Gamlir vinir heimsóttir

Stemming í kringum hljómsveitir er furðulegt fyrirbæri.  Í Bretlandi skiptir öllu máli að "hæpa" rokkbönd upp áður en fyrsta breiðskífa kemur út og láta fólk trúa að þarna sé á ferðinni næsta stóra nafnið í bransanum.  Tala nú ekki um ef hljómsveitir hafa einhvern sérstakan stíl, nýjan tón, hvað sem það er nú.  Síðan kemur platan, slær í gegn, hljómsveitin túrar og heldur stutta, snarpa og fjöruga tónleika enda kannski lítið efni á lagernum.  Þegar kemur að næstu plötu er hinsvegar bara eins og pressan sé búin að fá leið á þessu, þá skipta gæði plötunnar litlu máli, krafan um e-ð ferskt og nýtt, ný nöfn, nýjar stjörnur skiptir miklu meira máli heldur en hvort tónlistin sé góð.

Ég játa syndir mínar fúslega um að vera fórnarlamb hæp-maskínunnar, stinga gamla vini úr tónlistinni í bakið, láta þeirra diska sitja á hakanum vegna spennunnar að láta koma sér á óvart með einhverju nýju, eitthvað sem maður getur ekki staðsett fyrir fyrstu hlustun.  En mikið er nú gaman að endurnýja kynnin.

Bloc Party slógu öll hæp met á sínum tíma þegar þeir gáfu út Silent Alarm.  Eftir að hafa spilað hana gjörsamlega í tætlur var ég kominn með nóg í bili, svaf alveg rólegur þó þeir gæfu út A Weekend in the City fyrir rúmu ári og gleymdi þeim alveg.  Lét loksins verða af því að kaupa hann í dásamlegri Fopp-ferð minni í desember og ekki sé ég eftir því.  Hafa þróast nokkuð frá frumrauninni, krafturinn þó ennþá til staðar en diskurinn silki mjúkur á köflum, jafnvel útí danstónlist en þetta gengur allt saman upp.

Interpol eru öðlingar frá New York sem ég hlustaði mikið á 2004-2006, bootleg-nördinn kom upp í mér sem aldrei fyrr og ég sankaði að mér töluvert af tónleikum með þeim og framlengdi þannig líf tveggja stúdíó platna þeirra nokkuð.  Þrátt fyrir það sýndi ég vítavert kæruleysi í að stressast ekki upp yfir útgáfu þeirra á Our love to admire í fyrrasumar.  Blessaðir kallarnir, meistararnir, ég var bara hræddur um að þeir væru búnir að toppa og nú væri þetta niðrávið héðan af en þegar ég heyrði fyrsta lagið, Pioneer to the falls, vissi ég að veislan myndi standa lengur.  Hann hefur enst einkar vel, eftir þétta spilun síðasta hálfa árið er hann enn ferskur sem nýupptekinn Hveravallatómatur.  Eða eru tómatar niðurteknir?

Þriðji diskurinn sem mig langar að nefna er töluvert frábrugðinn þessum að ofan og kom út löngu áður en breska indí hæp-maskínan var fundinn upp, Revenge með Kiss en hann kom út 1992.  Þá var ég að verða 13 ára og við pjakkarnir búnir að eyða síðustu 7 árum í að hlusta á þessa hljómsveit sem er jafn nauðsynleg ungum drengjum og mjólk hvítvoðungum.  Kiss lögðu grundvöllinn að tónlistarlegu uppeldi okkar og þeim verður seint fullþakkað hversu vel þeir sinntu því verkefni.  En 1992 var ekkert sérstaklega töff  að hlusta á Kiss lengur, margir komnir yfir í harðari metal, Pantera, Metallica, Sepultura osfrv.  Enn aðrir farnir að hlusta á eitthvert rappdót eða aðra nýmóðins töffaratónlist. Þannig að þegar ég sá Revenge í Ingvarsbúð læddist ég skömmustulegur með veggjum.  Ekki var um annað að ræða en að kaupa diskinn þó ég gæti ekki farið hátt með það.  Auðvitað var ég gjörsamlega yfir mig hrifinn af þessu, en ekki leyfði maður sér að tala hátt um það samt.  Nú ætti að vera óhætt að segja frá þessu, maður verður vonandi ekki lagður í einelti úr þessu!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Hveravallatómatar?

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 31.3.2008 kl. 08:53

2 identicon

...þeir bestu!

Kristján Þór (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 16:16

3 identicon

Stagl. 

Húsvíkingur = Nörd

Framsóknarmaður = Nörd

Tölvunörd = Nörd

Að öðru leit skemmtileg lesning.  Kíktu á nýjustu færslu Sigurjóns Ben.

Mágur (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 21:50

4 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Snæþór, hér er fróðleikur um Hveravallatómata, amk framleiðendur þeirra: http://grhveravellir.is/

Færsla Sigurjóns er meistarastykki, það virðast fáir fá jafn mikið útúr því að gera allt vitlaust eins og hann, gaman að þessu.  Ekki lífhræddur hann Sigurjón. 

Karl Hreiðarsson, 31.3.2008 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband