Færsluflokkur: Samgöngur

Hættið þessu væli og kaupið ykkur strætókort!

Ekki hef ég tölu á öllum þeim Facebook-færslum, Facebook-hópum, bloggfærslum, fréttum osfrv. þar sem menn bera sig aumlega yfir háu bensínverði.  Það skiptir í sjálfu sér litlu hvort lítrinn kostaði 100 eða 200 kr., mögulegar aðgerðir eru alltaf svipaðar: lækkum skatta á eldsneytisverð, hættum að versla við eitt eða fleiri olíufélaganna í x tíma, mótmælum eins og vörubílstjórar gerðu osfrv.  En þetta er allt hálf marklaust.  Olíuverð hefur hækkað og mun gera það áfram til lengri tíma vegna minnkandi forða í heiminum, krónan hrundi og það er ekki nein veruleg breyting á þessu í augsýn.  Nýir orkugjafar verða skattlagðir fyrir rest eða veggjöld notuð til að sækja aura handa ríkinu, ekki hafa neinar áhyggjur af öðru, óháð því hvaða flokkur stjórnar.

 

Fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu er þetta því frekar augljóst þó fæstir virðist hafa áttað sig á þessu.  Hættið þessu andskotans væli og kaupið ykkur árskort í strætó á 35.000!  Jebb, þú last rétt, það er hægt að ferðast ótakmarkað með Strætó fyrir heilar 2.916 kr. á mánuði!  Hefðbundið heimili klárar bensínið sem fæst fyrir slíka upphæð á 2-3 dögum!  Þökk sé öndvegis tilboði á straeto.is (sem endar 2. sept) fær maður nú 33% lengri tíma pr. hvert strætókort á hefðbundnu (og jafnframt hræódýru) verði.

 

Ég veit að það er annað í boði en keyra eða taka strætó, s.s. labba eða hjóla.  Sjálfur mátti ég bara til með að taka þetta fyrir þar sem mér finnst alltaf jafn kómískt að heyra fólk hrósa mér fyrir að taka strætó í vinnunna, en jafnframt sjá ástæðu til að afsaka af hverju það gerir ekki slíkt hið sama.  Iðulega er samnefnarinn sá að fólk hefur ekki reynt þetta í fjöldamörg ár.  Það er vitnað í pólitískar ástæður, "R-listinn [eða íhaldið eftir því hver talar] eyðilagði leiðakerfið með breytingunni XXXX [setjið inn eitthvað ártal fljótlega eftir krist]", dvöl á stoppistöð í óveðrinu í janúar 1991 meðan beðið var eftir næsta vagni í 20 mínútur eða eitthvað í þessum dúr.  En það er einfaldlega búið að gjörbreyta kerfinu á síðustu árum gott fólk. T.d. mæta 4-5 vagnar á sama tíma í Ártúni sem þýðir að þú hoppar útúr einum vagni og inn í þann næsta án þess að þurfa að bíða nokkuð, eða þá í 1-2 mín í mesta lagi.

 

Auðvitað er ýmislegt við leiðakerfið sem ég væri til í að breyta, s.s. því hvenær síðustu vagnar fara, tíðni ferða osfrv, en það er ekki eins og fjöldamargt við einkabílinn sé drepleiðinlegt utan bensínverðsins.  Eða finnst þér sérstök veisla að leita að bílastæði?  Gaman að fara með bílinn í smur og greiða fyrir það sem samsvarar strætóferðum í 5 mánuði?  Já eða hefurðu íhugað að skipta um bíl eftir hrun og séð að nýr  5 dyra Yaris er kominn uppfyrir 2,6 milljónir?  Jebb, ég er ekkert að grínast með það þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvað stationbíll með sæmilegri vél kostar!

 

Ýmsir setja það fyrir sig að læra á leiðakerfið en þökk sé blessuðu Internetinu er það miklu auðveldara en hér áður fyrr.  Á straeto.is er svokallaður ráðgjafi þar sem slegið er inn hvaðan er farið og hvert þarf að komast fyrir hvaða tíma og þá segir kerfið manni einfaldlega hvaða leiðir henta.  Dauðeinfalt og virkar vel.

 

Nú er ekki svo að skilja að ég sé frelsaður hippi sem aldrei kem uppí bíl.  Við fjölskyldan eigum bíl sem er keyrður 15-20þ km á ári.  En ég leyfi mér þó að fullyrða að við spörum okkur bensín fyrir amk 15 þús á mánuði með því að ég nota Strætó í vinnunna og töluvert þess utan að auki.  Fyrir utan að spara slurk af aurum er þetta einfaldlega verulega þægilegt þegar komist er yfir aðlögunartímabilið með tilheyrandi væli.  Í stað þess að vera í morguntraffíkinni að leita að bestu akreininni til að komast áfram situr maður eins og fínn maður og lætur ferja sig meðan hlustað er á góða tónlist eða hljóðbók.  Þó ég sé ekki sérstaklega stressaður í umferðinni er maður einhvern veginn betur afslappaðri og betur búinn að kúpla sig úr vinnugírnum þegar heim er komið seinnipartinn með gula vagninum.  Veðrið er misgott í borginni en það eru líka allir forstofuskápar í landinu fullir af útifötum.  Fullfrískt fullorðið fólk sem treystir sér ekki til að vera uppklætt utandyra í nokkrar mínútur á hverjum degi þarf auðvitað að hugsa sinn gang í víðara samhengi.

 

Nákvæmlega hvenær ætlar þú að breyta þínum ferðavenjum?  Þegar bensínið verður komið upp í 300 kr./ltr, 400 kr./ltr eða þegar leikskólakrökkum er ekki hleypt út að leika sér 3x í viku fyrir svifryksmengun á veturna?  Hættu að bíða eftir kraftaverkinu sem kemur ekki og keyptu þér strætókort núna!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband