Færsluflokkur: Tónlist
14.12.2010 | 21:43
Hér hófst það allt...
Það gerist ekki oft að maður viti það fyrirfram að sögulegir tímar séu í nánd. Þökk sé demo-útgáfu í sumar og handfylli af ótrúlegum tónleikaframmistöðum er það fullljóst að morgundagurinn, 15. desember 2010, verður sögulegur dagur í íslenskri tónlistarsögu. Skálmöld gefur Baldur loksins út.
Þrátt fyrir króníska bloggleti hef ég ekki komist hjá því að fjalla um þessa hljómsveit. Demo-útgáfuna skrifaði ég um hér og svo kom ég heim í losti eftir tónleika á Sódómu og skrifaði Össurslegan pistil á Össurarlegum tíma hér. Ef til vill finnst einhverjum hér stórt tekið upp í sig, en eftir nokkra mánuði í viðbót af meltun demo-útgáfunnar, ásamt ennþá magnaðri tónleikaframmistöðu í nóvember (sjá á Jútjúb ) sé ég að ég þarf að taka upp þennan dóm frá grunni og passa vandlega að hvergi sé notað annað en efsta stig lýsingarorða. Sagan af Baldri, textarnir sem segja þá sögu, heilindin í þessari útgáfu allt í gegn að ónefndu grípandi rokkinu á ekki jafningja í íslenskri tónlist. Nema ef vera skyldi Björgvin Halldórsson. Djók...
Fyrir þá sem ekki eru fyrir metalinn vil ég nú samt hvetja fólk eindregið til að gefa þessu tækifæri og leggja til hliðar fyrri reynslu. Hér hefst þetta allt (náði einhver KÞ-tilvísuninni í fyrirsögninni?) og ólíklegasta fólk hefur viðurkennt fyrir mér í myrkum skúmaskotum að þetta sé náttúrulega meistaraverk. Ljóshærðir kvenmenn þar á meðal (með fullri en ögn óttablandinni virðingu fyrir þungarokkssmekk ljóshærðra kvenna almennt).
Skálmöld hefur haft virkilega góð áhrif á mína tónlistarhlustun í haust. Hef ég leitað til baka í þungarokksræturnar og hlustað mun meira á metal heldur en síðustu ár. Það er, eins og þarf ekki að taka fram, afskaplega gefandi og karlmannlegra heldur en blessað indie-ið sem ég tek með í bland.
Jæja gott fólk, þetta er orðið gott af bloggi í bili, mér fannst bara brýnt að koma þessu á framfæri við Internetið, lá meira á þessu heldur en að byrja á jólakortunum. Þannig að ef þú færð kortið þitt of seint í ár veistu af hverju.
Til hamingju Ísland, Skálmöld er upprisin!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2010 | 21:01
15 plötur á 15 mínútum
Tók loksins þátt í hinum hressandi samkvæmisleik á Facebook að telja upp 15 plötur sem maður telur að eigi ávallt eftir að fylgja manni. Í þetta má svo ekki eyða lengri tíma en 15 mínútum sem er ágætt því ég gæti vafalítið eytt heilli helgi í svona heilabrot. Hér er listinn minn, í engri sérstakri röð, en þó vissulega engin tilviljun hvaða bönd eru efst.
Pearl Jam - Vitalogy
Pearl Jam - Ten
Pearl Jam - No Code
Radiohead - OK Computer
Radiohead - In Rainbows
The Cardigans - Long gone before daylight
Skálmöld - Baldur
Maus - lof mér að falla að þínu eyra
Sigur Rós - Ágætis Byrjun
Sigur Rós - Takk...
The Libertines - The Libertines
Kiss - Alive II
Pixies - Doolittle
W.A.S.P. - The Headless Children
Anthrax - Among the living
Ég féll næstum á tíma og er löðursveittur eftir hroðalega erfiða baráttu um síðasta sætið. Hér vantar klárlega eitthvað, en þetta spannar samt ágætlega plötur sem hafa fylgt mér, sumar í rúm 20 ár, ein í 2 mánuði og allt þar á milli. Var að reyna að hafa ekki of margar með sömu hljómsveitunum en gat ekki valið á milli þannig að nokkrar sögulegar eru útí kuldanum í staðinn. Hlusta misoft á þessa gæðagripi en allar eiga það sameiginlegt að koma inn aftur og aftur, sama hvaða stefnur eru ríkjandi á playlistanum þá stundina.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.8.2010 | 00:36
Afsökunarbeiðni
Eftir tónleika Skálmaldar á Sódómu í kvöld sé ég ástæðu til að biðja lesendur mína afsökunar. Það er ljóst að í þessari grein hér á undan hélt ég of mikið aftur af mér og sagði í reynd bara hálfan sannleika. Þessi hljómsveit er einfaldlega sú langbesta sem hefur komið fram á Íslandi.
Hljómsveitir verða ekki mældar eingöngu af plötum heldur er tónleikaframmistaða þeirra lykilatriði. Eftir að hafa séð Skálmöld spila í annað skipti er ljóst að við hógværari lýsingarorð verður ekki unað og ég biðst innilegrar afsökunar að hafa ekki komið því nógu greinilega á framfæri í fyrri pistli að hér væri um að ræða það langbesta sem gerst hefur í íslenskri tónlistarsögu.
Vona að tilraun mín til hófstillingar í fyrri pistli verði mér ekki aldurtila en í kvöld missti ég heyrnina og það var fyllilega þess virði. Núna heyri ég til að mynda 75% suð og 25% eitthvað sem minnir á eðlilega heyrn. Ég festi eitthvað á filmu á litla Ixus og mun koma því skilmerkilega á Youtube við tækifæri en minniskortið kláraðist í hálfri Kvaðningu þannig að enn á ný mistekst mér að koma þeirri epík á vefinn. Fyrir næstu tónleika verður gripið til tæknilegra aðgerða, það er ljóst.
Svo fólk haldi ekki að ég sé einn, snargeðveikur tölvunörd í Grafarvogi að missa mig yfir þessari hljómsveit, er vert að geta að meðal dolfallinna í kvöld var biskupsdóttir og kvenkyns ljóshærður lögfræðingur tryggingafélags ásamt nokkuð fyrirsjáanlegum trylltum karlmönnum. Það segir sína sögu. Þeir sem mæta verða dolfallnir, burtséð frá fyrri áhuga á tónlist, háralit, aldri eða stöðu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.8.2010 | 22:27
Skálmöld er upprisin
Plötudómar eru góð afþreying. Því hef ég haft í hyggju um nokkra vikna skeið að setja nokkur orð á Internetið um plötu Skálmaldar, Baldur, sem kom út í litlu kynningarupplagi í tilefni Eistnaflugs í júlí. Hin formlega útgáfa mun vera á dagskrá í haust en engar dagsetningar liggja enn fyrir eftir því sem ég hef heyrt. Ástæða þessarar skyndilegu lyklaborðsræpu eftir 15 mánaða bloggdauða er sú að með þessari plötu hafa tímamót átt sér stað í íslenskri tónlist. Þarf að biðja lesendur afsökunar á óhóflegri lengd þessarar færslu en mér liggur mjög mikið á hjarta.
Ég ætlaði að skrifa um Baldur fljótlega eftir fyrstu hlustun en ég vildi ekki að dómurinn væri eins og 13 ára skríkjandi táningsstelpa hefði haldið á penna þannig að ég ákvað að bíða þangað til ég kæmi niðrá jörðina og gæti skrifað um málefnið af sérstakri hófsemi og yfirvegun. Sú stund hefur ekki komið ennþá og ég sé ekki að það gerist neitt á næstunni. Ég fékk ítrekaða gæsahúð við fyrstu hlustun og eftir tugi hlustana fæ ég enn gæsahúð! Ekki ávallt á sömu stöðum en það eru nokkrir fastir punktar sem ég hreinlega kemst ekki yfir og 13 ára gelgjan mætir aftur og aftur.
Til að lýsa þessu fyrir þeim sem hafa ekki reynt er vert að taka fram að Skálmöld spilar að eigin sögn víkingametal. Fyrir mér er þetta þungarokk í sinni hreinustu mynd, ætti að eiga sér sinn stað í lotukerfinu, frumefnið metall. Ég hef eiginlega öðlast algjörlega nýja trú á þungarokk við þessa hlustun, en eftir gott uppeldi Erlings og Ingvars Þórs á Hlíðarenda vildi ég ekki sjá annað sem ungur ormur. Platan er heildstæðari en nokkur plata sem ég hef heyrt á ævinni. Þetta er svokölluð concept plata þar sem sagan af Baldri er sögð með textum sem eru meistaralega samdir af Bibba og framburður þeirra ótrúlega góður, hef aldrei heyrt jafn harðan söng koma efninu betur á framfæri. Sagan og tónlistin passa svo fullkomlega saman, tónar sem maður heyrir ekki endilega við fyrstu hlustun styðja við hvað er að gerast í sögunni og uppbygging plötunnar er magnþrungin eins og sagan. Það hljómar lygilega en ég verð hálf miður mín í hvert einasta skipti sem komið er að lokum lagsins Dauða, en eins og nafnið gefur til kynna boðar það ekki mikil partýhöld án þess að ég vilji kjafta frá sögunni. Svipuð tilfinning eins og þegar maður hefur horft á eitthvað ægilegt drama í sjónvarpinu. Alveg ótrúlegur fjandi, eins og ég er laginn að leiða texta hjá mér, enda sjaldnast merkilegir. Með því að hlusta á plötuna aftur má þó hressa sig verulega við enda allir sáttir að lokum!
Algjört lykilatriði er að hlusta á verkið í heild sinni, en fyrst ég er að setja mig í spor Arnars Eggerts og Árna Matt verð ég auðvitað að taka einhver lög sérstaklega fyrir. Freistandi er að velja Kvaðningu sem lag plötunnar, enda epískt stórvirki, tæpar 8 mínútur og það lag sem maður hefur heyrt oftast enda fór það fyrst í Myspace-dreifingu. Lagið Dauði hefur þó sótt sérstaklega á mig, bæði vegna þess hvað textinn er dramatískur, uppbyggingin og stígandinn í laginu svo magnaður, fyrir utan hvað ég verð alltaf meyr eins og ólétt kona eftir að síðasta lína lagsins hefur verið sögð. Fyrst ég byrjaður að nefna lög get ég þó ekki sleppt Árás, enda svo grafískt lag og ægilega reitt að ég sem sérlegur aðdáandi reiðrar tónlistar get ekki annað en fagnað því sérstaklega. Upprisa er einnig frábært umbrotalag og passar svo fullkomlega við söguna. Heima og Valhöll frábær byrjun og endir, ramma verkið fullkomlega inn. Í Hefnd mætir söngvari Sólstafa sem gestur og gerir mig skíthræddan í hvert skipti, ekkert nema illskan uppmáluð þetta helvíti og gerir okkar sögupersónu litla greiða. Var smástund að venjast hans innkomu, en finnst þetta frábært samspil í dag. Ekki mörg lög eftir ónefnd núna, en til að einhver taki mig trúanlegan sem gagnrýnanda verð ég náttúrulega að segja stopp núna áður en ég klára öll lögin.
Ég þyrfti að skrifa meira um textana, enda eru þeir lykiltromp þessarar plötu og algjör undirstaða verksins, en ef ég á einhvern tímann að geta hætt þarf ég að koma mér í spilamennskuna sjálfa. Þar eru þvílíkir endemis meistarar sem stýra för að ég get ekki á heilum mér tekið. Böbbi, minn uppáhalds metal-söngvari í sögunni fær loksins plássið sem hann á skilið og gerir svo vel að við hans örgustu fylgismenn gátu varla séð fyrir hversu stórbrotinn frontmaður hann er! Þráinn í Torfunesi sem sólógítarleikari er ekki neitt eins og íslenskur sveitadrengur, heldur eins og besti gítarleikari í heimi skv. Böbba og þar sem Böbbi hefur aldrei haft rangt fyrir sér um þungarokk sé ég ekki ástæðu til að rengja þann dóm. Trommurnar hjá Jóni Geir algjörlega trylltar og tvöfalda bassatromman þar sérstaklega vinsamleg. Hæfileikaríkustu bræður í íslenskri tónlist síðan McCartney/Lennon (og þeir voru ekki einu sinni bræður, hvað þá íslenskir), Baldur og Bibbi, virðast geta gert allt í tónlist sem þeim dettur í hug. Gunnar Ben, óvæntasti liðsmaður metalsins, kann sömuleiðis allt sem þarf að kunna í tónlist og er þarna eins og innfæddur, hans spilamennska og söngstjórnun gefur plötunni nauðsynlega breidd sem meistaraverk þurfa að hafa.
Að þessu sögðu er litlu við þetta bæta nema því að ég hef tekið Ágætis byrjun af stallinum sem besta plata íslenskar tónlistarsögu og krýnt Baldur sem hinn nýja konung, lengi lifi konungurinn!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.11.2008 | 23:58
Sigur Rós
Mér er algjörlega um megn að lýsa því í orðum hvernig þeir Sigur Rósar drengir fara að því að spila svona með mann en verð að reyna. Krafturinn, meistaraleg uppbygging laganna og sjónarspil ljósa (og vatns í tveimur lögum!) hrærir bara einhvern kokteil í hausnum á manni sem afar fáum hljómsveitum er gefið. Á tímum þegar búið er að steypa þjóðinni í ævintýralegar skuldir er hollt að minnast þess að það eru forréttindi að búa á heimavelli þessarar stórkostlegu hljómsveitar!
Svo ég eigi auðveldara með að rifja þetta upp fyrir barnabörnunum ætla ég renna stuttlega yfir hvenær ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá þá áður. Fyrsta skiptið var í Háskólabíói 30.okt 1999 í félagsskap Rölla nokkurs Pú sem féll eftirminnilega í dá á tónleikunum. Annað skiptið var á útgáfutónleikum tónlistarinnar úr Englum alheimsins í sal MS 15.mars 2000. Ég beið þess varla bætur að heyra Dánarfregnir og jarðarfarir á tónleikum. Þriðju tónleikarnir voru 20.október 2000 í Fríkirkjunni í Reykjavík, rétt eftir miðannarpróf í skólanum og án vafa eitthvað það magnaðasta sem ég hef reynt á tónleikaferlinum. Gott ef við Aggi vorum ekki að bisa við að klára verkefni rétt fyrir tónleika og mættum allveðraðir, illa sofnir og of seint niðrí kirkju. Tíminn stóð svo í stað við fyrsta tón, mann enn eftir lyktinni þarna inni og man enn betur þegar Aggi sofnaði.
Alltof langt leið þangað til ég sá Sigur Rós næst en það var á Hætta! tónleikunum 7.jan 2006 (löng saga af hverju ég var þar, Kárahnjúkastuðningsmaðurinn!) og þeir fimmtu voru svo Ásbyrgistónleikarnir 4.ágúst 2006. Síðan var það þessi uppákoma í kvöld. Ekki fæ ég mig til að gera upp á milli þessara kvölda sem hafa verið hver öðru magnaðra en alltaf finnst mér eins og þeir gefi algjörlega allt sem þeir eiga í viðkomandi kvöld og það skilar sér í hausinn á manni.
Takk fyrir mig Sigur Rós og takk Dóri fyrir að sjá til þess að ég missti ekki af þessu eins og glópur!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.3.2008 | 01:04
Gamlir vinir heimsóttir
Ég játa syndir mínar fúslega um að vera fórnarlamb hæp-maskínunnar, stinga gamla vini úr tónlistinni í bakið, láta þeirra diska sitja á hakanum vegna spennunnar að láta koma sér á óvart með einhverju nýju, eitthvað sem maður getur ekki staðsett fyrir fyrstu hlustun. En mikið er nú gaman að endurnýja kynnin.
Bloc Party slógu öll hæp met á sínum tíma þegar þeir gáfu út Silent Alarm. Eftir að hafa spilað hana gjörsamlega í tætlur var ég kominn með nóg í bili, svaf alveg rólegur þó þeir gæfu út A Weekend in the City fyrir rúmu ári og gleymdi þeim alveg. Lét loksins verða af því að kaupa hann í dásamlegri Fopp-ferð minni í desember og ekki sé ég eftir því. Hafa þróast nokkuð frá frumrauninni, krafturinn þó ennþá til staðar en diskurinn silki mjúkur á köflum, jafnvel útí danstónlist en þetta gengur allt saman upp.
Interpol eru öðlingar frá New York sem ég hlustaði mikið á 2004-2006, bootleg-nördinn kom upp í mér sem aldrei fyrr og ég sankaði að mér töluvert af tónleikum með þeim og framlengdi þannig líf tveggja stúdíó platna þeirra nokkuð. Þrátt fyrir það sýndi ég vítavert kæruleysi í að stressast ekki upp yfir útgáfu þeirra á Our love to admire í fyrrasumar. Blessaðir kallarnir, meistararnir, ég var bara hræddur um að þeir væru búnir að toppa og nú væri þetta niðrávið héðan af en þegar ég heyrði fyrsta lagið, Pioneer to the falls, vissi ég að veislan myndi standa lengur. Hann hefur enst einkar vel, eftir þétta spilun síðasta hálfa árið er hann enn ferskur sem nýupptekinn Hveravallatómatur. Eða eru tómatar niðurteknir?
Þriðji diskurinn sem mig langar að nefna er töluvert frábrugðinn þessum að ofan og kom út löngu áður en breska indí hæp-maskínan var fundinn upp, Revenge með Kiss en hann kom út 1992. Þá var ég að verða 13 ára og við pjakkarnir búnir að eyða síðustu 7 árum í að hlusta á þessa hljómsveit sem er jafn nauðsynleg ungum drengjum og mjólk hvítvoðungum. Kiss lögðu grundvöllinn að tónlistarlegu uppeldi okkar og þeim verður seint fullþakkað hversu vel þeir sinntu því verkefni. En 1992 var ekkert sérstaklega töff að hlusta á Kiss lengur, margir komnir yfir í harðari metal, Pantera, Metallica, Sepultura osfrv. Enn aðrir farnir að hlusta á eitthvert rappdót eða aðra nýmóðins töffaratónlist. Þannig að þegar ég sá Revenge í Ingvarsbúð læddist ég skömmustulegur með veggjum. Ekki var um annað að ræða en að kaupa diskinn þó ég gæti ekki farið hátt með það. Auðvitað var ég gjörsamlega yfir mig hrifinn af þessu, en ekki leyfði maður sér að tala hátt um það samt. Nú ætti að vera óhætt að segja frá þessu, maður verður vonandi ekki lagður í einelti úr þessu!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2008 | 13:06
Er eðlilegt að barma sér yfir þessu á föstudaginn langa?
Sex dögum síðar mun ég fara ásamt heiðursfólkinu Sverri Sigmundar og Rannveigu spúsu hans á Radiohead í London en þeir settu mig gjörsamlega á hliðina fyrir rúmum 10 árum með útgáfu OK Computer. Síðan þá hefur samband okkar verið stormasamt en ég fylgi þeim enn að málum þrátt fyrir að þeir hafi farið yfir öll mörk sérvitrunga.
Þetta er dágott plan og ef ég væri nægjusamur og skynsamur ætti ég ekki að þurfa að fara útúr húsi á árinu en samt vera sáttur. Ég er hinsvegar ekki nægjusamur og þegar kemur að þessari hljómsveit á ég erfitt með að vera skynsamur. Nú voru mér nefnilega að berast fréttir sem verða til þess að ég veit að ég mun verða eirðarlaus og ómögulegur hluta af árinu. Pearl Jam voru að tilkynna 10 tónleika á austurströnd Bandaríkjanna í júní! Þannig að dagana sem forsala aðdáðendaklúbbsins stendur yfir og svo aftur þegar tónleikarnir verða veit ég að ég mun gæla við þá veiku von að ég muni sjá eitthvert af þessum giggum. Það er þó fyllilega óraunhæft og tímasetning tónleikana gæti ekki verið verri hvað mig snertir en samt mun undirmeðvitundin reyna að koma mér þangað yfir. Til að bæta gráu ofan í svart munu Kings of Leon hita upp fyrri part ferðarinnar, þvílík örlög að missa af þessu!
Ef einhver eigandi einkaþotu les þetta og verður djúpt snortinn yfir þessu lúxusvandamáli, þá er númerið mitt í símaskránni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)