Íhaldspungurinn ég

Ég hef verið að gera mér æ betur grein fyrir því hin síðari ár hvað ég er mikill íhaldspungur.  Tek fram strax að þessi íhaldssemi á ekkert skylt við hin steingelda stjórnmálaflokk úr Valhöll sem kennir sig (ekki) við íhald.  Þetta lýsir sér á ýmsa vegu, allt frá því að hindra Unni í að kaupa flíkur í óþarflega rauðbleikum lit á strákinn okkar, stoppa frekar í Brú en Staðarskála nema líf og limir liggi við, í að vera af-því-bara ekkert ginkeyptur fyrir ágætum rökum þeirra sem berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.   Mörg fyrirtæki hafa svo notið góðs af þessu og hafa þau verið mis vel að viðskiptunum komin.

Nú er hinsvegar eitt íhaldsvígið fallið, ég er að skipta um gsm-símfyrirtæki eftir 10 ára sambúð!  Féll fyrir gylliboði Nova sem voru svo elskuleg að bjóða mér (og öðrum á sv-horninu) 2000 kr. inneign næstu 12 mánuði ef ég kæmi í viðskipti.  Þ.e. ef ég keypti mér 3G farsíma sem kostar sömu upphæð, síminn er því ókeypis eða þannig kemur það amk út í praxís.  Áður en ég lét verða af þessu reiknaði ég í dágóða stund sem var ekki jafn auðvelt og ég reiknaði með, verðskrár símfyrirtækjanna eru greinilega hannaðar með það í huga að vera ósambærilegar.  Ég tel þó að ég nái að spara mér einhvern aur með þessu uppátæki en innst inni veit ég alveg hver hin raunverulega ástæða fyrir sinnaskiptunum er.  Hversu dásamlegt er nú að geta loksins verið tengdur með háhraða nettengingu í símann?  Þetta verður auðvitað allt annað líf og þó þetta sé ekki gengið í gegn vegna símnúmeraflutningsins sé ég strax hversu mikið hark það var að lifa án þessa hingað til.  Einhverjir afturhaldsseggir og enn meiri íhaldsfauskar en ég hafa reynt að halda fram við mig að maður hafi ekkert með þetta að gera.  Það er auðvitað alrangt og mun ég sýna fram á það með að nota hvert einasta megabæti í áskriftinni.  Ég var orðinn heitur fyrir þessu en þegar sölustúlkan hjá Nova sýndi mér höktandi sjónvarpsútsendingu í símanum var mér öllum lokið og sjá mátti tár á hvarmi undirritaðs, mikið er nú tæknin frábær!

Ég bið Seðlabankann afsökunar á því að hafa með þessu stuðlað að auknum viðskiptahalla þar sem Nova hafa tæplega líka fengið símann gefins.  Mér til málsbóta bendi ég á lægri símreikningur hjá mér kemur til lækkunar verðbólgu á næstu mánuðum.  Síðan hef ég ekki keypt neitt  á eBay í rúma tvo mánuði, þetta hlýtur að telja Davíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér á árum áður hefði ég verið sammála þessu. Ég hef hinsvegar staðið sjálfan mig að því að vera merkilega víðsýnn í seinni tíð. Ég er t.d. löngu byrjaður að stoppa jafnt í Staðarskála og Brú, sennilega meira í Staðarskála núorðið. Ég skipti líka um símafyrirtæki fyrir tveimur til þremur árum. Ég gæti nefnt fleira.

Mikið vona ég nú annars að ég muni upplifa aðskilnað ríkis og krikju. 

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 15:35

2 identicon

Uss, ég hef aldrei tekið inn Stöð 2, þ.e. fengið afruglara inn á mitt heimili; frekar stoppað á Brú en í Staðaskála (að vísu sami eigandi í dag og verið að sameina í einn skála); frekar ekið bensínlaus en að versla það hjá íhaldinu (Shell); verslað í kaupfélögum heldur en í klukku- eða Baugsbúðum, átti og á bara í viðskiptum við Samvinnubankann, læt senda mér vörur með Skipadeild SÍS; svona mætti lengi telja.

Einar Gunnar (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband