Austurlandahraðlestin í Spönginni

Þeir sem mig þekkja vita flestir af rótgróinni ást minni á skyndibitamat.  Þeir sem þekkja mig ekki geta sér sjálfsagt til um þennan áhuga útfrá frjálslegu holdafari undirritaðs.  Þennan áhuga hef ég ekki ræktað sem skyldi hér á blogginu en nú skal bæta úr því með veitingarýni á nýja hverfis staðnum.  Við veitingarýnina mun ég notast við minn uppáhaldsrétt í stað stjörnugjafar, hamborgara.

---

Seinnipart sumars rak ég augun í skilti frá Austurlandahraðlestinni í tómu húsnæði í Spönginni.  Verandi forfallinn aðdáandi Austur Indía fjelagsins átti ég erfitt um svefn fyrst á eftir þessa uppgötvun en þegar lítið virtist þokast næstu vikur var vonin um góðan indverskan mat í Grafarvoginum að fjara út.

En viti menn, meðan annað hvert fyrirtæki er að loka opnaði þessi líka glæsilegi staður í byrjun mánaðarins!  Með vínveitingaleyfi sem tryggir greiðan aðgang að hinum dýrlega mjöð Cobra í göngufæri frá Gullenginu!

Við hátíðlegt tilefni um daginn (opnunin var þó ekki tilefnið þó hátíðleg sé) var Austurlandahraðlestin fyrir valinu hjá fjölskyldunni og stóð staðurinn fyllilega undir væntingum!   Aðal-réttur minn var tandoori kjúklingur og með honum var valið dýrlegt hvítlauks-nan og auðvitað hvíta raita jógúrtsósan sem kælir mann niður ásamt ölinu.  Bragðmikið og gríðarlega gott!  Hliðarréttur var svokallaður saag kjúklingur sem var sömuleiðis góður en er líklega ekki borinn fram í mötuneytinu í himnaríki eins og tandoori kjúklingurinn.

Verðið er reyndar ekki í skyndibitaflokknum þannig að tæplegast verður maður vikulegur gestur en gæðin eru allt önnur en á skyndibitastöðum almennt.  Þarna eru reyndar góð hádegisverðartilboð en hver er í Grafarvoginum í hádeginu?  Því miður er ég búinn með fæðingarorlofið, annars hefði því verið varið þarna.  Unnur, þetta er spurning um annað barn?

Austurlandahraðlestin í Spönginni fær því fjóra og hálfan ostborgara af fimm mögulegum.

Heill borgari Heill borgariHeill borgariHeill borgariHálfur borgari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Blessaður Karl

 Ég fór að ráðum þínum og prófaði Austurlandahraðlestina í fyrradag. Verð að segja að tilkoma þessa staðar í samfélag landsbyggðarmanna á höfuðborgarsvæðinu (Grafarvogur) hefur lyft þessu téða samfélagi upp á nýtt og hærra plan. Glæsilegur og stórfenglegur matur alveg hreint. Hinsvegar þótti mér það afar leitt að á þessum 40 mínútum sem ég var þarna inni að snæða kom enginn annar gestur, hvorki í take-away né eat-in. Ég vil því hvetja Grafarvogsbúa og Grafarholtsbúa að mæta í Spöngina og styðja við framtakið.

Persónulega fékk ég mér Chicken "65" og hvítlauksnaan. Kjúllinn var stórfenglega sterkur og fullkominn í alla staði og ekki var naaaanið verra.

Ég gef því staðnum hiklaust FIMM PANNA COTTA í einkunn.

 Well done!

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 29.11.2008 kl. 13:08

2 Smámynd: maddaman

Hádí neighbour!

Ég tók einnig gleði mína þegar ég tók eftir að búið var að opna, var eins og þú búin að gefa upp alla von! Mikil hamingja!

Ég fylgi ykkur bræðrum eftir og gef staðnum 4 óskara!

maddaman, 30.11.2008 kl. 02:01

3 identicon

Hvernig dettur þér í hug að flokka þetta sem skyndibita?  Þetta er ekki fjöldaframleitt ógeð úr úrkynja viðbjóði eins og uppáhalds hamborgarinn þinn!  Þetta er alvöru matur úr alvöru hráefni á veitingastað sem býður upp á take away.  Við Grafarhyltingar erum búin að fara einu sinni þarna og vorum jafn ánægð og öll hin skiptin sem við fórum niður í bæ að sækja.  Ég vona svo sannarlega að þessi staður lifi góðu lífi og ætla að leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða.

Rósin (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 20:29

4 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Matur afgreiddur á 10-15 mín í take-away er klárlega skyndibiti!  Vissulega spilar Austurlandahraðlestin í allt annarri deild en þeir flestir skyndibitastaðirnir en það eru auðvitað bara fordómar að ætla skyndibita að vera bara gerðan úr hrati.  Ég tengdist ónefndri kjötiðju nokkuð þegar skyndibitakeðjan sem þú vísar til kom til landsins og þá voru kröfurnar sem hún gerði meiri en nokkur annar matsölustaður á landinu gerði fyrir viðskiptum þannig að ég hlusta ekki á svona klisjur ættaðar frá Pamelu og öðrum illa afleiddum drottningum!

Annars stóðst ég ekki mátið að smakka réttinn sem Snæþór mælti með og get svo sannarlega mælt með honum líka, stórkostlegur matur!

Karl Hreiðarsson, 1.12.2008 kl. 21:45

5 identicon

Á að taka á frjálslega holdafarinu eftir áramót ? Ónefndur vinnufélagi þinn er með miklar yfirlýsingar varðandi það og þarf eflaust þjáningarbróður :)

Inga Hrund (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 21:54

6 identicon

Af hverju er það skyndibiti?  Ég er ekki nema korter að elda gott Korma með öllu tilheyrandi ef ég er með allt hráefni tilbúið við hendina

Sammála með Chicken "65", hann er uppáhalds.

Hver er Pamela? 

Rósin (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 08:04

7 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Inga, frjálslega holdafarið er í stöðugri vinnslu, reyndar í ranga átt!  Ónefndi vinnufélaginn þyrfti nauðsynlega að verða bandamaður minn, við höfum frekar slæm áhrif hvor á annan varðandi neyslu á svörtum drykk guðanna.  Þar streitist ég harkalega á móti en verð sífellt undir... ehemm.

Anna, ég er tilbúinn að taka tímann á þér með Kormað (sem ég þurfti reyndar að gúggla, sveitamaðurinn ég), trúi ekki að þú getir verið svo snögg án þess að rústa eldhúsinu! 

Karl Hreiðarsson, 4.12.2008 kl. 12:32

8 identicon

Kalli,

ég treysti fáum mönnum betur til að meta það hvort um sé að ræða skyndibita eða veitingastað.  Auðvitað eru sjálfskipaðir sérfræðingar í hverju horni, en það hafa ekki allir jafn víðtæka reynslu í þessum málum og þú.

Ég þarf að gera mér ferð upp í Grafarvoginn og smakka á herlegheitunum.  Spurning hvort við ættum að mæla okkur mót á hraðlestinni við tækifæri?

Jón Ívar (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 15:48

9 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Ekki spurning Jón, það mun ekki standa á mér.

Að fá stuðningsyfirlýsingu frá þér í þessum málum er náttúrulega bara eins og Ronald McDonald eða Colonel Sanders myndu droppa hér við til að taka undir með manni :-)

Karl Hreiðarsson, 5.12.2008 kl. 23:31

10 identicon

VINDALOOOOOOOOOO...

Sverrir (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband