Útsvar returns

Ekki eru afköstin á þessu bloggi til sérstakrar fyrirmyndar en ástæðan fyrir því er einföld.  Ég tek til fyrirmyndar einn vinsælasta bloggara landsins, sem jafnframt er ráðherra, og blogga eingöngu undir áhrifum áfengis.  Ég drekk hinsvegar mun sjaldnar sem skýrir færri færslur hjá mér en Ö....., ehemm..., honum.

Að öllu mögulega meiðyrðandi glensi slepptu er best að koma sér að efninu.  Ég er aftur farinn að horfa á íslenskt sjónvarp og ástæðan er ekki sú að ég hafi náð sáttum við 365 og sé farinn að horfa á Enska í HD, heldur er fyrsti spurningaþáttur vetrarins byrjaður.  Útsvar er byrjaður aftur sem er fagnaðarefni.  Ég skora ekki mörg rokkstig að játa aðdáun mína á þessum þætti en ef fólk vill frekar hafa Disney mynd frá siðaskiptum á föstudagskvöldum er viðkomandi ekki viðbjargandi.   Missti reyndar af jómfrúarþætti vetrarins en í kvöld mætti sveitarfélag sveitarfélaga með stórkostlegt lið til leiks, Norðurþing stillti upp til sigurs og fékk Sævar, Togga og Gumma Svafars úr Ljótu Hálfvitunum í liðið.  Breið þekking og afburða skemmtilegir menn þar á ferð svo ég nálgist þetta sem hlutlaus áhorfandi í Grafarvoginum.  Gerir álíka mikið fyrir þáttinn og Draumaliðið gerði fyrir ólympíuleikana í Barcelona 1992.

En að fleiri spurningaþáttum.  Ekkert bólar á "Orð skulu standa" sem bætir gráu ofan á svart fyrir landsmenn á þessum viðsjárverðu tímum í efnahagslífinu.   Ef ég væri aðeins meiri kverúlant myndi ég segja að útvarpsstjórinn hefði tekið erlent lán fyrir forstjórabílnum sínum og hefði þurft að slátra þættinum v/hækkandi afborgana.  Það dettur mér þó ekki í hug enda er ég gríðarlega ánægður með að fréttastjóri Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið ráðinn fréttastjóri RÚV.

Vonandi eru fleiri spurningaþættir í pípunum, Útsvar er á mörkunum með að fleyta manni fram að Gettu betur en svo ég útiloki öll rokkstig þessa vikuna viðurkenni ég fúslega þá skoðun mína að sá þáttur er langbesta íslenska sjónvarpsefnið!

Nördajátningum lokið í bili, sjáumst að viku (eða viku+) liðinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég má til með að minnast á það hvað frændi minn Jóhannes á Víkurblaðinu var að halda sér gríðarlega í þættinum. Besta símtal sem ég hef séð/heyrt í sjónvarpi.

Bestu kveðjur.

Jói H (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 10:40

2 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Ég er að sjálfsögðu sammála því, ótrúleg innkoma hjá Jóhannesi!  Ummæli Sævars og Togga við innleggi Jóhannesar voru líka legendary.

 "Aðallega langar okkur í þessi lyf!"  

Kostulegt!

Karl Hreiðarsson, 21.9.2008 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband