Langhundur um misgáfuleg málefni

Ekki get ég látið of langan tíma líða án þess að ræða Samfylkinguna á þessum vettvangi.  Las í gær pistil hjá Gesti en hann vitnar þar í ummæli Ingibjargar Sólrúnar frá 2006 þar sem hún virtist varla geta sofið yfir áhyggjum af því að ríkisstjórnin virtist ekki vera einhuga um að hefja hvalveiðar að nýju.  Því miður var þetta misskilningur hjá Ingibjörgu því Framsóknarflokkurinn studdi þetta heilshugar og gerir enn sem er mér gjörsamlega á móti skapi.  Núna virðist Ingibjörg ekki vera mjög stressuð yfir óeiningu í ríkisstjórninni og auglýsir hana reyndar sérstaklega eins og sjá má í færslunni hjá hjá Gesti.  Æji hvað ég hefði nú verið til í að sjá Samfylkinguna berja í borðið og stoppa þetta þjóðremburugl, ekki meira um það í bili, hef rætt hvalveiðar meira en góðu hófi gegnir síðustu ár. 

Ástæðan fyrir því að Ingibjörg hefur ekki áhyggjur af óeiningu í stjórninni er auðvitað sú að hún virðist ekki muna tvo daga i röð að hún er í lykilstöðu við stjórn landsins.  Skrifar í blöðin eins og manneskja út í bæ til að kalla eftir þjóðarsátt þegar er auðvitað augljóst að árangursríkast fyrir ráðandi aðila sé einfaldlega að taka upp símann, framkvæma frekar en að skrifa í Velvakanda og sjá svo hvað gerist eins og húsmóðir úr Vesturbænum.

Samfylkingin er stundum pínleg á að horfa, minnir nokkuð á hinna stórkostlegu dönsku þætti Klovn nema bara meira sorgleg en fyndin...

---

Það er auðvitað að æra óstöðugan að nefna Magnús Þór Hafsteinsson á nafn enda fáir sem hafa jafn markvisst unnið gegn geðheilsu landsmanna síðustu daga.  Fyrst ég aulaðist til að lesa "vörn" hans fyrir rúmri viku get ég ekki sleppt því að benda á eina klausu:

Nú hefur hann [Gísli Einarsson bæjarstjóri á Akranesi] heldur betur launað fyrir sig því ég veit að hann er búinn að vera að "lobbýa" fyrir því að Akranes taki við 60 flóttamönnum frá Írak. Vitandi það að slíkt myndi eflaust eyðileggja meirihlutann á Akranesi.

Ég hnaut um þetta.  Sérstaklega því Magnús Þór hefur ítrekað í innflytjendaumræðu síðustu ára reynt að sverja af sér að vera illa við útlendinga.  Hann hefur þess í stað hamrað á því að við getum ekki ráðið við allan þennan fjölda á skömmum tíma, þurfum að stjórna flæðinu sjálf (þó það sé ekki fræðilega hægt skv. EES, hér er ekkert atvinnuleysi) og nú síðast var Magnús Þór á móti komu flóttamanna á Skagann vegna þess að einhverjir eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði.  Gísli Einarsson er greinilega skarpskyggn fyrst hann sá sóknarfæri í að sprengja meirihlutann á þessu, hvernig datt honum í hug að mannvinurinn Magnús myndi vera á móti þessu?  Nú er hann ekki rasisti eins og hann hefur margtekið fram síðustu ár.  Þetta er samt athyglisverð tilviljun, að hann sé ávallt í hópi þeirra skeptísku, ávallt til í að vera á bremsunni í innflytjendamálum.

Ég veit fátt dapurlegra en stjórnmálamenn eins og Magnús og kollega hans, nema þá hve mikinn hljómgrunn svona málflutningur fær.   Ef allar þjóðir heimsins myndu hugsa eins og Magnús og co ættu flóttamenn í engin hús að venda nokkurs staðar í veröldinni, því það skiptir engu máli til hvaða lands er leitað, það má alltaf finna óleyst mál í velferðarkerfum hvers einasta ríki heims. 

---
Það er svo ægilega niðurdrepandi að tala um þetta innflytjendamál að ég má til með að hressa mig og ykkur lesendur við.  Hvað er þá betra en menn með enn stærri lúxusvandamál en ég?  Ég hef afskaplega gaman af lúxusvandamálum enda sérfræðingur í að gera góðan úlfalda úr mýflugu, ekki síst ef mýflugan tengist raftækjum, merkjavöru ýmiskonar eða tónleikahaldi.  Í Fréttablaðinu er sagt frá lúxusvandamáli lúxusvandamála - að vera í vandræðum með að geyma einkaþoturnar sínar!  Ég sakna þess nokkuð að eiga ekki bílskýli fyrir Mözduna en það hlýtur að vera algjörlega óþolandi að eiga óvarða þotu í saltrokinu á Reykjavíkurflugvelli.  Vona að flugvallarstjóri bregðist hratt við, enda full ástæða til að hugsa vel um hinn ofursvala Wessmann, hann gaf gamla skólanum mínum miljarð, hversu töff er það?  Hann setti þar reyndar ansi háan standard fyrir mig og aðra velunnara HR en ég get alveg sætt við mig að vera í skugganum af svona mönnum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband