17.5.2009 | 00:19
The Office
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er meira vit í svona lausn en að ágreiningsmál milli flokka verði "leyst" með því að leggja þau í dvala í 4 ár (eins og Samfylkingin samþykkti að gera með Evrópumálin í maí 2007). Það er þá eins gott að VG-ráðherrarnir hlíti niðurstöðunni og taki ekki Þórunni-Sveinbjarnar á þetta og reyni að tefja málið ef þingið felst á aðildarumsókn.
Ef þingið felst ekki á aðildarumsókn..., þá fyrst verður tilefni til að draga fram breiðu spjótin á þessu bloggi.
---
Eins og fleiri vil ég að þessar viðræður myndu ganga hraðar, enda gerist ekkert í stjórnkerfinu fyrr en ný stjórn verður mynduð. Vitna í góðan mann og segi að Alþingi ætti að vera á sólarhringsvöktum við að bjarga því sem bjargað verður. Þó það skemmi þriggja daga helgarnar hjá Ástu Ragnheiði. Ódýrt skot, en verðskuldað!
---
Ég vona innilega að Gylfi Magnússon verði áfram í Ríkisstjórninni. Mér þykir miður að hann skuli ekki vera tilbúinn að reyna að semja um afskriftir skulda, en ég tel samt að hann sé yfirburðamaður úr hópi líklegra kandídata til að mynda næstu Ríkisstjórn. Fyrst ég fór inná þetta mál, afskriftir skulda, er vert að benda á hvernig Sænska fjármálaeftirlitið lítur íslenskar eignir. Frétt sem lítið fór fyrir í lok árs 2008 en segir að FI meti íslenskar eignir sem verðlausar. Væntanlega ekki eina erlenda stofnunin sem gerir það? Hvernig væri að skuldarar fengju að njóta þess líka? Fjármagnseigendum voru færðir 200 milljarðar til að bæta þeim upp tapið af peningamarkaðssjóðunum, gleymum því ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.4.2009 | 00:01
Lausnarsetningin er: "...miðað við umhverfið þá"
Sjálfstæðismenn hafa svör við öllum erfiðum vandræðamálum. "Þetta var rétt ákvörðun á þeim tíma miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir", "í því andrúmslofti sem þá ríkti", eða nýjasta tuggan "...miðað við umhverfið þá".
Ósjaldan var eitthvað á þessa leið notað fyrir síðustu kosningar til að afsaka stuðninginn við innrásina í Írak og nú skal nota þennan frasa á ný, í þetta skiptið til að afsaka milljóna styrki vegna prófkjara.
En það þýðir einfaldlega ekkert að vera með svona bull. Sjálfstæðismenn samþykktu ásamt öðrum flokkum þetta ár að hámarksframlag til hvers stjórnmálaflokks ætti að vera 300.000 kr. á ári. Sú tala var ekki tilviljanakennd heldur rædd í þaula í hópnum sem samdi drögin að lögunum. Þannig að "í þessu umhverfi" árið 2006 fannst flokkunum nú samt 300 þús eðlilegt hámark.
Ekki reyna að halda fram að 2.000.000 kr. styrkir hafi því þótt jafn sjálfsagðir og 2-3 kex-kassar frá Frón árið 2006.
---
Vil þakka DV fyrir að hjálpa mér að koma útúr skápnum sem Framsóknarmaður. Eins og þeir sem mig þekkja eða eru lesendur hér vita hef ég farið gríðarlega leynt með þetta alla tíð, sem mannsmorð. En þökk sé tímamóta uppljóstrunum "leyniskjala" get ég ekki falið mig lengur. Vil svo annars biðja DV og Flokkinn afsökunar á að hafa ekki verið duglegri að "reka erindi flokksins á síðum mínum".
---
Þó það komi auðvitað lítið á óvart nú eftir þessa Watergate frétt frá DV er best ég upplýsi að ég hyggst kjósa Framsóknarflokkinn á laugardaginn. Eins og ég hef rakið hér áður er Flokkurinn ekki hvítþveginn og mikil mistök voru svo sannarlega gerð undir hans stjórn. En hinn venjulegi flokksmaður ákvað að því þyrfti að skipta út fólki og það hefur svo sannarlega verið gert. Á meðan Framsóknarflokkurinn er með tvo núverandi þingmenn sem oddvita (af sex kjördæmum) er okkar gamli samstarfsflokkur með þingmenn í öllum kjördæmum utan eins á toppnum. Samfylkingin sem "axlaði ábyrgð með því að fara úr einni Ríkisstjórn í aðra" (ég lýg því ekki, Össur sagði þetta í kvöld! Hann hefði örugglega skrifað uppá syndaaflausn íhaldsins ef þeir hefðu gert hið sama) er með núverandi þingmenn sem oddvita í öllum kjördæmum. Meira að segja gamli bankamálaráðherrann sem taldi sig þurfa að víkja fyrir korteri síðan telur sig vera kláran í slaginn strax aftur!
Efnahagstillögurnar frá Framsókn eru heldur ekki bara endalausar frestanir á lánum sem í tilfelli okkar unga fólksins, eru mjög löng fyrir, það finnst mér góð tilbreyting frá tillögum vinstri flokkanna og nú hefur íhaldið hoppað á þann vagn. Pdf skjal með þeim má nálgast hér.
Þetta blogg varð of langt fyrir 100 setningum síðan - segjum þetta því gott í apríl, sjáumst í maí
28.3.2009 | 18:53
Útdráttur úr ræðu Davíðs
Mikill áhugi er á ræðu Davíðs Oddssonar (Seðlabankastjórinn sem kom Seðlabankanum á hausinn) frá landsfundi íhaldsins í dag, en þar sem nú er laugardagur á fólk að eyða tímanum betur en í lestur á slíkum pistlum. Fyrir lesendur er hér því útdráttur úr ræðu Davíðs:
Ég er snillingur. Þið hin eruð fífl.
26.3.2009 | 00:07
Það lifir!
Þegar maður tekur sér sex vikur í bloggfrí er náttúrulega vonlaust að velja eitt atriði til að taka fyrir. Hér kemur því grautur af algjörlega óskyldum málum. Kvörtunum um að bloggfríið hefði átt að vera lengra skal beina til Dóra, ég gat ekki hugsað mér að svíkja hann lengur um færslu.
- Undirritaður hefur (vonandi) náð hápunkti í söfnunaráráttu sinni á Pearl Jam varningi, í miðri heimskreppu. Söfnunarárátta spyr einfaldlega ekki um ástandið á fjármálamörkuðum. Plötuspilari með usb tengi óskast því til kaups!
- Icelandair hefja beint flug til Seattle í júlí. Þar með verður þessi kynngimagnaði tónleikastaður nánast í göngufæri! Óskandi að krónu-draslið verði hagstætt þegar Pearl Jam fer í næstu tónleikaferð um heimaslóðirnar.
- ASÍ opinberar blauta drauma sína um að gerast formlegt aðildarfélag að Samfylkingunni. Nauðsynleg hreinsun frambjóðanda í öðrum flokkum þarf þó að fara fram fyrst og stendur hún yfir.
- Nafni minn í NV tapar í prófkjöri og gengur í annan flokk daginn eftir. Það voru þó að hans sögn fyrst og fremst málefnin sem réðu ákvörðuninni um flokkaskiptin. Ekki beint í fyrsta skipti sem þetta gerist en að reyna að bjóða fólki uppá svona þvaður er óþolandi. Ég er talsmaður þess að stjórnmálamenn hætti þessari froðu og bulli, tali af hreinskilni eða tali ekki. Hér er því ókeypis uppkast að fréttatilkynningu fyrir þann sem næst reynir þetta:
Góðir Íslendingar! Ég skíttapaði í prófkjörinu um helgina og er hundfúll. Vil því sjá [nafn flokks skráð hér] fara veg allrar veraldar fyrst þið kusuð mig ekki, ég sem hélt að ég væri vinur ykkar og félagi! Ætla að reyna að hefna mín með skráningu í Sorpu íslenskra stjórnmála og ætla að tala illa um kvótann, það virkar alltaf vel í partýum. Sé ykkur í neðra!
- Eldsmiðjan gerir atlögu að heilsu minni með mánaðarlöngu tilboði. Þrátt fyrir að vera veikgeðja skyndibitamaður hef ég staðist freistinguna um eina eldbakaða á dag sem í byrjun mánaðar var spennandi markmið.
- Framsóknarmenn í NA sýna enn á ný hversu góðir þeir eru í að velja sér framboðslista.
- Að lokum spádómur um væntanlegan landsfund íhaldsins um helgina: Bjarni Ben verður kosinn formaður með 73% atkvæða. ESB aðildarumsókn mun aldrei eiga séns á þinginu. Setningin "við getum ekki fyrir nokkra muni gengið í ESB nú né nokkurn tíma síðar, algjörlega óháð því hvað hér kann að koma uppá, því þar með missum við heljartökin á Íslandi" verður þó felld úr ályktanadrögunum og landsfundarfulltrúar sammælast um að þegja áfram yfir þessari megin-ástæðu fyrir ESB-fælni flokksins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.2.2009 | 20:01
Fyrst Davíð og Baldur, svo þið hin
Hvar eru stóru orðin um þessa fjórtán þúsund? Af hverju skrifar fyrrv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins ekkert um þá?
Ástæðan er einföld, fyrst kemur flokkurinn og hans dyggu liðsmenn, síðan (ef tími vinnst til, í Guðs bænum ekki halda í ykkur andanum) er það rest.
31.1.2009 | 12:10
Eiga Framsóknarmenn ekki að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni?
Það er mun heiðarlegra að útkljá álitaefni núna, áður en stjórnarsáttmálinn er naglfestur heldur en þegar þessi gríðarlegu stóru mál munu koma upp í þinginu. Eða hvernig er það, vill fólk ekki að sjö þingmenn Framsóknarflokksins greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni? Ekki hefur mér heyrst vera mikil stemming fyrir því í þjóðfélaginu að þingmenn greiði bara atkvæði eftir pöntun, hvað sem þeim raunverulega finnst um málin.
Framsóknarflokkurinn ætlaði aldrei að gefa út óútfylltan tékka fyrir stuðning við þessa ríkisstjórn. Strax í upphafi voru skilyrðin sett fram þannig að það þarf ekki að koma neinum á óvart.
Samþykkjum raunhæfar aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum sem sérfræðingar meta sem framkvæmanlegar, en ekki innihaldslaust orðagjálfur sem mun ekki ganga upp þegar á reynir!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.1.2009 | 22:03
Utanþingsstjórn útrásarvíkinga
En í það sem þessi færsla átti að snúast um, tillögu um utanþingsstjórn! Geir hefur verið tíðrætt um ábyrgð þeirra sem ráku bankana í þrot. Í anda þess að hann vildi stýra landinu uppúr erfiðleikunum og axla þannig ábyrgð hefði hann auðvitað átt að stinga núna uppá ríkisstjórn útrásarvíkinga í stað þjóðstjórnartals. Ég geri það þá fyrir Geirs hönd hér með. Um þennan hóp ætti að nást víðtæk samstaða og sátt, sé fyrir mér Arnarhólshyllingu eins og þegar Silfurliðið kom heim í fyrrasumar þegar tilkynnt verður um þennan ráðahag:
Forsætisráðherra
Sigurður Einarsson, fyrrv. stjórnarformaður Kaupþings. Stýrði stærsta bankanum og þeim sem lifði lengst, þangað til hið breska FME gat ekki lengur horft uppá að íslenskur banki lifði hrunið af. Hefur því harma að hefna gegn Bretum sem er ótvíræður kostur fyrir sameiningartákn þjóðarinnar.
Fjármálaráðherra
Ólafur Ólafsson. Mörgum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hefur verið þyrnir í augum dýralæknamenntun Árna Mathiesen. Ólafur er viðskiptafræðingur þannig að um þetta embætti verður full sátt hjá dómstóli götunnar.
Dóms- og kirkjumálaráðherra
Jón Ásgeir Jóhannesson. Hefur víðtæka reynslu af dómsmálum og þekkir því málaflokkinn vel. Hefði þarna möguleika á að gera föður sinn að biskup yfir Íslandi sem ætti að falla stórum hluta þjóðarinnar í geð.
Umhverfisráðherra
Lilja Pálmadóttir. Hefur tök á að kaupa CO2 útblásturskvóta úr eigin vasa og þarf því ekki að eyða dýrmætum tíma í samninga um sérákvæði fyrir Ísland.
Menntamálaráðherra
Róbert Wessmann. Lét veskið tala og gaf HR milljarð. Sýndi þar ótvírætt áhuga sinn á bættri menntun þjóðarinnar.
Heilbrigðisráðherra
Róbert Wessmann. Hefur að sögn Árna Sigfússonar sýnt skurðstofum í Keflavík áhuga. Gerum þetta milliliðalaust og setjum hann í heilbrigðismálin.
Samgönguráðherra
Hannes Smárason. Með víðtæka reynslu af flugrekstri, eða öllu heldur kaupum og sölum flugfélaga. Gæti þjóðnýtt flugfélög og selt þau svo aftur, þjóðnýtt svo á ný.
Utanríkisráðherra
Karl Wernesson. Með sterk tengsl í Svíþjóð og austurlöndum.
Sjávarútvegs-, landbúnaðar-, iðnaðar og viðskiptaráðuneyti
Þessi ráðuneyti ætti auðvitað vera búið að sameina. Maðurinn til að leiða þá sameiningu er Hreiðar Már Sigurðsson. Hefur marga sameininguna sopið og myndi klára dæmið fyrir páska.
Félagsmálaráðherra
Ólafur Ragnar Grímsson. Var öflugur málsvari útrásarfyrirtækja og þekkir því vel samstarfsfólkið í utanþingsstjórninni.
Við þetta má bæta tveimur umdeildum embættum:
Forstjóri FME
Davíð Oddsson. Sá bankahrunið fyrir eins og hann hefur margoft ítrekað og ekki hefur Geir H Haarde borið það til baka. Dældi samt milljörðum í bankana fram undir síðustu mínútu þannig að hann þarf að axla ábyrgð á tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans (sem Árni M reddaði með pennastriki fyrir áramót).
Formaður bankastjórnar Seðlabankans
Geir H Haarde. Hagfræðingur og því fáum við loksins hagfræðing í þetta umdeilda embætti. Ótvíræð sátt mun því verða um Geir.
---
Um allt hefur verið bloggað þúsund sinnum á dag síðustu mánuði, biðst því velvirðingar ef þessi pistill er nánast copy/paste af hugmyndum annarra bloggara sem eru fljótari til lyklaborðsins en ég! Ég á mikið inni í skrifum, s.s. um nýja og glæsilega forystu Framsóknarflokksins, um "samheldni Ríkisstjórnarinnar" eftir vantrauststillöguna í haust, komu Guðmundar Steingrímssonar í Flokkinn ofl. en með þessum blogg-afköstum skulið þið ekki vaka eftir þeim pistlum lesendur góðir.
7.1.2009 | 22:06
Vínbúð ársins 2006 og 2007 en "stendur ekki undir væntingum"
Verandi dyggur viðskiptavinur Vínbúðarinnar í Spönginni kom þessi frétt mér verulega á óvart. Ekki síst því mig minnti endilega að uppá vegg í búðinni væru viðurkenningar fyrir "Vínbúð ársins". Smá gúggl og ég gat séð að hún vann þessi verðlaun hvorki meira né minna en tvö ár í röð, 2006 og 2007! Samt er reynt að telja manni trú um að:
Húsnæðið var orðið óhentugt miðað við þá þjónustu og vöruúrval sem viðskiptavinir óskuðu eftir.
Húsnæðið og vöruúrvalið var nú samt ekki verra en svo að viðskiptavinir* ÁTVR völdu þessa verslun vínbúð ársins í flokki stærri vínbúða síðustu tvö ár! (ekki er búið að velja fyrir 2008 eftir því sem ég komst næst).
Ekki er þessi furðulegi gjörningur til að minnka áhuga minn á því að afnema einkarétt ÁTVR á sölu áfengis. Fyrst þeir hafa ekki áhuga á að þjónusta 18.000 manna hverfi er greinilega full ástæða til að eftirláta öðrum þau viðskipti.
---
Ég blogga aldrei við fréttir en í þetta skipti gat ég ekki stillt mig, nú vitið þið lesendur góðir hvar hjarta mitt slær greinilega sem örast!
---
*Uppfært 09.01.09: Mér var bent á að viðskiptavinir veittu búðinni góðu ekki þessi verðlaun heldur gerði ÁTVR það sjálft, þakka Berki fyrir það. Það breytir því ekki að skýringar ÁTVR hljóma þá ekki síður einkennilega, til hvers að verðlauna búð sem þeir segja nú að hafi valdið vonbrigðum í rekstri undanfarin ár? Furðulegt.
Vínbúð í Spönginni lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 9.1.2009 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.12.2008 | 14:00
Samfélagsleg ábyrgð með flugeldakaupum
Ef allir ætluðu sér að spara og fylgjast bara með nágrannanum fíra upp myndum við fljótt vera komin í óefni og svartan himinn. Það gengur auðvitað ekki enda flugeldar á pari við skemmtilegustu uppfinningar mannkynssögunnar, s.s. Playstation 3, The Office og fjarstýrða bíla.
Það er reyndar ekki svo að ég sé til sérstakrar fyrirmyndar í flugeldamálum, í besta falli meðalmaður, en þetta spilar allt rullu í heildarmyndinni á himninum.
---
Óska lesendum gleðilegs nýárs, með þökk fyrir lesturinn og athugasemdirnar á árinu. Segi svo eins og mamma kvaddi mig alltaf þegar maður tók að fara útá á lífið (og segir reyndar enn þegar ég er f.norðan), skemmtið ykkur fallega í kvöld!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)