Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tilgangslaus vera Samfylkingar í ríkisstjórn

Ingibjörg Sólrún staðfesti í dag það sem ég hef reyndar talið mig vita um nokkra hríð, að vera hennar í ríkisstjórn sé tilgangslaus.  Mbl.is vitnar í Ingibjörgu á flokksstjórnarfundi S í dag:

Flokkurinn hefði margsinnis bent á það sem fór aflaga í efnahagsstjórn á síðustu kjörtímabilum og hættuna á því að þenja út fjármálakerfið án þess að eiga bakstuðning í Evrópusambandinu og evrunni.

Ekki hafði nú Samfylkingin meiri áhyggjur af þessu en svo að Ingibjörg samþykkti status quo í Evrópumálum til 2011.  Ekkert myndi sem sagt breytast í þessum málum með komu S í ríkisstjórn.  Þrátt fyrir látlausar aðvaranir allt árið var gjaldeyrisforðinn ekki aukinn jafn hratt og Alþingi samþykkti í maí, þó höfðu margir hagfræðingar beðið lengi eftir þeirri heimild.  Samfylkingin ber fulla ábyrgð á þessu ótrúlega "meðvitaða aðgerðarleysi" sem ríkisstjórnin stærði sig af í sumar.


Ingibjörg sagði fleira merkilegt, um vikuleg mótmæli á Austurvelli kom þessi gullmoli, og aftur vitna ég í frétt mbl:

Hún sagði einnig að fólk, sem mætti á útifundi og borgarafundi til að mótmæla ástandinu ætti hrós skilið fyrir málefnalega baráttu. „Ef ég væri ekki í ríkisstjórn væri ég þar," sagði Ingibjörg Sólrún.


Hún styður sem sagt kröfu mótmælenda að Seðlabankastjórnin víki.  Jú mikið rétt, hún hefur greint frá því áður og Samfylkingin reyndar bókað það í ríkisstjórn.  Af hverju í ósköpunum gerir hún þá ekkert í því?  Til hvers er flokkurinn í ríkisstjórn ef ekki til að hafa e-ð með slík grundvallarmál að gera?

Hópurinn á Austurvelli krefst einnig að boðað sé til kosninga.  Nú getur Samfylkingin samþykkt vantrauststillöguna á Ríkisstjórnina og boðað til kosninga.  Nei, það er víst ekki tímabært sagði hún.

Til hvers myndirðu þá vilja mótmæla á Austurvelli ef þú værir ekki svo ólánsöm að tilheyra ríkisstjórn Ingibjörg?  Betri laugardagsafþreying en enski boltinn?  Þér er velkomið að svara í athugasemdakerfinu.

---
Annars mæli ég eindregið með lestri athugasemdar frá Magga Halldórs við síðasta blogg hér.  Þar eru einmitt listaðar upp aðgerðir sem Samfylkingin getur einfaldlega ekki skorast undan ábyrgð með.  Manni er orða vant yfir upphæðunum sem hefur verið dælt út á undanförnum vikum án aðkomu Alþingis og með ótrúlega þunnum eða engum útskýringum.  Síðan ætlast Geir til að maður trúi því að lánið frá IMF verði notað af hófsemi...  Ykkur er alls ekki treystandi til að fara með þetta fé, þess vegna þarf að kjósa og hreinsa út!


Sameining FME og Seðlabankans

Er ég einn um að hafa þá tilfinningu að aðal tilgangurinn með þessu sé fyrst og fremst að búa til ástæðu til að koma Davíð Oddssyni frá?


Kalt mat

Á meðan bloggsíður hérlendis hafa ekki haft undan að birta nýtt efni eigenda sinna síðustu vikur hef ég slegið ný met í bloggleti að undanförnu.  Fylgi flokksins stendur í stað á meðan og við það verður ekki unað, sjálfsagt mun miðstjórnin taka mig á beinið um miðjan nóv enda er ég persónulega ábyrgur fyrir genginu hjá Gallup.

Það er augljóst að fylgi flokksins mun þó ekki aukast nema menn geri upp við fortíðina og axli ábyrgð á mistökunum sem gerð hér hafa verið gerð í lagasetningu, eftirliti með bönkunum og því að sækja ekki um aðild að ESB og EMU fyrir löngu í stað þess að reyna hér flotgengisstefnu.  Augljóslega verður slíkt ekki sársaukalaust, hvorki fyrir þá stjórnmálamenn sem hér hafa farið með völd eða okkur sem höfum stutt þá.

Íslenskum almenningi hefur verið dýrkeypt sú tilraun sem hér hefur verið reynd í peningamálastjórnun og ef til stendur í alvörunni  að koma krónunni aftur á flot er ég hræddur um að það endi með algjörum ósköpum fyrir hinn venjulega borgara. 

Ég er ekki hagfræðingur en mér þykir einsýnt að ef krónan var auðvelt skotmark fyrir spákaupmenn síðustu ár verði hún hreinlega í stöðugu dauðafæri eftir bankahrunið hér.  Miklu færri og minni aðilar munu eiga viðskipti með gjaldmiðilinn og því ætti væntanlega að vera ennþá auðveldara að hreyfa hann til með handafli?  Ég sé ekki annað í stöðunni en að sækja um aðild að ESB & EMU strax, skammta gjaldeyri á föstu gengi til að ná niður verðbólgu og uppfylla EMU- skilyrðin sem fyrst.  Vonandi gætu aðildarviðræður gengið hratt og Seðlabanki Evrópu bakkað Seðlabanka Íslands upp við að halda fastgengi fram að evruupptöku.

Ég sé enga ástæðu af hverju við Íslendingar sættum okkur við það að vera ævinlega með hærri vexti en nágrannaþjóðirnar, með verðtryggingu sem verður ekki aflögð meðan við höfum krónu (enginn vill lána ISK til langs tíma án verðtryggingar, myndir þú gera það?) eða sveiflur í gjaldmiðlinum sem getur rýrt sparnað fólks gagnvart öðrum gjaldmiðlum um 95% á einu ári!

Maður er orðinn langþreyttur á þessari umræðu, en það er bara ekki hægt að þegja yfir þessu.  Andstæðingum ESB er tíðrætt um sjálfstæði okkar.  En ég spyr, hvert er sjálfstæðið í því að hafa gjaldmiðil (sem ræður gríðarlega miklu um samkeppnishæfni okkar og kjör) sem hefur þessa galla sem ég nefndi hér að ofan og er það vonlaust að verja að um einn einstakling hjá fyrirtæki í UK er sagt að "hann hefur örlög krónunnar í hendi sér"?

Segið mér það.

Aðra kosti við ESB-aðild þyrfti ég að skrifa um síðar (s.s. möguleika okkar almennings til að versla við aðra en einokrara hérlendis) en nú þarf ég að fara að snúa mér að kosningasjónvarpinu!  Obama mun vonandi hafa þetta, þrátt fyrir jákvæðar kannanir ætla ég ekki að fagna fyrr en síðasta atkvæðið er talið, eða síðasti dómarinn búinn að dæma í Florida...  Hvað sem öðru líður er stórkostlegt að heimurinn sé loksins að losna við W úr Hvíta húsinu!

Ignorance is bliss

Ég er á því að ástandið í þjóðfélaginu hafi snöggtum batnað síðustu vikuna.  Fyrir því get ég því miður ekki fært nein rök en það hefur lygileg áhrif á lundina að hlusta "bara" á 2-3 fréttatíma á dag í stað 10-15.  Fyrirfram hélt ég að þetta væri lífsins ómögulegt fyrir fréttafíkil en hlutirnir eru hreinlega ekki að gerast það hratt að maður sé að missa af neinu.  Hversu margar fréttir ætli maður hafi lesið um að líklega verði tilkynnt um lán frá IMF í dag eða á morgun?  Já eða hversu oft hefur maður lesið að ekki verði tilkynnt um lán frá IMF í dag?

Alltof oft, tímanum er betur varið í allt annað. 

Ég hef eins og aðrir verið hugsi yfir ástandinu og hvernig við komum okkur í það.  Allt tal um að nú séum við svo upptekin við að halda sjó að við höfum ekki tíma til að skoða orsakirnar er algjört kjaftæði.  Þeir sem eru uppteknir í stjórnkerfinu vegna bankaþrotsins eru hvort eð er ekki fólkið sem á að stýra slíkri úttekt.  Ég er ekki svo barnalegur að halda því fram að minn flokkur sé saklaus í þessu og myndi koma hvítþveginn út úr slíkri yfirferð.  Þó er ég viss um að núverandi Ríkisstjórn hafi gert illt verra með gríðarlegri aukningu ríkisútgjalda í fjárlagafrumvarpinu f.2008 og svo var sofandahátturinn fram í lok  september náttúrulega einstakur.  Þá fyrst sáu menn ástæðu til að vinna fram á nætur, boða til sín bankastjóra, verkalýðshreyfinguna, forsvarsmenn SA og lífeyrissjóðina ofl.  1.maí var mér eins og fleirum nóg boðið af hinu "yfirvegaða aðgerðaleysi" og skrifaði þetta nöldur.  Síðan liðu ansi margir mánuðir og staðan batnaði lítið á meðan, þarna er ég til að mynda að barma mér yfir 24,3% veikingu GVT á árinu!  Það þætti nú ekki slæmt í dag að hafa gengið þar...


Kjósum um aðildarviðræður að ESB

Ég mæli eindregið með grein Birkis, Sæunnar og Palla Magg í Fréttablaðinu á fimmtudaginn.  ESB málin eru gott dæmi um mál sem flokkakerfið ræður illa við.  Meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi aðild (sbr. þessa tveggja mánaða gömlu frétt, sjálfsagt má finna nýrri könnun) en bara einn flokkur hefur aðildarumsókn á stefnuskránni.  Sá flokkur leggur ekki meiri áherslu á málið en svo að fyrir kosningar er þagað um ESB til að fæla ekki möguleg atkvæði lengst til vinstri og greinilega engin áhersla var lögð á ESB-aðild þegar kom að gerð stjórnarsáttmála. 

Forystumenn hinna flokkana eru þess utan hræddir við að kljúfa flokkana í uppgjöri um ESB á landsfundum/flokksþingum og því er skynsamleg lausn að kjósa um hvort sækja beri um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu óháð öðrum kosningum þar sem eingöngu þetta stóra mál er til umræðu, án þess að flokkapólitík sé í forgrunni.

Gjörbreyttar aðstæður í þjóðfélaginu á skömmum tíma kalla á umræðu um hvaða efnahags- og samfélagsheild við viljum tilheyra til lengri tíma, ekki síst til að fyrirbyggja sveiflur eins og þessa, en meðal forystumanna í stærsta flokknum hefur viðmótið verið að engin synd sé verri en syndin að skipta um skoðun, þá skiptir engu hvort aðstæður breytast eða ekki.  Grasrótin í flokknum fær ekki að koma sínu á framfæri nema á tveggja ára fresti og þar breytist grundvallarstefna yfirleitt ekki í einu vetfangi þannig að þróunin hjá íhaldinu mun verða hæg þó undiraldan sé þung.

Nei, ég lít ekki á ESB-aðild sem sértæka lausn við efnahagsvanda dagsins í dag (enda verið hlynntur aðild lengi) en sjálfstæðismenn í  umræðuþáttunum (t.d. Ólöf Nordal í Silfrinu f.viku eða tveim) reyna yfirleitt að drepa málinu á dreif með þeim frasa.  Ef stjórnmál geta ekki snúist um að leysa vanda nútímans samhliða því að horfa fram á veginn er viðkomandi fólk algjörlega vanhæft til að vera í pólitík.

Við hvað eru andstæðingar aðildarviðræðna annars hræddir?  Ef ekki næst viðunandi samningur hlýtur þjóðin að fella hann rétt eins og Norðmenn hafa gert í tvígang.  Það er aldrei sagt upphátt en væntanlega telja andstæðingar viðræðna að þjóðinni sé ekki treystandi til að meta það.  Annars væri einboðið að nota einu leiðina sem við höfum til að fá raunveruleg svör við öllu fræðilegu deiluefnunum!   Er þjóðinni þá treystandi til að velja stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti?

Háheilagir stjórnmálamenn

Dagur B. Eggertsson hamraði á nýja uppáhaldsfrasanum í gær, "klækjastjórnmál", og ítrekaði að þannig vinnubrögð vildu borgarbúar ekki og væntanlega ekki hann sjálfur heldur.

En hvað eru það annað en klækir að reyna að stýra atburðarásinni með þeim hætti að almenningur trúi að Tjarnarkvartettinn hafi verið möguleiki þegar nánasti samstarfsmaður Ólafs (Jakob Frímann) og einn til bera það til baka?

Hvað eru það annað en klækir að ætlast til þess að lýðræðislega kjörinn fulltrúi segi af sér svo maður komist sjálfur í borgarstjórastólastólinn aftur?  Ég hefði ekki saknað Ólafs F. úr borgarstjórn en mér þykir til nokkurs ætlast að hann hætti bara þegar ekki er fullreynt með að aðrir meirihlutamöguleikar séu fyrir hendi.

Mér sýnist að þumalputtareglan sé þessi: ef einhver gerir e-ð sem kemur mér (Degi) illa eru það klækir, ef það kemur mér vel er það ábyrg og lýðræðisleg þróun.


Geir, Geir, Geir

Var ég einn um að fá hroll niður bakið þegar Geir H. Haarde sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær eins og ekkert væri sjálfsagðara um samstarf D og F lista í borgarstjórn: "ég veit ekki betur en það hafi í aðalatriðum gengið vel, og gangi þokkalega vel"?  Hlustið sjálf hér ef þið þorið, þetta er verulega vandræðalegt að heyra, jafnast á við góðan Office þátt.

Sjálfstæðismenn slíta ekki meirihluta sem "hefur í aðalatriðum gengið vel" þannig að þrennt er í stöðunni:

1. Geir var ekki upplýstur um hvernig samstarfið hefur gengið og hefur þá væntanlega komið af fjöllum þegar það sprakk í dag. 
2. Geir kaus að fara ansi frjálslega með staðreyndir frekar en að tjá sig ekki.
3. Samstarfið gekk glimrandi þangað til í gær, þá fyrst fór allt í háaloft og íhaldið fékk skyndilega þá flugu í höfuðið að slíta daginn eftir.

Möguleiki nr. 3 er auðvitað fjarstæðukenndur þannig að það má afskrifa hann strax.  Möguleiki nr. 1 er ekki vænlegur fyrir Geir sem formann flokksins þar sem hann ætti að fylgjast betur með en þetta.  Ég efast ekki um að hann geri það.  Þá er það bara möguleiki nr. 2 eftir.  Geir, þér er velkomið að útskýra þína hlið í athugasemdakerfinu eða með gestapistli ef þú vilt fara ítarlega í þetta.

Eins og ég hef sagt áður tel ég að óábyrgt fjölmiðlablaður sé ein stærsta ástæða þess að stjórnmálamenn hafa þann stimpil á sér fyrir að orðum þeirra sé ekki treystandi.  Margir þeirra skemma fyrir sómafólkinu vegna þess að þeir geta ekki þagað þegar þeir ættu að gera það og hika ekki við að slá ryki í augu almennings til að þjóna einhverjum tímabundnum tilgangi.

Hef í lokin eitt ráð til Hönnu Birnu og Óskar Bergssonar: alls ekki halda blaðamannafund á sama tíma og Klovn er sýndur þar sem RÚV hyggst rjúfa útsendingu til að sýna frá fundinum.  Það væri ægilegt að hefja samstarfið á því að spilla Klovn þætti!  Treysti á að þið séuð að taka bloggrúnta í kaffipásunum niðrí Ráðhúsi.


Ólafur F og týndu samstarfsmennirnir

Borgarstjóranum helst ekki vel á samstarfsmönnum.  Frá síðustu kosningum man ég í svipinn eftir þremur nánum samstarfsmönnum sem hann hefur losað sig við eða öfugt.  Fyrst má nefna kosningastjóra F-listans sem fór hamförum í Silfrinu í vetur og hef ég aldrei heyrt aðrar eins lýsingar á stjórnmálamanni frá kosningastjóra sínum.  Svo er það auðvitað varaborgarfulltrúi hans, Margrét Sverrisdóttir, og nú síðast aðstoðarmaður hans, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, sem er verið að að setja endanlega út í kuldann núna.  Ég hef gefið fréttum af pólitískum aðstoðarmönnum gaum í mörg ár (ég veit, ekki beint gáfuleg bölvun þetta áhugamál) en ég man ekki eftir að aðstoðarmanni hafi verið hent á dyr eftir svo skamman tíma áður. 

Ég þekki Ólaf F ekki persónulega en það er eitthvað sem segir mér að þetta sé ekki tilviljun.  Fyrir því er yfirleitt góð ástæða ef menn enda ávallt sem einfarar í pólitík.

Ég gef Jakobi Frímanni þrjá mánuði í viðbót.  Borgarstjóri mun útskýra brotthvarfið með því að trúnaður hafi verið brotinn.  Raunverulega ástæðan verður að JFM kaupir ekki þá tuggu borgarstjórans að litlir uppbyggðir "19. aldar" kofar við Laugaveg séu upphaf og endir framþróunar alheimsins.

Gísla Marteini gef ég tvo mánuði þangað til hann snappar opinberlega yfir að Ólafur ræðir ekki stórmál við samstarfsflokkinn.


Langhundur um misgáfuleg málefni

Ekki get ég látið of langan tíma líða án þess að ræða Samfylkinguna á þessum vettvangi.  Las í gær pistil hjá Gesti en hann vitnar þar í ummæli Ingibjargar Sólrúnar frá 2006 þar sem hún virtist varla geta sofið yfir áhyggjum af því að ríkisstjórnin virtist ekki vera einhuga um að hefja hvalveiðar að nýju.  Því miður var þetta misskilningur hjá Ingibjörgu því Framsóknarflokkurinn studdi þetta heilshugar og gerir enn sem er mér gjörsamlega á móti skapi.  Núna virðist Ingibjörg ekki vera mjög stressuð yfir óeiningu í ríkisstjórninni og auglýsir hana reyndar sérstaklega eins og sjá má í færslunni hjá hjá Gesti.  Æji hvað ég hefði nú verið til í að sjá Samfylkinguna berja í borðið og stoppa þetta þjóðremburugl, ekki meira um það í bili, hef rætt hvalveiðar meira en góðu hófi gegnir síðustu ár. 

Ástæðan fyrir því að Ingibjörg hefur ekki áhyggjur af óeiningu í stjórninni er auðvitað sú að hún virðist ekki muna tvo daga i röð að hún er í lykilstöðu við stjórn landsins.  Skrifar í blöðin eins og manneskja út í bæ til að kalla eftir þjóðarsátt þegar er auðvitað augljóst að árangursríkast fyrir ráðandi aðila sé einfaldlega að taka upp símann, framkvæma frekar en að skrifa í Velvakanda og sjá svo hvað gerist eins og húsmóðir úr Vesturbænum.

Samfylkingin er stundum pínleg á að horfa, minnir nokkuð á hinna stórkostlegu dönsku þætti Klovn nema bara meira sorgleg en fyndin...

---

Það er auðvitað að æra óstöðugan að nefna Magnús Þór Hafsteinsson á nafn enda fáir sem hafa jafn markvisst unnið gegn geðheilsu landsmanna síðustu daga.  Fyrst ég aulaðist til að lesa "vörn" hans fyrir rúmri viku get ég ekki sleppt því að benda á eina klausu:

Nú hefur hann [Gísli Einarsson bæjarstjóri á Akranesi] heldur betur launað fyrir sig því ég veit að hann er búinn að vera að "lobbýa" fyrir því að Akranes taki við 60 flóttamönnum frá Írak. Vitandi það að slíkt myndi eflaust eyðileggja meirihlutann á Akranesi.

Ég hnaut um þetta.  Sérstaklega því Magnús Þór hefur ítrekað í innflytjendaumræðu síðustu ára reynt að sverja af sér að vera illa við útlendinga.  Hann hefur þess í stað hamrað á því að við getum ekki ráðið við allan þennan fjölda á skömmum tíma, þurfum að stjórna flæðinu sjálf (þó það sé ekki fræðilega hægt skv. EES, hér er ekkert atvinnuleysi) og nú síðast var Magnús Þór á móti komu flóttamanna á Skagann vegna þess að einhverjir eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði.  Gísli Einarsson er greinilega skarpskyggn fyrst hann sá sóknarfæri í að sprengja meirihlutann á þessu, hvernig datt honum í hug að mannvinurinn Magnús myndi vera á móti þessu?  Nú er hann ekki rasisti eins og hann hefur margtekið fram síðustu ár.  Þetta er samt athyglisverð tilviljun, að hann sé ávallt í hópi þeirra skeptísku, ávallt til í að vera á bremsunni í innflytjendamálum.

Ég veit fátt dapurlegra en stjórnmálamenn eins og Magnús og kollega hans, nema þá hve mikinn hljómgrunn svona málflutningur fær.   Ef allar þjóðir heimsins myndu hugsa eins og Magnús og co ættu flóttamenn í engin hús að venda nokkurs staðar í veröldinni, því það skiptir engu máli til hvaða lands er leitað, það má alltaf finna óleyst mál í velferðarkerfum hvers einasta ríki heims. 

---
Það er svo ægilega niðurdrepandi að tala um þetta innflytjendamál að ég má til með að hressa mig og ykkur lesendur við.  Hvað er þá betra en menn með enn stærri lúxusvandamál en ég?  Ég hef afskaplega gaman af lúxusvandamálum enda sérfræðingur í að gera góðan úlfalda úr mýflugu, ekki síst ef mýflugan tengist raftækjum, merkjavöru ýmiskonar eða tónleikahaldi.  Í Fréttablaðinu er sagt frá lúxusvandamáli lúxusvandamála - að vera í vandræðum með að geyma einkaþoturnar sínar!  Ég sakna þess nokkuð að eiga ekki bílskýli fyrir Mözduna en það hlýtur að vera algjörlega óþolandi að eiga óvarða þotu í saltrokinu á Reykjavíkurflugvelli.  Vona að flugvallarstjóri bregðist hratt við, enda full ástæða til að hugsa vel um hinn ofursvala Wessmann, hann gaf gamla skólanum mínum miljarð, hversu töff er það?  Hann setti þar reyndar ansi háan standard fyrir mig og aðra velunnara HR en ég get alveg sætt við mig að vera í skugganum af svona mönnum

Ástkær miðstjórnin og frumlega Ríkisstjórnin

Gallinn við er að vera vikubloggari er að öll mál eru úreld og menn almennt búnir að gleyma þeim þegar ég dusta rykið af lyklaborðinu.  Ég ætla samt að brydda uppá einu "gömlu" máli sem flestir hafa nú þegar bloggað um en það er ræða Guðna frá miðstjórnarfundi Flokksins frá því á laugardag.  Hún á reyndar eftir að eldast eins og gott viský (ég drekk reyndar ekki viský, slæm samlíking).

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf verið neitt sérstaklega hrifinn af ummælum Guðna um Evrópumál í gegnum tíðina en mér fannst hann halda frábæra tölu á laugardag.  Hann hvatti andstæðinga aðildar og stuðningsmenn til að vera ófeimna við að ræða ESB-aðild ítarlega án hræðslu um klofning flokka og virða það að sjónarmið eru skipt innan flestra flokka.  Eitt stærsta vandamálið í Evrópuumræðunni hérlendis er einmitt það að í stærsta flokknum er þagnarbindindi um málið, vegna þess að fyrir forystumenn flokksins skiptir meira máli að halda flokknum saman en hagsmunir almennings (já Geir, ég er að tala um þig og forvera þinn).

Eins var ég sérstaklega hrifinn af því að hann vill vinna ákveðna grunnvinnu strax, s.s. lög vegna þjóðaratkvæðagreiðslu, þá eru slík veigamikil formsatriði ekki í veginum ef þjóðin kýs að ganga til viðræðna.

Helst saknaði ég úr ræðunni að hann þakkaði mér ekki fyrir að auka fylgi flokksins um ca 2,5% á tveimur mánuðum, en það er allt í góðu Guðni, ég er ekki að þessu fyrir egóið.  Framsóknarflokkurinn fór sem sagt upp um tæp 2% í Þjóðarpúlsinum í apríl og hér má sjá hvað í ósköpunum það tengist þessu bloggi.

 ---
Ríkisstjórnin átti stórleik í dag.  Á samráðsfundi hennar með aðilum vinnumarkaðarins var kynnt þessi margslungna, epíska og frumlega hugmynd sem lesa má um á mbl:

Fundurinn hafði verið boðaður með talsverðum fyrirvara og hefur annar fundur verið ákveðinn í sumar. Fyrir þann fund munu sérfræðingar fara yfir mál og greina vandann og koma með tillögur um til hvaða aðgerða megi grípa.  Slóð


Hver mínúta hefur greinilega verið nýtt í botn síðustu vikur og mánuði fyrst þetta er niðurstaða dagsins.  Ég sé í anda einkafyrirtæki þar sem verulegir erfiðleikar steðja að.  Framkvæmdastjórnin hittist nokkrum mánuðum eftir að í óefni er komið og viðskiptavinir farnir að missa trú á vörunni.   Ákveður þá eingöngu að það væri nú gaman að hittast aftur síðar, t.d. í sumar yfir kaffibolla þegar farið er að hlýna, fá nokkra velvalda menn til að henda upp tillögum fyrir þann fund og sjá svo til með framhaldið.  Það er líklega ekki að ástæðulausu af hverju Geir og Ingibjörg  voru ekki keypt í stjórnunarstöður í bankana þegar þeir voru sem duglegastir í hausaveiðunum...

En mikið var nú samt ánægjulegt að heyra þetta frá Geir:

Það er óhætt að segja að að það var mjög góður samhljómur á fundinum og það hefur enginn áhuga á því að verðbólga festist hér í sessi," sagði Geir. „Það var einhugur meðal manna að ná þeim stöðugleika á ný sem er nauðsynlegur. Slóð


Hann hefur líklega átt von á einhverju allt öðru.  Ögmundur að hvetja til þess að reynt yrði að ná amk 25% ársverðbólgu eða Vilhjálmur að tala fyrir almennri upplausn.  Afsakaðu kaldhæðnina Geir, þú veist samt vel að þú bauðst uppá þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband