VARÚÐ! FRUMUDREPANDI LYF!

Þessi viðvörun er búin að vera greypt í huga minn undanfarið ár en í dag, 31.maí,  er einmitt eitt ár liðið síðan Unnur fór í fyrstu lyfjagjöfina af sextán eftir greiningu brjóstakrabbameins fjórum vikum áður. 

Minnir svolítið á klór-umbúðir

Viðvörunin er á kössum eins og þessum hér að ofan sem berast með bláklæddum sendlum frá lyfjablöndun LSH yfir á dagdeild krabbameinslækninga við Hringbraut, deild 11B.  Það var alltaf jafn absúrd að horfa á Hrönn eða einhvern hinna frábæru hjúkrunarfræðinga á deildinni dubba sig upp í hlífðargalla frá toppi til táar og setja hanska á hendur til þess að búa sig undir að koma þessu bersýnilega stórhættulega efni beinustu leið í æðarnar á unnustu sinni!  Fram að þessu hafði ég helst horft uppá fólk setja á sig hlífðarhanska áður en það dælir bensíni, meðhöndlar klór eða önnur spilliefni, ekki til að dæla í lítravís viðkomandi efni í æðarnar á næsta manni.

Unnur bar sig nú vel á þessum degi eins og sjá má þrátt fyrir þessa árás frumudrepandi efnis enda ekki ástæða til annars en að leggja traust sitt á að þetta geri sitt gagn.

Epirubicin flæðir inní vinstri höndina, Unnur lætur það ekki tefja saumaskapinn

Þetta ár er búið að vera ansi strembið og örugglega mun erfiðara en ég hef gefið til kynna við vini mína og kunninga, það er bara svo helvíti leiðinlegt og lítið upplífgandi að bera sig illa að það gerir lítið gagn.  Nú leyfir maður sér hinsvegar að vera bjartsýnn og óendanlega þakklátur fyrir hversu hraust Unnur er orðin ári eftir fyrsta skammtinn af hinu verjandi eitri.  Hún hefur reyndar alltaf verið ótrúlega brött í þessari baráttu, í hennar stöðu hefði ég vælt og skælt, borið mig illa og ekki síst, níðst á vinum mínum til að gera leiðinlega hluti.

---
Ég ætla nú ekki að snúa þessari bloggsíðu almennt uppí væmna dagbók, en í dag mátti ég bara til.  Fyrir þá sem er kippt í þennan "krabbameinsheim" verður sjónarhornið oft ansi þröngt, maður sér varla minningargrein í Mogganum nema þær fjöldamörgu sem skrifaðar eru um alla þá sem falla og maður hefur óskaplega mikla þörf fyrir að heyra sögur af þeim sem hafa þetta af.  Ég er þá alla vega búinn að segja eina örsögu ef einhver í svipaðri stöðu og við kemur hér við...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Sæll, les stundum bloggið þitt enda ertu  nú frændi minn!! Sennilega veistu ekkert hver ég Húsvíkingurin er.  En þegar ég las þessa færslu ákvað ég að "kommentera" og  óska þér og unnustunni góðs gengis og góðs bata. Herdís amma þín var systir Tryggva afa míns Kveðja

Hólmdís Hjartardóttir, 1.6.2008 kl. 00:14

2 Smámynd: Svetlana

Þessi færsla er nú ein af þessum áminningum. Þessum hollu sem minna okkur á að þakka fyrir góða heilsu og bara alla litlu hlutina sem við gleymum að vera þakklát fyrir.

ég óska ykkur alls hins besta.

Svetlana, 1.6.2008 kl. 00:34

3 identicon

Þú hefur verið Unni Ösp fráfær stuðningur.  Það hefur verið ómetanlegt að sjá ykkur standa saman í þessari baráttu með litla sólargeislann í kringum ykkur.

Þið eruð hetjur. Takk fyrir Kalli minn

Kv. Fanney

Fanney (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 09:03

4 identicon

Sæll og blessaður hugulsami maður...

Jú, ég get tekið heilshugar undir þínar vangaveltur og kvíða, og oftar en ekki er þessi hræðsla sprottin af af hinu mögulega hins ómögulega.

En mér leiðist hins vegar hinar drottnandi dramasögur um ósigra, því það er til fullt af fólki sem lifir góðu og heilbrigðu lifi eftir sjúkrahúslegu og ,,frumudrepandi" lyf!

Leggðu áhyggjur þínar, tár  og vonir í hendur almættisins og vittu til ! Það virkar!

Móa (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 09:06

5 Smámynd: Birkir Jón Jónsson

Sæll vinur. Góð og þörf áminning til okkar allra. Já það hefur reynt mikið á ykkur Unni síðustu 12 mánuði. Megi ykkur heilsast vel, sérstaklega Unni. Þú ert enn uppáhalds bloggarinn minn!!!

Birkir Jón Jónsson, 1.6.2008 kl. 10:22

6 identicon

Kærar þakkir fyrir að tjá líðan þína og hugsanir gagnvart eitrinu, líklega líður okkur öllum eins við þessar aðstæður. Takk...

Edda (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 11:24

7 identicon

Gangi ykkur vel í framtíðinni. Það eru tæp tvö ár síðan ég hóf þessa þrautagöngu. Þetta er mikil lífsreynsla. Skil þig vel. Bestu kveðjur Sólveig

Sólveig Jónsdóttir (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 12:27

8 Smámynd: Soll-ann

Sæll vertu.

Já þetta með frumdrepandi lyfin er nokkuð skondið, en þau hafa gert góða hlut hjá mörgum eins og sjá má í hinum harða heimi krabbameinsins. Annars finnst mér svoldið vænt um þessi lyf eftir kynni mín á þeim tel litlar líkur á því að við Unnur og fleiri værum á stjá ef þeirra nyti ekki við.

En eins og við vitum þá er til gott og skemmtilegt líf eftir "eiturlyfinn" og krabbameinið.

Bið að heilsa Unni og knús á sjarmatröllið Jakob.

Solla í Ljósinu

Soll-ann, 1.6.2008 kl. 14:09

9 identicon

Ég sendi mínar hlýjustu hugsanir, ég er Gísli pabbi Ása, svona hálfgerður Húsvíkingur en meiri Eyjamaður. Ég kannast við bláu stólana, ég bara kann ekki að sauma

Baráttukveðjur

Gísli  

Gísli Ásm. (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 14:29

10 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

Kærar kveðjur til þín frændi og þinnar fjölskyldu, og gleðilegt að heyra af góðum árangri hjá Unni.

Hallgrímur Óli Helgason, 1.6.2008 kl. 16:00

11 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Bestu þakkir fyrir góðar kveðjur gott fólk! Gaman að fá að sjá nöfn á bakvið heimsóknartölurnar sem hafa gert mig hálf spéhræddan í dag :-)  

Karl Hreiðarsson, 1.6.2008 kl. 20:50

12 identicon

Vildum líka kvitta fyrir komuna.

Til hamingju með daginn segjum við nú bara. Þið hafið verið okkur hvatning og dáumst við að ást ykkar á lífinu og gleðinni sem ykur fylgir alltaf.

Vonandi hittumst við nú fyrr en seinna. Biðjum að heilsa.

Sæunn og Kjartan (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 21:08

13 Smámynd: Óskar Arnórsson

það er með þessi lyf eins og að fara í röntgenmyndatöku. Þá leita allir skjóls á meðan maður er að láta taka röntgen mynd af sér. Æstæðan er ósköp einföld. Ef starfsfólk gerði þetta ekki þyrfti sífellt að vera að skifta um starfsfólk. það þolir bara ákveðið magn af geislun og fær það í sig. Sjúklingur kemur þarna kannski bara inn einu sinni á æfinni. Enn starfsfólk er þarna á hverjum virkum degi árum saman.

sama er um Interferon meðferð eða hvaða lyf sem þetta er svo sem. það er ekki hollt fyrir starfsfólk að meðhöndla þessi efni á hverjum degi árum saman að nauðsynjalausu. Megi konunni þinni heilsast sem best.

Ég er að fara í smá krabbameinsaðgerð á morgun, mánudag..þá sjöttu á 5 árum.. 

Óskar Arnórsson, 1.6.2008 kl. 22:29

14 identicon

Þið eruð algjörar hetjur! Hlakka til að sjá ykkur í London :)

Rannveig (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 07:25

15 identicon

Besta færslan til þessa! Sú langbesta verð ég að segja :)

Til hamingju með árangurinn elsku bestu. Það er með ólíkindum hvað þið hafið staðið ykkur vel og mætt þessum ólgusjó sem veikindi af þessu kalíberi eru með jafn miklu æðruleysi og þið hafið gert. Þið eruð hvunndagshetjur og ÁFRAM ÞIÐ! Bið fyrir bestu kveðjum til Unnar, ekki nokkur einasti efi í hjarta mínu um að hún muni ná fyrri heilsu og verða stálslegin áður en þið vitið af. Svo eru aðvitað alveg sérstakar kveðjur til litla rokksins frá mér ;)

Hlakka til að sjá framan í þig Kalli minn þann 5. júní. Bíð spennt eftir því sem þið veislustjórar hafið fram að færa. Við verðum búin að búa til eitthvað gott handa ykkur að narta í þegar þið komið :)

Bestu kveðjur í kotið!

alman

alman (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 11:10

16 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Frábær pistill kæri félagi. Það er ósjaldan sem þið hafið komið upp í samræðum okkar Ölmu undanfarið árið vegna þess stórkostlega styrks sem þið búið yfir. Það er engin spurning að allt mun þetta fara vel enda ekki annað hægt þegar böndin eru svona öflug ykkar á milli.

Kv.

Snæþór

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 2.6.2008 kl. 11:11

17 identicon

Það ber að lofa og hrósa einstökum dugnaði ykkar Unnar gegnum þetta allt. Við sem stöndum ykkur nærri dáumst að því hvernig þið hafið tekið á hlutunum og unnið sigrana alla. Hlökkum til að sjá ykkur!

KÞór og GDís +1 (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 13:31

18 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Alltaf skal ég verða jafn hissa þegar að ég heyri um einhvern sem fær krabbamein, þó svo að einn af hverjum þremur lendi í þeim hremmingum. En það segir meira um stærðfræðikunnáttu mína en mörg orð. Ég er búin að komast að því að jákvætt hugarfar er lykill að öllum bata, sama hvert meinið er. Bið og vona að Unnur nái sé að fullu.

Sigríður Gunnarsdóttir, 3.6.2008 kl. 22:34

19 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk Sigríður! Trúi þér betur enn þessum vísindamönnum sem núlega eru búnir að afsanna að engin munur sé á trú eða ekki trú, eða jæakvæni eða ekki jákvæðni í baráttunni við sjúkdóma.

Má ég frekar trúa því sem þú segir Sigríður, enn gáfnaljósum vísindanna..Takk fyrir öflugt innlegg..

kv, 

Óskar Arnórsson, 3.6.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband