21.8.2011 | 13:44
Hættið þessu væli og kaupið ykkur strætókort!
Ekki hef ég tölu á öllum þeim Facebook-færslum, Facebook-hópum, bloggfærslum, fréttum osfrv. þar sem menn bera sig aumlega yfir háu bensínverði. Það skiptir í sjálfu sér litlu hvort lítrinn kostaði 100 eða 200 kr., mögulegar aðgerðir eru alltaf svipaðar: lækkum skatta á eldsneytisverð, hættum að versla við eitt eða fleiri olíufélaganna í x tíma, mótmælum eins og vörubílstjórar gerðu osfrv. En þetta er allt hálf marklaust. Olíuverð hefur hækkað og mun gera það áfram til lengri tíma vegna minnkandi forða í heiminum, krónan hrundi og það er ekki nein veruleg breyting á þessu í augsýn. Nýir orkugjafar verða skattlagðir fyrir rest eða veggjöld notuð til að sækja aura handa ríkinu, ekki hafa neinar áhyggjur af öðru, óháð því hvaða flokkur stjórnar.
Fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu er þetta því frekar augljóst þó fæstir virðist hafa áttað sig á þessu. Hættið þessu andskotans væli og kaupið ykkur árskort í strætó á 35.000! Jebb, þú last rétt, það er hægt að ferðast ótakmarkað með Strætó fyrir heilar 2.916 kr. á mánuði! Hefðbundið heimili klárar bensínið sem fæst fyrir slíka upphæð á 2-3 dögum! Þökk sé öndvegis tilboði á straeto.is (sem endar 2. sept) fær maður nú 33% lengri tíma pr. hvert strætókort á hefðbundnu (og jafnframt hræódýru) verði.
Ég veit að það er annað í boði en keyra eða taka strætó, s.s. labba eða hjóla. Sjálfur mátti ég bara til með að taka þetta fyrir þar sem mér finnst alltaf jafn kómískt að heyra fólk hrósa mér fyrir að taka strætó í vinnunna, en jafnframt sjá ástæðu til að afsaka af hverju það gerir ekki slíkt hið sama. Iðulega er samnefnarinn sá að fólk hefur ekki reynt þetta í fjöldamörg ár. Það er vitnað í pólitískar ástæður, "R-listinn [eða íhaldið eftir því hver talar] eyðilagði leiðakerfið með breytingunni XXXX [setjið inn eitthvað ártal fljótlega eftir krist]", dvöl á stoppistöð í óveðrinu í janúar 1991 meðan beðið var eftir næsta vagni í 20 mínútur eða eitthvað í þessum dúr. En það er einfaldlega búið að gjörbreyta kerfinu á síðustu árum gott fólk. T.d. mæta 4-5 vagnar á sama tíma í Ártúni sem þýðir að þú hoppar útúr einum vagni og inn í þann næsta án þess að þurfa að bíða nokkuð, eða þá í 1-2 mín í mesta lagi.
Auðvitað er ýmislegt við leiðakerfið sem ég væri til í að breyta, s.s. því hvenær síðustu vagnar fara, tíðni ferða osfrv, en það er ekki eins og fjöldamargt við einkabílinn sé drepleiðinlegt utan bensínverðsins. Eða finnst þér sérstök veisla að leita að bílastæði? Gaman að fara með bílinn í smur og greiða fyrir það sem samsvarar strætóferðum í 5 mánuði? Já eða hefurðu íhugað að skipta um bíl eftir hrun og séð að nýr 5 dyra Yaris er kominn uppfyrir 2,6 milljónir? Jebb, ég er ekkert að grínast með það þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvað stationbíll með sæmilegri vél kostar!
Ýmsir setja það fyrir sig að læra á leiðakerfið en þökk sé blessuðu Internetinu er það miklu auðveldara en hér áður fyrr. Á straeto.is er svokallaður ráðgjafi þar sem slegið er inn hvaðan er farið og hvert þarf að komast fyrir hvaða tíma og þá segir kerfið manni einfaldlega hvaða leiðir henta. Dauðeinfalt og virkar vel.
Nú er ekki svo að skilja að ég sé frelsaður hippi sem aldrei kem uppí bíl. Við fjölskyldan eigum bíl sem er keyrður 15-20þ km á ári. En ég leyfi mér þó að fullyrða að við spörum okkur bensín fyrir amk 15 þús á mánuði með því að ég nota Strætó í vinnunna og töluvert þess utan að auki. Fyrir utan að spara slurk af aurum er þetta einfaldlega verulega þægilegt þegar komist er yfir aðlögunartímabilið með tilheyrandi væli. Í stað þess að vera í morguntraffíkinni að leita að bestu akreininni til að komast áfram situr maður eins og fínn maður og lætur ferja sig meðan hlustað er á góða tónlist eða hljóðbók. Þó ég sé ekki sérstaklega stressaður í umferðinni er maður einhvern veginn betur afslappaðri og betur búinn að kúpla sig úr vinnugírnum þegar heim er komið seinnipartinn með gula vagninum. Veðrið er misgott í borginni en það eru líka allir forstofuskápar í landinu fullir af útifötum. Fullfrískt fullorðið fólk sem treystir sér ekki til að vera uppklætt utandyra í nokkrar mínútur á hverjum degi þarf auðvitað að hugsa sinn gang í víðara samhengi.
Nákvæmlega hvenær ætlar þú að breyta þínum ferðavenjum? Þegar bensínið verður komið upp í 300 kr./ltr, 400 kr./ltr eða þegar leikskólakrökkum er ekki hleypt út að leika sér 3x í viku fyrir svifryksmengun á veturna? Hættu að bíða eftir kraftaverkinu sem kemur ekki og keyptu þér strætókort núna!
Athugasemdir
Takk Kalli þvílíkur snilldarpistill!!!
Særún Ármannsdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 14:07
Þetta er það fallegasta sem ég hef lesið...og margt orðað á þann hátt sem mig hefur oft langað að orða sama málefni. Bravúr.
Sjálfsblekkingin er svo falleg. Öll höfum við hana en svona almennar sjálfsblekkingar eru schnilld. Við erum búin að ákveða að danska sé leiðinleg 10 ára, ekki hægt að fara í strætó = mikið vesen...oooh svo mikið vesen.
"auðvitað er ýmislegt við leiðakerfið sem ég væri til í að breyta, s.s. því hvenær síðustu vagnar fara, tíðni ferða osfrv, en það er ekki eins og fjöldamargt við einkabílinn sé drepleiðinlegt utan bensínverðsins. Eða finnst þér sérstök veisla að leita að bílastæði? Gaman að fara með bílinn í smur?"
...eða bara það að taka bensín - vesenið þar á bæ...aldrei eins hjá neinni stöð og ekki einu sinni innan sama fyrirtækis. Þar þarf að bíða líka (og borga fyrir það)
"Nýir orkugjafar verða skattlagðir fyrir rest eða veggjöld notuð til að sækja aura handa ríkinu, ekki hafa neinar áhyggjur af öðru, óháð því hvaða flokkur stjórnar."
Kominn tími til að einhver bendi á þetta - nýjir orkugjafar verða skattskyldir líka, hlaðið á þá gjöldum osfrv. Menn lifa í sjálfsblekkingunni um hið nýja/það sem tekur við/ muni veita þeim frelsi en þangað til er best að loka augunum og segja fokk it
rölli (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 14:24
Auðvitað gætum við landsbyggðafólkið keypt okkur strætókort, en til hvers? Það er ekki eins og við ferðumst allra okkar leiða um Reykjavík, reyndar fer ég ekki þangað nema í neyð þó tiltölulega stutt sé fyrir mig að fara. Fer til Reykjavíkur ca. fjörum fimm sinnum á ári og stansa aldrei lengur en dagpart í einu.
En vissulega gæti ég keypt mér strætókort, en hvort það muni bæta fyrir þá kjaraskerðingu sem ég hef orðið fyrir vegna ofurskatta á eldsneyti, fæ ég ekki séð.
Því er ljóst að ég mun halda áfram að kvarta þó ég kaupi mér strætókort, enda er óðum að líða að þeirri stundu að ég verði að gera upp við mig hvort ég ætli að halda minni vinnu áfram og fórna þá einhverjum nauðsynjum í staðinn, veit reyndar ekki hverju þar sem ég hef þegar skorið allt niður eins og hægt er, til að eiga fyrir eldsneyti svo ég geti sótt vinnuna, eða hvort ég verði einfaldlega að fara á atvinnuleysisbætur.
Ef ég legg "ískallt mat" á þessa kosti mína er svarið einfallt, ég hefði það mun betra fjárhagslega með því að fara á bætur, en sálarlega vil ég þó heldur vinna jafnvel þó ég verði að aka til vinnu með tilheyrandi kostnaði og hafi því minna á milli handanna.
Stætókortið hjálpar mér lítið, eins er með flesta þá sem búa utan Reykjavíkurhrepps!
Gunnar Heiðarsson, 21.8.2011 kl. 15:12
Það gefur augaleið Gunnar að strætókort í Reykjavík hjálpar íbúum á Þórshöfn lítið. Þess vegna tók ég líka fram "Fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu er þetta því frekar augljóst". Ekki fyrir það að notkun einkabíla er miklu meiri en hún þyrfti að vera víða um land, ekki bara í Reykjavík.
Karl Hreiðarsson, 21.8.2011 kl. 15:16
Sæll,
Álftanesbúar hafa ekki haft strætóferðir nema kl. 7,8,9 á morgnana, 3 vagnar. Næsti vagn er síðan kl. 3 e.h., kl. 4, kl. 5, kl. 6. Alls sjö ferðir á dag, enginn á kvöldin og nú kemur rúsínan í pylsuendanum: ENGINN STRÆTISVAGN UM HELGAR. Svona hefur þetta verið í fjögur ár. Núna á að fjölga ferðum aðeins í vetur. Það verða vagnar á klukkutímafresti á daginn, líka einhverjir á laugardögum. Enginn strætisvagn verður á sunnudögum. Þú verður líka að vita eitt Karl Hreiðarsson, það er að því miður búa sumir það langt frá vinnu að erfitt er að taka strætisvagna. En mér finnst mjög gott að sumir geti notað strætisvagna og ég er algjörlega hlynnt því að spara orku og peninga. Vinnan mín flutti upp á Stórhöfða og ég bý á Álftanesi. Strætó gekk ekki upp fyrir mig vegna fárra ferða af nesinu. Þú mátt heldur ekki gleyma því að hátt verð á bensíni hækkar verðtryggð lán heimilanna. Þannig að segðu okkur ekki að "hætta þessu væli", gott hjá ykkur sem getið sparað.
Margrét S. (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 16:43
Algerlega eins og talað út úr mínu hjarta, strætó er frábært fyrirbæri, maður þarf bara að venja sig af vælinu og lúxusnum við að fá allt upp í hendurnar, þ.e. geta lagt inni í húsinu sem maður vinnur í og svo framvegis. Fólki finnst það ofverkið sitt í dag að labba 20 skref út á strætóstöð, en þetta er bara svo ótrúlega þægilegt.
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 17:25
Sæl Margrét,
ég hélt því hvergi fram að Strætó væri fullkomin samgöngumáti fyrir allar þarfir. Enda hæpið að komast upp með 100 kr á dag fyrir ferðalög yfir hálft höfuðborgarsvæðið. Ég hef samt enga trú á að þú eða aðrir muni hafa sigur í þeirri baráttu að það verði ódýrara að reka einkabíl heldur en nú er. Bílaflotinn hér er að eldast hratt og nánast ekkert flutt inn af nýjum bílum. Ef halda á úti jafn miklum akstri hér eins og nú er gengur það ekki endalaust. Þessir nýju bílar eru fokdýrir sem gerir það enn óhagstæðara að keyra einkabíl. Í stað þess að berjast í vonlausu stríði ættir þú frekar að beina orkunni í að tala fyrir öflugri almenningssamöngum eða öðrum lausnum sem eru ekki jafn útdauðar og olían sem við erum að klára :-)
Karl Hreiðarsson, 21.8.2011 kl. 17:33
það má líka hjóla, það gera Danir meira af en að nota strætó. Rökin um vont veður gilda ekki móti hjólinu. Það er nefnilega oft rok og rigning í Danmörku og það snjóar svipað og á höfuðborgarsvæðinu en fólk hjólar samt.
Haddi (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 18:44
Álftanesbúar geta þó farið í sund í ægilega fínni sundlaug.
Kalli. Það sem þú segir er satt. EInkabílisminn tröllríður Reykvísku samgöngukerfi gersamlega úr hófi fram. Sjálfur kýs ég að nota reiðhjól fremur en Strætó í dag, en notaði Strætó mikið á námsárunum. Ekkert að því.
Meira blogg vinur, meira blogg.
Bragi Freyr Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 21:29
Já ég er sammála þér að mestu leiti. Ég notaði strætó nánast eingöngu hér áður fyrr til að komast allra minna ferða. Bara að venja sig á að vakna klukkutíma fyrr og gera ráð fyrir því að það taki 45 mín að komast úr Grafarvogi í Mjódd.
En það er eitt sem fer svakalega í taugarnar á mér með strætó sem á að þjóna þörfum íbúa er að innan hverfa eru ekki lengur neinir vagna sem fara hring í hverfinu. Það leiðir til þess að í stað þess að börn geti nýtt sér almennings samgöngur til að komast í frístundastarf innan hverfis þá vera foreldrar að skutla þeim. Eða íþróttafélögin leigja rútur sem keyra hringi í hverfunum til að pikka upp iðkendur og keyra þá síðan til baka. Það vantar nefnilega verulega upp á þjónustu strætó. Algerlega galið sérstaklega í ljósi þess að þessar rútur stoppa á strætóstoppistöðvum.
Maður gæti á stundum haldið að þeir væru að keyra fyrir sig sjálfa en ekki viðskiptavinina.
Hvað varðar einkabílinn þá er hann bráðnauðsynlegur i landi þar sem almenningssamgöngur hafa setið á hakanum í áratugi og stjórnendur telja það vera líklegt til árangurs að fækka ferðum, hækka verð og rugla stöðugt í leiðakerfinu.
Sigurður Sigurðsson, 22.8.2011 kl. 01:24
Þetta er flott Kalli, ég er til í að bíða í 8 mánuði á milli blogga hjá þér ef þau verða svona góð. Eða nei, ég er ekki til í bíða svo lengi eftir góðu bloggi, ég vil helst fá það strax og reglulega.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning