Færsluflokkur: Bloggar
3.10.2008 | 19:31
Klukkaður eða sagði hún að ég væri klikkaður?
Að skrifa um pólitík í dag væri bara of auðvelt í dag, eins og að sparka í liggjandi mann. Stöndum ekki í því. Var "klukkaður" af góðri Maddömu eins og það kallast á bloggnördísku og má til með að taka þeirri áskorun. Úr því varð þessi bók sem hér fer á eftir. Tek fram að þetta er ekki í neinni sérstakri röð.
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
- Áfylling fyrir Egils í stóru matvöruverslunum á Húsavík. Fyllti þar m.a. á Pepsi sem var einkennileg upplifun fyrir Coke-fíkil.
- Afgreiðsla á MS-vörum í Mjólkursamlagi KÞ á Húsavík (MSKÞ). Stórkostlegur vinnustaður en það var stundum kalt í kælinum.
- Afgreiðsla í timburdeild KÞ Smiðjunnar á Húsavík. Jákvæðasti maður heims, Jón Þormóðs, vinnur þarna og ekki getur manni leiðst með slíkan mann sér við hlið. Fer aftur til Nonna þegar krepputalið gengur endanlega fram af manni, hann er maðurinn til að koma geðheilsunni í jafnvægi á ný.
- Tölvunarfræðingur hjá VÍS í Reykjavík. Besti vinnustaður landsins, þess vegna er maður svona þaulsetinn, ekki orð um það meir.
Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:
- Pulp Fiction
- Kill Bill
- Sin City
- Waiting...
Waiting er kannski ekki allra besta mynd sem ég hef séð en í miklu uppáhaldi. Of fáir hafa séð hana, bráðfyndin og hæfilega barnalegur húmor fyrir barnalegt fólk eins og mig.
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
- Baldursbrekkan á Húsavík. Þarna eiga börn að alast upp ef þess er kostur, tryggir vel heppnaða útkomu.
- Gullteigurinn í Reykjavík. Staður með sál, góða nágranna og sambýlinga en versta þvottahús landsins. Jafn langt í þvottahúsið og í efnalaug.
- Gullengið í Grafarvoginum. Pollrólegt, fjölskylduvænt og göngufæri í allt sem maður þarf (f.utan vinnu auðvitað!). Sumir miðborgarbúar átta sig ekki á því að til er fólk sem finnst fínt að búa þar sem ekki er verslunarmannahelgi allt árið um kring. Þú þarft sem sagt ekki að vorkenna mér Hallgrímur Helga, það vantar ekkert í lífið hjá manni þó ókunnugt fólk mígi ekki vikulega í garðinn hjá manni.
- Wimbledon hverfi í London hjá Jóni Baldvinssyni biskup (þáverandi sendiráðsprestur) og Möggu konu hans. Bjó ekki þar í hefðbundnum skilningi en ég, Kristján Þór og Unnar vorum alltof þaulsetnir til að geta talist normal gestir. Ótrúleg gestrisni og höfðingsskapur sem við fengum þar að kynnast hjá fólki sem þekkti 2/3 okkar ekkert fyrir komuna. Jón þyrfti að verða biskup yfir Íslandi, þá yrði Þjóðkirkjan vinsælli en íslenska handboltalandsliðið.
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
- The Office (bæði UK og US útgáfurnar)
- Klovn
- Gettu betur
- Scrubs
Enski boltinn í HD væri á þessum lista ef 365 hefði það ekki að höfuðmarkmiði að fæla mig frá viðskiptum við þá.
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
- London. Stórkostleg borg, alltaf eitthvað að gerast, endalaust magn af tónleikum.
- Fjárhóll í Reykjadal, S-Þing. Nýja ættaróðalið í dal dala, næ vonandi milljón heimsóknum þangað áður en yfir líkur.
- Zufikon í Sviss. Kannski ekki algengasti sumarleyfisstaðurinn en einn sá besti ef fólk er með réttu ættartengslin!
- Hlíðarendi í Bárðardal. Fór í heyskap og sauðburð flest sumur sem krakki, væri ekki samur ef ég hefði ekki fengið að upplifa þá snilld! Ingvar, Aníta, Ella Sigga, Erlingur og Ingvar, þið megið setjast uppá mig hvenær og hvar sem er, þið eigið inni amk 5000 gistinætur.
Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
- eyjan.is
- dimeadozen.org (lögleg tónlistar torrent, himnaríki bootlegga safnarans)
- facebook.com (var næst síðastur í heimi til að skrá mig, er leiðinlegasti vinurinn sem fólk getur átt þarna ef mælt er í svöruðum requests).
- m5.is (ætti ekki að gera það en geri samt)
Fernt sem ég held upp á matarkyns:
1. Hamborgarar
2. Allt á Austur Indíafjelaginu
3. Heitir brauðréttir
4. Coca Cola (er það ekki matarkyns?)
Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
- Fjárhóll í Reykjadal.
- Við Geysi í Haukadal. Goshverir eru málið, að fylgjast með Strokki er einhver besta afþreying sem völ er á.
- Húsavík. Örlítið fyrirsjáanlegt kannski.
- Þar sem ég er, heima. Hér er fólkið mitt og heima er nú bara alltaf best.
- Í Bónus að bíða í röð við kassana. Eða ekki.
(útlönd eru ekki málið í dag)
Fjórar hljómsveitir eða tónlistarmenn sem ég held upp á:
- Pearl Jam
- Eddie Vedder
- The Cardigans
- The Libertines
Fjórir bloggarar sem ég klukka:
- Davíð Oddsson. Getur birt niðurstöðurnar á sedlabanki.is eða sent mér bara bréf með svörunum, ég skal birta þetta.
- Sarah Palin. Það væri fróðlegt.
- og fjögur. Snæþór og Alma, þetta vekur þau kannski af bloggdvalanum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.8.2008 | 15:45
Hræðsla fullorðins manns
Fimm lykiláhættur hef ég óttast í lífinu til þessa:
1. Endajaxlatöku
2. Manndrápsflugur sem stinga (geitungar, randaflugur og aðrar sambærilegar skaðræðisskepnur)
3. Kríur (ógnandi skepnur með skeinuhætt öskur)
4. Mikil hæð (allt yfir tveimur metrum)
5. Sigríði Klingenberg galdrakonu
Þrátt fyrir að þetta útskýri sig auðvitað allt sjálft væri bloggið ansi rýrt ef ég myndi ekki fara aðeins betur í hvern lið en til að útskýra svona grundvallarmál dugar ekki annað en langhundur.
1. Endajaxlatökuna hef ég forðast og frestað eins og ég mögulega hef komist upp með síðustu 7-8 ár. Ástæðan var í upphafi einföld, fjárhagsástæður en undir niðri kraumuðu aðrar og myrkari ástæður. Stórkostlega bólgnar systur mínar komu heim frá Akureyri fyrir tæpum 20 árum úr slíkri verkun og síðan þá hef ég þefað uppi sögur af blóði drifnum endajaxlatökum.
Í ljósi þess hvað kona mín hefur gengið í gengum síðastliðið ár án þess að kvarta nokkuð fannst mér ekki sérstaklega karlmannlegt að fresta þessu lengur þannig að ég lét fjarlægja alla fjóra í einu fyrir mánuði síðan. Það var sáraeinfalt enda tannlæknirinn snillingur. Kannski var ekki ástæða til að kvíða fyrir þessu áralangt.
2. Manndrápsflugurnar hafa lengi elt mig uppi og eingöngu einu sinni náð árangri við árás, ég lifði þó naumlega geitungastunguna af. Hunangsflugur eru sagðar meinlausar en ég veit betur, undir sakleysislegu yfirbragði leynist þaulæfður fjöldamorðingi.
3. Kríur eru fallegir fuglar en leiðinlegri skepnur eru vandfundar. Óþolandi hávaði í þeim og hegðun þeirra ekki til fyrirmyndar. Síðan eru þær stöðugt að gera árásir á heila okkar mannfólksins og reyna bannvænar stungur við flest tækifæri.
4. Lofthræðsla er afar eðlileg enda rökrétt að hafa fast land undir fótum og vera ekki að storka örlögunum með öðru. Verst þykir mér hve lofthræðslan ágerist með aldrinum og væntanlega endar hún með því að ég þori ekki uppá tábergið um fertugt.
5. Ekki veit ég af hverju ég fór að vera hræddur við Sigríði Klingenberg. Líklega byrjaði það þegar ég rakst á hana á förnum vegi og hún með sína hæfileika og þetta furðulega hár virtist líkleg til að breyta mér í kommúnista með einhverjum nornaálögum ef ég liti einkennilega á hana. Ég heyrði svo viðtal við Sigríði í besta útvarpsþætti landsins nýverið, Kvöldgestir m. Jónasi Jónassyni (sem er nota bene langbesti útvarpsmaður landsins, mæli með podcastinu) og viti menn, Sigríður er ekki á nokkurn hátt ógnvekjandi eða líkleg til galdramennsku. Jónas er auðvitað meistari í að laða það besta fram í fólki en ég treysti mér alveg til að mæta henni á götu í dag og jafnvel bjóða í kóksopa. Síðan gerði hún mér og veislustjórum í brúðkaupi góðs fólks nýverið mikinn greiða fyrir hálft orð þannig að hún er í miklu áliti hjá mér í dag.
Dágóður árangur að ná að skjóta niður 2 af 5 á nokkrum vikum, ætla mér þó næstu 5 ár í að vinna í hinum þremur málunum en listinn getur alveg óhikað litið svona út í dag!
1. Endajaxlatöku
2. Manndrápsflugur sem stinga (geitungar, randaflugur og aðrar sambærilegar skaðræðisskepnur)
3. Kríur (ógnandi skepnur með skeinuhætt öskur)
4. Mikil hæð (allt yfir tveimur metrum)5. Sigríði Klingenberg galdrakonu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)