Ástkær miðstjórnin og frumlega Ríkisstjórnin

Gallinn við er að vera vikubloggari er að öll mál eru úreld og menn almennt búnir að gleyma þeim þegar ég dusta rykið af lyklaborðinu.  Ég ætla samt að brydda uppá einu "gömlu" máli sem flestir hafa nú þegar bloggað um en það er ræða Guðna frá miðstjórnarfundi Flokksins frá því á laugardag.  Hún á reyndar eftir að eldast eins og gott viský (ég drekk reyndar ekki viský, slæm samlíking).

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf verið neitt sérstaklega hrifinn af ummælum Guðna um Evrópumál í gegnum tíðina en mér fannst hann halda frábæra tölu á laugardag.  Hann hvatti andstæðinga aðildar og stuðningsmenn til að vera ófeimna við að ræða ESB-aðild ítarlega án hræðslu um klofning flokka og virða það að sjónarmið eru skipt innan flestra flokka.  Eitt stærsta vandamálið í Evrópuumræðunni hérlendis er einmitt það að í stærsta flokknum er þagnarbindindi um málið, vegna þess að fyrir forystumenn flokksins skiptir meira máli að halda flokknum saman en hagsmunir almennings (já Geir, ég er að tala um þig og forvera þinn).

Eins var ég sérstaklega hrifinn af því að hann vill vinna ákveðna grunnvinnu strax, s.s. lög vegna þjóðaratkvæðagreiðslu, þá eru slík veigamikil formsatriði ekki í veginum ef þjóðin kýs að ganga til viðræðna.

Helst saknaði ég úr ræðunni að hann þakkaði mér ekki fyrir að auka fylgi flokksins um ca 2,5% á tveimur mánuðum, en það er allt í góðu Guðni, ég er ekki að þessu fyrir egóið.  Framsóknarflokkurinn fór sem sagt upp um tæp 2% í Þjóðarpúlsinum í apríl og hér má sjá hvað í ósköpunum það tengist þessu bloggi.

 ---
Ríkisstjórnin átti stórleik í dag.  Á samráðsfundi hennar með aðilum vinnumarkaðarins var kynnt þessi margslungna, epíska og frumlega hugmynd sem lesa má um á mbl:

Fundurinn hafði verið boðaður með talsverðum fyrirvara og hefur annar fundur verið ákveðinn í sumar. Fyrir þann fund munu sérfræðingar fara yfir mál og greina vandann og koma með tillögur um til hvaða aðgerða megi grípa.  Slóð


Hver mínúta hefur greinilega verið nýtt í botn síðustu vikur og mánuði fyrst þetta er niðurstaða dagsins.  Ég sé í anda einkafyrirtæki þar sem verulegir erfiðleikar steðja að.  Framkvæmdastjórnin hittist nokkrum mánuðum eftir að í óefni er komið og viðskiptavinir farnir að missa trú á vörunni.   Ákveður þá eingöngu að það væri nú gaman að hittast aftur síðar, t.d. í sumar yfir kaffibolla þegar farið er að hlýna, fá nokkra velvalda menn til að henda upp tillögum fyrir þann fund og sjá svo til með framhaldið.  Það er líklega ekki að ástæðulausu af hverju Geir og Ingibjörg  voru ekki keypt í stjórnunarstöður í bankana þegar þeir voru sem duglegastir í hausaveiðunum...

En mikið var nú samt ánægjulegt að heyra þetta frá Geir:

Það er óhætt að segja að að það var mjög góður samhljómur á fundinum og það hefur enginn áhuga á því að verðbólga festist hér í sessi," sagði Geir. „Það var einhugur meðal manna að ná þeim stöðugleika á ný sem er nauðsynlegur. Slóð


Hann hefur líklega átt von á einhverju allt öðru.  Ögmundur að hvetja til þess að reynt yrði að ná amk 25% ársverðbólgu eða Vilhjálmur að tala fyrir almennri upplausn.  Afsakaðu kaldhæðnina Geir, þú veist samt vel að þú bauðst uppá þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ert sonur Hreiðars Karls og Jónínu?? ég er Húsvíkingur, afi minn hét Jónas Hagan, ef þú kannast við hann. 

Ásdís Sigurðardóttir, 9.5.2008 kl. 14:49

2 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Hárrétt Ásdís, heiðurshjónin Hreiðar og Jónína eru sek af því. 

Ekki kannast ég við nafnið Jónas Hagan en gæti frekar þekkt andlitið, er með afbrigðum lélegur að muna nöfn. 

Nú hef ég játað enn eina syndina fyrir alþjóð, hvar endar þetta?

Karl Hreiðarsson, 9.5.2008 kl. 15:32

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Jónas Hagan er löngu látinn, en ég veit að pabbi þinn og mamma þekktu hann.  Hann átti Þ-1 og keyrði kaupfélagsbíl í den Þ-3 að mig minnir.  Ég ólst upp í Túngötu 5 og þekkti afa þinn og ömmu.  Átt þú ekki systir sem heitir Herdís? fyrirgefðu forvitnina, en það er alltaf gaman að rekast á einhvern sem maður þekkir til hjá.  Síðast þegar ég hitti foreldra þína, var það á göngubrú sem tengi eyjuna Mainau í Bodensee við land.  Kær kveðja til þeirra.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.5.2008 kl. 17:06

4 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Vertu óhrædd við forvitnina, til þess eru jú bloggin!  En akkurat, á systur sem heitir Herdís eins og amma okkar á Túngötunni.  Skila kveðjunni!

Karl Hreiðarsson, 9.5.2008 kl. 18:46

5 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Það er eins og finna fjögurra laufa smára að rekast á framsóknarmann á moggabloggi:-) Vertu velkominn, ungi maður.

Sigríður Gunnarsdóttir, 12.5.2008 kl. 01:08

6 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Þakka þér Sigga, ekki síst fyrir að ávarpa mig sem "ungi maður" en þegar ég rifjaði upp hversu mörg ár eru síðan við vorum saman í stjórn SUF fannst mér ég ekki sérstaklega ungur!

Karl Hreiðarsson, 12.5.2008 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband