Raunarsaga háskerpuneytanda

(Best að vara lesendur strax við, þessi færsla er langt og hundleiðinlegt nöldur um lúxusvandamál!)

Enski boltinn hjá 365 miðlum er merkilegt fyrirbæri.  Þegar þeir yfirbuðu Símann á sínum tíma var auglýst grimmt "Enski boltinn er kominn heim" enda höfðu þeir sinnt honum frábærlega nokkrum árum áður.  Himinhátt verð var greitt og að sjálfsögðu borga það engir aðrir en áskrifendur enda kostaði boltinn í fyrra ca 4 þús krónur m.12 mán bindingu sem var ansi súrt eftir 2000 kr. á mánuði miðað við 10 mánaða bindingu hjá Símanum.  Þetta var nú allt saman réttlætt með því að "svo til enginn" væri eingöngu með Enska boltann og ef þú værir með Stöð 2, Fjölvarpið og Sýn (nú Stöð 2 Sport) væri hækkunin nánast engin.  Hverjir eru með þann pakka?  Amk ekki ég eða nokkur kjaftur sem ég þekki.

Ég var hundfúll með þetta og ákvað að falla ekki fyrir því sem þeir gerðu greinilega ráð fyrir í útboðinu, "aðdáendur enska boltans borga hvað sem er".  Þeir eru jú með einokunarstöðu og nýta sér það. 

Þannig að síðasta vetur var ég uppá ættingja og vini kominn og þrátt fyrir að það hafi verið stórskemmtileg taktík matarlega séð missti ég fyrir vikið af alltof mörgum leikjum og sór þess eið í vor að reyna þetta ekki aftur.

Ég tók mér svo ágúst í að melta þetta en sprakk í gær og ákvað að nú skyldi ég beygja mig niður og bjóða 365 aðgang að óæðri endanum ásamt veskinu mínu.  Nú er ég nefnilega svo vel búinn að geta horft á sjónvarp í háskerpu og sú freisting að sjá enska boltann með þeim hætti bar skynsemina ofurliði.

Gott og vel, ég hringdi í 365 í gærkvöldi og fékk staðfest sem ég taldi mig vita, til að geta keypt háskerpurásina á 1.690 kr. á mánuði þyrfti ég einnig að kaupa Stöð 2 Sport 2 (þjált nafn) sem er Enski boltinn.  Hún kostar 4.171 kr. á mánuði miðað við 12 mánaða bindingu  þannig að ég var þarna kominn uppí tæpan 5.900 kall fyrir enska boltann.  Það er ansi vel í lagt en mér fannst ég hafa kennt þeim næga lexíu að sleppa síðasta vetri þannig að nú skyldi maður láta sig hafa það!  Stúlkan benti mér vingjarnlega á að panta á netinu til að fá 30% afslátt fyrsta mánuðinn, sækja svo ruglarann til Vodafone og ganga frá háskerpu-rásinni þar en það er ekki hægt af netinu af einhverjum ástæðum.

Léttur á fæti og að springa úr eftirvæntingu fór ég í Vodafone í Skútuvogi seinnipartinn.  Hafði varla sofið af eftirvæntingu við að sjá háskerpu í ofur-sjónvarpinu!  Allt gekk prýðilega þangað til sölumaðurinn fór að vinna í afslættinum og komst þá að því að ekki er nóg að borga tæpar 71 þús kr. á ári til að fá enska boltann ásamt háskerpupakkanum, maður verður nefnilega líka að vera með Stöð 2 Sport! (gamla Sýn).  Ég skyldi það nú ekki, enda er ég búinn að vera að fylgjast með því hvaða leiki er verið að sýna á háskerpurásinni og þar er bara enski boltinn, amk í ágúst og september (maður sér ekki lengra fram í tímann), 2-3 leikir um hverja helgi.  Hvað kemur Stöð 2 Sport þá málinu við ef mig langar að sjá enska boltann í HD?

Stöð 2 Sport er vitanlega ekki gefins þannig að ég hefði þurft að bæta við tæpum 3.000 kr. á mánuði.  Þá er ég kominn uppí tæpar 9.000 kr. næstu 12 mánuði vegna þess hvað mig langar mikið að horfa á nokkra leiki með Liverpool og enska í háskerpu!  Það er hreinlega bilun og ég sagði nei takk.  Hringdi aftur í Þjónustuverið til að fullvissa mig um að þetta væri virkilega svona og núna fékk ég önnur svör en í gærkvöldi (þau réttu því miður), þetta er víst eina leiðin en ekki gat hún sagt mér af hverju enda er það rannsóknarefni fyrir doktorsnema í afleiðuviðskiptum.

Glórulaust!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru til nokkarar leiðir fyrir þig í þessu máli. Þú getur t.d lagt saman þessa 9000kr í 12m. og skellt þér til Englands og farið á leik með Liverpool í óendanlegri háskerpu, allaveganna eins mikið og augað leyfir  (reyndar samt bara 1 leik). Eða þú getur skoðað kosti þess að fá þér Sky HD og alla leikina í háskerpu ásamt öðrum stöðvum ( það er samt startkostnaður og mánaðarkostnaður en þess virði segja þeir sem eiga). Það síðasta er að gera eins og ég og félaginn, það er að kaupa áskrift af öllu draslinu mínus stöð 2 fá sér líka aukaafruglara sem afruglar allar sportrásirnar og deila síðan kostnaðnum í tvennt. (ekki háskerpa en allir leikirnir fyrir minni pening). Ekki segja of mörgum frá því þá loka þeir örugglega á scammið okkar.

 Góðar stundir

Konni

Konni (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 23:08

2 identicon

Svo má ekki gleyma að þetta eru bara örfáir leikir sem sýndir eru í HD.

Sky stöðin í Bretlandi tekur um 1000 kall fyrir HD lykil á mánuði en þar sýna þeir margfalt meira efni í HD - ekki bara einn og einn fótboltaleik.

Meðan þetta ræningjaviðhorf er í gangi hjá 365 lætur maður sér nægja að horfa á alla leiki í SD.  Réttast væri að fara upp á Krókháls og skila þessu öllu saman.

Einar (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 12:55

3 identicon

Þetta sýnir bara að 365 stefna að einokun á fjölmiðlamarkaði.  Þeir hafa keypt upp útvarpsstöðvar og lokað þeim svo t.d Reykjavík Rock, KissFM o.fl.  Einnig tóku þeir Sirkus yfir sem var alltaf opin, og lokuðu henni. 

Nú vilja þeir að RUV fari af auglýsingamarkaði (svo þeir geti einokað þann markað) og að RUV sýni einungis samfélagslegt efni, en ekki afþreygingarefni ef neinu tagi, einnig að RÁS 2 verði lögð niður, einungis svo að 365 sitji eitt að þessum markaði.

Fjölmiðlaneytandinn (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 13:32

4 identicon

Hví eru menn að skipta við 365 í fyrsta lagi?  ITV og BBC hafa tryggt sér sýningarrétt á öllum þessum leikjum meira og minna og senda þá út frítt... jafnvel í HD.  Bara skunda niður í Eico eða Elco... kaupa græjurnar (frá ca. 20þús) og engin áskrift meira... fyrir utan allt hitt efnið sem er þar frítt... allir þættir og bíómyndir.  Menn eiga ekki að láta bjóða sér svona!

Funi (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 13:48

5 identicon

Sæll frændi góður,

kannast alltof vel við nákvæmlega þetta sama vandamál þar sem ég stóð í stappi við 365 út af þessu þegar ég keypti mér áskriftina á síðasta tímabili, var reyndar kominn með allt heim og búinn að tengja þegar þessir áskriftarskilmálar komu í ljós, mjög gaman af því enda margspurði ég að þessu þegar ég gekk frá áskriftinni. Fékk samt að sjá nokkra leiki í HD þar sem ég hef mikinn sannfæringarkraft í gegnum síma  og get staðfest að það er mikill myndgæðamunur.

SD útsendingin er samt alveg fín, amk miklu betri heldur en síminn bauð upp á í gegnum breiðbandið sem var á tíðum algjört djók jafnvel í crap sjónvarpi.

Hef tekið þann pól í hæðina að sætta mig bara við SD útsendinguna sem er fín,  engan vegin að tíma þessu peningaplokki fyrir e-h örfáar HD útsendingar....

Finnst þetta samt fáránlegt og villandi hjá 365, hafði líka samband við neytendasamtökin út af þessu en það kom ekkert út úr því

Gummi frændi (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 15:05

6 identicon

Svo er náttúrulega SopCast sem er algjör snilld... Engin háskerpa en manni líður betur í bossanum

Daði (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 15:53

7 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Þakka góðar ábendingar, mér líður strax betur að sjá að ég er ekki einn um að klóra mér í kollvikunum yfir þessu.

Sky pakkinn er auðvitað eitthvað sem kemur fyrir í draumum manns amk vikulega enda stórkostlegt dæmi alltsaman, ekki bara íþróttirnar heldur stöðvaúrvalið, margfalt betri tækni osfrv.  Ég bý hinsvegar í blokk og þarf að fá leyfi frá öllum íbúðum í öllum stigagöngum hússins til að láta mér detta í hug að fara í það mál.  Auðvitað er það ekki óyfirstíganlegt en ásamt start-kostnaðinum hefur það samt dugað til að halda mér frá Eico... hingað til.  Ef einhverjir nágrannar mínir eru að lesa þetta mega þeir gefa sig fram svo ég viti hvar ég á bandamenn

Sérstaklega gaman að fá innlegg frá þér frændi, þið bræður eruð ávallt í mínum huga á stalli með Steve Jobs, Gates og Ballmer þegar kemur að tækjaþekkingu.  Maður fór nýr og frelsaður maður norður eftir hverja heimsókn í Logalandið!

Karl Hreiðarsson, 3.9.2008 kl. 23:19

8 identicon

Langar þig svona virkilega mikið til að sjá kyut (Kát duglega) í háskerpu?

rolli (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 15:14

9 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

365 hafa auðvitað hagað sér eins og raknir glæpamenn í þessu máli og ég verð bara að segja að ég er ekki sammála því að þeir hafi staðið sig betur en Síminn hvað varðar útsendingu enska boltans, allavega hökti útsendingin ekki svona skelfilega oft og mikið hjá símanum eins og hún gerir hjá 666 miðlum... afsakið 365.

Svo er annað sem ég verð að koma á framfæri Karl, ég veit að ég sagði við þig í orðum að ég ætti erfitt með að sjá þig klóra þér í kollvikunum. Það er auðvitað mannvonska hjá mér að vera að draga þetta fram aftur en ég vildi tryggja að þetta væri til á rafrænum miðli.

 Góðar stundir.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 4.9.2008 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband