Útsvar, Samfylking og blessuð Kinnarfjöllin

Ég hef komist að því að þessi vettvangur er ágætur til að játa syndir sem ég hélt að þyldu ekki dagsins ljós.  Þessi synd sem ég ætla að játa núna er reyndar gríðarlega slæm en ég get ekki einfaldlega ekki afneitað þessu.  Eins og áður hefur komið hér fram hef ég sérstakt dálæti á spurningaþáttum.  Vinsælt hefur verið í vetur að dissa spurningaþáttinn Útsvar sem mér þykir aftur á móti prýðilegur og missi alls ekki af honum ótilneyddur.  Það er þó ekki vafasamt í sjálfu sér heldur er það liðið sem ég styð eftir að Norðurþing féll úr keppni. Jamm, haldið ykkur fast, ég styð nefnilega lið Akureyrar í keppninni!  Það er einfaldlega ekki annað hægt, þvílíkt endemis all-star lið sem þarna er komið saman!  Tveir öflugustu spurningakeppnamenn landsins ásamt sómakonunni Arnbjörgu Hlíf sem var góðvinkona mín þegar við vorum kaupfélagsstjórabörn.

Sveitarfélög þessa lands hafa annars engan veginn sýnt nógu mikinn metnað í þessari keppni.  Mikið hefur verið lagt uppúr því að hafa þekkt andlit, þó þau geri gjörsamlega í brækurnar.  Nær væri að draga upp helstu nirði sveitarfélagana, burtséð frá því hvort þeir séu sveittir, skítugir, feimnir, gormæltir eða þola almennt ekki dagsins ljós.  Þarna eiga menn að sjálfsögðu að spila til sigurs!  Svona keppnir snúast alls ekki um að hafa gaman af þeim heldur heiður sveitarfélagsins.

---
Stjórnarandstöðugírinn.  Ég á erfitt með að komast í hann, þ.e. að tapa mér í móðursýki yfir öllu sem ríkisstjórnin gerir og froðufella yfir hverju einasta hitamáli sem upp kemur.  Öfugt við Kommúnistaflokk Íslands sé ég enga ástæðu til að missa þvag þó Geir og Ingibjörg hafi reiknað út að hagstæðara væri að fara með einkaþotu á NATO fund heldur en með áætlunarflugi í gegnum Heathrow.  Ef þeir útreikningar reynast réttir er það hið eðlilegasta mál, þ.e. peningalega séð. Hinsvegar er þetta enn eitt gott dæmi um að Samfylkingin var að sjálfsögðu úlfur í sauðagæru þegar þau settu upp umhverfisverndargrímuna í fyrra.  Einkaþotur eru ekki umhverfisvænn ferðamáti, þó þær séu vafalaust þægilegar.  Össur sagði í vikunni að ríkisstjórnin myndi ekki koma í veg fyrir álver í Helguvík vegna þess að það þyrfti lagasetningu til!  Það er eitthvað nýtt að ríkisstjórnin geti ekki sett lög, fyrir ári talaði Samfylkingin eins og lög ríkisstjórnarinnar réðu veðurfarinu, nú er ríkisstjórnin viljalaust verkfæri utanaðkomandi aðstæðna sem virðist ekki hafa nokkur ítök í löggjafarsamkomunni.  Þórunn Sveinbjarnar innsiglaði þessa stöðu Samfylkingarinnar með að hafa ekki bein í nefinu til að hafna ákvörðun Skipulagsstofnunar.  Eitthvað hefði nú heyrst frá Samfylkingunni ef Jónína Bjartmarz hefði gert það sama. 

Stórkostlegur vindhanaflokkur Samfylkingin.  Hver man eftir orði um ESB í síðustu kosningabaráttu, einni sjónvarpsauglýsingu, einni útvarpsauglýsingu eða einni blaðaauglýsingu um ESB?  Neibb, það var ekki neitt sem minnti kjósendur á ESB, enda var stuðningur við ESB aðild á niðurleið á þeim tíma.  Samfylkingin sagði ekki orð þá en leikur á alls oddi núna þegar meira en helmingur þjóðarinnar styður ESB-aðildarviðræður, þó þau hafi samþykkt stjórnarsáttmála sem boðar algjöra kyrrstöðu í þessum málum.

---
Árangur þessarar síðu er ótvíræður.  Eins og ég kynnti í upphafi er árangur síðunnar mældur í gengi Framsóknarflokksins í Þjóðarpúlsi Gallups.  Flokkurinn fór upp um 1% í mars sem er svo sannarlega skref í rétta átt og í átt að langtímamarkmiði síðunnar.   Í tilefni af þessu hefur verið blásið til nýrrar sóknar með nýju útliti en það gamla var forkastanlega ljótt.  Græni liturinn var það eina jákvæða við það en nú var honum fórnað til að litirnir myndu tóna við þennan glæsilega haus.  Hér er auðvitað um að ræða Skjálfanda sjálfan með glæsilegasta fjallgarð veraldar í baksýn, Kinnarfjöllin.  Hér tala ég auðvitað sem óhlutdrægur almennur gagnrýnandi fjallgarða, tek það fram.  Unnur fær þökk fyrir þessa glæsilegu mynd sem ég þurfti reyndar að klippa óþarflega mikið til að passa hér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bumba

Fyrirgefðu Karl, má ég segja hérna eitt: NIÐUR MEÐ SAMFYLKINGUNA. Með beztu kveðju.

Bumba, 4.4.2008 kl. 23:29

2 identicon

Útsvar er góður þáttur! Horfði á hann kl 11 í gærkvöldi - á föstudagskvöldi tek ég fram - á netinu! Pálmi er að halda sér þarna og Erlingur meistari eintak sem vert er að vernda mjög. Arnbjörg vinkona þín er líka fín - en á ekki break í the ultimate duo.

Kinnarfjöllin sannarlega tignarlegust allra. Svo tilkomumikill og glæsilegur er þessi fjallgarður að í það minnsta einu fjallanna dugar ekki eitt nafn heldur þrjú, eftir því hvaðan á það er litið. 

Líkt og Galti, Ófærufjall og Bakrangi hefur sannleikurinn margar hliðar eins og okkar maður H.K. Laxness ritar í Íslandsklukkunni.

Hugsanlega er sannleikskornið í þessu eitthvað sem vindhanar Samfylkingarinnar nota nú óspart í orðræðu sinni um þessar mundir - eða hvað?

Kristján Þór (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 13:30

3 identicon

Ég styð Fljótsdalshérað. Ég held að þau séu ennþá með í keppninni. Hvernig er annað hægt en að styðja afdalabónda sem á ekki sjónvarp? Ha?

Allt sem þú hefur sagt um Samfylkinguna er svo kórrétt.

Kinnafjöllin er fín, en ég hefði nú frekar kosið Skollanafir eða Mánárnúp. 

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 16:38

4 identicon

alveg nauðsynlegt...."má ég kynna-fjöllinn".

Samfylkingin...tja ekki góð oná brauð

Fljótdalshérað er að sjálfsögðu mitt lið..."afdalabóndinn" líkt jesú nefnir hann (man bara ekki hva hann heitir) heldur sér þétt og er þar að auki sonur Gústu á Refstað sem skyggir ekki neitt á fræðgarsól hans.

auðvitað áttir þú að taka þátt Kalli sem fulltrúi Norðurþings - ekki af því að þú ert gormæltur heldur einnig forkunarfagur og mannvitsbrekka...það er alveg komið að þeim tímapunkti að spurt verði um dos stýrikerfið - hefði því verið gott að hafa þig þar me

rodull (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 09:32

5 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Kinnarfjöll? Ekki finnst mér mikið varið í þessa hóla þarna vestan megin við Skjálfandann. Hinsvegar er fjallahringurinn sem umlykur Fljótsdalshéraðið hið fegursta guðsverk sem prýðir þessa jörð. Ekki er neitt Snæfell við skjálfandann, Botndalsfjall, Skúmhöttur, Dyrfjöll, Beinageitarfjall, Smjörfjöll. Ó nei, samanburðurinn er Skjálfandanum svo sannarlega í óhag.

Annars er þetta bara trix með að segja að bóndinn knái í liði Fljótsdalshéraðs hafi ekki sjónvarp. Trix sem hefur svínvirkað og mun leiða hið fagra hérað til sigurs í þessum ágæta þætti.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 7.4.2008 kl. 12:25

6 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Ég hef ekki séð þátt með Fljótsdalshéraði en afdalabóndinn hljómar eins og minn maður.  Það breytir samt ekki blóðböndum mínum við Akureyrarliðið, Draumalið spurningakeppna.  Það eina sem þau vantar er HIV smitaður njörður til að fullkomna samlíkinguna við Draumaliðið á Ólympíuleikunum 1992.

Snæþór, Snæfellið er stórglæsilegt en þessir hólar sem þú varst að nefna þess utan þekkir auðvitað ekki nokkur maður fyrir utan þig, mömmu þína og sonur Gústu á Refstað (þökkum Rölla fyrir ættfræðina, setti þetta allt í samhengi).  Líklega bjóstu þessi nöfn til sjálfur, það heitir ekkert fjall með vott af sjálfsvirðingu Beinageitarfjall! Örugglega ágætis bungur samt.

Úff, nú mun ég líklega verða skotinn af stuttu færi í fyrramálið af hópi austfirðinga. Best ég grafi upp fyrir svefninn skothelda vestið sem ég keypti til að geta farið útúr húsi í Reykjavík eftir útgáfu Draumalands Andra Snæs.

Karl Hreiðarsson, 7.4.2008 kl. 22:51

7 Smámynd: Stefán Bogi Sveinsson

Nei nú er mér nóg boðið Karl Hreiðarsson! Beinageitarfjallið er svo sannarlega til og engin andskotans bunga! Og ef þú segir annað orð til að hallmæla Dyrfjöllunum (eða Dyrfjallinu eins og Sævar frændi í Rauðholti segir), þá verður þú tekinn af bloggvinalistanum fyrir fullt og fast. Einnig mótmæli ég hugtakinu ,,afdalabóndi, þar sem Þorsteinn Bergsson (sem því miður er ólæknandi kommúnisti) býr að Unaósi sem er ysti bær á héraði. Þar af leiðandi alls ekki inni í neinum dal. Það er hins vegar að sjálfsögðu á góðu von frá syni Ágústu á Refstað í Vopnafirði. Annars heyrði ég einhvern tíma að þessi ágæti bóndi ætti þekktan hálfbróður sem hefði í gegnum tíðina dundað sér við að leika knattspyrnu. 

Stefán Bogi Sveinsson, 9.4.2008 kl. 13:13

8 identicon

Í Íslandklukku Halldórs Laxness stendur:
„Það er til fjall í Kinninni fyrir norðan, sem heitir Bakrangi, ef maður sér austaná það, Ógaungufjall, ef maður stendur fyrir vestan það, en utanaf Skjálfanda kalla sjófarendur það Galta."

Ógöngufjall því við nenntum ekki að reyna að labba þarna upp. Þó voru stundum kindur þarna. Þær voru bara settar á.

Samanburður við þennan forgarð Himnaríkis er óþarfur, og í raun hlægilegur þegar kemur að Tjörnesinu Alli;)

Ég hef nokkuð góðar heimildir að Himnaríki og Kinnin séu nánast alveg eins.

Hér finn ég þig Karl! Mikil lifandis skelfingar ósköp er ég ánægður með að þú skulir halda úti svona ljómandi skemmtilegri síðu. Það er alltaf fjör þegar menn sem vita hvað þeir syngja, syngja.

Kveðjur bestar,

Tóti

Jói Kr. (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband