Klukkaður eða sagði hún að ég væri klikkaður?

Að skrifa um pólitík í dag væri bara of auðvelt í dag, eins og að sparka í liggjandi mann.  Stöndum ekki í því.  Var "klukkaður" af góðri Maddömu eins og það kallast á bloggnördísku og má til með að taka þeirri áskorun.  Úr því varð þessi bók sem hér fer á eftir.  Tek fram að þetta er ekki í neinni sérstakri röð.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

  1. Áfylling fyrir Egils í stóru matvöruverslunum á Húsavík.  Fyllti þar m.a. á Pepsi sem var einkennileg upplifun fyrir Coke-fíkil.
  2. Afgreiðsla á MS-vörum í Mjólkursamlagi KÞ á Húsavík (MSKÞ).  Stórkostlegur vinnustaður en það var stundum kalt í kælinum.
  3. Afgreiðsla í timburdeild KÞ Smiðjunnar á Húsavík.  Jákvæðasti maður heims, Jón Þormóðs, vinnur þarna og ekki getur manni leiðst með slíkan mann sér við hlið.  Fer aftur til Nonna þegar krepputalið gengur endanlega fram af manni, hann er maðurinn til að koma geðheilsunni í jafnvægi á ný.
  4. Tölvunarfræðingur hjá VÍS í Reykjavík.  Besti vinnustaður landsins, þess vegna er maður svona þaulsetinn, ekki orð um það meir.


Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

  1. Pulp Fiction
  2. Kill Bill
  3. Sin City
  4. Waiting...


Waiting er kannski ekki allra besta mynd sem ég hef séð en í miklu uppáhaldi.  Of fáir hafa séð hana, bráðfyndin og hæfilega barnalegur húmor fyrir barnalegt fólk eins og mig.

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

  1. Baldursbrekkan á Húsavík.  Þarna eiga börn að alast upp ef þess er kostur, tryggir vel heppnaða útkomu.
  2. Gullteigurinn í Reykjavík.  Staður með sál, góða nágranna og sambýlinga en versta þvottahús landsins.  Jafn langt í þvottahúsið og í efnalaug.
  3. Gullengið í Grafarvoginum.  Pollrólegt, fjölskylduvænt og göngufæri í allt sem maður þarf (f.utan vinnu auðvitað!).  Sumir miðborgarbúar átta sig ekki á því að til er fólk sem finnst fínt að búa þar sem ekki er verslunarmannahelgi allt árið um kring.  Þú þarft sem sagt ekki að vorkenna mér Hallgrímur Helga, það vantar ekkert í lífið hjá manni þó ókunnugt fólk mígi ekki vikulega í garðinn hjá manni.
  4. Wimbledon hverfi í London hjá Jóni Baldvinssyni biskup (þáverandi sendiráðsprestur) og Möggu konu hans.  Bjó ekki þar í hefðbundnum skilningi en ég, Kristján Þór og Unnar vorum alltof þaulsetnir til að geta talist normal gestir.  Ótrúleg gestrisni og höfðingsskapur sem við fengum þar að kynnast hjá fólki sem þekkti 2/3 okkar ekkert fyrir komuna.  Jón þyrfti að verða biskup yfir Íslandi, þá yrði Þjóðkirkjan vinsælli en íslenska handboltalandsliðið.


Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

  1. The Office (bæði UK og US útgáfurnar)
  2. Klovn
  3. Gettu betur
  4. Scrubs

Enski boltinn í HD væri á þessum lista ef 365 hefði það ekki að höfuðmarkmiði að fæla mig frá viðskiptum við þá.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

  1. London.  Stórkostleg borg, alltaf eitthvað að gerast, endalaust magn af tónleikum.
  2. Fjárhóll í Reykjadal, S-Þing.  Nýja ættaróðalið í dal dala, næ vonandi milljón heimsóknum þangað áður en yfir líkur.
  3. Zufikon í Sviss.  Kannski ekki algengasti sumarleyfisstaðurinn en einn sá besti ef fólk er með réttu ættartengslin!
  4. Hlíðarendi í Bárðardal.  Fór í heyskap og sauðburð flest sumur sem krakki, væri ekki samur ef ég hefði ekki fengið að upplifa þá snilld!  Ingvar, Aníta, Ella Sigga, Erlingur og Ingvar, þið megið setjast uppá mig hvenær og hvar sem er, þið eigið inni amk 5000 gistinætur. 


Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

  1. eyjan.is
  2. dimeadozen.org  (lögleg tónlistar torrent, himnaríki bootlegga safnarans)
  3. facebook.com (var næst síðastur í heimi til að skrá mig, er leiðinlegasti vinurinn sem fólk getur átt þarna ef mælt er í svöruðum requests).
  4. m5.is (ætti ekki að gera það en geri samt)

Fernt sem ég held upp á matarkyns:

   1. Hamborgarar
   2. Allt á Austur Indíafjelaginu
   3. Heitir brauðréttir
   4. Coca Cola (er það ekki matarkyns?)

Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:

  1. Fjárhóll í Reykjadal.
  2. Við Geysi í Haukadal.  Goshverir eru málið, að fylgjast með Strokki er einhver besta afþreying sem völ er á.
  3. Húsavík.  Örlítið fyrirsjáanlegt kannski.
  4. Þar sem ég er, heima.  Hér er fólkið mitt og heima er nú bara alltaf best.
  5. Í Bónus að bíða í röð við kassana.  Eða ekki.

(útlönd eru ekki málið í dag)

Fjórar hljómsveitir eða tónlistarmenn sem ég held upp á:

  1. Pearl Jam
  2. Eddie Vedder
  3. The Cardigans
  4. The Libertines


Fjórir bloggarar sem ég klukka:

  1. Davíð Oddsson.  Getur birt niðurstöðurnar á sedlabanki.is eða sent mér bara bréf með svörunum, ég skal birta þetta.
  2. Sarah Palin.  Það væri fróðlegt.
  3. og fjögur.  Snæþór og Alma, þetta vekur þau kannski af bloggdvalanum!

Fæst orð bera minnsta ábyrgð

Það er ansi margt sem maður gæti sagt um þessi Glitnis-mál en ætli ég leyfi ekki rykinu að setjast áður en gasprað verður hér um efnisleg atriði málsins.  Nógu mikið er nú þunglyndið yfir gengi krónunnar, OMX15 osfrv svo ég fari ekki að bæta olíu á þann eld en það hefur verið um það bil eina málið sem mér hefur dottið í hug að blogga um að undanförnu. Eins ömurlegt bloggefni sem það er.  Frekar ætla ég að fókusa á nokkur atriði í þessu þjóðnýtingarmáli sem hafa kallað á framtíðar to-do lista fyrir undirritaðan:

  • Ég sé að ég verð að eignast ljósvakamiðil.  Þegar ég lendi í því að erkióvinur minn rænir af mér tugum milljarða (amk að mínu mati) er ólíkt áhrifaríkara að eiga sjónvarpsstöð til að ræða málin við fyrrverandi aðstoðarmann sinn en bloggsíðu.  Ég ætlaði að nöldra í Jóni Ásgeiri fyrir að hafa ekki tekið slaginn og mætt í Kastljósið en eftir smá umhugsun er ég hættur við.  Að sjálfsögðu hefði ég líka tekið kaffispjall með gömlum samstarfsmanni framyfir grillun hjá Sigmari.
  • Eignast erkióvin.  Með tilvísun í þetta hér að ofan.  Erkióvini má nota til að kenna um eigin ófarir og koma í veg fyrir að maður þurfi að líta í eigin barm.  Þá er ég nú ekki að dæma í þessu máli þó það líti þannig út, enda hef ég ekki þekkingu til að fullyrða um hvort veð Glitnis hafi verið ótraust, hvort Seðlabankinn hafi ekki farið að lögum oþh.  Burtséð frá því er greinilega dýrmætt í fjölmiðlaslagnum að eiga slíkan nemesis með sögu sem getur ekki komið að málum þínum án þess að það sé yfir vafa hafið.  Á meðan einbeita fjölmiðlar (kostur er að eiga þá sjálfur) sér að því á meðan frekar en að skoða efnislega þætti málsins.  Mig vantar kandídata í erkióvinadjobbið, tillögur/umsóknir óskast.
  • Læra að hatast útí hið illa auðvald.  Maður sér á Moggablogginu og víðar hversu margir ljóma hreinlega yfir óförum hluthafa Glitnis og geta tæpast hamið gleði sína á ritvellinum yfir því hvernig fyrir þeim er komið.  Ég tek ekki þátt í þeirri gleði og er greinilega að fara á mis við mikla hamingju ef marka má þennan hluta netheims.
Ískalt mat, ef staða íbúðarlánsins hjá Frjálsa er skoðað er ég hræddur um að liðir 2 og 3 komi á undan þeim fyrsta!

Kjósum um aðildarviðræður að ESB

Ég mæli eindregið með grein Birkis, Sæunnar og Palla Magg í Fréttablaðinu á fimmtudaginn.  ESB málin eru gott dæmi um mál sem flokkakerfið ræður illa við.  Meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi aðild (sbr. þessa tveggja mánaða gömlu frétt, sjálfsagt má finna nýrri könnun) en bara einn flokkur hefur aðildarumsókn á stefnuskránni.  Sá flokkur leggur ekki meiri áherslu á málið en svo að fyrir kosningar er þagað um ESB til að fæla ekki möguleg atkvæði lengst til vinstri og greinilega engin áhersla var lögð á ESB-aðild þegar kom að gerð stjórnarsáttmála. 

Forystumenn hinna flokkana eru þess utan hræddir við að kljúfa flokkana í uppgjöri um ESB á landsfundum/flokksþingum og því er skynsamleg lausn að kjósa um hvort sækja beri um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu óháð öðrum kosningum þar sem eingöngu þetta stóra mál er til umræðu, án þess að flokkapólitík sé í forgrunni.

Gjörbreyttar aðstæður í þjóðfélaginu á skömmum tíma kalla á umræðu um hvaða efnahags- og samfélagsheild við viljum tilheyra til lengri tíma, ekki síst til að fyrirbyggja sveiflur eins og þessa, en meðal forystumanna í stærsta flokknum hefur viðmótið verið að engin synd sé verri en syndin að skipta um skoðun, þá skiptir engu hvort aðstæður breytast eða ekki.  Grasrótin í flokknum fær ekki að koma sínu á framfæri nema á tveggja ára fresti og þar breytist grundvallarstefna yfirleitt ekki í einu vetfangi þannig að þróunin hjá íhaldinu mun verða hæg þó undiraldan sé þung.

Nei, ég lít ekki á ESB-aðild sem sértæka lausn við efnahagsvanda dagsins í dag (enda verið hlynntur aðild lengi) en sjálfstæðismenn í  umræðuþáttunum (t.d. Ólöf Nordal í Silfrinu f.viku eða tveim) reyna yfirleitt að drepa málinu á dreif með þeim frasa.  Ef stjórnmál geta ekki snúist um að leysa vanda nútímans samhliða því að horfa fram á veginn er viðkomandi fólk algjörlega vanhæft til að vera í pólitík.

Við hvað eru andstæðingar aðildarviðræðna annars hræddir?  Ef ekki næst viðunandi samningur hlýtur þjóðin að fella hann rétt eins og Norðmenn hafa gert í tvígang.  Það er aldrei sagt upphátt en væntanlega telja andstæðingar viðræðna að þjóðinni sé ekki treystandi til að meta það.  Annars væri einboðið að nota einu leiðina sem við höfum til að fá raunveruleg svör við öllu fræðilegu deiluefnunum!   Er þjóðinni þá treystandi til að velja stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti?

Útsvar returns

Ekki eru afköstin á þessu bloggi til sérstakrar fyrirmyndar en ástæðan fyrir því er einföld.  Ég tek til fyrirmyndar einn vinsælasta bloggara landsins, sem jafnframt er ráðherra, og blogga eingöngu undir áhrifum áfengis.  Ég drekk hinsvegar mun sjaldnar sem skýrir færri færslur hjá mér en Ö....., ehemm..., honum.

Að öllu mögulega meiðyrðandi glensi slepptu er best að koma sér að efninu.  Ég er aftur farinn að horfa á íslenskt sjónvarp og ástæðan er ekki sú að ég hafi náð sáttum við 365 og sé farinn að horfa á Enska í HD, heldur er fyrsti spurningaþáttur vetrarins byrjaður.  Útsvar er byrjaður aftur sem er fagnaðarefni.  Ég skora ekki mörg rokkstig að játa aðdáun mína á þessum þætti en ef fólk vill frekar hafa Disney mynd frá siðaskiptum á föstudagskvöldum er viðkomandi ekki viðbjargandi.   Missti reyndar af jómfrúarþætti vetrarins en í kvöld mætti sveitarfélag sveitarfélaga með stórkostlegt lið til leiks, Norðurþing stillti upp til sigurs og fékk Sævar, Togga og Gumma Svafars úr Ljótu Hálfvitunum í liðið.  Breið þekking og afburða skemmtilegir menn þar á ferð svo ég nálgist þetta sem hlutlaus áhorfandi í Grafarvoginum.  Gerir álíka mikið fyrir þáttinn og Draumaliðið gerði fyrir ólympíuleikana í Barcelona 1992.

En að fleiri spurningaþáttum.  Ekkert bólar á "Orð skulu standa" sem bætir gráu ofan á svart fyrir landsmenn á þessum viðsjárverðu tímum í efnahagslífinu.   Ef ég væri aðeins meiri kverúlant myndi ég segja að útvarpsstjórinn hefði tekið erlent lán fyrir forstjórabílnum sínum og hefði þurft að slátra þættinum v/hækkandi afborgana.  Það dettur mér þó ekki í hug enda er ég gríðarlega ánægður með að fréttastjóri Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið ráðinn fréttastjóri RÚV.

Vonandi eru fleiri spurningaþættir í pípunum, Útsvar er á mörkunum með að fleyta manni fram að Gettu betur en svo ég útiloki öll rokkstig þessa vikuna viðurkenni ég fúslega þá skoðun mína að sá þáttur er langbesta íslenska sjónvarpsefnið!

Nördajátningum lokið í bili, sjáumst að viku (eða viku+) liðinni.

Sunnudagsmogginn

Þrátt fyrir pólitíska slagsíðu, dularfulla þögn um stórfréttir og að mest lesnu blaðasnáparnir í Gullenginu séu ekki starfandi þar (Mari og Maggi) er Mogginn nú alltaf uppáhalds dagblaðið mitt.  Í dag er hann sérstaklega góður, ég gæti auðveldlega vanist því að hafa svona forsíðu fyrir augunum með morgunmatnum á hverjum  sunnudegi!

Unnur í forsíðuviðtali Moggans, 9.sept 2008


Jakob náði ekki að koma á framfæri ást sinni á Cheeriosi, osti og snuðum eða hræðslunni við svínin, hænurnar og hestana í Húsdýragarðinum en hans viðtal kemur bara síðar.


Raunarsaga háskerpuneytanda

(Best að vara lesendur strax við, þessi færsla er langt og hundleiðinlegt nöldur um lúxusvandamál!)

Enski boltinn hjá 365 miðlum er merkilegt fyrirbæri.  Þegar þeir yfirbuðu Símann á sínum tíma var auglýst grimmt "Enski boltinn er kominn heim" enda höfðu þeir sinnt honum frábærlega nokkrum árum áður.  Himinhátt verð var greitt og að sjálfsögðu borga það engir aðrir en áskrifendur enda kostaði boltinn í fyrra ca 4 þús krónur m.12 mán bindingu sem var ansi súrt eftir 2000 kr. á mánuði miðað við 10 mánaða bindingu hjá Símanum.  Þetta var nú allt saman réttlætt með því að "svo til enginn" væri eingöngu með Enska boltann og ef þú værir með Stöð 2, Fjölvarpið og Sýn (nú Stöð 2 Sport) væri hækkunin nánast engin.  Hverjir eru með þann pakka?  Amk ekki ég eða nokkur kjaftur sem ég þekki.

Ég var hundfúll með þetta og ákvað að falla ekki fyrir því sem þeir gerðu greinilega ráð fyrir í útboðinu, "aðdáendur enska boltans borga hvað sem er".  Þeir eru jú með einokunarstöðu og nýta sér það. 

Þannig að síðasta vetur var ég uppá ættingja og vini kominn og þrátt fyrir að það hafi verið stórskemmtileg taktík matarlega séð missti ég fyrir vikið af alltof mörgum leikjum og sór þess eið í vor að reyna þetta ekki aftur.

Ég tók mér svo ágúst í að melta þetta en sprakk í gær og ákvað að nú skyldi ég beygja mig niður og bjóða 365 aðgang að óæðri endanum ásamt veskinu mínu.  Nú er ég nefnilega svo vel búinn að geta horft á sjónvarp í háskerpu og sú freisting að sjá enska boltann með þeim hætti bar skynsemina ofurliði.

Gott og vel, ég hringdi í 365 í gærkvöldi og fékk staðfest sem ég taldi mig vita, til að geta keypt háskerpurásina á 1.690 kr. á mánuði þyrfti ég einnig að kaupa Stöð 2 Sport 2 (þjált nafn) sem er Enski boltinn.  Hún kostar 4.171 kr. á mánuði miðað við 12 mánaða bindingu  þannig að ég var þarna kominn uppí tæpan 5.900 kall fyrir enska boltann.  Það er ansi vel í lagt en mér fannst ég hafa kennt þeim næga lexíu að sleppa síðasta vetri þannig að nú skyldi maður láta sig hafa það!  Stúlkan benti mér vingjarnlega á að panta á netinu til að fá 30% afslátt fyrsta mánuðinn, sækja svo ruglarann til Vodafone og ganga frá háskerpu-rásinni þar en það er ekki hægt af netinu af einhverjum ástæðum.

Léttur á fæti og að springa úr eftirvæntingu fór ég í Vodafone í Skútuvogi seinnipartinn.  Hafði varla sofið af eftirvæntingu við að sjá háskerpu í ofur-sjónvarpinu!  Allt gekk prýðilega þangað til sölumaðurinn fór að vinna í afslættinum og komst þá að því að ekki er nóg að borga tæpar 71 þús kr. á ári til að fá enska boltann ásamt háskerpupakkanum, maður verður nefnilega líka að vera með Stöð 2 Sport! (gamla Sýn).  Ég skyldi það nú ekki, enda er ég búinn að vera að fylgjast með því hvaða leiki er verið að sýna á háskerpurásinni og þar er bara enski boltinn, amk í ágúst og september (maður sér ekki lengra fram í tímann), 2-3 leikir um hverja helgi.  Hvað kemur Stöð 2 Sport þá málinu við ef mig langar að sjá enska boltann í HD?

Stöð 2 Sport er vitanlega ekki gefins þannig að ég hefði þurft að bæta við tæpum 3.000 kr. á mánuði.  Þá er ég kominn uppí tæpar 9.000 kr. næstu 12 mánuði vegna þess hvað mig langar mikið að horfa á nokkra leiki með Liverpool og enska í háskerpu!  Það er hreinlega bilun og ég sagði nei takk.  Hringdi aftur í Þjónustuverið til að fullvissa mig um að þetta væri virkilega svona og núna fékk ég önnur svör en í gærkvöldi (þau réttu því miður), þetta er víst eina leiðin en ekki gat hún sagt mér af hverju enda er það rannsóknarefni fyrir doktorsnema í afleiðuviðskiptum.

Glórulaust!

Úr einu í annað

Engin pólitík í dag, of gott veður fyrir hana.  Sumir myndu segja að það væri of gott veður til að vera í tölvunni en það er bölvuð vitleysa, það þarf mun meira til.  Þetta er nú samt í punktaformi enda léttir réttir hentugir í dag.

Handboltalandsliðið á ÓL
-Ætli það sé of seint að hefja smíði 50 metra bronsstyttu af Guðmundi Guðmundssyni sem yrði tilbúin í að taka á móti landsliðinu þegar þeir koma heim frá Peking f.utan Leifsstöð?

-Viðtölin við Ólaf Stefánsson eru stórkostleg.  Þetta er einn okkar bestu manna. Viðtöl við íþróttamenn eftir leiki eru oftast nær fyrirsjáanleg og leiðinleg eftir því en ekki viðtölin við Ólaf, þetta er eitthvert besta sjónvarpsefni sem völ er á í dag.

Badminton
-Ragna Ingólfsdóttir er ekki lítið öflugur íþróttamaður.  Spilaði með slitið krossband á ÓL og í aðdraganda þeirra án þess að væla.  Vissulega þurfti hún að hætta vegna þessa en þetta er nú eitthvað annað viðhorf en stöðug látalæti í ónefndum knattspyrnumönnum sem velta sér eins og þeir hafi misst útlim við minnsta samstuð.  Þeir mættu líka læra að dómarinn ræður, ekki þið, sættið ykkur við það eða finnið ykkur aðra vinnu.


Menntun ungviðisinsFyrsti leikskóladagurinn
-Ég eldist óðum eins og fleiri.  Eitt merki þess er að núna er ég pabbi barns á leikskóla sem er merkilegur áfangi fyrir okkur feðga báða.  Hann virðist líta á þetta sem vinnu og þá með þann tilgang að færa heim sand í búið, 0,5 - 1 kg á dag.  Það gengur prýðilega þó ég eigi ennþá eftir að finna verkefni fyrir sandinn.  Unnur er sömuleiðis byrjuð aftur á leikskólanum (þeim sama) en kemur með minna af sandi heim.

Hér má sjá okkur Jakob Fróða fagna velheppnuðum fyrsta leikskóladeginum.

 


Háheilagir stjórnmálamenn

Dagur B. Eggertsson hamraði á nýja uppáhaldsfrasanum í gær, "klækjastjórnmál", og ítrekaði að þannig vinnubrögð vildu borgarbúar ekki og væntanlega ekki hann sjálfur heldur.

En hvað eru það annað en klækir að reyna að stýra atburðarásinni með þeim hætti að almenningur trúi að Tjarnarkvartettinn hafi verið möguleiki þegar nánasti samstarfsmaður Ólafs (Jakob Frímann) og einn til bera það til baka?

Hvað eru það annað en klækir að ætlast til þess að lýðræðislega kjörinn fulltrúi segi af sér svo maður komist sjálfur í borgarstjórastólastólinn aftur?  Ég hefði ekki saknað Ólafs F. úr borgarstjórn en mér þykir til nokkurs ætlast að hann hætti bara þegar ekki er fullreynt með að aðrir meirihlutamöguleikar séu fyrir hendi.

Mér sýnist að þumalputtareglan sé þessi: ef einhver gerir e-ð sem kemur mér (Degi) illa eru það klækir, ef það kemur mér vel er það ábyrg og lýðræðisleg þróun.


Geir, Geir, Geir

Var ég einn um að fá hroll niður bakið þegar Geir H. Haarde sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær eins og ekkert væri sjálfsagðara um samstarf D og F lista í borgarstjórn: "ég veit ekki betur en það hafi í aðalatriðum gengið vel, og gangi þokkalega vel"?  Hlustið sjálf hér ef þið þorið, þetta er verulega vandræðalegt að heyra, jafnast á við góðan Office þátt.

Sjálfstæðismenn slíta ekki meirihluta sem "hefur í aðalatriðum gengið vel" þannig að þrennt er í stöðunni:

1. Geir var ekki upplýstur um hvernig samstarfið hefur gengið og hefur þá væntanlega komið af fjöllum þegar það sprakk í dag. 
2. Geir kaus að fara ansi frjálslega með staðreyndir frekar en að tjá sig ekki.
3. Samstarfið gekk glimrandi þangað til í gær, þá fyrst fór allt í háaloft og íhaldið fékk skyndilega þá flugu í höfuðið að slíta daginn eftir.

Möguleiki nr. 3 er auðvitað fjarstæðukenndur þannig að það má afskrifa hann strax.  Möguleiki nr. 1 er ekki vænlegur fyrir Geir sem formann flokksins þar sem hann ætti að fylgjast betur með en þetta.  Ég efast ekki um að hann geri það.  Þá er það bara möguleiki nr. 2 eftir.  Geir, þér er velkomið að útskýra þína hlið í athugasemdakerfinu eða með gestapistli ef þú vilt fara ítarlega í þetta.

Eins og ég hef sagt áður tel ég að óábyrgt fjölmiðlablaður sé ein stærsta ástæða þess að stjórnmálamenn hafa þann stimpil á sér fyrir að orðum þeirra sé ekki treystandi.  Margir þeirra skemma fyrir sómafólkinu vegna þess að þeir geta ekki þagað þegar þeir ættu að gera það og hika ekki við að slá ryki í augu almennings til að þjóna einhverjum tímabundnum tilgangi.

Hef í lokin eitt ráð til Hönnu Birnu og Óskar Bergssonar: alls ekki halda blaðamannafund á sama tíma og Klovn er sýndur þar sem RÚV hyggst rjúfa útsendingu til að sýna frá fundinum.  Það væri ægilegt að hefja samstarfið á því að spilla Klovn þætti!  Treysti á að þið séuð að taka bloggrúnta í kaffipásunum niðrí Ráðhúsi.


Hræðsla fullorðins manns

Fimm lykiláhættur hef ég óttast í lífinu til þessa:
1. Endajaxlatöku
2. Manndrápsflugur sem stinga (geitungar, randaflugur og aðrar sambærilegar skaðræðisskepnur)
3. Kríur (ógnandi skepnur með skeinuhætt öskur)
4. Mikil hæð (allt yfir tveimur metrum)
5. Sigríði Klingenberg galdrakonu

Þrátt fyrir að þetta útskýri sig auðvitað allt sjálft væri bloggið ansi rýrt ef ég myndi ekki fara aðeins betur í hvern lið en til að útskýra svona grundvallarmál dugar ekki annað en langhundur.

Tannhörmungar1. Endajaxlatökuna hef ég forðast og frestað eins og ég mögulega hef komist upp með síðustu 7-8 ár.  Ástæðan var í upphafi einföld, fjárhagsástæður en undir niðri kraumuðu aðrar og myrkari ástæður.  Stórkostlega bólgnar systur mínar komu heim frá Akureyri fyrir tæpum 20 árum úr slíkri verkun og síðan þá hef ég þefað uppi sögur af blóði drifnum endajaxlatökum. 

Í ljósi þess hvað kona mín hefur gengið í gengum síðastliðið ár án þess að kvarta nokkuð fannst mér ekki sérstaklega karlmannlegt að fresta þessu lengur þannig að ég lét fjarlægja alla fjóra í einu fyrir mánuði síðan.  Það var sáraeinfalt enda tannlæknirinn snillingur.  Kannski var ekki ástæða til að kvíða fyrir þessu áralangt.

Manndrápsflugur í æfingabúðum2. Manndrápsflugurnar hafa lengi elt mig uppi og eingöngu einu sinni náð árangri við árás, ég lifði þó naumlega geitungastunguna af.  Hunangsflugur eru sagðar meinlausar en ég veit betur, undir sakleysislegu yfirbragði leynist þaulæfður fjöldamorðingi. 

 

Kría í miðju morði

 

3. Kríur eru fallegir fuglar en leiðinlegri skepnur eru vandfundar.  Óþolandi hávaði í þeim og hegðun þeirra ekki til fyrirmyndar.  Síðan eru þær stöðugt að gera árásir á heila okkar mannfólksins og reyna bannvænar stungur við flest tækifæri.

 

 

Leika sér að eldinum4. Lofthræðsla er afar eðlileg enda rökrétt að hafa fast land undir fótum og vera ekki að storka örlögunum með öðru.  Verst þykir mér hve lofthræðslan ágerist með aldrinum og væntanlega endar hún með því að ég þori ekki uppá tábergið um fertugt.

 

 

Fröken Klingenberg5. Ekki veit ég af hverju ég fór að vera hræddur við Sigríði Klingenberg.  Líklega byrjaði það þegar ég rakst á hana á förnum vegi og hún með sína hæfileika og þetta furðulega hár virtist líkleg til að breyta mér í kommúnista með einhverjum nornaálögum ef ég liti einkennilega á hana.  Ég heyrði svo viðtal við Sigríði í besta útvarpsþætti landsins nýverið, Kvöldgestir m. Jónasi Jónassyni (sem er nota bene langbesti útvarpsmaður landsins, mæli með podcastinu) og viti menn, Sigríður er ekki á nokkurn hátt ógnvekjandi eða líkleg til galdramennsku.  Jónas er auðvitað meistari í að laða það besta fram í fólki en ég treysti mér alveg til að mæta henni á götu í dag og jafnvel bjóða í kóksopa.  Síðan gerði hún mér og veislustjórum í brúðkaupi góðs fólks nýverið mikinn greiða fyrir hálft orð þannig að hún er í miklu áliti hjá mér í dag. 

 

Dágóður árangur að ná að skjóta niður 2 af 5 á nokkrum vikum, ætla mér þó næstu 5 ár í að vinna í hinum þremur málunum en listinn getur alveg óhikað litið svona út í dag!

1. Endajaxlatöku
2. Manndrápsflugur sem stinga (geitungar, randaflugur og aðrar sambærilegar skaðræðisskepnur)
3. Kríur (ógnandi skepnur með skeinuhætt öskur)
4. Mikil hæð (allt yfir tveimur metrum)
5. Sigríði Klingenberg galdrakonu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband