins, kann sömuleiðis allt sem þarf að kunna í tónlist og er þarna eins og innfæddur, hans spilamennska og söngstjórnun gefur plötunni nauðsynlega breidd sem meistaraverk þurfa að hafa.

Að þessu sögðu er litlu við þetta bæta nema því að ég hef tekið Ágætis byrjun af stallinum sem besta plata íslenskar tónlistarsögu og krýnt Baldur sem hinn nýja konung, lengi lifi konungurinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

flott flott..og hvar getur maður nálgast gripinn

Bragi Freyr (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 22:33

2 identicon

Það var þá kominn andskotans tími til að þú opnaðir þig... Stórfenglegur dómur um stórfenglega plötu.

Jói H (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 22:35

3 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Takk takk Jói minn, það er nú heldur betur kominn tími til að þú tjáir þig sömuleiðis!

Bragi, prómóeintökin eru víst uppseld þannig að þú þarft bara að bíða! Þú ert líka velkominn í heimsókn til að ég geti spilað þetta fyrir þig, skal hafa þig í fanginu þegar þú heyrir þetta í fyrsta sinn!

Karl Hreiðarsson, 17.8.2010 kl. 23:12

4 identicon

Já. Það er ekkert annað.

Það er gott að maður skuli geta glatt þitt mjög svo mikilvæga metalhjarta.

Hefðir samt mátt sleppa því að troða Ágætis byrjun inn í þennan annars mjög svo jákvæða dóm.

Ég treysti því að við sjáumst á fimmtudag.

Böbbi (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 23:41

5 identicon

Böbbi...þú ert í bandinu...geturðu ekki reddað einum metalkarli aukaeintaki? Ég borga auðvitað sanngjarnt verð.

Bragi Freyr (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 23:53

6 identicon

Ég get tekið undir þennan dóm.

Ég tek líka undir með Böbba að það var óþarfi að blanda Ágætis byrjun inn í þetta. 

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 18.8.2010 kl. 08:24

7 identicon

Ég var búinn að hlusta mikið á stök lög áður en ég heyrði plötuna í heild. Þá small platan algjörlega.

Spurning hvort það toppi jafnvel atriðið í Klovn þegar stoma pokinn sprakk í sundlauginni eða þegar Frank sveiflaði svipunni á jóladag.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 18.8.2010 kl. 09:18

8 identicon

Sæll Bragi.

Ég skal athuga hvort einhvers staðar leynist aukaeintak. Er ekki bjartsýnn en það má reyna. Ef ekki finnst eintak þá verður þú bara að vera þolinmóður :)

Böbbi (IP-tala skráð) 18.8.2010 kl. 10:33

9 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Við skulum halda okkur á mottunni Konni, það toppar það ekkert!

Viðbrögð ykkar 100% metalmanna við Ágætis byrjunar-kommentinu sá ég fyrir og þau gleðja mig að sjálfsögðu mikið!

Karl Hreiðarsson, 18.8.2010 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband