Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sunnudagsmogginn

Þrátt fyrir pólitíska slagsíðu, dularfulla þögn um stórfréttir og að mest lesnu blaðasnáparnir í Gullenginu séu ekki starfandi þar (Mari og Maggi) er Mogginn nú alltaf uppáhalds dagblaðið mitt.  Í dag er hann sérstaklega góður, ég gæti auðveldlega vanist því að hafa svona forsíðu fyrir augunum með morgunmatnum á hverjum  sunnudegi!

Unnur í forsíðuviðtali Moggans, 9.sept 2008


Jakob náði ekki að koma á framfæri ást sinni á Cheeriosi, osti og snuðum eða hræðslunni við svínin, hænurnar og hestana í Húsdýragarðinum en hans viðtal kemur bara síðar.


Hvað á maður að gera?

Nýbakaðir foreldar þurfa að læra margt og taka margar ákvarðanir sem maður hefur ekki hundsvit á fyrirfram.  Þetta hefur gengið ágætlega til þessa en nú er komið að spurningu sem allir foreldrar standa frammi fyrir einn daginn.  Er búinn að fletta uppí Baby Owner's Manual en það er handbók sem velhugsandi vinir gáfu mér í tilefni af fæðingu frumburðarins.  Bókin hentar afar vel mönnum eins og mér (eða öllu heldur eins og ég var), með tæknibakgrunn en litla reynslu af bleiuskiptingum eða barnsgráti. Málfarið er eins og í handbókum fyrir græjur heimilisins og þar af leiðandi auðskilið fyrir þennan markhóp.  Sem dæmi: "CAUTION: Never shake a baby. Shaking can lead to malfunction".  Annað dæmi, ef meiningin er að hafa samband við lækni eða spítala er ávallt sagt: "Contact the baby's service provider".  Góður nördahúmor er gulli betri en væntanlega sjaldséður í uppeldisbókmenntum.

Þetta var útúrdúr, mæli samt eindregið með þessari bók.  En já, spurningin sem ég hef verið að spyrja mig undanfarna mánuði er auðvitað þessi, hvað þarf Jakob Fróði að vera gamall til að fara á tónleika með Kiss?  Eins og þetta hlýtur að vera algeng klemma sem foreldrar 16 mánaða barna lenda í er lítið um svör á netinu og í náminu hjá Unni var af einhverjum ástæðum ekki sérstakur áfangi um þetta viðfangsefni.  Hann tók fyrstu skrefin á föstudaginn þannig að ekki mun standa á honum að fara í pittinn.

Lesendur geta sagt sitt álit í könnun sem ég setti upp hérna vinstra megin á síðunni en það sem mun ráða úrslitum er þetta: ef rúsínur eru seldar á barnum í Schleyerhalle er minn maður klár, til vara nýmjólk.  Rölli, þú ert alvanur á þýskum tónleikastöðum, er þetta ekki staðalbúnaður?

Jakob Fróði sáttur þó Pabbi sé með versta bindishnút sögunnar

Mynd: Hér má sjá okkur feðga fagna þegar miðarnir komu í hús.  Jakob Fróði er þessi unglegri til vinstri á myndinni.


VARÚÐ! FRUMUDREPANDI LYF!

Þessi viðvörun er búin að vera greypt í huga minn undanfarið ár en í dag, 31.maí,  er einmitt eitt ár liðið síðan Unnur fór í fyrstu lyfjagjöfina af sextán eftir greiningu brjóstakrabbameins fjórum vikum áður. 

Minnir svolítið á klór-umbúðir

Viðvörunin er á kössum eins og þessum hér að ofan sem berast með bláklæddum sendlum frá lyfjablöndun LSH yfir á dagdeild krabbameinslækninga við Hringbraut, deild 11B.  Það var alltaf jafn absúrd að horfa á Hrönn eða einhvern hinna frábæru hjúkrunarfræðinga á deildinni dubba sig upp í hlífðargalla frá toppi til táar og setja hanska á hendur til þess að búa sig undir að koma þessu bersýnilega stórhættulega efni beinustu leið í æðarnar á unnustu sinni!  Fram að þessu hafði ég helst horft uppá fólk setja á sig hlífðarhanska áður en það dælir bensíni, meðhöndlar klór eða önnur spilliefni, ekki til að dæla í lítravís viðkomandi efni í æðarnar á næsta manni.

Unnur bar sig nú vel á þessum degi eins og sjá má þrátt fyrir þessa árás frumudrepandi efnis enda ekki ástæða til annars en að leggja traust sitt á að þetta geri sitt gagn.

Epirubicin flæðir inní vinstri höndina, Unnur lætur það ekki tefja saumaskapinn

Þetta ár er búið að vera ansi strembið og örugglega mun erfiðara en ég hef gefið til kynna við vini mína og kunninga, það er bara svo helvíti leiðinlegt og lítið upplífgandi að bera sig illa að það gerir lítið gagn.  Nú leyfir maður sér hinsvegar að vera bjartsýnn og óendanlega þakklátur fyrir hversu hraust Unnur er orðin ári eftir fyrsta skammtinn af hinu verjandi eitri.  Hún hefur reyndar alltaf verið ótrúlega brött í þessari baráttu, í hennar stöðu hefði ég vælt og skælt, borið mig illa og ekki síst, níðst á vinum mínum til að gera leiðinlega hluti.

---
Ég ætla nú ekki að snúa þessari bloggsíðu almennt uppí væmna dagbók, en í dag mátti ég bara til.  Fyrir þá sem er kippt í þennan "krabbameinsheim" verður sjónarhornið oft ansi þröngt, maður sér varla minningargrein í Mogganum nema þær fjöldamörgu sem skrifaðar eru um alla þá sem falla og maður hefur óskaplega mikla þörf fyrir að heyra sögur af þeim sem hafa þetta af.  Ég er þá alla vega búinn að segja eina örsögu ef einhver í svipaðri stöðu og við kemur hér við...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband