Ótrúverðugir stjórnmálamenn

Ég er á því að ein ástæða fyrir almennt lítilli trú almennings á stjórnmálamönnum sé sú algenga gildra sem stjórnarandstæðingar falla í, að tala algjörlega ábyrgðarlaust eins og Ríkissjóður sé ótæmandi gullkista sem ríkisstjórnin lúri á og opni ekki uppá gátt sökum mannvonsku sinnar.  Síðan þegar viðkomandi stjórnmálamaður sest hinu megin við borðið og verður jafnvel ráðherra vandast málin, enda eru hlutirnir sjaldnast svona einfaldir.

Ástæðan fyrir þessum inngangi er að sjálfsögðu Kristján Möller.  Ég hef ekki verið í aðdáendahópi hans enda hefur mér þótt einsýnt að hann væri þessi gerð af stjórnmálamanni sem ég lýsti hér að ofan.  Fyrir kosningar var þverpólitísk samstaða í Norðausturkjördæmi um að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng.  Heimamenn höfðu tekið mikið og gott frumkvæði með stofnun Greiðrar leiðar ehf. og þannig náð að koma  undirbúningi mun lengra en ella hefði verið.  Framsóknarflokkurinn og Valgerður töluðu um að setja þetta í framkvæmd sem einkaframkvæmd enda voru þau ekki inná vegaáætlun.  Veggjöld yrðu innheimt, þó ég sé eindreginn stuðningsmaður gangnanna hefði verið erfitt að réttlæta að kippa þessum göngum framfyrir vegabætur á ónýtum vegum Vestfjarða og víðar, þar sem menn eru að berjast fyrir göngum í stað stórhættulegra vega, já eða einfaldlega malbiki í stað ónýtra malarvega.  Eins og mér leiðist Víkurskarðið á veturna gerist það sem betur sjaldan að það lokist lengi í einu.

Kristján Möller taldi sig þurfa að yfirbjóða þetta og ekki var það amalegt sjónarmið sem réði för.  Nefnilega jafnréttis- og jafnræðissjónarmið.  Þetta sagði Möller fyrir minna en ári, 20.apríl 2007:

Ég er með þessu að segja að veggjald verði ekki innheimt af notendum Vaðlaheiðarganga, ekki frekari en fyrir notkun fyrirhugaðrar Sundabrautar og Suðurlandsvegar þegar hann verður tvöfaldaður. Jafnréttis- og jafnræðissjónarmið ráða því þessari hugmynd minni. (Heimild er hinn góði vefur Samfylkingarinnar, sem geymir marga áþekka gullmola, feitletrunin var nú samt mín, http://kjordaemi.xs.is/Kjordaemi/Nordausturkjordaemi/Greinar/Lesagrein/1650)

Nú á að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar að hluta og Vaðlaheiðargöng.  Búið er að greina frá því að veggjöld verði innheimt í Vaðlaheiðargöngum en lítið heyrst um veggjöld á Suðurlandsvegi.  Hvar er jafnréttið og jafnræðið núna?  Af hverju er ekki rukkað á Suðurlandsvegi?

Kristján þarf ekki að svara til saka hjá mér, en hann skuldar því fólki í Norðausturkjördæmi sem kaus hann í vor útá þennan fagurgala skýringar á því hvað varð um þessi jafnræðissjónarmið.

Ég gæti skrifað greinaflokk um þessa áráttu hans, talið upp gífuryrðin í fyrravor um klúður Sturlu Böðvarssonar í Grímseyjarferjumálinu sem voru skyndilega orðin einhverjum skipaverkfræðingi að kenna eftir kosningar (enda núna með Sturlu í liði).  Hann baðst reyndar afsökunar ummælunum síðar, það var samt ekki fyrr en einsýnt væri að hann myndi tapa dómsmáli útá þessi ummæli sín um Einar Hermannsson skipaverkfræðing. Stórmannleg afsökunarbeiðni.  Veðrið í dag er bara of gott til að eyða frekari tíma í Kristján Möller.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkominn í bloggheiminn. Loksins byrjar þú að blogga :)

Verður gaman að fylgjast með skrifum þínum á síðunni

Ella Þóra (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 23:12

2 identicon

Mikið sem þessi pistill er réttur!

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband