Kalt mat

Á meðan bloggsíður hérlendis hafa ekki haft undan að birta nýtt efni eigenda sinna síðustu vikur hef ég slegið ný met í bloggleti að undanförnu.  Fylgi flokksins stendur í stað á meðan og við það verður ekki unað, sjálfsagt mun miðstjórnin taka mig á beinið um miðjan nóv enda er ég persónulega ábyrgur fyrir genginu hjá Gallup.

Það er augljóst að fylgi flokksins mun þó ekki aukast nema menn geri upp við fortíðina og axli ábyrgð á mistökunum sem gerð hér hafa verið gerð í lagasetningu, eftirliti með bönkunum og því að sækja ekki um aðild að ESB og EMU fyrir löngu í stað þess að reyna hér flotgengisstefnu.  Augljóslega verður slíkt ekki sársaukalaust, hvorki fyrir þá stjórnmálamenn sem hér hafa farið með völd eða okkur sem höfum stutt þá.

Íslenskum almenningi hefur verið dýrkeypt sú tilraun sem hér hefur verið reynd í peningamálastjórnun og ef til stendur í alvörunni  að koma krónunni aftur á flot er ég hræddur um að það endi með algjörum ósköpum fyrir hinn venjulega borgara. 

Ég er ekki hagfræðingur en mér þykir einsýnt að ef krónan var auðvelt skotmark fyrir spákaupmenn síðustu ár verði hún hreinlega í stöðugu dauðafæri eftir bankahrunið hér.  Miklu færri og minni aðilar munu eiga viðskipti með gjaldmiðilinn og því ætti væntanlega að vera ennþá auðveldara að hreyfa hann til með handafli?  Ég sé ekki annað í stöðunni en að sækja um aðild að ESB & EMU strax, skammta gjaldeyri á föstu gengi til að ná niður verðbólgu og uppfylla EMU- skilyrðin sem fyrst.  Vonandi gætu aðildarviðræður gengið hratt og Seðlabanki Evrópu bakkað Seðlabanka Íslands upp við að halda fastgengi fram að evruupptöku.

Ég sé enga ástæðu af hverju við Íslendingar sættum okkur við það að vera ævinlega með hærri vexti en nágrannaþjóðirnar, með verðtryggingu sem verður ekki aflögð meðan við höfum krónu (enginn vill lána ISK til langs tíma án verðtryggingar, myndir þú gera það?) eða sveiflur í gjaldmiðlinum sem getur rýrt sparnað fólks gagnvart öðrum gjaldmiðlum um 95% á einu ári!

Maður er orðinn langþreyttur á þessari umræðu, en það er bara ekki hægt að þegja yfir þessu.  Andstæðingum ESB er tíðrætt um sjálfstæði okkar.  En ég spyr, hvert er sjálfstæðið í því að hafa gjaldmiðil (sem ræður gríðarlega miklu um samkeppnishæfni okkar og kjör) sem hefur þessa galla sem ég nefndi hér að ofan og er það vonlaust að verja að um einn einstakling hjá fyrirtæki í UK er sagt að "hann hefur örlög krónunnar í hendi sér"?

Segið mér það.

Aðra kosti við ESB-aðild þyrfti ég að skrifa um síðar (s.s. möguleika okkar almennings til að versla við aðra en einokrara hérlendis) en nú þarf ég að fara að snúa mér að kosningasjónvarpinu!  Obama mun vonandi hafa þetta, þrátt fyrir jákvæðar kannanir ætla ég ekki að fagna fyrr en síðasta atkvæðið er talið, eða síðasti dómarinn búinn að dæma í Florida...  Hvað sem öðru líður er stórkostlegt að heimurinn sé loksins að losna við W úr Hvíta húsinu!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi pistill er náttúrulega eins og talaður út úr mínu hjarta!

Ég vil bara ítreka það hér að fólk innan ríkisstjórna undangenginna ára verður að axla ábyrgð. Fyrr haggast ekki fylgið, það er algerlega ljóst! Það eru nýir tímar sem kalla á stórkostlegar breytingar á samfélagsmynd þeirri sem birst hefur okkur undanfarin ár. Gildi og hugsjónir Framsóknar eiga að sjálfsögðu afar vel við í þeirri uppbyggingu sem við stöndum frammi fyrir nú. En fólkið í frontinum verður þá líka að vinna samkvæmt henni! 

Hvar og hver er Íslands Obama? 

Kristján Þór (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 09:17

2 Smámynd: Karl Hreiðarsson

Hárrétt vinur og góð spurning.  Ég veit hinsvegar svarið, þú ert að sjálfsögðu hinn íslenski Obama!

Karl Hreiðarsson, 9.11.2008 kl. 23:22

3 identicon

Hvað er að ské karl minn???

Berglind vinstri græn (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 20:39

4 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Gaman að því að þingmenn sjálfstæðisflokksins kommenti svona hraustlega á blogginu þínu karl. Þyrfti að leka þessu í DV.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 18.11.2008 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband