Hér hófst það allt...

Skálmöld - Baldur

Það gerist ekki oft að maður viti það fyrirfram að sögulegir tímar séu í nánd.  Þökk sé demo-útgáfu í sumar og handfylli af ótrúlegum tónleikaframmistöðum er það fullljóst að morgundagurinn, 15. desember 2010, verður sögulegur dagur í íslenskri tónlistarsögu.  Skálmöld gefur Baldur loksins út. 

Þrátt fyrir króníska bloggleti hef ég ekki komist hjá því að fjalla um þessa hljómsveit.  Demo-útgáfuna skrifaði ég um hér og svo kom ég heim í losti eftir tónleika á Sódómu og skrifaði Össurslegan pistil á Össurarlegum tíma hér.  Ef til vill finnst einhverjum hér stórt tekið upp í sig, en eftir nokkra mánuði í viðbót af meltun demo-útgáfunnar, ásamt ennþá magnaðri tónleikaframmistöðu í nóvember (sjá á Jútjúb ) sé ég að ég þarf að taka upp þennan dóm frá grunni og passa vandlega að hvergi sé notað annað en efsta stig lýsingarorða.   Sagan af Baldri, textarnir sem segja þá sögu, heilindin í þessari útgáfu allt í gegn að ónefndu grípandi rokkinu á ekki jafningja í íslenskri tónlist.  Nema ef vera skyldi Björgvin Halldórsson.  Djók...

Fyrir þá sem ekki eru fyrir metalinn vil ég nú samt hvetja fólk eindregið til að gefa þessu tækifæri og leggja til hliðar fyrri reynslu.  Hér hefst þetta allt (náði einhver KÞ-tilvísuninni í fyrirsögninni?) og ólíklegasta fólk hefur viðurkennt fyrir mér í myrkum skúmaskotum að þetta sé náttúrulega meistaraverk.   Ljóshærðir kvenmenn þar á meðal (með fullri en ögn óttablandinni virðingu fyrir þungarokkssmekk ljóshærðra kvenna almennt).

Skálmöld hefur haft virkilega góð áhrif á mína tónlistarhlustun í haust.  Hef ég leitað til baka í þungarokksræturnar og hlustað mun meira á metal heldur en síðustu ár.  Það er, eins og þarf ekki að taka fram, afskaplega gefandi og karlmannlegra heldur en blessað indie-ið sem ég tek með í bland.  

Jæja gott fólk, þetta er orðið gott af bloggi í bili, mér fannst bara brýnt að koma þessu á framfæri við Internetið, lá meira á þessu heldur en að byrja á jólakortunum.  Þannig að ef þú færð kortið þitt of seint í ár veistu af hverju.

Til hamingju Ísland, Skálmöld er upprisin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög nauðsynleg og frábær plata. Orðið er enda stíft boðað þessa dagana.

Jói Hermanns (IP-tala skráð) 19.12.2010 kl. 18:00

2 identicon

Nú er ég búinn að liggja yfir þessu undanfarið.  Tek undir með þér að hér er um tæra snilld að ræða! Tæra!

Bragi (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband