Uppfærsla á augum, critical update v. 3.05

Þegar Windows eða annar hugbúnaður tilkynnir að ný uppfærsla sé tilbúin til niðurhals er ég fljótur til að uppfæra tölvuna, burtséð frá því hvort ég sé í eigin tölvu eða hjá öðrum.  Ég er nú ekki að þessu af vírusahræðslu heldur vegna þeirrar bjargföstu trúar að ný útgáfa sé á einhvern hátt betri, með nýjum fítusum eða stöðugri.  Þess vegna er alveg magnað að þegar ég vissi í júlí 2007 að augun í mér gætu séð betur hafi ég beðið í tæpt ár með að uppfæra þau, eða þ.e.a.s gleraugun.  Ætli væntumþykja á gömlu gleraugunum og aurum í bland við rótgróna íhaldssemi hafi ekki tafið mann því tilfinningin að setja upp gleraugu með nýjum glerjum er alveg mögnuð, allt verður skarpara á einu augnabliki.  Fyrir þá sem þurfa ekki gleraugu er best að lýsa þessu með að skoða myndina í flatskjáunum á skaplegu verði í Elko og skoða svo draumatækið mitt, Philips 37PFL9732D

Leið reyndar eins og ég hefði drukkið kippu á örskotsstundu því heilinn var lengur en ég hef kynnst áður að stilla sig inná nýju græjurnar.  Hann er búinn að uppfæra sig núna eftir nóttina sem reyndar var óvenju löng því pjakkur litli er lasinn og taldi sig þurfa að ræða heimsmálin kl. 4:30 í nótt.  Minnir óneitanlega á ónefnda vini!

Gleraugu eru svo áberandi útlitseinkenni á sköllum eins og mér að næstu vikur veit ég að margir eiga eftir að líta tvisvar áður en manni er heilsað, fyrir utan hina gullvægu spurningu, "varstu að fá ný gleraugu" þegar það er jafn augljóst fyrir þá sem maður umgengst daglega og að ég myndi birtast einn daginn í vinnunna með tattú á enninu.  Það er nú allt í góðu samt, ég tek t.d. stundum ekki eftir því þótt konur séu óléttar fyrr en þær eru komnar hálfa leið uppá fæðingardeild þannig að maður getur ekki mikið sagt...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Ein sterkasta minningin frá því að ég var ungur er þegar ég setti upp gleraugu í fyrsta skipti. Ég var u.þ.b. átta ára þannig að þetta hefur líklega verið 1971, amma hafði tekið eftir að ég sat alltaf fast upp við sjónvarpið og sendi mig til augnlæknis og það kom náttúrulega í ljós að ég var illa nærsýnn. Þetta var úti á landi þannig að augnlæknirinn kom bara 1-2 á ári á staðinn og gleraugun komu síðan í póstkröfu. Þegar tilkynningin um gleraugun kom fórum við afi í kaupstaðinn og hann sendi mig með pening inn á pósthúsið til að leysa út gleraugun á meðan hann skrapp eitthvað annað að útrétta. Þegar ég kom út var hann ekki komin þannig að ég opnaði pakkann á meðan ég beið og setti upp gleraugun, og ég get svarið það að það opnaðist fyrir mér nýr heimur þarna á pósthúströppunum.

Einar Steinsson, 24.5.2008 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband