2013

Ég hef sérlega gaman af tímanum fyrir og eftir áramót.  Þessi uppgjör öll kæta mig mjög, hvort sem er umfjöllun um bestu plötur ársins, bestu tæki ársins eða fréttauppgjör af allskonar tagi. Síðan er alltaf einhver jákvæður tónn í loftinu fyrir nýju ári, enda bera flestir gæfu til að vona að það verði ekki ömurlegt.  


Sjálfur hef ég þó ekki verið sérstaklega duglegur við að skrifa slíka pistla (já eða annað hér, humm humm) en nú í ljósi nýjustu tíðinda af eigin heilsu, sem ég kem aðeins að hér síðar, finnst mér eiginlega ótæk kaldhæðni að láta síðustu færslu á þessu bloggi lifa sem efsta færslan mikið lengur.  Sér í lagi vegna lokaorða pistilsins, þetta er nefnilega alls ekki búið, hið minnsta ekki hjá mér.  Eins og ég er nú almennt hrifinn af kaldhæðni.


Þegar ég fór hinsvegar að hugsa um hvað ég vildi nefna áttaði ég mig fljótt á því að þetta yrði syndsamlega langt og djöfullegt aflestrar, þannig að ég ætla að reyna að hafa þetta í punktaformi, helst ekki ritgerð hver punktur.


  • Get vart hugsað aftar á árinu en til 28. okt, 4. mánuðum frá síðasta innleggi á þessum vettvangi, en þá fékk þann dóm að ég væri með krabbamein í skjaldkirtlinum.  Það er ekki sérstaklega frábært að fá krabbamein eins og litla fjölskyldan mín hefur nokkra reynslu af, en þrátt fyrir að þetta orð sé eðlilega frekar hrikalegt, er minn sjúkdómur sérlega álitlegur viðfangs.  Draslið var stórt, þetta kostar vesen og meðferð núna í janúar, en allar líkur eru á að ég muni komast stórgóður frá þessu, á skömmum tíma.  Það er ekki sjálfgefið að geta verið svo bjartsýnn svo skömmu eftir greiningu, þannig að ég leyfi mér að vera stórkostlega glaður með það, eins og svona er nú kannski ekki tilefni til gleði almennt séð.  

    Óvissutíminn fyrir greiningu var fjári erfiður en mér er efst í huga þakklæti til allra sem lögðu hönd á plóg við að lækna mig.  Frá lífgjafanum sem benti mér á það væri e-ð grunsamlegt á seyði þarna (sem hafði alls ekki hvarflað að mér), til þeirra sem læknuðu mig, Unnar minnar, fjölskyldunnar, vinanna, vinnufélaga og svo bara allra mögulega hinna sem hafa sýnt manni innilegan og dæmalaust fallegan hlýhug.

    Jesús, ég talaði um punktaform og svo er strax komin ein ritgerð?


    Daginn eftir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  • Nokkuð tengt fyrsta punktinum er einn af hápunktum ársins, Iceland Airwaves.  Það voru ansi sérstakar kringumstæður að fara á tónlistarhátíð sem maður keypti miða á með 10 mánaða fyrirvara með þær fréttir frá tveimur dögum áður að maður væri með krabbamein.  En tónlist gerir allt betra og lækningarmáttur hennar er gríðarlegur, hið minnsta á andlega sviðinu.  Þökk sé stórkostlegri dagskrá, dag eftir dag, með frábærum félagsskap var þetta nákvæmlega það sem ég þurfti til að dreifa huganum. Mamma stóð heimilisvaktina svo örverpið kæmist í þetta prógram.  Það var nú ekki lítið fallegt framtak þótti mér :)


  • Skálmöld og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg á afmælisdaginn minn, 28. nóv.  Ekki er nú gott að stikla á stóru yfir þann viðburð og sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að auki að ausa hann lofi, en tilefnið er einfaldlega ærið.  Þetta var ævintýraleg upplifun.  Að sjá þessa tiltölulegu kornungu þungarokkshljómsveit, með rétt 3 ½ árs feril á bakinu, í félagsskap sinfóníunnar og allra þessara kóra, þar sem spilamennskan var þannig að manni leið eins og þetta hafi alltaf verið hugsað svona frá upphafi var einstakt.  

    Lögin henta auðvitað misjafnlega vel fyrir svona útsetningu, en heilt yfir fannst mér þetta mun betur heppnað en ég þorði að vona og nú var ekki eins og ég hefði mjög hófstilltar væntingar.  Að sjá hljóðfæraleikara sinfóníunnar engu síður aggresíva á sín hljóðfæri en þungarokksbandið var ótrúlega magnað.  Dagfarsprúðir víóluleikarar að djöflast á þessum eldgömlu og vönduðu hljóðfærum.  Allir hópar skemmtu sér konunglega við flutninginn og það skilaði sér svo vel út í sal.   

    Hápunktur tónleikanna fyrir mig var lokalagið, uppklappslagið Baldur.  Kannski vegna þess að ég hélt að þeir myndu ekki taka uppklapp og því var ég sérstaklega meir og glaður þegar spilamennskan hófst á ný, en mér hefur líka þótt þetta lag mjög svo vanmetið frá upphafi.  Ekki spillti nú fyrir hvað það hentar vel fyrir svona stóra útsetningu.  Stórkostlegt.

    Fleiri lög mætti týna til og ég verð auðvitað að gera það, fyrst ég er byrjaður.  Hel, Loki svo og crowdpleaserinn stórkostlegi, Kvaðning.  Já og Hefnd, ég get aldrei sleppt Hefnd.

    Ekki var nú til að spilla gleðinni að fá þetta svo útgefið þremur vikum síðar.  Fyrir háskerpu-mann eins og mig hefði ég auðvitað vilja eignast þetta í HD, en ég vil frekar eignast ódýrari útgáfu af svona viðburði heldur en ekki neitt, enda er sorglega algengt að svona stórtónleikar séu teknir upp með mikilli fyrirhöfn en svo ekkert gert með það þar sem kostnaðurinn við eftirvinnslu og útgáfu er svo mikill.

    Nei andskotinn, þetta átti ekki að vera ritgerðasafn!


  • Plata ársins fyrir mig var Trouble Will Find Me með The National.  Þetta var nú ekki einfalt val, enda margar af mínum uppáhaldssveitum með afbragðsgóðar plötur á árinu (tel Skálmöld og Sinfó nú ekki með hér reyndar), Pearl Jam, Sigur Rós, John Grant, The Strokes, Arctic Monkeys, Arcade Fire og Mammút svo helstu dæmi séu tekin.  En ég hlustaði svo langsamlega oftast á þessa plötu, auk þess sem hún kom mér útí að hlusta á eldri plötur National sem ég átti eftir og eru epískar, Boxer og Alligator.    

    Síðan er eitthvað ljóðrænt við að platan Trouble Will Find Me hafi orðið mín uppáhaldsplata á þessu örlagaríka ári.


  • Jakob Fróði, 6 ára strákurinn minn, hóf skólagöngu í ágúst.  Ég hefði ekki trúað því hvað þetta væri stór áfangi og breyting fyrr en ég stóð í þeim sporum að vera pabbi skólabarns.   Magnað.


  • Frábær hvalaskoðunarferð með Norðursiglingu í sumarfríínu í ágúst 2013 var einn af hápunktum þess.  Eins tónleikar Sigurðar Guðmundssonar í Halldórsstaðahlöðunni, sem og Bræðslan.  Þegar maður byrjar getur maður varla hægt að telja upp, sem betur fer...


  • Börkur “litli” mágur minn tók þátt í heimsmeistarmóti iðn- og verkgreina, World Skills í fyrirheitna landinu, Þýskalandi.  Rafvirkjun er hans fag og ég get alls ekki látið eins og þessi punktur snúist á nokkurn hátt um mig.  En ég þykist vita að þetta verði nú samt einn af eftirminnilegustu punktunum fyrir okkur öll í fjölskyldunni þegar litið verður til baka til ársins 2013.
     

  • Vetrarfrí fjölskyldunnar í Borgarfirði í október 2013.  Örlítið sérstakar kringumstæður þegar lagt var af stað, ég verandi í rannsóknum vegna þess sem síðar varð ljóst, en algjörlega frábært frí í enn betri félagsskap.  


  • Tæknibylting ársins: Spotify.  Vissulega ekki uppfinning þessa árs en fyrst hingað komin nú.  Hefur algjörlega gjörbreytt tónlistarnotkun minni og “neyslu”, ef maður getur kallað hana það.  Hef lengi ætlað að skrifa eitthvað um þetta í lengra máli, enda þetta mér mikið hjartans mál, en það mun bíða ársins 2014, já eða 2015…


  • Fór úr iPhone yfir í hlýjan faðm HTC One í september.  Ekki sérstaklega stór tíðindi í heimssögunni en fyrir tækjamann eins og mig var þetta ansi spennandi breyting.  Þetta verðskuldar auðvitað langhundspistil eins og Spotify, en það þarf að bíða. Heilt yfir er ég gríðarlega ánægður með gripinn.  Sumt er þó pirrandi við Android, rétt eins iOS, það eru kostir og gallar við þetta allt.  Fólk ætti að róa sig aðeins í trúarbrögðunum.  Eitt app er hinsvegar svo stórkostlegt, að ég gæti varla hugsað mér að snúa til baka, þó ekki væri nema útaf því. SwiftKey-lyklaborðið, þvílík bylting fyrir skrifandi fólk!


Á árinu 2013 kvöddu nokkur glæsimenni sem ég hef þekkt frá því að ég man eftir mér. Það er ennþá frekar óraunverulegt að eiga ekki eftir að bæta í minningarnar með þeim. En í afkomendum þeirra eru glæsilegir fulltrúar sem munu bera þeirra merki um ókomin ár. 

 

Ég er auðvitað örugglega að gleyma einhverju rosalegu núna og verð brjálaður í fyrramálið þegar ég vakna og fatta það. En þessari færslu þarf að ljúka með afli, enda get ég ekki hætt þegar ég loksins byrja að skrifa.  Árið 2014 verður stórkostlegt ár.  Það verður mitt ár.  Ég ætla að verða frískur, fagna því og njóta þess með ykkur.   


Takk fyrir allt á gamla árinu, gleðilegt nýtt ár!


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Kalli þú ert snillingur, takk fyrir þessa punkta:) gangi þér vel og já 2014 verður stórkostlegt

Helga Dóra (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 00:26

2 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Takk mikið vel Helga Dóra og gangi þér sömuleiðis afbragðsvel 2014 og öll hin árin líka :)

Karl Hreiðarsson, 1.1.2014 kl. 01:02

3 identicon

Þú verður frískur og þetta ár verður ykkur frábært þess er ég fullviss. Ynsisleg eruð þið. Vonandi hittumst við á þessu ári !!

Kolbrún Sara (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 11:59

4 identicon

Kalli minn , takk fyrir punktana þína, árið 2014 verður gott ár. Er viss um að allt gengur vel. Hugsa til þín .

Kveðja Gullý. 

Guðlaug Sigmarsdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 12:58

5 identicon

Þú ert nú meiri dásemdin, takk fyrir ,,punktana" þína. Hugsum hlýtt til þín og sendum bestu batakveðjur. og tökum undir með þér, 2014 verður sannarlega gott ár. Með kærri kveðju og bæn um blessun þér og þínum til handa :)

sólveig halla kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 22:10

6 identicon

Vel mælt gamli vin. Megirðu verða betri en nokkru sinni (sé það yfirhöfuð hægt!) og skrifa meira. Það er fátt eins hressandi og að sitja og flissa yfir því sem leynist í kolli þínum. Yðar einlæg, hs

Helga Sigrún (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 13:51

7 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Þakka ykkur innilega hlý og falleg orð, þau gleðja og hvetja!

Karl Hreiðarsson, 3.1.2014 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tuttugu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband