Vangaveltur fyrrverandi, ári síðar

Ekki fannst mér það spennandi að vera í hópi fyrrverandi flokksmanna þegar ég var starfandi í stjórnmálastarfi.  Upp til hópa biturt og tapsárt fólk sem tuðaði yfir öllu áður en það hætti og versnaði svo um allan helming eftir að það loksins hundskaðist út.  Neikvætt lið með allt á hornum sér.   Fyrir rúmu ári komst ég þó endanlega á þá skoðun að það væri mitt hlutskipti að kveðja Framsóknarflokkinn sem ég hafði verið í frá 1997 og setjast á bekkinn hjá fýlupúkunum. 

 

Um ástæðurnar fyrir því að ég komst á þá skoðun ætla ég ekki að fjölyrða nú, en frekar reyna að koma einhvern veginn í orð hvernig ég tel flokksanda geta skekkt gagnrýna hugsun hjá fólki.  Nú ætla ég samt að reyna af veikum mætti að skilja mig frá fýlupúkunum og koma því á framfæri að ég tel flokksstarf sannarlega geta verið mjög af hinu góða.  Þegar það er vel skipulagt er þetta afskaplega þroskandi, lærdómsríkt og skemmtileg félagsstarf.  Ég eignaðist frábæra vini og félaga í gegnum þessi ár og ég met það mikils.  Sé því hreint ekki eftir að hafa varið öllum þessum tíma í flokki sem ég ákvað síðan að kveðja.  

 

Þegar ég var í flokknum reyndi ég svo sannarlega að vera gagnrýninn.  Þó ég hafi í megindráttum verið sammála stefnu flokksins þessi ár komu oft upp einhver mál þar sem maður var gapandi yfir einhverju smáu eða stóru.  En eftir að ég varð óflokksbundinn áttaði ég mig betur á einu.  Ósjálfrátt gefur maður flokksbræðrum sínum á þingi meiri "slaka" heldur en öðrum á þinginu.  Maður ætlar þeim frekar að vinna að heilindum heldur en keppinautunum.  Vafalítið spilar þar inní að maður er í einhverjum tilfellum ágætlega kunnugur viðkomandi og telur sig einfaldlega vita að þar fari gott og heiðarlegt fólk.  En það er ekki þar með sagt að andstæðingarnir séu síðra fólk.  Það er svo sannarlega að vinna af heilindum í jafn miklu hlutfalli og fólkið í "þínum flokki".   Þú þekkir þá bara ekki jafn vel.

 

Þarna kem ég að því sem varð kveikjan að þessum pistli.  Skekkjan eða brenglunin sem það getur valdið að vera í stjórnmálaflokki.  Með því að vera í flokki, starfa í honum og gera það "opinbert" að þú styðjir flokkinn (þó það sé bara á vinnustaðnum eða vinahópnum) ert þú búinn að "fjárfesta" nokkuð í því að flokkurinn sé að starfa vel og af heilindum.   Þú vilt frekar geta verið stoltur af þeim félagsskap sem þú ert skráður í heldur en ekki.  Það er miklu leiðinlegra fyrir flokksbundinn framsóknarmann að horfa uppá forystu flokksins fara að hitta rugludall í Noregi og ræða lánveitingar heldur en fyrir óflokksbundinn mann útí bæ.  Þess vegna er sá flokksbundni miklu fremur til í að trúa því að þetta sé gáfulegt.  Enda hver vill tilheyra félagsskap þar sem menn reyna að vekja upp væntingar hjá örvæntingarfullri þjóð um einhver lán sem aldrei var nokkur von með?  Auðvitað viltu frekar að þetta hafi verið vel meint.  Þess vegna hlustarðu frekar á "þinn" formann þegar hann segir frá fundinum með norska kverúlantinum og vilt frekar trúa honum til að hafa verið að vinna vel heldur en ef erkióvinurinn færi í slíka ferð og "þinn" formaður gæfi það út að þetta væri spuni og moðreykur.

 

Nú veit ég að ýmsir minna gömlu félaga hrista hausinn.  Auðvitað er þetta ekki svona, fólk kaupir ekki allt hrátt í flokknum.  Nei, enda á ég ekki við það, heldur það hvaða áhrif það hefur að innst inni viltu miklu frekar að þinn formaður sé að vinna af meira viti heldur en sá næsti.  Þú ert búinn að gefa það út að þú styðjir viðkomandi, jafnvel búinn að fá vini og kunningja, eða ókunnugt fólk til að kjósa hann, auðvitað viltu ekki vera gerður að ómerkingi eða líða þannig eins og þú hafir hvatt fólk til að taka vonda ákvörðun í kjörklefanum.  

 

Hafandi sagt þetta, þá er ég nú á því að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegir.  Fólk þarf bara að taka þetta minna alvarlega allt saman.  Ekki hafa svona miklar áhyggjur af afleiðingum þess að segja sig úr flokki, já eða ganga inn í flokk.  Ég velti því fyrir mér í næstum ár að segja mig úr flokknum áður en ég loksins varð endanlega ákveðinn.  Það er náttúrulega rugl-tími þó það sé ágætt að hugsa málin vel.  Fólk breytist og flokkar líka.  Það er allt í góðu með það þó flokkar klofni, sameinist öðrum eða hreinlega deyi út.  Þó manni þyki vænt um sögu flokks og fólkið í honum eru stjórnmálaflokkar fyrst og fremst tæki fólks til að koma hugmyndum í framkvæmd.  Ef það er ekki mögulegt því öll orkan fer í að halda í einhvern vinnufrið í flokknum sjálfum er bara hið besta mál að fólk segi bless.  Þó þú, mamma & pabbi og afi & amma hafi verið þarna í 100 ár.  Bless Framsókn - þetta var gaman, framan af...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddur Ólafsson

Góður, mjög góður pistill.

Oddur Ólafsson, 24.8.2011 kl. 01:10

2 identicon

Mjög góður pistill hjá þér Kalli minn. Synd að ég skuli lesa hann fyrst tæpu ári eftir að hann var skrifaður. Helgast kannski af því að ég var mjög upptekin við aðra hluti í ágúst í fyrra og hef verið síðan. Hvernig væri að skrifa meira?

Kitta systir (IP-tala skráð) 19.7.2012 kl. 01:12

3 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Takk mikið vel!

Ég var augljóslega að bíða eftir því systir góð að þú myndir lesa þessa færslu, nú get ég skrifað þá næstu ;-)

Karl Hreiðarsson, 19.7.2012 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband