Nou Camp = kirkjugarður, trukkafólk og eigin geðbrestir

Fyrir menn sem blogga 2-3svar í mánuði er bókað að bloggin verða of löng.  Fyrir þá sem hafa kvartað yfir lengdinni (já Snæþór, ég er að tala um þig) bendi ég á að hægt er að búta lesturinn niður og dreifa honum niðrá vikudagana.

----
Ég hef því miður séð alltof lítið af fótboltaleikjum í vetur sökum þrjósku minnar við að versla ekki við Stöð 2 Sport, en þeir fáu sem ég hef séð hafa nánast allir verið með Liverpool.  Því taldi ég mig eiga von á góðu þegar ég sá síðari hálfleik Barcelona og Man Utd í gærkvöldi, ekki hafa ManU menn sparað stóru orðin um gæði síns liðs og þá sér í lagi hversu skemmtilegir þeir eru og þá fylgir iðulega hversu leiðinlegan bolta Liverpool spila.  Þetta var nú samt án vafa það leiðinlegasta sem ég hef séð í sjónvarpi síðan ég þrældi mér í gegnum Rachel Ray þátt um árið.  Þvílík endemis leiðindi og andleysi.  ManU spiluðu þetta auðvitað skynsamlega en þessir meintu snillingar frá Barcelona hefðu nú kannski mátt láta sér detta einhvern tíma í hug að gera ekki það nákvæmlega sama og misheppnaðist í síðustu sókn. 

Hugsanlega er afstaða mín lituð af því að ég horfði á leikinn í blautum baðslopp.  Ég fékk þó öl með þessu þannig að það vann á móti blauta baðsloppnum.  (Bara svo lesendur haldi ekki að ég leggi í vana minn að horfa á fótbolta í blautum baðslopp heima hjá mér var þetta partur af Laugaferð góðra manna sem gerðu misgóða hluti í fótboltamóti í vinnunni).

---
Vegna þessa fótboltamóts í gær missti ég af fréttum og umræðum í Kastljósi um vörubílstjóra og þessi svokölluðu mótmæli þeirra í gær.  Hef litlu við bloggflóðið um það að bæta nema mér þykir merkilegt hvað sumu fólki þykir lítið að því að hindra aðgerðir lögreglu.  Jú einu hef ég við þetta að bæta.  Sá part af beinu útsendingunni á Rúv uppúr hádegi í gær og einhvern veginn kom mér ekki á óvart að sjá leikara í hópi áhorfenda þarna.  Hann var kannski bara að taka bensín á Olís, hvað veit ég, en til að forðast múgsefjun leikara í athugasemdakerfinu segi ég ekki meira í bili.   Ef fólk vill heyra meira er það velkomið í heimsókn, við vorum að fá nýjan sófa þannig að nú þurfa gestir ekki að óttast miltisbrandssmit úr þeim gamla.

---
Þessi vettvangur hefur reynst mér vel til að játninga af ýmsu tagi og því ætla ég að enda þetta með einni slíkri.  Hún er reyndar svo pervisinn og afbrýðileg að ég býst fastlega við að vera lagður inn.  Það kemur fáum á óvart sem mig þekkja að ég er óforskömmuð merkjapíka á ákveðnum sviðum.  Þarna erum við ekki að tala um Innlits-útlits merkjapíku, mér gæti ekki verið meira sama þó Gunnar Birgisson hefði hannað hjá mér baðkarið frekar en Philippe Starck sem Vala Matt hefur ófáum sinnum hampað sem Messíasi í þáttum sínum. 

Ég á hinsvegar verulega bágt þegar kemur að raftækjum.  Nýlega endurnýjaði ég iPoddinn minn og keypti 8gb iPod Nano sem er að reynast mér prýðilega þrátt fyrir skammarlega lítið diskapláss.  Þegar ég pantaði hann ákvað ég að panta í leiðinni "armband" til að hafa hann á upphandleggnum við uppvaskið.  Ég skoðaði fjölmargar útgáfur og eyddi drjúgum tíma í að lesa dóma, samt vissi ég alltaf innst inni að eingöngu eitt kæmi til greina, algjörlega burtséð frá góðum dómum og verði.  Það er þetta hér.  Fyrir hið óþjálfaða auga virðist þetta vera bara eins og hvert annað "armband" en nei, þetta er nefnilega það eina fyrir minn iPod sem er frá Apple.  Og það er akkurat málið, ég bara gat ekki hugsað mér að setja Apple iPoddinn minn í eitthvað annað en frá Apple.

Jamm, þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, en svona er þetta nú samt.  Þarna kostaði þessi geðveila mig 20 dollara.  Þetta dæmi er auðvitað bara toppurinn á ísjakanum en ég get ekki lagt meira á ykkur í bili þrátt fyrir að eiga skuggaleg dæmi um Sony videóvél og Case Logic tösku, svona leyndarmálum verður maður að ljóstra upp hægt og hljótt.

Gleðilegt sumar gott fólk og takk fyrir að lesa.  Gaman að sjá hversu mikið endemis sómafólk leggur leið sína hingað þrátt fyrir að fá auðvitað ekki nýtt blogg nema á nokkurra vikna fresti.  Þetta er bara ekki spurning um magn heldur gæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já sælir og takk fyrir síðast...eitthva vorum við framlágir er nálgaðist 40. hringtorgið í mosó...þó ekki eins framlágir og "Andrés" félagi minn frá Hvammstanga akkúrat á sama stað hér í denn.

..."finnst þér ekki presley fínn"?

Fróðlegt væri að sjá baðhönnunarlínu Gunnars, ekki ólíklegt að hún yrði jafngóð og gatnakerfishönnunin í Kópavogi. Alls ekki verra væri að heyra hann presentera baðlínuna.

það kemur alls ekki á óvart að leikari hafi verið á svæðinu upp við Rauðavatn...enda leikarar helstu mannvitsbrekkur íslands og þó víðar væri leitað...ætli maður hafi ekki séð svona 100x fleiri viðtöl við leikara um miðbæjarskipulag en arkitektum (sem eiga víst að vera sérfræðingar í málunum eftir 6-8 ára nám)...og hægt væri að taka fleiri dæmi þar sem leikarar eru spurðir spjörnum úr frekar en viðeigandi fagstétt.

...annars hef ég ekkert á móti leikurum sko...Ingimundur var alltaf traustur, tala ekki um gunna jó.

fólk hefði átt að sjá á þér svipinn í þessi 3 skipti sem IPhone var nefndur um sl. helgi...veit eiginlega ekki hvaða samblanda hann var...sorg, öfund, paranóju, geðhvarfasýki,þunglyndi, miltisbrandi og eyrnaverki. Gleði var ekki sjáanleg.

finnst þér Rachel Ray leiðinleg? haaa, bíddu hvernig í ósköpunum? hún er alltaf að redda öllum og elda ofan í mann.

Gleðilegt sumar, þakka veturinn harða (ekki reyndar fyrir okkur norðanmenn)

áfram Barca

rolli (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 03:01

2 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

Gleðilegt sumar frændi.

kveðja Halli

Hallgrímur Óli Helgason, 25.4.2008 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband