Utanþingsstjórn útrásarvíkinga

Geir H Haarde (og sjálfsagt fleiri ráðamönnum) var tíðrætt í haust um ábyrgð sína við að koma þjóðinni í gegnum erfiðleika vegna bankahrunsins.  Því ætti hann ekki að víkja.  Þá ábyrgð mat hann þó veigaminni en ábyrgð sína sem formanns Sjálfstæðisflokksins að halda í forsætisráðherrastólinn.  Ef samstarfið strandaði bara á því en ekki málefnunum hefði verið hægur leikur að gefa stólinn bara eftir, er ekki sama hvaðan gott kemur?

En í það sem þessi færsla átti að snúast um, tillögu um utanþingsstjórn!  Geir hefur verið tíðrætt um ábyrgð þeirra sem ráku bankana í þrot.  Í anda þess að hann vildi stýra landinu uppúr erfiðleikunum og axla þannig ábyrgð hefði hann auðvitað átt að stinga núna uppá ríkisstjórn útrásarvíkinga í stað þjóðstjórnartals.  Ég geri það þá fyrir Geirs hönd hér með.  Um þennan hóp ætti að nást víðtæk samstaða og sátt, sé fyrir mér Arnarhólshyllingu eins og þegar Silfurliðið kom heim í fyrrasumar þegar tilkynnt verður um þennan ráðahag:

Forsætisráðherra
Sigurður Einarsson, fyrrv. stjórnarformaður Kaupþings.  Stýrði stærsta bankanum og þeim sem lifði lengst, þangað til hið breska FME gat ekki lengur horft uppá að íslenskur banki lifði hrunið af.  Hefur því harma að hefna gegn Bretum sem er ótvíræður kostur fyrir sameiningartákn þjóðarinnar.

Fjármálaráðherra
Ólafur Ólafsson.  Mörgum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hefur verið þyrnir í augum dýralæknamenntun Árna Mathiesen.  Ólafur er viðskiptafræðingur þannig að um þetta embætti verður full sátt hjá dómstóli götunnar.

Dóms- og kirkjumálaráðherra
Jón Ásgeir Jóhannesson.  Hefur víðtæka reynslu af dómsmálum og þekkir því málaflokkinn vel.  Hefði þarna möguleika á að gera föður sinn að biskup yfir Íslandi sem ætti að falla stórum hluta þjóðarinnar í geð.

Umhverfisráðherra
Lilja Pálmadóttir.  Hefur tök á að kaupa CO2 útblásturskvóta úr eigin vasa og þarf því ekki að eyða dýrmætum tíma í samninga um sérákvæði fyrir Ísland.

Menntamálaráðherra
Róbert Wessmann.  Lét veskið tala og gaf HR milljarð.  Sýndi þar ótvírætt áhuga sinn á bættri menntun þjóðarinnar.

Heilbrigðisráðherra
Róbert Wessmann.  Hefur að sögn Árna Sigfússonar sýnt skurðstofum í Keflavík áhuga.  Gerum þetta milliliðalaust og setjum hann í heilbrigðismálin.

Samgönguráðherra
Hannes Smárason.  Með víðtæka reynslu af flugrekstri, eða öllu heldur kaupum og sölum flugfélaga.  Gæti þjóðnýtt flugfélög og selt þau svo aftur, þjóðnýtt svo á ný.

Utanríkisráðherra
Karl Wernesson.  Með sterk tengsl í Svíþjóð og austurlöndum.

Sjávarútvegs-, landbúnaðar-, iðnaðar og viðskiptaráðuneyti
Þessi ráðuneyti ætti auðvitað vera búið að sameina.  Maðurinn til að leiða þá sameiningu er Hreiðar Már Sigurðsson.  Hefur marga sameininguna sopið og myndi klára dæmið fyrir páska.

Félagsmálaráðherra
Ólafur Ragnar Grímsson.  Var öflugur málsvari útrásarfyrirtækja og þekkir því vel samstarfsfólkið í utanþingsstjórninni.

Við þetta má bæta tveimur umdeildum embættum:

Forstjóri FME

Davíð Oddsson.  Sá bankahrunið fyrir eins og hann hefur margoft ítrekað og ekki hefur Geir H Haarde borið það til baka.  Dældi samt milljörðum í bankana fram undir síðustu mínútu þannig að hann þarf að axla ábyrgð á tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans (sem Árni M reddaði með pennastriki fyrir áramót).

Formaður bankastjórnar Seðlabankans
Geir H Haarde.  Hagfræðingur og því fáum við loksins hagfræðing í þetta umdeilda embætti.  Ótvíræð sátt mun því verða um Geir.

---
Um allt hefur verið bloggað þúsund sinnum á dag síðustu mánuði, biðst því velvirðingar ef þessi pistill er nánast copy/paste af hugmyndum annarra bloggara sem eru fljótari til lyklaborðsins en ég!  Ég á mikið inni í skrifum, s.s. um nýja og glæsilega forystu Framsóknarflokksins, um "samheldni Ríkisstjórnarinnar" eftir vantrauststillöguna í haust, komu Guðmundar Steingrímssonar í Flokkinn ofl. en með þessum blogg-afköstum skulið þið ekki vaka eftir þeim pistlum lesendur góðir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 27.1.2009 kl. 01:44

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mögnuð tillaga

Arinbjörn Kúld, 27.1.2009 kl. 02:30

3 identicon

góður pistill Kalli minn, hefði samt viljað annan menntamálaráðherra þar sem Róbert borgaði nú líklegast aldrei þennan milljarð....legg til að Bjarni Ármans komi í staðinn fyrir hann í það embætti. Bæði vantar honum embætti þarna sem og nóg fyrir Robba að vera heilbrigðisráðherra.

Sigþór Jónsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 09:55

4 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Góð ábending Sigþór, þetta yrði líka til að ná enn betri samstöðu um stjórnina!

Karl Hreiðarsson, 27.1.2009 kl. 10:02

5 Smámynd: Ár & síð

Burtséð frá félagsmálaráðherranum voru þessir menn líklega hvort sem er allir í Sjálfstæðisflokknum...
Matthías

Ár & síð, 27.1.2009 kl. 18:24

6 identicon

Ekki má nú gleyma því að þegar fjölmiðladýrkunin á útrásarvíkingunum stóð sem hæst, sem er ekki langt síðan, þá var oft hægt að lesa þá skoðun hér í bloggheimum og víðar að ríkjandi stjórnvöld í landinu kynnu ekkert í rekstri og réttast væri að fá Jón Ásgeir, Hannes Smárason eða einhvern slíkan til að taka þetta verkefni að sér!

Ég las þetta oft.

Hvar er þetta fólk nú, er það alveg hætt að blogga?

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 16:31

7 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Þetta er góður pistill sem fékk mig bæði til að brosa og hér um bil gráta, það gerði hugsanlega skipan Jóhannesar í Bónus í embætti biskups. Það væri ekki einsdæmi í sögunni því að Bauka-Jón sem var biskup á Hólum 1684-1690. Hann var ekki prestslærður og tók því aldrei víglsu, þrátt fyrir að gegna þessari æðstu stöðu innan kirkjunnar en höndlaði með tóbak í baukum fyrstur manna hér um slóðir.

Sigríður Gunnarsdóttir, 30.1.2009 kl. 23:25

8 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Alli, þetta fólk er ennþá að blogga á fullu, en nú er bara bloggað um hversu brýnt er að stinga þessum sömu mönnum inn.  Svo ef það kemur í ljós seinna að einhverjir þeirra eru sára saklausir mun sama fólk blogga um hversu mikill skandall þessar nornaveiðar voru.  Skammtímaminni bloggara er oft á tíðum ekki mjög langt, Andri Valur kom með gott dæmi um það í fyrradag.

 Sigga, í þínum sporum myndi ég vera búin undir að fá Jóhannes í Bónus sem yfirmann. Blekið á 315 milljóna sekt Samkeppniseftirlitsins gagnvart Bónus var varla þornað þegar ég heyrði fjölda manns kjósa hann "mann ársins" hjá Rás 2.  Slíkar vinsældir geta skilað mönnum langt.  Þakka ábendinguna með Bauka-Jón, gleður mig að heyra að ég get sótt um biskupsembættið á Hólum og haft söguna með mér í liði!

Karl Hreiðarsson, 31.1.2009 kl. 10:20

9 identicon

Þetta er frábær hugmynd hjá þér.  Betri útfærsla á henni er sú að við komum þessum mönnum fyrir á Alþingi og læsum svo kofanum.  Aðbúnaður þeirra komi svo til með að endurspegla ástand þjóðfélagsins. Þ.e.a.s. ef allt er í kalda koli utan þings, þá minnka "fríðindi" fanganna... nei ég meina alþingismannanna.  Lægst launuðu stéttir þjóðfélagsins sjái svo um fanga- nei ég meina þingmanna-gæslu, ef laun þeirra láta þeim líða vel þá ætti það að skila sér í betri umönnunn vistmannanna, og öfugt.

Og fyrrverandi þingmenn mættu svo gjarnan skrá sig á atvinnuleysisbætur, svo þeir geti sannreynt hversu "gott" kerfi þeir hafa byggt upp hér á undanförnum árum.

Árni Sveinn (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband