Sigur Rós

Sá Sigur Rós í 6. skiptið á tónleikum í kvöld.  Þetta hættir ekki að vera algjörlega einstök upplifun og eins ægilega hallærislega og það hljómar verð ég að viðurkenna að eftir svona samkomu fyllist maður bara nýrri trú á mannkynið!  Tvímælalaust heimskulegasta byrjun á bloggi hjá mér nokkurn tíma en svona líður mér samt.

Mér er algjörlega um megn að lýsa því í orðum hvernig þeir Sigur Rósar drengir fara að því að spila svona með mann en verð að reyna.  Krafturinn, meistaraleg uppbygging laganna og sjónarspil ljósa (og vatns í tveimur lögum!) hrærir bara einhvern kokteil í hausnum á manni sem afar fáum hljómsveitum er gefið.  Á tímum þegar búið er að steypa þjóðinni í ævintýralegar skuldir er hollt að minnast þess að það eru forréttindi að búa á heimavelli þessarar stórkostlegu hljómsveitar! 

Svo ég eigi auðveldara með að rifja þetta upp fyrir barnabörnunum ætla ég renna stuttlega yfir hvenær ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá þá áður.  Fyrsta skiptið var í Háskólabíói 30.okt 1999 í félagsskap Rölla nokkurs Pú sem féll eftirminnilega í dá á tónleikunum. Annað skiptið var á útgáfutónleikum tónlistarinnar úr Englum alheimsins í sal MS 15.mars 2000.  Ég beið þess varla bætur að heyra Dánarfregnir og jarðarfarir á tónleikum.  Þriðju tónleikarnir voru 20.október 2000 í Fríkirkjunni í Reykjavík, rétt eftir miðannarpróf í skólanum og án vafa eitthvað það magnaðasta sem ég hef reynt á tónleikaferlinum.  Gott ef við Aggi vorum ekki að bisa við að klára verkefni rétt fyrir tónleika og mættum allveðraðir, illa sofnir og of seint niðrí kirkju.  Tíminn stóð svo í stað við fyrsta tón, mann enn eftir lyktinni þarna inni og man enn betur þegar Aggi sofnaði.

Alltof langt leið þangað til ég sá Sigur Rós næst en það var á Hætta! tónleikunum 7.jan 2006 (löng saga af hverju ég var þar, Kárahnjúkastuðningsmaðurinn!) og þeir fimmtu voru svo Ásbyrgistónleikarnir 4.ágúst 2006.  Síðan var það þessi uppákoma í kvöld.  Ekki fæ ég mig til að gera upp á milli þessara kvölda sem hafa verið hver öðru magnaðra en alltaf finnst mér eins og þeir gefi algjörlega allt sem þeir eiga í viðkomandi kvöld og það skilar sér í hausinn á manni.

Takk fyrir mig Sigur Rós og takk Dóri fyrir að sjá til þess að ég missti ekki af þessu eins og glópur!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Hannesson

Það eru engar smá lýsingar ...

Mogginn segir "fullkomnun" og svo þetta!

Maður hefði átt að drulla sér sjálfur á staðinn!! ;)

Heimir Hannesson, 24.11.2008 kl. 11:49

2 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Þessir tónleikar í gær voru hreint út sagt stórkostlegir!

Þetta voru fyrstu Sigurrósar tónleikar þessarar fimmtugu kellu og ég er enn í skýjunum. Vonast til að lenda seinna í vikunni!

Þetta voru líka fyrstu tónleikar Sigurrósar tónleikar 13 ára dóttur minnar. Frábært hjá þeim að gefa unglingum kost á að kaupa miða á 1000 kall. Og að vera örugg í sínum sætum.

Afhverju var ég ekki búin að fara fyrr á tónleika með þeim?

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 24.11.2008 kl. 15:33

3 identicon

Æi nei, ekki Sigurrós. Ég næ ekki þessari tónlist.

Líklega er ég of mikill sveitamaður þar sem Geirmundur og "ort í sandinn" framkalla gæsahúð hjá mér :-)

kv.g.b.

Gunnar Bragi Sveinsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 21:44

4 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Hehehe, ég fæ líka gæsahúð af Geirmundi, veit ekki hvort það sé af sömu ástæðum og þú samt :-)

Karl Hreiðarsson, 24.11.2008 kl. 22:08

5 identicon

Sæll

Samkvæmt upptalningunni mættir þú ekki á tónleika Sigur rósar á Hlöðufelli í den. Það voru góðir tónleikar; Ágætis byrjun ennþá fersk og bandið ennþá cult. Fyndið þegar Jónsi lýsti göngutúr hljómsveitarinnar í gegnum bæinn. Listuðu upp stafsetningarvillur í hljómsveitarnöfnum sem voru spray-uð á veggi vítt og breitt um bæinn. Sérstaklega gagnrýndu þeir að Metallica hefði verið skrifað með þremur ellum einhvers staðar niður á bryggju.

Man að mig langaði að rífa barkann úr tveimur ónefndum stúlkum á tónleikunum, sem hristust í sætum sínum útaf gelgjuhormónum. Skríktu og töluðu alla tónleikana eins og talibanar á aftökuhátið.

kv

MH

Maggi Halldórs (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 14:08

6 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Hahahahaha, kostuleg lýsing Maggi!

Ég rétt missti af Hlöðufellstónleikunum, var fluttur í sollinn þá.  Hefði gjarnan viljað veita þér aðstoð mína við barkarif, enda með víðtæka reynslu.

Karl Hreiðarsson, 25.11.2008 kl. 14:29

7 identicon

Þetta var stórkostleg upplifun - vonandi fær maður að sjá þá aftur live...

Dóri (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband