Is it cookie?

Fá blogg eru jafn ódýr og fljótleg og YouTube blogg.  Ég "les" þau sjaldnast sjálfur og því eigið þið lesendur samúð mína að ég skuli fara þessa billegu leið í dag.  En myndbandið er hinsvegar frábært og einkar vel við hæfi í smákökumánuðinum.  Sé sjálfan mig í Cookie Monster, get ekki neitað því.  Snæþór fær plús fyrir benda mér á þetta.

 

...hér er þetta í betri gæðum en þessa útgáfu er ekki hægt að skoða utan YouTube.


Hvað voru þau eiginlega að gera?

Samfylkingarráðherrarnir koma upp um sig hver af öðrum.  Staðfesta aftur og aftur það meðvitaða aðgerðarleysi sem Ríkisstjórn Íslands hefur hér staðið fyrir.  Björgvin G bankamálaráðherra ræddi ekki við bankastjóra Seðlabankans í ár.  Í mestu bankakreppu seinni tíma eða allra tíma sá hann ekki ástæðu til þess.  Hann taldi sig líklega vera að skjóta á Davíð með þessari uppljóstrun en þarna skaut hann sig fyrst og fremst í fótinn.

Ingibjörg Sólrún sagði okkur frá því að formenn S og D hittu ekki Seðlabankastjóra allan júní.  Þó voru lög um aukningu gjaldeyrisforðans sett í lok maí og þótti nú mörgum þau koma full seint.  Ekki lá formönnum stjórnarflokkana meira á en svo að þau hittu ekki Seðlabankastjóra í júní, en ef mig misminnir ekki fékk Seðlabankinn verkefnið að afla lánanna. Í júní veiktist krónan hratt en það virðist þó ekki hafa raskað ró foringjana.  Samræðustjórnmálin voru greinilega í sumarfríi í júní.

Það litla sem gerist er á hraða snigilsins.  Þegar Davíð mætti ekki á fund viðskiptanefndar var hann boðaður aftur, viku seinna!  Venjulegt fólk hefði bara boðað hann þá daginn eftir eða jafnvel haldið símafund fyrst þetta var svona mikið erfiði fyrir hann að koma niðrí þing.  En nei, þó bankakerfið hér hafi hrunið liggur okkur ekki meira á en þetta.

Geir hefur auðvitað engan trúðverðugleika.  Þegar hann segist ekki muna samtöl eða hvað fór fram í þeim trúir honum ekki nokkur maður.  Af hverju í ósköpunum ættum við að gera það?

---
Allt þetta bliknar samt við tíðindi dagsins, okkar langmesti töffari fallinn.  Held ég eigi eftir að muna lengi hvernig ég frétti þetta. Þó ég hafi ekki verið svo lánsamur að þekkja meistarann persónulega snerti þetta mig mikið.  Rúnar Júl var lifandi goðsögn og að fá að hitta hann og sjá spila eru auðvitað forréttindi.


Austurlandahraðlestin í Spönginni

Þeir sem mig þekkja vita flestir af rótgróinni ást minni á skyndibitamat.  Þeir sem þekkja mig ekki geta sér sjálfsagt til um þennan áhuga útfrá frjálslegu holdafari undirritaðs.  Þennan áhuga hef ég ekki ræktað sem skyldi hér á blogginu en nú skal bæta úr því með veitingarýni á nýja hverfis staðnum.  Við veitingarýnina mun ég notast við minn uppáhaldsrétt í stað stjörnugjafar, hamborgara.

---

Seinnipart sumars rak ég augun í skilti frá Austurlandahraðlestinni í tómu húsnæði í Spönginni.  Verandi forfallinn aðdáandi Austur Indía fjelagsins átti ég erfitt um svefn fyrst á eftir þessa uppgötvun en þegar lítið virtist þokast næstu vikur var vonin um góðan indverskan mat í Grafarvoginum að fjara út.

En viti menn, meðan annað hvert fyrirtæki er að loka opnaði þessi líka glæsilegi staður í byrjun mánaðarins!  Með vínveitingaleyfi sem tryggir greiðan aðgang að hinum dýrlega mjöð Cobra í göngufæri frá Gullenginu!

Við hátíðlegt tilefni um daginn (opnunin var þó ekki tilefnið þó hátíðleg sé) var Austurlandahraðlestin fyrir valinu hjá fjölskyldunni og stóð staðurinn fyllilega undir væntingum!   Aðal-réttur minn var tandoori kjúklingur og með honum var valið dýrlegt hvítlauks-nan og auðvitað hvíta raita jógúrtsósan sem kælir mann niður ásamt ölinu.  Bragðmikið og gríðarlega gott!  Hliðarréttur var svokallaður saag kjúklingur sem var sömuleiðis góður en er líklega ekki borinn fram í mötuneytinu í himnaríki eins og tandoori kjúklingurinn.

Verðið er reyndar ekki í skyndibitaflokknum þannig að tæplegast verður maður vikulegur gestur en gæðin eru allt önnur en á skyndibitastöðum almennt.  Þarna eru reyndar góð hádegisverðartilboð en hver er í Grafarvoginum í hádeginu?  Því miður er ég búinn með fæðingarorlofið, annars hefði því verið varið þarna.  Unnur, þetta er spurning um annað barn?

Austurlandahraðlestin í Spönginni fær því fjóra og hálfan ostborgara af fimm mögulegum.

Heill borgari Heill borgariHeill borgariHeill borgariHálfur borgari


Piparúði í stað hríðskotariffla

Allt sem hægt er að segja um mótmælin fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu á laugardag hefur sjálfsagt verið sagt, en ég ætla nú samt að bæta nokkrum orðum við.

Ég á nefnilega svo erfitt með að skilja viðhorf æði margra samlanda minna um hvað sé eðlilegt af lögreglu að gera og hvað ekki.  Á Vísi var skoðanakönnun í vikunni þar sem tæpur helmingur þátttakenda sagði lögregluna hafa brugðist of hart við!  Það er eðlilegt að mörgum hafi verið heitt í hamsi vegna handtöku stráksins en við hverju bjóst fólk?  Að beðið væri inni með kakó og vöfflur í verðlaun þegar mannskapurinn hefði náð að brjóta sér nógu langa leið í gegn?

Í umræðu um ráðamenn hérlendis er oft á mótmælafundum kallað eftir afsögnum og skandalar þeirra þá oft bornir saman við smámál sem hafa fellt ráðherra í nágrannalöndunum.  Það sjónarmið get ég tekið undir í æði mörgum tilfellum.  En ekki er ég viss um að mótmælendur vildu skipta á íslensku lögreglunni fyrir aðra sveit því ekki dettur mér annað í hug en byssukjaftar hefðu mætt sambærilegum aðgerðum í hvaða landi sem er í kringum okkur.

Þó fólk sé eðlilega bálreitt útaf stöðunni í þjóðfélaginu er glórulaust að taka það út á lögreglunni.  Þeir sem þar vinna er bara venjulegt fólk, með myntkörfulán, skuldsetta bíla, pirrað út í Ríkisstjórnina (eða ekki pirrað) eins og hver annar.  Það er grundvallaratriði að þeir fái að vinna vinnuna sína í friði og án þess að tíma þeirra þurfi að verja í að standa vörð til að hindra æstan múg í innrás á lögreglustöðvar

Annar í Sigur Rós

Ég var lengi að sofna í gær og fram til hádegis var ég með gæsahúð.  Einhverjum myndi detta í hug að skrifa það á kulda eða pest en ég er við hestaheilsu og ofninn var í hvínandi botni.  Þetta kalla ég góða endingu á tónleikum!

---
Öndvegisdrengurinn Birkir Jón hefur ákveðið að bjóða sig fram til varaformanns í Framsóknarflokknum.  Því fagna ég mjög þó ég verði að viðurkenna að helst vildi ég sjá hann í formannsembættinu, enda gríðarlega duglegur, heiðarlegur og með skynsamlegar félagslegar hugsjónir í pólitík.  Ég gæti auðvitað leikið þann leik að taka formanninn sjálfur, segja svo af mér og skilja Birki þar með eftir með formannsstólinn en ég held hann byði mér ekki í gönguferð á Sigló-slóðum eftir það...

---
Hef lítið heyrt af ræðunum v.vantrauststillögurnar í dag en náði þó í skottið á Möllernum, Lúðvíki Bergvins og fleirum seinnipartinn.  "Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað" var það fyrsta sem kom upp í hugann.  Ekki eyddu þeir mörgum orðum í að verja gjörðir stjórnarinnar (enda ekki auðvelt mál) en þeir fóru mikinn í að lýsa því hvað stjórnarstöðuflokkarnir eru ómögulegir.  Það má vel vera en hverjum dettur í hug að þeir flokkar (eða aðrir) bjóði fram í óbreyttri mynd?

Þegar þessi vaðall hafði glumið hér í stofunni í einhverja stund spurði Unnur mig (hún er óvön að hlusta á beina útsendingu frá Alþingi, enda ekki með þennan pervisna stjórnmálaáhuga eins og ég) hvort þeir væru þriggja ára?  Góð spurning, en svarið er gengisfelling á þriggja ára börnum þannig að ég leyfi lesendum að svara því sjálfir.

Sigur Rós

Sá Sigur Rós í 6. skiptið á tónleikum í kvöld.  Þetta hættir ekki að vera algjörlega einstök upplifun og eins ægilega hallærislega og það hljómar verð ég að viðurkenna að eftir svona samkomu fyllist maður bara nýrri trú á mannkynið!  Tvímælalaust heimskulegasta byrjun á bloggi hjá mér nokkurn tíma en svona líður mér samt.

Mér er algjörlega um megn að lýsa því í orðum hvernig þeir Sigur Rósar drengir fara að því að spila svona með mann en verð að reyna.  Krafturinn, meistaraleg uppbygging laganna og sjónarspil ljósa (og vatns í tveimur lögum!) hrærir bara einhvern kokteil í hausnum á manni sem afar fáum hljómsveitum er gefið.  Á tímum þegar búið er að steypa þjóðinni í ævintýralegar skuldir er hollt að minnast þess að það eru forréttindi að búa á heimavelli þessarar stórkostlegu hljómsveitar! 

Svo ég eigi auðveldara með að rifja þetta upp fyrir barnabörnunum ætla ég renna stuttlega yfir hvenær ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá þá áður.  Fyrsta skiptið var í Háskólabíói 30.okt 1999 í félagsskap Rölla nokkurs Pú sem féll eftirminnilega í dá á tónleikunum. Annað skiptið var á útgáfutónleikum tónlistarinnar úr Englum alheimsins í sal MS 15.mars 2000.  Ég beið þess varla bætur að heyra Dánarfregnir og jarðarfarir á tónleikum.  Þriðju tónleikarnir voru 20.október 2000 í Fríkirkjunni í Reykjavík, rétt eftir miðannarpróf í skólanum og án vafa eitthvað það magnaðasta sem ég hef reynt á tónleikaferlinum.  Gott ef við Aggi vorum ekki að bisa við að klára verkefni rétt fyrir tónleika og mættum allveðraðir, illa sofnir og of seint niðrí kirkju.  Tíminn stóð svo í stað við fyrsta tón, mann enn eftir lyktinni þarna inni og man enn betur þegar Aggi sofnaði.

Alltof langt leið þangað til ég sá Sigur Rós næst en það var á Hætta! tónleikunum 7.jan 2006 (löng saga af hverju ég var þar, Kárahnjúkastuðningsmaðurinn!) og þeir fimmtu voru svo Ásbyrgistónleikarnir 4.ágúst 2006.  Síðan var það þessi uppákoma í kvöld.  Ekki fæ ég mig til að gera upp á milli þessara kvölda sem hafa verið hver öðru magnaðra en alltaf finnst mér eins og þeir gefi algjörlega allt sem þeir eiga í viðkomandi kvöld og það skilar sér í hausinn á manni.

Takk fyrir mig Sigur Rós og takk Dóri fyrir að sjá til þess að ég missti ekki af þessu eins og glópur!

Tilgangslaus vera Samfylkingar í ríkisstjórn

Ingibjörg Sólrún staðfesti í dag það sem ég hef reyndar talið mig vita um nokkra hríð, að vera hennar í ríkisstjórn sé tilgangslaus.  Mbl.is vitnar í Ingibjörgu á flokksstjórnarfundi S í dag:

Flokkurinn hefði margsinnis bent á það sem fór aflaga í efnahagsstjórn á síðustu kjörtímabilum og hættuna á því að þenja út fjármálakerfið án þess að eiga bakstuðning í Evrópusambandinu og evrunni.

Ekki hafði nú Samfylkingin meiri áhyggjur af þessu en svo að Ingibjörg samþykkti status quo í Evrópumálum til 2011.  Ekkert myndi sem sagt breytast í þessum málum með komu S í ríkisstjórn.  Þrátt fyrir látlausar aðvaranir allt árið var gjaldeyrisforðinn ekki aukinn jafn hratt og Alþingi samþykkti í maí, þó höfðu margir hagfræðingar beðið lengi eftir þeirri heimild.  Samfylkingin ber fulla ábyrgð á þessu ótrúlega "meðvitaða aðgerðarleysi" sem ríkisstjórnin stærði sig af í sumar.


Ingibjörg sagði fleira merkilegt, um vikuleg mótmæli á Austurvelli kom þessi gullmoli, og aftur vitna ég í frétt mbl:

Hún sagði einnig að fólk, sem mætti á útifundi og borgarafundi til að mótmæla ástandinu ætti hrós skilið fyrir málefnalega baráttu. „Ef ég væri ekki í ríkisstjórn væri ég þar," sagði Ingibjörg Sólrún.


Hún styður sem sagt kröfu mótmælenda að Seðlabankastjórnin víki.  Jú mikið rétt, hún hefur greint frá því áður og Samfylkingin reyndar bókað það í ríkisstjórn.  Af hverju í ósköpunum gerir hún þá ekkert í því?  Til hvers er flokkurinn í ríkisstjórn ef ekki til að hafa e-ð með slík grundvallarmál að gera?

Hópurinn á Austurvelli krefst einnig að boðað sé til kosninga.  Nú getur Samfylkingin samþykkt vantrauststillöguna á Ríkisstjórnina og boðað til kosninga.  Nei, það er víst ekki tímabært sagði hún.

Til hvers myndirðu þá vilja mótmæla á Austurvelli ef þú værir ekki svo ólánsöm að tilheyra ríkisstjórn Ingibjörg?  Betri laugardagsafþreying en enski boltinn?  Þér er velkomið að svara í athugasemdakerfinu.

---
Annars mæli ég eindregið með lestri athugasemdar frá Magga Halldórs við síðasta blogg hér.  Þar eru einmitt listaðar upp aðgerðir sem Samfylkingin getur einfaldlega ekki skorast undan ábyrgð með.  Manni er orða vant yfir upphæðunum sem hefur verið dælt út á undanförnum vikum án aðkomu Alþingis og með ótrúlega þunnum eða engum útskýringum.  Síðan ætlast Geir til að maður trúi því að lánið frá IMF verði notað af hófsemi...  Ykkur er alls ekki treystandi til að fara með þetta fé, þess vegna þarf að kjósa og hreinsa út!


Sameining FME og Seðlabankans

Er ég einn um að hafa þá tilfinningu að aðal tilgangurinn með þessu sé fyrst og fremst að búa til ástæðu til að koma Davíð Oddssyni frá?


Kalt mat

Á meðan bloggsíður hérlendis hafa ekki haft undan að birta nýtt efni eigenda sinna síðustu vikur hef ég slegið ný met í bloggleti að undanförnu.  Fylgi flokksins stendur í stað á meðan og við það verður ekki unað, sjálfsagt mun miðstjórnin taka mig á beinið um miðjan nóv enda er ég persónulega ábyrgur fyrir genginu hjá Gallup.

Það er augljóst að fylgi flokksins mun þó ekki aukast nema menn geri upp við fortíðina og axli ábyrgð á mistökunum sem gerð hér hafa verið gerð í lagasetningu, eftirliti með bönkunum og því að sækja ekki um aðild að ESB og EMU fyrir löngu í stað þess að reyna hér flotgengisstefnu.  Augljóslega verður slíkt ekki sársaukalaust, hvorki fyrir þá stjórnmálamenn sem hér hafa farið með völd eða okkur sem höfum stutt þá.

Íslenskum almenningi hefur verið dýrkeypt sú tilraun sem hér hefur verið reynd í peningamálastjórnun og ef til stendur í alvörunni  að koma krónunni aftur á flot er ég hræddur um að það endi með algjörum ósköpum fyrir hinn venjulega borgara. 

Ég er ekki hagfræðingur en mér þykir einsýnt að ef krónan var auðvelt skotmark fyrir spákaupmenn síðustu ár verði hún hreinlega í stöðugu dauðafæri eftir bankahrunið hér.  Miklu færri og minni aðilar munu eiga viðskipti með gjaldmiðilinn og því ætti væntanlega að vera ennþá auðveldara að hreyfa hann til með handafli?  Ég sé ekki annað í stöðunni en að sækja um aðild að ESB & EMU strax, skammta gjaldeyri á föstu gengi til að ná niður verðbólgu og uppfylla EMU- skilyrðin sem fyrst.  Vonandi gætu aðildarviðræður gengið hratt og Seðlabanki Evrópu bakkað Seðlabanka Íslands upp við að halda fastgengi fram að evruupptöku.

Ég sé enga ástæðu af hverju við Íslendingar sættum okkur við það að vera ævinlega með hærri vexti en nágrannaþjóðirnar, með verðtryggingu sem verður ekki aflögð meðan við höfum krónu (enginn vill lána ISK til langs tíma án verðtryggingar, myndir þú gera það?) eða sveiflur í gjaldmiðlinum sem getur rýrt sparnað fólks gagnvart öðrum gjaldmiðlum um 95% á einu ári!

Maður er orðinn langþreyttur á þessari umræðu, en það er bara ekki hægt að þegja yfir þessu.  Andstæðingum ESB er tíðrætt um sjálfstæði okkar.  En ég spyr, hvert er sjálfstæðið í því að hafa gjaldmiðil (sem ræður gríðarlega miklu um samkeppnishæfni okkar og kjör) sem hefur þessa galla sem ég nefndi hér að ofan og er það vonlaust að verja að um einn einstakling hjá fyrirtæki í UK er sagt að "hann hefur örlög krónunnar í hendi sér"?

Segið mér það.

Aðra kosti við ESB-aðild þyrfti ég að skrifa um síðar (s.s. möguleika okkar almennings til að versla við aðra en einokrara hérlendis) en nú þarf ég að fara að snúa mér að kosningasjónvarpinu!  Obama mun vonandi hafa þetta, þrátt fyrir jákvæðar kannanir ætla ég ekki að fagna fyrr en síðasta atkvæðið er talið, eða síðasti dómarinn búinn að dæma í Florida...  Hvað sem öðru líður er stórkostlegt að heimurinn sé loksins að losna við W úr Hvíta húsinu!

Ignorance is bliss

Ég er á því að ástandið í þjóðfélaginu hafi snöggtum batnað síðustu vikuna.  Fyrir því get ég því miður ekki fært nein rök en það hefur lygileg áhrif á lundina að hlusta "bara" á 2-3 fréttatíma á dag í stað 10-15.  Fyrirfram hélt ég að þetta væri lífsins ómögulegt fyrir fréttafíkil en hlutirnir eru hreinlega ekki að gerast það hratt að maður sé að missa af neinu.  Hversu margar fréttir ætli maður hafi lesið um að líklega verði tilkynnt um lán frá IMF í dag eða á morgun?  Já eða hversu oft hefur maður lesið að ekki verði tilkynnt um lán frá IMF í dag?

Alltof oft, tímanum er betur varið í allt annað. 

Ég hef eins og aðrir verið hugsi yfir ástandinu og hvernig við komum okkur í það.  Allt tal um að nú séum við svo upptekin við að halda sjó að við höfum ekki tíma til að skoða orsakirnar er algjört kjaftæði.  Þeir sem eru uppteknir í stjórnkerfinu vegna bankaþrotsins eru hvort eð er ekki fólkið sem á að stýra slíkri úttekt.  Ég er ekki svo barnalegur að halda því fram að minn flokkur sé saklaus í þessu og myndi koma hvítþveginn út úr slíkri yfirferð.  Þó er ég viss um að núverandi Ríkisstjórn hafi gert illt verra með gríðarlegri aukningu ríkisútgjalda í fjárlagafrumvarpinu f.2008 og svo var sofandahátturinn fram í lok  september náttúrulega einstakur.  Þá fyrst sáu menn ástæðu til að vinna fram á nætur, boða til sín bankastjóra, verkalýðshreyfinguna, forsvarsmenn SA og lífeyrissjóðina ofl.  1.maí var mér eins og fleirum nóg boðið af hinu "yfirvegaða aðgerðaleysi" og skrifaði þetta nöldur.  Síðan liðu ansi margir mánuðir og staðan batnaði lítið á meðan, þarna er ég til að mynda að barma mér yfir 24,3% veikingu GVT á árinu!  Það þætti nú ekki slæmt í dag að hafa gengið þar...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband