31.12.2013 | 01:20
2013
Ég hef sérlega gaman af tímanum fyrir og eftir áramót. Þessi uppgjör öll kæta mig mjög, hvort sem er umfjöllun um bestu plötur ársins, bestu tæki ársins eða fréttauppgjör af allskonar tagi. Síðan er alltaf einhver jákvæður tónn í loftinu fyrir nýju ári, enda bera flestir gæfu til að vona að það verði ekki ömurlegt.
Sjálfur hef ég þó ekki verið sérstaklega duglegur við að skrifa slíka pistla (já eða annað hér, humm humm) en nú í ljósi nýjustu tíðinda af eigin heilsu, sem ég kem aðeins að hér síðar, finnst mér eiginlega ótæk kaldhæðni að láta síðustu færslu á þessu bloggi lifa sem efsta færslan mikið lengur. Sér í lagi vegna lokaorða pistilsins, þetta er nefnilega alls ekki búið, hið minnsta ekki hjá mér. Eins og ég er nú almennt hrifinn af kaldhæðni.
Þegar ég fór hinsvegar að hugsa um hvað ég vildi nefna áttaði ég mig fljótt á því að þetta yrði syndsamlega langt og djöfullegt aflestrar, þannig að ég ætla að reyna að hafa þetta í punktaformi, helst ekki ritgerð hver punktur.
Get vart hugsað aftar á árinu en til 28. okt, 4. mánuðum frá síðasta innleggi á þessum vettvangi, en þá fékk þann dóm að ég væri með krabbamein í skjaldkirtlinum. Það er ekki sérstaklega frábært að fá krabbamein eins og litla fjölskyldan mín hefur nokkra reynslu af, en þrátt fyrir að þetta orð sé eðlilega frekar hrikalegt, er minn sjúkdómur sérlega álitlegur viðfangs. Draslið var stórt, þetta kostar vesen og meðferð núna í janúar, en allar líkur eru á að ég muni komast stórgóður frá þessu, á skömmum tíma. Það er ekki sjálfgefið að geta verið svo bjartsýnn svo skömmu eftir greiningu, þannig að ég leyfi mér að vera stórkostlega glaður með það, eins og svona er nú kannski ekki tilefni til gleði almennt séð.
Óvissutíminn fyrir greiningu var fjári erfiður en mér er efst í huga þakklæti til allra sem lögðu hönd á plóg við að lækna mig. Frá lífgjafanum sem benti mér á það væri e-ð grunsamlegt á seyði þarna (sem hafði alls ekki hvarflað að mér), til þeirra sem læknuðu mig, Unnar minnar, fjölskyldunnar, vinanna, vinnufélaga og svo bara allra mögulega hinna sem hafa sýnt manni innilegan og dæmalaust fallegan hlýhug.
Jesús, ég talaði um punktaform og svo er strax komin ein ritgerð?
Nokkuð tengt fyrsta punktinum er einn af hápunktum ársins, Iceland Airwaves. Það voru ansi sérstakar kringumstæður að fara á tónlistarhátíð sem maður keypti miða á með 10 mánaða fyrirvara með þær fréttir frá tveimur dögum áður að maður væri með krabbamein. En tónlist gerir allt betra og lækningarmáttur hennar er gríðarlegur, hið minnsta á andlega sviðinu. Þökk sé stórkostlegri dagskrá, dag eftir dag, með frábærum félagsskap var þetta nákvæmlega það sem ég þurfti til að dreifa huganum. Mamma stóð heimilisvaktina svo örverpið kæmist í þetta prógram. Það var nú ekki lítið fallegt framtak þótti mér :)
Skálmöld og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg á afmælisdaginn minn, 28. nóv. Ekki er nú gott að stikla á stóru yfir þann viðburð og sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að auki að ausa hann lofi, en tilefnið er einfaldlega ærið. Þetta var ævintýraleg upplifun. Að sjá þessa tiltölulegu kornungu þungarokkshljómsveit, með rétt 3 ½ árs feril á bakinu, í félagsskap sinfóníunnar og allra þessara kóra, þar sem spilamennskan var þannig að manni leið eins og þetta hafi alltaf verið hugsað svona frá upphafi var einstakt.
Lögin henta auðvitað misjafnlega vel fyrir svona útsetningu, en heilt yfir fannst mér þetta mun betur heppnað en ég þorði að vona og nú var ekki eins og ég hefði mjög hófstilltar væntingar. Að sjá hljóðfæraleikara sinfóníunnar engu síður aggresíva á sín hljóðfæri en þungarokksbandið var ótrúlega magnað. Dagfarsprúðir víóluleikarar að djöflast á þessum eldgömlu og vönduðu hljóðfærum. Allir hópar skemmtu sér konunglega við flutninginn og það skilaði sér svo vel út í sal.
Hápunktur tónleikanna fyrir mig var lokalagið, uppklappslagið Baldur. Kannski vegna þess að ég hélt að þeir myndu ekki taka uppklapp og því var ég sérstaklega meir og glaður þegar spilamennskan hófst á ný, en mér hefur líka þótt þetta lag mjög svo vanmetið frá upphafi. Ekki spillti nú fyrir hvað það hentar vel fyrir svona stóra útsetningu. Stórkostlegt.
Fleiri lög mætti týna til og ég verð auðvitað að gera það, fyrst ég er byrjaður. Hel, Loki svo og crowdpleaserinn stórkostlegi, Kvaðning. Já og Hefnd, ég get aldrei sleppt Hefnd.
Ekki var nú til að spilla gleðinni að fá þetta svo útgefið þremur vikum síðar. Fyrir háskerpu-mann eins og mig hefði ég auðvitað vilja eignast þetta í HD, en ég vil frekar eignast ódýrari útgáfu af svona viðburði heldur en ekki neitt, enda er sorglega algengt að svona stórtónleikar séu teknir upp með mikilli fyrirhöfn en svo ekkert gert með það þar sem kostnaðurinn við eftirvinnslu og útgáfu er svo mikill.
Nei andskotinn, þetta átti ekki að vera ritgerðasafn!
Plata ársins fyrir mig var Trouble Will Find Me með The National. Þetta var nú ekki einfalt val, enda margar af mínum uppáhaldssveitum með afbragðsgóðar plötur á árinu (tel Skálmöld og Sinfó nú ekki með hér reyndar), Pearl Jam, Sigur Rós, John Grant, The Strokes, Arctic Monkeys, Arcade Fire og Mammút svo helstu dæmi séu tekin. En ég hlustaði svo langsamlega oftast á þessa plötu, auk þess sem hún kom mér útí að hlusta á eldri plötur National sem ég átti eftir og eru epískar, Boxer og Alligator.
Síðan er eitthvað ljóðrænt við að platan Trouble Will Find Me hafi orðið mín uppáhaldsplata á þessu örlagaríka ári.
Jakob Fróði, 6 ára strákurinn minn, hóf skólagöngu í ágúst. Ég hefði ekki trúað því hvað þetta væri stór áfangi og breyting fyrr en ég stóð í þeim sporum að vera pabbi skólabarns. Magnað.
Frábær hvalaskoðunarferð með Norðursiglingu í sumarfríínu í ágúst 2013 var einn af hápunktum þess. Eins tónleikar Sigurðar Guðmundssonar í Halldórsstaðahlöðunni, sem og Bræðslan. Þegar maður byrjar getur maður varla hægt að telja upp, sem betur fer...
Börkur litli mágur minn tók þátt í heimsmeistarmóti iðn- og verkgreina, World Skills í fyrirheitna landinu, Þýskalandi. Rafvirkjun er hans fag og ég get alls ekki látið eins og þessi punktur snúist á nokkurn hátt um mig. En ég þykist vita að þetta verði nú samt einn af eftirminnilegustu punktunum fyrir okkur öll í fjölskyldunni þegar litið verður til baka til ársins 2013.
Vetrarfrí fjölskyldunnar í Borgarfirði í október 2013. Örlítið sérstakar kringumstæður þegar lagt var af stað, ég verandi í rannsóknum vegna þess sem síðar varð ljóst, en algjörlega frábært frí í enn betri félagsskap.
Tæknibylting ársins: Spotify. Vissulega ekki uppfinning þessa árs en fyrst hingað komin nú. Hefur algjörlega gjörbreytt tónlistarnotkun minni og neyslu, ef maður getur kallað hana það. Hef lengi ætlað að skrifa eitthvað um þetta í lengra máli, enda þetta mér mikið hjartans mál, en það mun bíða ársins 2014, já eða 2015
Fór úr iPhone yfir í hlýjan faðm HTC One í september. Ekki sérstaklega stór tíðindi í heimssögunni en fyrir tækjamann eins og mig var þetta ansi spennandi breyting. Þetta verðskuldar auðvitað langhundspistil eins og Spotify, en það þarf að bíða. Heilt yfir er ég gríðarlega ánægður með gripinn. Sumt er þó pirrandi við Android, rétt eins iOS, það eru kostir og gallar við þetta allt. Fólk ætti að róa sig aðeins í trúarbrögðunum. Eitt app er hinsvegar svo stórkostlegt, að ég gæti varla hugsað mér að snúa til baka, þó ekki væri nema útaf því. SwiftKey-lyklaborðið, þvílík bylting fyrir skrifandi fólk!
Á árinu 2013 kvöddu nokkur glæsimenni sem ég hef þekkt frá því að ég man eftir mér. Það er ennþá frekar óraunverulegt að eiga ekki eftir að bæta í minningarnar með þeim. En í afkomendum þeirra eru glæsilegir fulltrúar sem munu bera þeirra merki um ókomin ár.
Ég er auðvitað örugglega að gleyma einhverju rosalegu núna og verð brjálaður í fyrramálið þegar ég vakna og fatta það. En þessari færslu þarf að ljúka með afli, enda get ég ekki hætt þegar ég loksins byrja að skrifa. Árið 2014 verður stórkostlegt ár. Það verður mitt ár. Ég ætla að verða frískur, fagna því og njóta þess með ykkur.
Takk fyrir allt á gamla árinu, gleðilegt nýtt ár!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.6.2013 | 10:44
Krabbamaki lítur til baka
Það gerist ekki oft núorðið að ég skrifi um "alvöru" hluti á Internetið. Eitt hef ég þó átt ósagt lengi. Málefni sem fæstir þurfa þó að taka til sín, sem betur fer. En fyrir tæpum 6 árum lofaði ég sjálfum mér að ef konan mín myndi lifa af krabbameinsmeðferð sem hún var í þá, skyldi ég skrifa um þá reynslu sem ég fékk af því að vera maki konu með krabbamein. Gallinn er sá að ég man ekkert sérstaklega vel núna hvað það var þá sem ég vildi þá svona innilega koma á framfæri við umheiminn, ef þetta fengi nú allt farsælan endi. En ég ætla að reyna.
Vorið 2007 greindist konan mín með brjóstakrabbamein. Við vorum (og erum enn!) ung þegar það kom upp, hún rétt orðin 27 ára og ég árinu eldri. Höfðum 3 mánuðum áður eignast okkar fyrsta barn. Það var óneitanlega sérstök staða, en samt ekki á þann hátt sem flestir halda. Þvert á móti var algjörlega frábært að hafa þennan gleðigjafa, Jakob Fróða, að hugsa um á meðan þessari meðferð stóð. Leitin gekk ekkert sérstaklega hratt fyrir sig í upphafi enda nýbökuð móðir með allskonar flækjur í þessu brjóstakerfi. Heimilislæknirinn okkar, Guðmundur Björgvinsson, ákvað þó að þetta þyrfti frekari skoðunar við og því er ég í aðstöðu í dag að skrifa þennan pistil með þessum hætti. Þórdís Kjartansdóttir skurð- og lýtalæknir fór að leita og nokkrum vikum síðar var stóra og hrikalega K-greiningin komin. Þá var ráðist í aðgerð 5 dögum síðar. Þar á eftir tók við hörð lyfjameðferð og geislar.
Brjóstakrabbamein er læknað í rúmlega 90% í tilfella á Íslandi. Það er stórkostleg tölfræði og alls ekki sjálfgefin. Hún hjálpaði okkur mikið þegar þessi ósköp komu upp. Gallinn var að ég gerði eins og ég geri yfirleitt, fer á netið og reyni að afla mér frekari upplýsinga. Þá fann ég fljótt að sú gerð brjóstakrabbameins sem Unnur Ösp mín var með hafði ekki jafn góða ferilskrá. Í besta falli 60% sigurlíkur eða svo. Síðar lærði ég reyndar að þær voru nær 33% en sem betur fer vissi ég það ekki þá.
En svo ég komi mér að efninu. Þegar maður lendir í því að standa við hliðina á þeirri manneskju sem manni þykir vænst um veikri (og mögulega dauðvona) reynir maður auðvitað eftir allra fremsta megni að vera bjartsýnn. Styðja og hugga sem mest maður má. Það er þó ekki þar með sagt að maður hugsi ekki einhvern andskotann sem er ekki jafn jákvætt. Ég átti erfitt með að verjast hugsuninni um hið versta. Sá ítrekað fyrir mér jarðarför. Hversdagslegar aðstæður mínar með strákinn okkar ef hún myndi deyja og þá einhverja fáránlega litla hluti eins og hver ætti að sjá um að klippa neglurnar á stráknum ef hún færi? En það var einmitt (og er oftast nær enn!) í hennar verkahring. Hvernig ætti ég að meika það að elda alltaf? Ekki beint hugsanir sem mér finnast sérstaklegar rökréttar eftirá sem helstu áhyggjuefni ekkils. Ég er vanur að deila öllum fjandanum með konunni minni, hinum ómerkilegustu pælingum, vafalítið henni til mismikillar gleði, en þarna var komin upp sú staða að ég gat ekki sagt henni það sem lá lang-lang-lang þyngst á mér, þ.e. að ég var algjörlega að deyja úr áhyggjum yfir því að hún yrði mögulega farin innan 18 mánaða.
Það bjó einhvern veginn til einhvern ósýnilegan múr, sem ég reyndi þó að koma í veg fyrir að hún fyndi fyrir, enda mitt aðalstarf í þessu að láta hana að sjálfsögðu ekki finna fyrir öðru en bjartsýni og fullvissu um bata. Ég var samt smátt og smátt að gefa eftir. Að missa tökin á bjartsýninni í hausnum á mér, án þess þó að átta mig kannski á því fyrr en eftirá.
Inní þessari innri baráttu miðri fékk ég nefnilega ómetanlega hjálp. Ég frétti af "makahópi" hjá Ljósinu. Ég mætti þangað og vissi eiginlega ekki hverju ég átti von á, hvað væri gert á slíkum stað til að vinna úr ómögulegri stöðu. En þar fann ég nákvæmlega þann félagsskap sem ég þurfti á að halda. Hitti fólk í þessari sömu stöðu og ég. Fólk með sömu "fáránlegu" hugsanirnar, sömu áhyggjurnar og sömu verkefnin. Á hverju fimmtudagskvöldi hittumst við á vegum Ljóssins í litlum hópi og ég náði einhvern veginn jarðsambandi aftur. Sætti mig við að þetta væri auðvitað fullkomlega eðlilegt að hugsa um og áttaði mig á því að ég væri alls ekki einn í þessum slag. Sú vissa hjálpaði ótrúlega mikið. Enda hugsa ég til þeirra tveggja sem ég hitti oftast, sem sérstaka bjargvætta í minni andlegu heilsu á þessum tíma. Það tekur mig líka ósegjanlega sárt að vita til þess að þau voru ekki jafn lánsöm og ég, heldur þurftu að lokum að kveðja sína maka. Fólkið sem ég leit upp til og komu mér aftur á jákvæðari stað. Þessi krabbameinsheimur er ekkert eðlilega harkalegur, en það hafa því miður alltof margir reynslu af.
Það sem ég man að sat í mér var þetta. Allt þetta stórundarlega drasl sem gekk á í hausnum á manni voru eðlilegar vangaveltur við fáránlegum aðstæðum sem enginn hefur undirbúning fyrir. Ég var hinsvegar að verða bilaður á þessu vegna þess að ég hafði ekki vettvang til að ræða þetta við nokkurn mann. Þetta tekurðu ekkert upp við makann eða nánustu aðstandendur, enda vill enginn auka á áhyggjur þeirra aðila. Nógu áhyggjufullir eru allir, eðlilega, útaf stöðunni sem uppi er. Þrátt fyrir að tíðindin af konunni minni væru heilt yfir jákvæð þegar meðferðin hófst, var krabbameinið greint mjög hraðvaxandi og í reynd voru þau ekki eitt í brjóstinu heldur þrjú. Slíkan baráttuanda krabbameinsins ber maður ekkert á torg.
Nema í þessum hópi hjá Ljósinu. Þar gat maður talað umbúðalaust og ég á endanum losaði um þennan sístækkandi hnút í maganum sem hafði byggst upp undanfarna mánuði. Þar kem ég aftur að kjarna málsins og ástæðu þess að ég skrifa þetta nú. Makar fólks með krabbamein verða líka að hugsa um sjálft sig og ræða við fólk í sömu stöðu um þessi ósköp. Hjá Ljósinu, í gegnum stuðningsnet Krafts, hjá Krabbameinsfélaginu eða með einhverjum öðrum hætti. Hafið bara samband við mig ef annað þrýtur. Mér var þetta allavega ótrúleg huggun, enda þótt fólk vilji, er einhvern veginn fullkomlega vonlaust að setja sig í þessi spor fyrr en reynt hefur.
Varla er hægt að opna á þetta mál allt án þess að minnast þess hvað maður er þakklátur af öllu hjarta, gjörsamlega frá rótum. Fyrir þá í makahóp Ljóssins, fyrir læknana og hjúkrunarfólkið sem bjargaði konunni minni. Ég hef nefnt hér tvo lækna sem eru á ósnertanlegum stalli í mínum huga og get ekki klárað þetta án þess að bæta þar við Óskari Jóhannssyni krabbameinslækni og Hrönn Finnsdóttur hjúkrunarfræðingi sem tóku við henni og fylgdu í þessa lykilmeðferð, eftir leitina sem nefnd var hér að ofan. Fyrir elskurnar sem pössuðu pínulitla strákinn okkar svo ég gæti fylgt Unni í allar lyfjameðferðirnar og skoðanirnar. Aftur og aftur. Fyrir að ég skyldi vinna á stað (og vinn enn) þar sem ég fékk fádæma bakland vinnuveitandans í að vera með fólkinu mínu þegar það þurfti á því að halda. Fyrir vinina og fjölskylduna sem mættu eftir pöntunum þegar ég og við báðum um og svo þá fjölmörgu sem hugsuðu hlýtt til okkar litlu fjölskyldunnar.
Ég var búinn að setja mér það "deadline" haustið 2007 að skrifa þennan pistil eftir 5 ár, ef allt gengi vel (veit ekki af hverju það var alltaf lykilatriðið á sínum tíma, en ég man vel eftir því skilyrði), enda 5 ára múrinn eftir greiningu sá sem horft er á þegar talað er um fullan bata af þessu meini. Það segir sitt um þessa endalausu tortryggni og ótta við ósigur að ég treysti mér ekki fyrr til að standa við það loforð fyrr en nú. Enda hafði nánast hver einasti hósti fyrstu árin vakið hjá manni ótta um meinvörp í lungum, endurkomuna sem allir í þessari stöðu óttast og við á þessari leið búin að kynnast allskonar frábæru fólki sem hefur ekki verið jafn lánsamt. Það er samt allt komið á betri slóðir í hausnum. Ég leyfi mér að horfa fram á veginn núna Hafðu þetta krabbahelvíti, þetta er búið.
23.8.2011 | 22:13
Vangaveltur fyrrverandi, ári síðar
Ekki fannst mér það spennandi að vera í hópi fyrrverandi flokksmanna þegar ég var starfandi í stjórnmálastarfi. Upp til hópa biturt og tapsárt fólk sem tuðaði yfir öllu áður en það hætti og versnaði svo um allan helming eftir að það loksins hundskaðist út. Neikvætt lið með allt á hornum sér. Fyrir rúmu ári komst ég þó endanlega á þá skoðun að það væri mitt hlutskipti að kveðja Framsóknarflokkinn sem ég hafði verið í frá 1997 og setjast á bekkinn hjá fýlupúkunum.
Um ástæðurnar fyrir því að ég komst á þá skoðun ætla ég ekki að fjölyrða nú, en frekar reyna að koma einhvern veginn í orð hvernig ég tel flokksanda geta skekkt gagnrýna hugsun hjá fólki. Nú ætla ég samt að reyna af veikum mætti að skilja mig frá fýlupúkunum og koma því á framfæri að ég tel flokksstarf sannarlega geta verið mjög af hinu góða. Þegar það er vel skipulagt er þetta afskaplega þroskandi, lærdómsríkt og skemmtileg félagsstarf. Ég eignaðist frábæra vini og félaga í gegnum þessi ár og ég met það mikils. Sé því hreint ekki eftir að hafa varið öllum þessum tíma í flokki sem ég ákvað síðan að kveðja.
Þegar ég var í flokknum reyndi ég svo sannarlega að vera gagnrýninn. Þó ég hafi í megindráttum verið sammála stefnu flokksins þessi ár komu oft upp einhver mál þar sem maður var gapandi yfir einhverju smáu eða stóru. En eftir að ég varð óflokksbundinn áttaði ég mig betur á einu. Ósjálfrátt gefur maður flokksbræðrum sínum á þingi meiri "slaka" heldur en öðrum á þinginu. Maður ætlar þeim frekar að vinna að heilindum heldur en keppinautunum. Vafalítið spilar þar inní að maður er í einhverjum tilfellum ágætlega kunnugur viðkomandi og telur sig einfaldlega vita að þar fari gott og heiðarlegt fólk. En það er ekki þar með sagt að andstæðingarnir séu síðra fólk. Það er svo sannarlega að vinna af heilindum í jafn miklu hlutfalli og fólkið í "þínum flokki". Þú þekkir þá bara ekki jafn vel.
Þarna kem ég að því sem varð kveikjan að þessum pistli. Skekkjan eða brenglunin sem það getur valdið að vera í stjórnmálaflokki. Með því að vera í flokki, starfa í honum og gera það "opinbert" að þú styðjir flokkinn (þó það sé bara á vinnustaðnum eða vinahópnum) ert þú búinn að "fjárfesta" nokkuð í því að flokkurinn sé að starfa vel og af heilindum. Þú vilt frekar geta verið stoltur af þeim félagsskap sem þú ert skráður í heldur en ekki. Það er miklu leiðinlegra fyrir flokksbundinn framsóknarmann að horfa uppá forystu flokksins fara að hitta rugludall í Noregi og ræða lánveitingar heldur en fyrir óflokksbundinn mann útí bæ. Þess vegna er sá flokksbundni miklu fremur til í að trúa því að þetta sé gáfulegt. Enda hver vill tilheyra félagsskap þar sem menn reyna að vekja upp væntingar hjá örvæntingarfullri þjóð um einhver lán sem aldrei var nokkur von með? Auðvitað viltu frekar að þetta hafi verið vel meint. Þess vegna hlustarðu frekar á "þinn" formann þegar hann segir frá fundinum með norska kverúlantinum og vilt frekar trúa honum til að hafa verið að vinna vel heldur en ef erkióvinurinn færi í slíka ferð og "þinn" formaður gæfi það út að þetta væri spuni og moðreykur.
Nú veit ég að ýmsir minna gömlu félaga hrista hausinn. Auðvitað er þetta ekki svona, fólk kaupir ekki allt hrátt í flokknum. Nei, enda á ég ekki við það, heldur það hvaða áhrif það hefur að innst inni viltu miklu frekar að þinn formaður sé að vinna af meira viti heldur en sá næsti. Þú ert búinn að gefa það út að þú styðjir viðkomandi, jafnvel búinn að fá vini og kunningja, eða ókunnugt fólk til að kjósa hann, auðvitað viltu ekki vera gerður að ómerkingi eða líða þannig eins og þú hafir hvatt fólk til að taka vonda ákvörðun í kjörklefanum.
Hafandi sagt þetta, þá er ég nú á því að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegir. Fólk þarf bara að taka þetta minna alvarlega allt saman. Ekki hafa svona miklar áhyggjur af afleiðingum þess að segja sig úr flokki, já eða ganga inn í flokk. Ég velti því fyrir mér í næstum ár að segja mig úr flokknum áður en ég loksins varð endanlega ákveðinn. Það er náttúrulega rugl-tími þó það sé ágætt að hugsa málin vel. Fólk breytist og flokkar líka. Það er allt í góðu með það þó flokkar klofni, sameinist öðrum eða hreinlega deyi út. Þó manni þyki vænt um sögu flokks og fólkið í honum eru stjórnmálaflokkar fyrst og fremst tæki fólks til að koma hugmyndum í framkvæmd. Ef það er ekki mögulegt því öll orkan fer í að halda í einhvern vinnufrið í flokknum sjálfum er bara hið besta mál að fólk segi bless. Þó þú, mamma & pabbi og afi & amma hafi verið þarna í 100 ár. Bless Framsókn - þetta var gaman, framan af...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.8.2011 | 13:44
Hættið þessu væli og kaupið ykkur strætókort!
Ekki hef ég tölu á öllum þeim Facebook-færslum, Facebook-hópum, bloggfærslum, fréttum osfrv. þar sem menn bera sig aumlega yfir háu bensínverði. Það skiptir í sjálfu sér litlu hvort lítrinn kostaði 100 eða 200 kr., mögulegar aðgerðir eru alltaf svipaðar: lækkum skatta á eldsneytisverð, hættum að versla við eitt eða fleiri olíufélaganna í x tíma, mótmælum eins og vörubílstjórar gerðu osfrv. En þetta er allt hálf marklaust. Olíuverð hefur hækkað og mun gera það áfram til lengri tíma vegna minnkandi forða í heiminum, krónan hrundi og það er ekki nein veruleg breyting á þessu í augsýn. Nýir orkugjafar verða skattlagðir fyrir rest eða veggjöld notuð til að sækja aura handa ríkinu, ekki hafa neinar áhyggjur af öðru, óháð því hvaða flokkur stjórnar.
Fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu er þetta því frekar augljóst þó fæstir virðist hafa áttað sig á þessu. Hættið þessu andskotans væli og kaupið ykkur árskort í strætó á 35.000! Jebb, þú last rétt, það er hægt að ferðast ótakmarkað með Strætó fyrir heilar 2.916 kr. á mánuði! Hefðbundið heimili klárar bensínið sem fæst fyrir slíka upphæð á 2-3 dögum! Þökk sé öndvegis tilboði á straeto.is (sem endar 2. sept) fær maður nú 33% lengri tíma pr. hvert strætókort á hefðbundnu (og jafnframt hræódýru) verði.
Ég veit að það er annað í boði en keyra eða taka strætó, s.s. labba eða hjóla. Sjálfur mátti ég bara til með að taka þetta fyrir þar sem mér finnst alltaf jafn kómískt að heyra fólk hrósa mér fyrir að taka strætó í vinnunna, en jafnframt sjá ástæðu til að afsaka af hverju það gerir ekki slíkt hið sama. Iðulega er samnefnarinn sá að fólk hefur ekki reynt þetta í fjöldamörg ár. Það er vitnað í pólitískar ástæður, "R-listinn [eða íhaldið eftir því hver talar] eyðilagði leiðakerfið með breytingunni XXXX [setjið inn eitthvað ártal fljótlega eftir krist]", dvöl á stoppistöð í óveðrinu í janúar 1991 meðan beðið var eftir næsta vagni í 20 mínútur eða eitthvað í þessum dúr. En það er einfaldlega búið að gjörbreyta kerfinu á síðustu árum gott fólk. T.d. mæta 4-5 vagnar á sama tíma í Ártúni sem þýðir að þú hoppar útúr einum vagni og inn í þann næsta án þess að þurfa að bíða nokkuð, eða þá í 1-2 mín í mesta lagi.
Auðvitað er ýmislegt við leiðakerfið sem ég væri til í að breyta, s.s. því hvenær síðustu vagnar fara, tíðni ferða osfrv, en það er ekki eins og fjöldamargt við einkabílinn sé drepleiðinlegt utan bensínverðsins. Eða finnst þér sérstök veisla að leita að bílastæði? Gaman að fara með bílinn í smur og greiða fyrir það sem samsvarar strætóferðum í 5 mánuði? Já eða hefurðu íhugað að skipta um bíl eftir hrun og séð að nýr 5 dyra Yaris er kominn uppfyrir 2,6 milljónir? Jebb, ég er ekkert að grínast með það þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvað stationbíll með sæmilegri vél kostar!
Ýmsir setja það fyrir sig að læra á leiðakerfið en þökk sé blessuðu Internetinu er það miklu auðveldara en hér áður fyrr. Á straeto.is er svokallaður ráðgjafi þar sem slegið er inn hvaðan er farið og hvert þarf að komast fyrir hvaða tíma og þá segir kerfið manni einfaldlega hvaða leiðir henta. Dauðeinfalt og virkar vel.
Nú er ekki svo að skilja að ég sé frelsaður hippi sem aldrei kem uppí bíl. Við fjölskyldan eigum bíl sem er keyrður 15-20þ km á ári. En ég leyfi mér þó að fullyrða að við spörum okkur bensín fyrir amk 15 þús á mánuði með því að ég nota Strætó í vinnunna og töluvert þess utan að auki. Fyrir utan að spara slurk af aurum er þetta einfaldlega verulega þægilegt þegar komist er yfir aðlögunartímabilið með tilheyrandi væli. Í stað þess að vera í morguntraffíkinni að leita að bestu akreininni til að komast áfram situr maður eins og fínn maður og lætur ferja sig meðan hlustað er á góða tónlist eða hljóðbók. Þó ég sé ekki sérstaklega stressaður í umferðinni er maður einhvern veginn betur afslappaðri og betur búinn að kúpla sig úr vinnugírnum þegar heim er komið seinnipartinn með gula vagninum. Veðrið er misgott í borginni en það eru líka allir forstofuskápar í landinu fullir af útifötum. Fullfrískt fullorðið fólk sem treystir sér ekki til að vera uppklætt utandyra í nokkrar mínútur á hverjum degi þarf auðvitað að hugsa sinn gang í víðara samhengi.
Nákvæmlega hvenær ætlar þú að breyta þínum ferðavenjum? Þegar bensínið verður komið upp í 300 kr./ltr, 400 kr./ltr eða þegar leikskólakrökkum er ekki hleypt út að leika sér 3x í viku fyrir svifryksmengun á veturna? Hættu að bíða eftir kraftaverkinu sem kemur ekki og keyptu þér strætókort núna!
Samgöngur | Breytt 23.8.2011 kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.12.2010 | 21:43
Hér hófst það allt...
Það gerist ekki oft að maður viti það fyrirfram að sögulegir tímar séu í nánd. Þökk sé demo-útgáfu í sumar og handfylli af ótrúlegum tónleikaframmistöðum er það fullljóst að morgundagurinn, 15. desember 2010, verður sögulegur dagur í íslenskri tónlistarsögu. Skálmöld gefur Baldur loksins út.
Þrátt fyrir króníska bloggleti hef ég ekki komist hjá því að fjalla um þessa hljómsveit. Demo-útgáfuna skrifaði ég um hér og svo kom ég heim í losti eftir tónleika á Sódómu og skrifaði Össurslegan pistil á Össurarlegum tíma hér. Ef til vill finnst einhverjum hér stórt tekið upp í sig, en eftir nokkra mánuði í viðbót af meltun demo-útgáfunnar, ásamt ennþá magnaðri tónleikaframmistöðu í nóvember (sjá á Jútjúb ) sé ég að ég þarf að taka upp þennan dóm frá grunni og passa vandlega að hvergi sé notað annað en efsta stig lýsingarorða. Sagan af Baldri, textarnir sem segja þá sögu, heilindin í þessari útgáfu allt í gegn að ónefndu grípandi rokkinu á ekki jafningja í íslenskri tónlist. Nema ef vera skyldi Björgvin Halldórsson. Djók...
Fyrir þá sem ekki eru fyrir metalinn vil ég nú samt hvetja fólk eindregið til að gefa þessu tækifæri og leggja til hliðar fyrri reynslu. Hér hefst þetta allt (náði einhver KÞ-tilvísuninni í fyrirsögninni?) og ólíklegasta fólk hefur viðurkennt fyrir mér í myrkum skúmaskotum að þetta sé náttúrulega meistaraverk. Ljóshærðir kvenmenn þar á meðal (með fullri en ögn óttablandinni virðingu fyrir þungarokkssmekk ljóshærðra kvenna almennt).
Skálmöld hefur haft virkilega góð áhrif á mína tónlistarhlustun í haust. Hef ég leitað til baka í þungarokksræturnar og hlustað mun meira á metal heldur en síðustu ár. Það er, eins og þarf ekki að taka fram, afskaplega gefandi og karlmannlegra heldur en blessað indie-ið sem ég tek með í bland.
Jæja gott fólk, þetta er orðið gott af bloggi í bili, mér fannst bara brýnt að koma þessu á framfæri við Internetið, lá meira á þessu heldur en að byrja á jólakortunum. Þannig að ef þú færð kortið þitt of seint í ár veistu af hverju.
Til hamingju Ísland, Skálmöld er upprisin!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2010 | 21:01
15 plötur á 15 mínútum
Tók loksins þátt í hinum hressandi samkvæmisleik á Facebook að telja upp 15 plötur sem maður telur að eigi ávallt eftir að fylgja manni. Í þetta má svo ekki eyða lengri tíma en 15 mínútum sem er ágætt því ég gæti vafalítið eytt heilli helgi í svona heilabrot. Hér er listinn minn, í engri sérstakri röð, en þó vissulega engin tilviljun hvaða bönd eru efst.
Pearl Jam - Vitalogy
Pearl Jam - Ten
Pearl Jam - No Code
Radiohead - OK Computer
Radiohead - In Rainbows
The Cardigans - Long gone before daylight
Skálmöld - Baldur
Maus - lof mér að falla að þínu eyra
Sigur Rós - Ágætis Byrjun
Sigur Rós - Takk...
The Libertines - The Libertines
Kiss - Alive II
Pixies - Doolittle
W.A.S.P. - The Headless Children
Anthrax - Among the living
Ég féll næstum á tíma og er löðursveittur eftir hroðalega erfiða baráttu um síðasta sætið. Hér vantar klárlega eitthvað, en þetta spannar samt ágætlega plötur sem hafa fylgt mér, sumar í rúm 20 ár, ein í 2 mánuði og allt þar á milli. Var að reyna að hafa ekki of margar með sömu hljómsveitunum en gat ekki valið á milli þannig að nokkrar sögulegar eru útí kuldanum í staðinn. Hlusta misoft á þessa gæðagripi en allar eiga það sameiginlegt að koma inn aftur og aftur, sama hvaða stefnur eru ríkjandi á playlistanum þá stundina.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.9.2010 | 22:59
Alltaf er þetta bankahrun að þvælast fyrir íhaldinu
Ekki held ég stöðu minni sem froðusnakkur án þess að hella reglulega úr skálum reiði minnar yfir lyklaborðið. Það hef ég ekki gert lengi og því hef ég alls ekki innistæðu fyrir því að sleppa þeirri óskrifuðu reglu meðal froðusnakkara að missa stjórn á mér vegna landsdómsmálsins. Hér eru því nokkrir punktar, í samhengislausu samhengi.
Sjálfstæðismenn fara eins og við var að búast skemmtilegar leiðir til að rökstyðja mál sitt. Áður en ég fer í málflutning varaformannsins Ólafar Nordal má ég bara til með að fara í smá upprifjun. Ólöf Nordal missti útúr sér skoðun sína á skýrslu RNA í hinum merka íhaldsþætti Hrafnaþingi. Sjálfstæðismönnum líður þar (eðlilega) bara eins og heima í stofu, umkringdir skoðanabræðrum í notalegu spjalli og það eina sem vantar er rauðvínið. Þess vegna kemur stundum hinn óritskoðaði, pólitískt rangt þenkjandi íhaldsmaður óvart þar fram í þættinum. Ólöf sagði og ég veit að ég er bloggari nr. 5.000 að ítreka þetta, en þetta er bara of gott til að þetta sé ekki rifjað upp reglulega:
Þessi rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið.
Daginn eftir kom hin ritskoðaða og pólitískt rétt þenkjandi Ólöf Nordal fram og sagðist auðvitað sjá eftir þessu. Einhverjir keyptu sjálfsagt þá skýringu, en ekki ég, enda var tónninn einfaldlega svo einlægur heima í Hrafnaþingsstofunni að hún gleymdi að myndavélin var í gangi og einhver að horfa.
Nú er nýjasta hraðahindrunin á leið Sjálfstæðisflokksins til æðstu metorða á ný þessi hugmynd að ákæra fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm. Það finnst Ólöfu fráleitt meðan þeir ganga enn lausir sem ollu hruninu. Þessi punktur vakti athygli mína enda kunnugleg málsvörn. Bíddu við, hver tók aftur svipaðan pól? Það var ekki amalegri fyrirmynd fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur en fyrrv. stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson! Honum svíður mikið að verið sé að eyða tíma í Kaupþing á meðan ekki er búið að hefja sakamálarannsókn á Icesave reikningunum.
Ekki skal ég skera úr um forgangsröðun þeirra sem rannsaka þennan stóra skítahaug. En mér finnst vert að taka þennan forgangslista réttlætisins, útdeilt af Sigurði Einarssyni og Sjálfstæðisflokknum til frekari skoðunar. Maður sem beitir hníf í líkamsárás og stingur í læri hlýtur til að mynda að eiga skýlausan rétt á frestun síns máls meðan alvarlega mál annars manns sem stakk fórnarlamb í brjóstkassa er leitt til lykta. Svona mætti lengi halda áfram í ómálefnalegum samlíkingum ef menn vilja.
Fleira skemmtilegt hafa íhaldsmenn sagt. Ólöf og Siggi Kári tala um að næg refsing fyrir ráðherrana sé að fá svona slæma umsögn í skýrslunni og sú staðreynd að þau eru ekki lengur (utan Björgvins sem er í leyfi) þingmenn/ráðherrar í dag. Með útúrsnúningi má því segja að ef aðalgjaldkeri fyrirtækis yrði uppvís af fjárdrætti væri næg refsing fyrir hann að missa starfið og að um málið yrði skrifuð frétt á innraneti fyrirtækisins. Jæja, hendum jafnvel inn frétt á baksíðu Moggans um aðalgjaldkerann líka til að fá fullkomna útrás fyrir refsigleðina!
Ég veit ekki hvort þessir fyrrv. ráðherrar eru sekir eða saklausir um vanrækslu. Ég treysti hinsvegar Rannsóknarnefnd Alþingis svo miklu miklu betur en Ólöfu Nordal og Sigga Kára til að fjalla um það (sjá kafla 21 í skýrslunni). Það er hart að vera ákærður fyrir Landsdóm og sér í lagi þar sem sumir pólitíkusar hugsa að því er virðist meira um dóm sögunnar frekar en samtímans. En það er líka grafalvarlegt mál fyrir þolendurna að viðkomandi hafi tekið að sér ráðherraembætti og sýnt af sér vítaverða vanrækslu ef marka má skýrsluna. Leita ekki aðstoðar AGS mun fyrr þegar augljóst er að stjórnvöld hafa algjörlega misst tökin á efnahagsmálunum, hlusta ekki á viðvörunarorð og leyfa Landsbankamönnum að opna sparireikninga í nýjum löndum fram að síðustu mínútum kerfisins eða því sem næst.
Mín kenning er þessi og hún er ekki síst í boði Hrafnaþings-Ólafar: Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kæra ráðherrana af þeirri einföldu ástæðu að þá mun enn á ný fara fram krufning á því hver ósköpin þeirra fólk var að gera, eða öllu heldur, ekki gera! Þau vilja ekki að þetta mál þvælist fyrir lengur og því er best að kæra engan og segja bara bless sem fyrst við þessa óþægilegu skýrslu!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.9.2010 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.8.2010 | 00:36
Afsökunarbeiðni
Eftir tónleika Skálmaldar á Sódómu í kvöld sé ég ástæðu til að biðja lesendur mína afsökunar. Það er ljóst að í þessari grein hér á undan hélt ég of mikið aftur af mér og sagði í reynd bara hálfan sannleika. Þessi hljómsveit er einfaldlega sú langbesta sem hefur komið fram á Íslandi.
Hljómsveitir verða ekki mældar eingöngu af plötum heldur er tónleikaframmistaða þeirra lykilatriði. Eftir að hafa séð Skálmöld spila í annað skipti er ljóst að við hógværari lýsingarorð verður ekki unað og ég biðst innilegrar afsökunar að hafa ekki komið því nógu greinilega á framfæri í fyrri pistli að hér væri um að ræða það langbesta sem gerst hefur í íslenskri tónlistarsögu.
Vona að tilraun mín til hófstillingar í fyrri pistli verði mér ekki aldurtila en í kvöld missti ég heyrnina og það var fyllilega þess virði. Núna heyri ég til að mynda 75% suð og 25% eitthvað sem minnir á eðlilega heyrn. Ég festi eitthvað á filmu á litla Ixus og mun koma því skilmerkilega á Youtube við tækifæri en minniskortið kláraðist í hálfri Kvaðningu þannig að enn á ný mistekst mér að koma þeirri epík á vefinn. Fyrir næstu tónleika verður gripið til tæknilegra aðgerða, það er ljóst.
Svo fólk haldi ekki að ég sé einn, snargeðveikur tölvunörd í Grafarvogi að missa mig yfir þessari hljómsveit, er vert að geta að meðal dolfallinna í kvöld var biskupsdóttir og kvenkyns ljóshærður lögfræðingur tryggingafélags ásamt nokkuð fyrirsjáanlegum trylltum karlmönnum. Það segir sína sögu. Þeir sem mæta verða dolfallnir, burtséð frá fyrri áhuga á tónlist, háralit, aldri eða stöðu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.8.2010 | 22:27
Skálmöld er upprisin
Plötudómar eru góð afþreying. Því hef ég haft í hyggju um nokkra vikna skeið að setja nokkur orð á Internetið um plötu Skálmaldar, Baldur, sem kom út í litlu kynningarupplagi í tilefni Eistnaflugs í júlí. Hin formlega útgáfa mun vera á dagskrá í haust en engar dagsetningar liggja enn fyrir eftir því sem ég hef heyrt. Ástæða þessarar skyndilegu lyklaborðsræpu eftir 15 mánaða bloggdauða er sú að með þessari plötu hafa tímamót átt sér stað í íslenskri tónlist. Þarf að biðja lesendur afsökunar á óhóflegri lengd þessarar færslu en mér liggur mjög mikið á hjarta.
Ég ætlaði að skrifa um Baldur fljótlega eftir fyrstu hlustun en ég vildi ekki að dómurinn væri eins og 13 ára skríkjandi táningsstelpa hefði haldið á penna þannig að ég ákvað að bíða þangað til ég kæmi niðrá jörðina og gæti skrifað um málefnið af sérstakri hófsemi og yfirvegun. Sú stund hefur ekki komið ennþá og ég sé ekki að það gerist neitt á næstunni. Ég fékk ítrekaða gæsahúð við fyrstu hlustun og eftir tugi hlustana fæ ég enn gæsahúð! Ekki ávallt á sömu stöðum en það eru nokkrir fastir punktar sem ég hreinlega kemst ekki yfir og 13 ára gelgjan mætir aftur og aftur.
Til að lýsa þessu fyrir þeim sem hafa ekki reynt er vert að taka fram að Skálmöld spilar að eigin sögn víkingametal. Fyrir mér er þetta þungarokk í sinni hreinustu mynd, ætti að eiga sér sinn stað í lotukerfinu, frumefnið metall. Ég hef eiginlega öðlast algjörlega nýja trú á þungarokk við þessa hlustun, en eftir gott uppeldi Erlings og Ingvars Þórs á Hlíðarenda vildi ég ekki sjá annað sem ungur ormur. Platan er heildstæðari en nokkur plata sem ég hef heyrt á ævinni. Þetta er svokölluð concept plata þar sem sagan af Baldri er sögð með textum sem eru meistaralega samdir af Bibba og framburður þeirra ótrúlega góður, hef aldrei heyrt jafn harðan söng koma efninu betur á framfæri. Sagan og tónlistin passa svo fullkomlega saman, tónar sem maður heyrir ekki endilega við fyrstu hlustun styðja við hvað er að gerast í sögunni og uppbygging plötunnar er magnþrungin eins og sagan. Það hljómar lygilega en ég verð hálf miður mín í hvert einasta skipti sem komið er að lokum lagsins Dauða, en eins og nafnið gefur til kynna boðar það ekki mikil partýhöld án þess að ég vilji kjafta frá sögunni. Svipuð tilfinning eins og þegar maður hefur horft á eitthvað ægilegt drama í sjónvarpinu. Alveg ótrúlegur fjandi, eins og ég er laginn að leiða texta hjá mér, enda sjaldnast merkilegir. Með því að hlusta á plötuna aftur má þó hressa sig verulega við enda allir sáttir að lokum!
Algjört lykilatriði er að hlusta á verkið í heild sinni, en fyrst ég er að setja mig í spor Arnars Eggerts og Árna Matt verð ég auðvitað að taka einhver lög sérstaklega fyrir. Freistandi er að velja Kvaðningu sem lag plötunnar, enda epískt stórvirki, tæpar 8 mínútur og það lag sem maður hefur heyrt oftast enda fór það fyrst í Myspace-dreifingu. Lagið Dauði hefur þó sótt sérstaklega á mig, bæði vegna þess hvað textinn er dramatískur, uppbyggingin og stígandinn í laginu svo magnaður, fyrir utan hvað ég verð alltaf meyr eins og ólétt kona eftir að síðasta lína lagsins hefur verið sögð. Fyrst ég byrjaður að nefna lög get ég þó ekki sleppt Árás, enda svo grafískt lag og ægilega reitt að ég sem sérlegur aðdáandi reiðrar tónlistar get ekki annað en fagnað því sérstaklega. Upprisa er einnig frábært umbrotalag og passar svo fullkomlega við söguna. Heima og Valhöll frábær byrjun og endir, ramma verkið fullkomlega inn. Í Hefnd mætir söngvari Sólstafa sem gestur og gerir mig skíthræddan í hvert skipti, ekkert nema illskan uppmáluð þetta helvíti og gerir okkar sögupersónu litla greiða. Var smástund að venjast hans innkomu, en finnst þetta frábært samspil í dag. Ekki mörg lög eftir ónefnd núna, en til að einhver taki mig trúanlegan sem gagnrýnanda verð ég náttúrulega að segja stopp núna áður en ég klára öll lögin.
Ég þyrfti að skrifa meira um textana, enda eru þeir lykiltromp þessarar plötu og algjör undirstaða verksins, en ef ég á einhvern tímann að geta hætt þarf ég að koma mér í spilamennskuna sjálfa. Þar eru þvílíkir endemis meistarar sem stýra för að ég get ekki á heilum mér tekið. Böbbi, minn uppáhalds metal-söngvari í sögunni fær loksins plássið sem hann á skilið og gerir svo vel að við hans örgustu fylgismenn gátu varla séð fyrir hversu stórbrotinn frontmaður hann er! Þráinn í Torfunesi sem sólógítarleikari er ekki neitt eins og íslenskur sveitadrengur, heldur eins og besti gítarleikari í heimi skv. Böbba og þar sem Böbbi hefur aldrei haft rangt fyrir sér um þungarokk sé ég ekki ástæðu til að rengja þann dóm. Trommurnar hjá Jóni Geir algjörlega trylltar og tvöfalda bassatromman þar sérstaklega vinsamleg. Hæfileikaríkustu bræður í íslenskri tónlist síðan McCartney/Lennon (og þeir voru ekki einu sinni bræður, hvað þá íslenskir), Baldur og Bibbi, virðast geta gert allt í tónlist sem þeim dettur í hug. Gunnar Ben, óvæntasti liðsmaður metalsins, kann sömuleiðis allt sem þarf að kunna í tónlist og er þarna eins og innfæddur, hans spilamennska og söngstjórnun gefur plötunni nauðsynlega breidd sem meistaraverk þurfa að hafa.
Að þessu sögðu er litlu við þetta bæta nema því að ég hef tekið Ágætis byrjun af stallinum sem besta plata íslenskar tónlistarsögu og krýnt Baldur sem hinn nýja konung, lengi lifi konungurinn!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.5.2009 | 21:49
Að vera með bindi eða ekki og meira til
Ekki getur maður látið taka sig alvarlega sem nöldrandi kverúlant öðruvísi en að blogga um bindi alþingismanna eða hugsanlegan skort á þeim. Hvernig fólk fær það út að það sé mikilvægur þáttur í virðingu fyrir Alþingi að karlmenn séu með hálstau er mér ofan skilningi. Það er grunnhyggið og ber þess merki að sérstakt útlit, ákveðin ímynd af karlmanni með bindi, skipti viðkomandi meiru en innihald. Sjálfsagt mál að gera þá kröfu að fólk sé snyrtilega klætt, en að bindi/slaufa spili lykilrullu í því er furðuleg míta.
Best ég setji þetta í annað samhengi. Nú er Dalai Lama á leið til landsins, ef honum myndi líka svo vel hérlendis að hann ákvæði að setjast hér og bjóða sig fram til Alþingis (hann færi auðvitað fram fyrir Framsóknarflokkinn fyrst ég gaf honum þessa hugmynd), þætti talsmönnum hálstaua Alþingi setja mikið niður ef Lama dirfðist til að mæta bindislaus?
Kannski ekki raunhæfasta dæmið. En ef Dalai Lama getur komist með vott af virðingu í gegnum lífið bindislaus, af hverju má Þór Saari ekki gera það líka?
Breytt kl. 22:10. Ég vissi að Dalai Lama samlíkingin væri hæpin en ekki að hún væri stolin, eða amk stolin í gáleysi! Frúin sagðist sem sagt hafa séð þetta einhversstaðar áður Ekki man hún hvar þannig að ég heiðra viðkomandi með link þegar hann finnst!
---
Mikill fjöldi fólks hefur velt því fyrir sér á undanförnum mánuðum hvort hag þeirra sé betur borgið erlendis en á Íslandi. Ég neita því ekki að sjálfur hefur maður haft þetta bakvið eyrað og hugsað útí þennan möguleika. Það sem ýtir eiginlega stöðugt við mér er þetta gríðarlega framboð á neikvæðri umræðu. Enda hef ég heyrt í mörgum viðtölum við brottflutta samlanda hvað þeir eru fegnir að komast "útúr þessu andrúmslofti". Vissulega eru erfiðleikar í efnahagslífi nágrannalandana en hérlendis eru þeir af slíkri stærðargráðu að þessi umræða gegnsýrir alla umræðu útum allt! Ég tók þá meðvituðu ákvörðun fyrir einhverjum mánuðum að hætta að horfa á alla fréttatíma, það vissulega hjálpar, en ég get einhvern veginn ekki lokað bara augunum fyrir öllum þessum fréttum, andsk. þjóðmálaáhuginn er böl.
Síðan neita ég því ekki að það fyllir mig ákveðnu vonleysi fyrir hönd lífvænlegra fyrirtækja í landinu hvernig bankarnir og ríkið virðist vera að spila úr fyrirtækjunum sem koma í fangið á þeim. Sbr. grein forstjóra Office1 um helgina og viðlíka ummæli fjölmargra í atvinnulífinu að undanförnu. Það gengur ekki að þetta litla hlutfall fyrirtækja sem þrátt fyrir allt stendur vel, þurfi að fara í fyrirfram vonlausa baráttu við ríkið. Hvort eignaumsýslufélag ríkisins sé besta lausnin á þessum vanda veit ég ekki en ég tek alvarlega ráðleggingar frá jafn reyndum sérfræðingum og hinum sænska Mats Josefsson.
---
Úff... las þetta yfir og talandi um að kasta steinum úr glerhúsi, ég að kvarta yfir offramboði á neikvæðri umræðu og býð svo uppá þetta! Mæli með að þið kíkið á Baggalút til að hressa ykkur við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)