Færsluflokkur: Dægurmál

2013

Ég hef sérlega gaman af tímanum fyrir og eftir áramót.  Þessi uppgjör öll kæta mig mjög, hvort sem er umfjöllun um bestu plötur ársins, bestu tæki ársins eða fréttauppgjör af allskonar tagi. Síðan er alltaf einhver jákvæður tónn í loftinu fyrir nýju ári, enda bera flestir gæfu til að vona að það verði ekki ömurlegt.  


Sjálfur hef ég þó ekki verið sérstaklega duglegur við að skrifa slíka pistla (já eða annað hér, humm humm) en nú í ljósi nýjustu tíðinda af eigin heilsu, sem ég kem aðeins að hér síðar, finnst mér eiginlega ótæk kaldhæðni að láta síðustu færslu á þessu bloggi lifa sem efsta færslan mikið lengur.  Sér í lagi vegna lokaorða pistilsins, þetta er nefnilega alls ekki búið, hið minnsta ekki hjá mér.  Eins og ég er nú almennt hrifinn af kaldhæðni.


Þegar ég fór hinsvegar að hugsa um hvað ég vildi nefna áttaði ég mig fljótt á því að þetta yrði syndsamlega langt og djöfullegt aflestrar, þannig að ég ætla að reyna að hafa þetta í punktaformi, helst ekki ritgerð hver punktur.


  • Get vart hugsað aftar á árinu en til 28. okt, 4. mánuðum frá síðasta innleggi á þessum vettvangi, en þá fékk þann dóm að ég væri með krabbamein í skjaldkirtlinum.  Það er ekki sérstaklega frábært að fá krabbamein eins og litla fjölskyldan mín hefur nokkra reynslu af, en þrátt fyrir að þetta orð sé eðlilega frekar hrikalegt, er minn sjúkdómur sérlega álitlegur viðfangs.  Draslið var stórt, þetta kostar vesen og meðferð núna í janúar, en allar líkur eru á að ég muni komast stórgóður frá þessu, á skömmum tíma.  Það er ekki sjálfgefið að geta verið svo bjartsýnn svo skömmu eftir greiningu, þannig að ég leyfi mér að vera stórkostlega glaður með það, eins og svona er nú kannski ekki tilefni til gleði almennt séð.  

    Óvissutíminn fyrir greiningu var fjári erfiður en mér er efst í huga þakklæti til allra sem lögðu hönd á plóg við að lækna mig.  Frá lífgjafanum sem benti mér á það væri e-ð grunsamlegt á seyði þarna (sem hafði alls ekki hvarflað að mér), til þeirra sem læknuðu mig, Unnar minnar, fjölskyldunnar, vinanna, vinnufélaga og svo bara allra mögulega hinna sem hafa sýnt manni innilegan og dæmalaust fallegan hlýhug.

    Jesús, ég talaði um punktaform og svo er strax komin ein ritgerð?


    Daginn eftir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  • Nokkuð tengt fyrsta punktinum er einn af hápunktum ársins, Iceland Airwaves.  Það voru ansi sérstakar kringumstæður að fara á tónlistarhátíð sem maður keypti miða á með 10 mánaða fyrirvara með þær fréttir frá tveimur dögum áður að maður væri með krabbamein.  En tónlist gerir allt betra og lækningarmáttur hennar er gríðarlegur, hið minnsta á andlega sviðinu.  Þökk sé stórkostlegri dagskrá, dag eftir dag, með frábærum félagsskap var þetta nákvæmlega það sem ég þurfti til að dreifa huganum. Mamma stóð heimilisvaktina svo örverpið kæmist í þetta prógram.  Það var nú ekki lítið fallegt framtak þótti mér :)


  • Skálmöld og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg á afmælisdaginn minn, 28. nóv.  Ekki er nú gott að stikla á stóru yfir þann viðburð og sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að auki að ausa hann lofi, en tilefnið er einfaldlega ærið.  Þetta var ævintýraleg upplifun.  Að sjá þessa tiltölulegu kornungu þungarokkshljómsveit, með rétt 3 ½ árs feril á bakinu, í félagsskap sinfóníunnar og allra þessara kóra, þar sem spilamennskan var þannig að manni leið eins og þetta hafi alltaf verið hugsað svona frá upphafi var einstakt.  

    Lögin henta auðvitað misjafnlega vel fyrir svona útsetningu, en heilt yfir fannst mér þetta mun betur heppnað en ég þorði að vona og nú var ekki eins og ég hefði mjög hófstilltar væntingar.  Að sjá hljóðfæraleikara sinfóníunnar engu síður aggresíva á sín hljóðfæri en þungarokksbandið var ótrúlega magnað.  Dagfarsprúðir víóluleikarar að djöflast á þessum eldgömlu og vönduðu hljóðfærum.  Allir hópar skemmtu sér konunglega við flutninginn og það skilaði sér svo vel út í sal.   

    Hápunktur tónleikanna fyrir mig var lokalagið, uppklappslagið Baldur.  Kannski vegna þess að ég hélt að þeir myndu ekki taka uppklapp og því var ég sérstaklega meir og glaður þegar spilamennskan hófst á ný, en mér hefur líka þótt þetta lag mjög svo vanmetið frá upphafi.  Ekki spillti nú fyrir hvað það hentar vel fyrir svona stóra útsetningu.  Stórkostlegt.

    Fleiri lög mætti týna til og ég verð auðvitað að gera það, fyrst ég er byrjaður.  Hel, Loki svo og crowdpleaserinn stórkostlegi, Kvaðning.  Já og Hefnd, ég get aldrei sleppt Hefnd.

    Ekki var nú til að spilla gleðinni að fá þetta svo útgefið þremur vikum síðar.  Fyrir háskerpu-mann eins og mig hefði ég auðvitað vilja eignast þetta í HD, en ég vil frekar eignast ódýrari útgáfu af svona viðburði heldur en ekki neitt, enda er sorglega algengt að svona stórtónleikar séu teknir upp með mikilli fyrirhöfn en svo ekkert gert með það þar sem kostnaðurinn við eftirvinnslu og útgáfu er svo mikill.

    Nei andskotinn, þetta átti ekki að vera ritgerðasafn!


  • Plata ársins fyrir mig var Trouble Will Find Me með The National.  Þetta var nú ekki einfalt val, enda margar af mínum uppáhaldssveitum með afbragðsgóðar plötur á árinu (tel Skálmöld og Sinfó nú ekki með hér reyndar), Pearl Jam, Sigur Rós, John Grant, The Strokes, Arctic Monkeys, Arcade Fire og Mammút svo helstu dæmi séu tekin.  En ég hlustaði svo langsamlega oftast á þessa plötu, auk þess sem hún kom mér útí að hlusta á eldri plötur National sem ég átti eftir og eru epískar, Boxer og Alligator.    

    Síðan er eitthvað ljóðrænt við að platan Trouble Will Find Me hafi orðið mín uppáhaldsplata á þessu örlagaríka ári.


  • Jakob Fróði, 6 ára strákurinn minn, hóf skólagöngu í ágúst.  Ég hefði ekki trúað því hvað þetta væri stór áfangi og breyting fyrr en ég stóð í þeim sporum að vera pabbi skólabarns.   Magnað.


  • Frábær hvalaskoðunarferð með Norðursiglingu í sumarfríínu í ágúst 2013 var einn af hápunktum þess.  Eins tónleikar Sigurðar Guðmundssonar í Halldórsstaðahlöðunni, sem og Bræðslan.  Þegar maður byrjar getur maður varla hægt að telja upp, sem betur fer...


  • Börkur “litli” mágur minn tók þátt í heimsmeistarmóti iðn- og verkgreina, World Skills í fyrirheitna landinu, Þýskalandi.  Rafvirkjun er hans fag og ég get alls ekki látið eins og þessi punktur snúist á nokkurn hátt um mig.  En ég þykist vita að þetta verði nú samt einn af eftirminnilegustu punktunum fyrir okkur öll í fjölskyldunni þegar litið verður til baka til ársins 2013.
     

  • Vetrarfrí fjölskyldunnar í Borgarfirði í október 2013.  Örlítið sérstakar kringumstæður þegar lagt var af stað, ég verandi í rannsóknum vegna þess sem síðar varð ljóst, en algjörlega frábært frí í enn betri félagsskap.  


  • Tæknibylting ársins: Spotify.  Vissulega ekki uppfinning þessa árs en fyrst hingað komin nú.  Hefur algjörlega gjörbreytt tónlistarnotkun minni og “neyslu”, ef maður getur kallað hana það.  Hef lengi ætlað að skrifa eitthvað um þetta í lengra máli, enda þetta mér mikið hjartans mál, en það mun bíða ársins 2014, já eða 2015…


  • Fór úr iPhone yfir í hlýjan faðm HTC One í september.  Ekki sérstaklega stór tíðindi í heimssögunni en fyrir tækjamann eins og mig var þetta ansi spennandi breyting.  Þetta verðskuldar auðvitað langhundspistil eins og Spotify, en það þarf að bíða. Heilt yfir er ég gríðarlega ánægður með gripinn.  Sumt er þó pirrandi við Android, rétt eins iOS, það eru kostir og gallar við þetta allt.  Fólk ætti að róa sig aðeins í trúarbrögðunum.  Eitt app er hinsvegar svo stórkostlegt, að ég gæti varla hugsað mér að snúa til baka, þó ekki væri nema útaf því. SwiftKey-lyklaborðið, þvílík bylting fyrir skrifandi fólk!


Á árinu 2013 kvöddu nokkur glæsimenni sem ég hef þekkt frá því að ég man eftir mér. Það er ennþá frekar óraunverulegt að eiga ekki eftir að bæta í minningarnar með þeim. En í afkomendum þeirra eru glæsilegir fulltrúar sem munu bera þeirra merki um ókomin ár. 

 

Ég er auðvitað örugglega að gleyma einhverju rosalegu núna og verð brjálaður í fyrramálið þegar ég vakna og fatta það. En þessari færslu þarf að ljúka með afli, enda get ég ekki hætt þegar ég loksins byrja að skrifa.  Árið 2014 verður stórkostlegt ár.  Það verður mitt ár.  Ég ætla að verða frískur, fagna því og njóta þess með ykkur.   


Takk fyrir allt á gamla árinu, gleðilegt nýtt ár!


Það lifir!

Þegar maður tekur sér sex vikur í bloggfrí er náttúrulega vonlaust að velja eitt atriði til að taka fyrir.  Hér kemur því grautur af algjörlega óskyldum málum.  Kvörtunum um að bloggfríið hefði átt að vera lengra skal beina til Dóra, ég gat ekki hugsað mér að svíkja hann lengur um færslu.

  • Undirritaður hefur (vonandi) náð hápunkti í söfnunaráráttu sinni á Pearl Jam varningi, í miðri heimskreppu.  Söfnunarárátta spyr einfaldlega ekki um ástandið á fjármálamörkuðum.  Plötuspilari með usb tengi óskast því til kaups!
  •  Icelandair hefja beint flug til Seattle í júlí.  Þar með verður þessi kynngimagnaði tónleikastaður nánast í göngufæri!  Óskandi að krónu-draslið verði hagstætt þegar Pearl Jam fer í næstu tónleikaferð um heimaslóðirnar.
    The Gorge Amphitheatre
  • ASÍ opinberar blauta drauma sína um að gerast formlegt aðildarfélag að Samfylkingunni.  Nauðsynleg hreinsun frambjóðanda í öðrum flokkum þarf þó að fara fram fyrst og stendur hún yfir.
  • Nafni minn í NV tapar í prófkjöri og gengur í annan flokk daginn eftir.  Það voru þó að hans sögn fyrst og fremst málefnin sem réðu ákvörðuninni um flokkaskiptin.  Ekki beint í fyrsta skipti sem þetta gerist en að reyna að bjóða fólki uppá svona þvaður er óþolandi.  Ég er talsmaður þess að stjórnmálamenn hætti þessari froðu og bulli, tali af hreinskilni eða tali ekki.  Hér er því ókeypis uppkast að fréttatilkynningu fyrir þann sem næst reynir þetta:
Góðir Íslendingar!  Ég skíttapaði í prófkjörinu um helgina og er hundfúll.  Vil því sjá [nafn flokks skráð hér] fara veg allrar veraldar fyrst þið kusuð mig ekki, ég sem hélt að ég væri vinur ykkar og félagi!  Ætla að reyna að hefna mín með skráningu í Sorpu íslenskra stjórnmála og ætla að tala illa um kvótann, það virkar alltaf vel í partýum.  Sé ykkur í neðra!
  • Eldsmiðjan gerir atlögu að heilsu minni með mánaðarlöngu tilboði.  Þrátt fyrir að vera veikgeðja skyndibitamaður hef ég staðist freistinguna um eina eldbakaða á dag sem í byrjun mánaðar var spennandi markmið.
  • Framsóknarmenn í NA sýna enn á ný hversu góðir þeir eru í að velja sér framboðslista.
  • Að lokum spádómur um væntanlegan landsfund íhaldsins um helgina:  Bjarni Ben verður kosinn formaður með 73% atkvæða.  ESB aðildarumsókn mun aldrei eiga séns á þinginu.  Setningin "við getum ekki fyrir nokkra muni gengið í ESB nú né nokkurn tíma síðar, algjörlega óháð því hvað hér kann að koma uppá, því þar með missum við heljartökin á Íslandi" verður þó felld úr ályktanadrögunum og landsfundarfulltrúar sammælast um að þegja áfram yfir þessari megin-ástæðu fyrir ESB-fælni flokksins

Vínbúð ársins 2006 og 2007 en "stendur ekki undir væntingum"

Verandi dyggur viðskiptavinur Vínbúðarinnar í Spönginni kom þessi frétt mér verulega á óvart.  Ekki síst því mig minnti endilega að uppá vegg í búðinni væru viðurkenningar fyrir "Vínbúð ársins".  Smá gúggl og ég gat séð að hún vann þessi verðlaun hvorki meira né minna en tvö ár í röð, 2006 og 2007!  Samt er reynt að telja manni trú um að:

Húsnæðið var orðið óhentugt miðað við þá þjónustu og vöruúrval sem viðskiptavinir óskuðu eftir.

Húsnæðið og vöruúrvalið var nú samt ekki verra en svo að viðskiptavinir* ÁTVR völdu þessa verslun vínbúð ársins í flokki stærri vínbúða síðustu tvö ár! (ekki er búið að velja fyrir 2008 eftir því sem ég komst næst).

Ekki er þessi furðulegi gjörningur til að minnka áhuga minn á því að afnema einkarétt ÁTVR á sölu áfengis.  Fyrst þeir hafa ekki áhuga á að þjónusta 18.000 manna hverfi er greinilega full ástæða til að eftirláta öðrum þau viðskipti.

---

Ég blogga aldrei við fréttir en í þetta skipti gat ég ekki stillt mig, nú vitið þið lesendur góðir hvar hjarta mitt slær greinilega sem örast!

---

*Uppfært 09.01.09: Mér var bent á að viðskiptavinir veittu búðinni góðu ekki þessi verðlaun heldur gerði ÁTVR það sjálft, þakka Berki fyrir það.  Það breytir því ekki að skýringar ÁTVR hljóma þá ekki síður einkennilega, til hvers að verðlauna búð sem þeir segja nú að hafi valdið vonbrigðum í rekstri undanfarin ár?  Furðulegt.


mbl.is Vínbúð í Spönginni lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsleg ábyrgð með flugeldakaupum

Eftir töluverðar vangaveltur um hvort ég ætti að sýna "skynsemi" og kaupa ekki flugelda þetta árið fann ég mig knúinn til að hætta þessu bulli og sýna samfélagslega ábyrgð með flugeldakaupum.  Þá er ég ekki að tala um þá eðlilegu kröfu að fólk versli flugelda af björgunarsveitunum eða líknarfélögum, heldur þá skyldu mína gagnvart nágrönnunum að ég leggi mitt í þessa stórkostlegu flugeldageðveiki sem hér er!

Ef allir ætluðu sér að spara og fylgjast bara með nágrannanum fíra upp myndum við fljótt vera komin í óefni og svartan himinn.  Það gengur auðvitað ekki enda flugeldar á pari við skemmtilegustu uppfinningar mannkynssögunnar, s.s. Playstation 3, The Office og fjarstýrða bíla.

Það er reyndar ekki svo að ég sé til sérstakrar fyrirmyndar í flugeldamálum, í besta falli meðalmaður, en þetta spilar allt rullu í heildarmyndinni á himninum.

---

Óska lesendum gleðilegs nýárs, með þökk fyrir lesturinn og athugasemdirnar á árinu.  Segi svo eins og mamma kvaddi mig alltaf þegar maður tók að fara útá á lífið (og segir reyndar enn þegar ég er f.norðan), skemmtið ykkur fallega í kvöld!

Piparúði í stað hríðskotariffla

Allt sem hægt er að segja um mótmælin fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu á laugardag hefur sjálfsagt verið sagt, en ég ætla nú samt að bæta nokkrum orðum við.

Ég á nefnilega svo erfitt með að skilja viðhorf æði margra samlanda minna um hvað sé eðlilegt af lögreglu að gera og hvað ekki.  Á Vísi var skoðanakönnun í vikunni þar sem tæpur helmingur þátttakenda sagði lögregluna hafa brugðist of hart við!  Það er eðlilegt að mörgum hafi verið heitt í hamsi vegna handtöku stráksins en við hverju bjóst fólk?  Að beðið væri inni með kakó og vöfflur í verðlaun þegar mannskapurinn hefði náð að brjóta sér nógu langa leið í gegn?

Í umræðu um ráðamenn hérlendis er oft á mótmælafundum kallað eftir afsögnum og skandalar þeirra þá oft bornir saman við smámál sem hafa fellt ráðherra í nágrannalöndunum.  Það sjónarmið get ég tekið undir í æði mörgum tilfellum.  En ekki er ég viss um að mótmælendur vildu skipta á íslensku lögreglunni fyrir aðra sveit því ekki dettur mér annað í hug en byssukjaftar hefðu mætt sambærilegum aðgerðum í hvaða landi sem er í kringum okkur.

Þó fólk sé eðlilega bálreitt útaf stöðunni í þjóðfélaginu er glórulaust að taka það út á lögreglunni.  Þeir sem þar vinna er bara venjulegt fólk, með myntkörfulán, skuldsetta bíla, pirrað út í Ríkisstjórnina (eða ekki pirrað) eins og hver annar.  Það er grundvallaratriði að þeir fái að vinna vinnuna sína í friði og án þess að tíma þeirra þurfi að verja í að standa vörð til að hindra æstan múg í innrás á lögreglustöðvar

Annar í Sigur Rós

Ég var lengi að sofna í gær og fram til hádegis var ég með gæsahúð.  Einhverjum myndi detta í hug að skrifa það á kulda eða pest en ég er við hestaheilsu og ofninn var í hvínandi botni.  Þetta kalla ég góða endingu á tónleikum!

---
Öndvegisdrengurinn Birkir Jón hefur ákveðið að bjóða sig fram til varaformanns í Framsóknarflokknum.  Því fagna ég mjög þó ég verði að viðurkenna að helst vildi ég sjá hann í formannsembættinu, enda gríðarlega duglegur, heiðarlegur og með skynsamlegar félagslegar hugsjónir í pólitík.  Ég gæti auðvitað leikið þann leik að taka formanninn sjálfur, segja svo af mér og skilja Birki þar með eftir með formannsstólinn en ég held hann byði mér ekki í gönguferð á Sigló-slóðum eftir það...

---
Hef lítið heyrt af ræðunum v.vantrauststillögurnar í dag en náði þó í skottið á Möllernum, Lúðvíki Bergvins og fleirum seinnipartinn.  "Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað" var það fyrsta sem kom upp í hugann.  Ekki eyddu þeir mörgum orðum í að verja gjörðir stjórnarinnar (enda ekki auðvelt mál) en þeir fóru mikinn í að lýsa því hvað stjórnarstöðuflokkarnir eru ómögulegir.  Það má vel vera en hverjum dettur í hug að þeir flokkar (eða aðrir) bjóði fram í óbreyttri mynd?

Þegar þessi vaðall hafði glumið hér í stofunni í einhverja stund spurði Unnur mig (hún er óvön að hlusta á beina útsendingu frá Alþingi, enda ekki með þennan pervisna stjórnmálaáhuga eins og ég) hvort þeir væru þriggja ára?  Góð spurning, en svarið er gengisfelling á þriggja ára börnum þannig að ég leyfi lesendum að svara því sjálfir.

Fæst orð bera minnsta ábyrgð

Það er ansi margt sem maður gæti sagt um þessi Glitnis-mál en ætli ég leyfi ekki rykinu að setjast áður en gasprað verður hér um efnisleg atriði málsins.  Nógu mikið er nú þunglyndið yfir gengi krónunnar, OMX15 osfrv svo ég fari ekki að bæta olíu á þann eld en það hefur verið um það bil eina málið sem mér hefur dottið í hug að blogga um að undanförnu. Eins ömurlegt bloggefni sem það er.  Frekar ætla ég að fókusa á nokkur atriði í þessu þjóðnýtingarmáli sem hafa kallað á framtíðar to-do lista fyrir undirritaðan:

  • Ég sé að ég verð að eignast ljósvakamiðil.  Þegar ég lendi í því að erkióvinur minn rænir af mér tugum milljarða (amk að mínu mati) er ólíkt áhrifaríkara að eiga sjónvarpsstöð til að ræða málin við fyrrverandi aðstoðarmann sinn en bloggsíðu.  Ég ætlaði að nöldra í Jóni Ásgeiri fyrir að hafa ekki tekið slaginn og mætt í Kastljósið en eftir smá umhugsun er ég hættur við.  Að sjálfsögðu hefði ég líka tekið kaffispjall með gömlum samstarfsmanni framyfir grillun hjá Sigmari.
  • Eignast erkióvin.  Með tilvísun í þetta hér að ofan.  Erkióvini má nota til að kenna um eigin ófarir og koma í veg fyrir að maður þurfi að líta í eigin barm.  Þá er ég nú ekki að dæma í þessu máli þó það líti þannig út, enda hef ég ekki þekkingu til að fullyrða um hvort veð Glitnis hafi verið ótraust, hvort Seðlabankinn hafi ekki farið að lögum oþh.  Burtséð frá því er greinilega dýrmætt í fjölmiðlaslagnum að eiga slíkan nemesis með sögu sem getur ekki komið að málum þínum án þess að það sé yfir vafa hafið.  Á meðan einbeita fjölmiðlar (kostur er að eiga þá sjálfur) sér að því á meðan frekar en að skoða efnislega þætti málsins.  Mig vantar kandídata í erkióvinadjobbið, tillögur/umsóknir óskast.
  • Læra að hatast útí hið illa auðvald.  Maður sér á Moggablogginu og víðar hversu margir ljóma hreinlega yfir óförum hluthafa Glitnis og geta tæpast hamið gleði sína á ritvellinum yfir því hvernig fyrir þeim er komið.  Ég tek ekki þátt í þeirri gleði og er greinilega að fara á mis við mikla hamingju ef marka má þennan hluta netheims.
Ískalt mat, ef staða íbúðarlánsins hjá Frjálsa er skoðað er ég hræddur um að liðir 2 og 3 komi á undan þeim fyrsta!

Úr einu í annað

Engin pólitík í dag, of gott veður fyrir hana.  Sumir myndu segja að það væri of gott veður til að vera í tölvunni en það er bölvuð vitleysa, það þarf mun meira til.  Þetta er nú samt í punktaformi enda léttir réttir hentugir í dag.

Handboltalandsliðið á ÓL
-Ætli það sé of seint að hefja smíði 50 metra bronsstyttu af Guðmundi Guðmundssyni sem yrði tilbúin í að taka á móti landsliðinu þegar þeir koma heim frá Peking f.utan Leifsstöð?

-Viðtölin við Ólaf Stefánsson eru stórkostleg.  Þetta er einn okkar bestu manna. Viðtöl við íþróttamenn eftir leiki eru oftast nær fyrirsjáanleg og leiðinleg eftir því en ekki viðtölin við Ólaf, þetta er eitthvert besta sjónvarpsefni sem völ er á í dag.

Badminton
-Ragna Ingólfsdóttir er ekki lítið öflugur íþróttamaður.  Spilaði með slitið krossband á ÓL og í aðdraganda þeirra án þess að væla.  Vissulega þurfti hún að hætta vegna þessa en þetta er nú eitthvað annað viðhorf en stöðug látalæti í ónefndum knattspyrnumönnum sem velta sér eins og þeir hafi misst útlim við minnsta samstuð.  Þeir mættu líka læra að dómarinn ræður, ekki þið, sættið ykkur við það eða finnið ykkur aðra vinnu.


Menntun ungviðisinsFyrsti leikskóladagurinn
-Ég eldist óðum eins og fleiri.  Eitt merki þess er að núna er ég pabbi barns á leikskóla sem er merkilegur áfangi fyrir okkur feðga báða.  Hann virðist líta á þetta sem vinnu og þá með þann tilgang að færa heim sand í búið, 0,5 - 1 kg á dag.  Það gengur prýðilega þó ég eigi ennþá eftir að finna verkefni fyrir sandinn.  Unnur er sömuleiðis byrjuð aftur á leikskólanum (þeim sama) en kemur með minna af sandi heim.

Hér má sjá okkur Jakob Fróða fagna velheppnuðum fyrsta leikskóladeginum.

 


Meðmæli og mótmæli

Þrátt fyrir tölvu- og netfíkn á háu stigi reyni ég að streitast á móti því að hanga fyrir framan skjáinn á sumrin.  Ekki ýtir það undir bloggskrif eins og þið vesalings lesendur mínir vitið manna best (þið eigið þó samúð mína alla).  Skrif dagsins eru plúsar og mínusar víða að en bera keim af flakki undirritaðs.

+Ódýrt öl í kreppunni
Á Gamla Bauk á Húsavík geturðu keypt níu bjóra kort á 3.500 kr. eða 388 kr stykkið fyrir hálfan lítra!

+Gott í belginn á ferðinni
Potturinn og pannan á Blönduósi býður uppá þrælgóðan alvöru mat við þjóðveg 1 sem er fágætt. Þrátt fyrir langvarandi ástarsamband mitt við sóðalegan skyndibitamat er þetta vel þegin tilbreyting.  Fyrir okkur sem erum með gríslinga geta þeir fengið langþráða útrás í góðu barnahorni þannig að allir fara sáttir aftur af stað í leiðinlegasta kafla leiðarinnar norður.

+Mærudagar á Húsavík
Það er með eindæmum góðmennt á Mærudögum, erfitt að mæla það en efast um að aðrar bæjarhátíðir geti státað af þessu hlutfalli öðlinga.

 -Eyrnablæðingar af mannavöldum
Lagið með Helga Björns sem er verið að spila stöðugt núna er atlaga að eyrum og geðheilsu landsmanna!  Ef ég heyri þessi ósköp einu sinni enn mun ég leggja fram kæru á hendur Helga eða kaupa mér hafnaboltakylfu.  Helgi getur þó sofið rólegur (en með slæma samvisku) þar sem við eigum engin lög um glæpsamlega leiðinlega tónlist og ég hef takmarkaða reynslu af ofbeldisverkum eða löngun til að afla mér hennar.

-Saving the Icelandic news-cucumber, fréttir af Saving Iceland skrílnum
Fjölmiðlar: í Guðs bænum hættið að flytja fréttir af þessu flippi misgáfulegra skemmdarvarga.  Ég hef ekki gert á því vísindalega rannsókn en mig grunar að eftirspurnin eftir þessum fréttum sé jafn mikil
og löngun fólks til að fá ítarlega lýsingu á hverri klósettferð minni.  Ef einhver fjölmiðill vill frekar flytja fréttir af meltingunni hjá mér en þessu bulli er ég í símaskránni, með grafískum lýsingum er þetta öllu fréttnæmara en hvort 6 manns hafi setið í anddyri Landsvirkjunar í dag.


Áhættufjárfestirinn ég

Síðustu mánuði hefur mér æ oftar fundist ég vera spákaupmaður og áhættufjárfestir.  Ekki er þessi tilfinning tilkomin vegna æsilegra viðskipta minna í Kauphöllinni.  Neibb, hreint ekki.  Í utanlandsferð okkar í júní náði ég að kaupa pund sem kostuðu frá 155 - 170 krónur.  Nú er ekki eins og ég hafi verið í London í fleiri vikur, nei, ein vika bauð uppá þessa fjölbreytni.  Þannig að í hvert skipti sem ég borgaði með kreditkortinu eða fór í hraðbankann án þess að vera búinn að taka stöðuna á genginu var maður með öndina í hálsinum, gjörsamlega grunlaus um raunverulegt verð.

Kosturinn við þessa bilun er auðvitað sú að maður kaupir auðvitað mun minna en venjulega erlendis og það vinnur mér inn punkta hjá Seðlabankastjóranum sem er búinn að vera hundsvekktur við mig fyrir að hafa skipt um bíl í ár.

Hin hliðin á áhættufjárfestingum mínum að undanförnu eru bensínkaup.  Ég hef sérhæft mig í að fylla bílinn daginn sem bensín hækkar um 6-8 kr. eða degi áður en einhver stöðin býður uppá 10 kr. framkvæmda- eða opnunarafslátt.  Því er ég alltaf hikandi við dæluna.  Á ég að hanga á síðustu dropunum eitthvað lengur eða fylla áður en þeir hækka aftur?  Þumalputtareglan virðist þó vera þessi, bensínverð sem fer upp hérlendis, fer ekki aftur niður þannig að ég er á höttunum eftir 200 lítra tunnu til að geyma í skottinu.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband