Færsluflokkur: Enski boltinn

Raunarsaga háskerpuneytanda

(Best að vara lesendur strax við, þessi færsla er langt og hundleiðinlegt nöldur um lúxusvandamál!)

Enski boltinn hjá 365 miðlum er merkilegt fyrirbæri.  Þegar þeir yfirbuðu Símann á sínum tíma var auglýst grimmt "Enski boltinn er kominn heim" enda höfðu þeir sinnt honum frábærlega nokkrum árum áður.  Himinhátt verð var greitt og að sjálfsögðu borga það engir aðrir en áskrifendur enda kostaði boltinn í fyrra ca 4 þús krónur m.12 mán bindingu sem var ansi súrt eftir 2000 kr. á mánuði miðað við 10 mánaða bindingu hjá Símanum.  Þetta var nú allt saman réttlætt með því að "svo til enginn" væri eingöngu með Enska boltann og ef þú værir með Stöð 2, Fjölvarpið og Sýn (nú Stöð 2 Sport) væri hækkunin nánast engin.  Hverjir eru með þann pakka?  Amk ekki ég eða nokkur kjaftur sem ég þekki.

Ég var hundfúll með þetta og ákvað að falla ekki fyrir því sem þeir gerðu greinilega ráð fyrir í útboðinu, "aðdáendur enska boltans borga hvað sem er".  Þeir eru jú með einokunarstöðu og nýta sér það. 

Þannig að síðasta vetur var ég uppá ættingja og vini kominn og þrátt fyrir að það hafi verið stórskemmtileg taktík matarlega séð missti ég fyrir vikið af alltof mörgum leikjum og sór þess eið í vor að reyna þetta ekki aftur.

Ég tók mér svo ágúst í að melta þetta en sprakk í gær og ákvað að nú skyldi ég beygja mig niður og bjóða 365 aðgang að óæðri endanum ásamt veskinu mínu.  Nú er ég nefnilega svo vel búinn að geta horft á sjónvarp í háskerpu og sú freisting að sjá enska boltann með þeim hætti bar skynsemina ofurliði.

Gott og vel, ég hringdi í 365 í gærkvöldi og fékk staðfest sem ég taldi mig vita, til að geta keypt háskerpurásina á 1.690 kr. á mánuði þyrfti ég einnig að kaupa Stöð 2 Sport 2 (þjált nafn) sem er Enski boltinn.  Hún kostar 4.171 kr. á mánuði miðað við 12 mánaða bindingu  þannig að ég var þarna kominn uppí tæpan 5.900 kall fyrir enska boltann.  Það er ansi vel í lagt en mér fannst ég hafa kennt þeim næga lexíu að sleppa síðasta vetri þannig að nú skyldi maður láta sig hafa það!  Stúlkan benti mér vingjarnlega á að panta á netinu til að fá 30% afslátt fyrsta mánuðinn, sækja svo ruglarann til Vodafone og ganga frá háskerpu-rásinni þar en það er ekki hægt af netinu af einhverjum ástæðum.

Léttur á fæti og að springa úr eftirvæntingu fór ég í Vodafone í Skútuvogi seinnipartinn.  Hafði varla sofið af eftirvæntingu við að sjá háskerpu í ofur-sjónvarpinu!  Allt gekk prýðilega þangað til sölumaðurinn fór að vinna í afslættinum og komst þá að því að ekki er nóg að borga tæpar 71 þús kr. á ári til að fá enska boltann ásamt háskerpupakkanum, maður verður nefnilega líka að vera með Stöð 2 Sport! (gamla Sýn).  Ég skyldi það nú ekki, enda er ég búinn að vera að fylgjast með því hvaða leiki er verið að sýna á háskerpurásinni og þar er bara enski boltinn, amk í ágúst og september (maður sér ekki lengra fram í tímann), 2-3 leikir um hverja helgi.  Hvað kemur Stöð 2 Sport þá málinu við ef mig langar að sjá enska boltann í HD?

Stöð 2 Sport er vitanlega ekki gefins þannig að ég hefði þurft að bæta við tæpum 3.000 kr. á mánuði.  Þá er ég kominn uppí tæpar 9.000 kr. næstu 12 mánuði vegna þess hvað mig langar mikið að horfa á nokkra leiki með Liverpool og enska í háskerpu!  Það er hreinlega bilun og ég sagði nei takk.  Hringdi aftur í Þjónustuverið til að fullvissa mig um að þetta væri virkilega svona og núna fékk ég önnur svör en í gærkvöldi (þau réttu því miður), þetta er víst eina leiðin en ekki gat hún sagt mér af hverju enda er það rannsóknarefni fyrir doktorsnema í afleiðuviðskiptum.

Glórulaust!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband