Færsluflokkur: Matur og drykkur
27.11.2008 | 18:59
Austurlandahraðlestin í Spönginni
Þeir sem mig þekkja vita flestir af rótgróinni ást minni á skyndibitamat. Þeir sem þekkja mig ekki geta sér sjálfsagt til um þennan áhuga útfrá frjálslegu holdafari undirritaðs. Þennan áhuga hef ég ekki ræktað sem skyldi hér á blogginu en nú skal bæta úr því með veitingarýni á nýja hverfis staðnum. Við veitingarýnina mun ég notast við minn uppáhaldsrétt í stað stjörnugjafar, hamborgara.
---
Seinnipart sumars rak ég augun í skilti frá Austurlandahraðlestinni í tómu húsnæði í Spönginni. Verandi forfallinn aðdáandi Austur Indía fjelagsins átti ég erfitt um svefn fyrst á eftir þessa uppgötvun en þegar lítið virtist þokast næstu vikur var vonin um góðan indverskan mat í Grafarvoginum að fjara út.
En viti menn, meðan annað hvert fyrirtæki er að loka opnaði þessi líka glæsilegi staður í byrjun mánaðarins! Með vínveitingaleyfi sem tryggir greiðan aðgang að hinum dýrlega mjöð Cobra í göngufæri frá Gullenginu!
Við hátíðlegt tilefni um daginn (opnunin var þó ekki tilefnið þó hátíðleg sé) var Austurlandahraðlestin fyrir valinu hjá fjölskyldunni og stóð staðurinn fyllilega undir væntingum! Aðal-réttur minn var tandoori kjúklingur og með honum var valið dýrlegt hvítlauks-nan og auðvitað hvíta raita jógúrtsósan sem kælir mann niður ásamt ölinu. Bragðmikið og gríðarlega gott! Hliðarréttur var svokallaður saag kjúklingur sem var sömuleiðis góður en er líklega ekki borinn fram í mötuneytinu í himnaríki eins og tandoori kjúklingurinn.
Verðið er reyndar ekki í skyndibitaflokknum þannig að tæplegast verður maður vikulegur gestur en gæðin eru allt önnur en á skyndibitastöðum almennt. Þarna eru reyndar góð hádegisverðartilboð en hver er í Grafarvoginum í hádeginu? Því miður er ég búinn með fæðingarorlofið, annars hefði því verið varið þarna. Unnur, þetta er spurning um annað barn?
Austurlandahraðlestin í Spönginni fær því fjóra og hálfan ostborgara af fimm mögulegum.