Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hressilegur afþreyingarpistill... eða ekki

Það sem líklega mun verða minn banabiti einn daginn er samviskubit.  Þrátt fyrir að hafa gefið út yfirlýsingar um að verða verulega latur bloggari hópast hér einhver hópur fólks daglega í leit að nýju bloggi.  Mér finnst auðvitað grábölvað að bregðast því fólki, ekki síst á þeim tíma sem námsmenn þurfa auðvitað að finna sér allt annað að gera en að læra.  Kannast vel við þá stöðu.

Ég verð að valda þeim vonbrigðum sem reiknuðu með einhverri jákvæðni úr þessari átt í dag því mér er ekki hlátur í hug heldur ræður kverúlanta-tuðgírinn för.

Oft hefur maður heyrt þann frasa að kostur við mikinn meirihluta í sveitarstjórn/Alþingi sé sá að þá sé kraftur fyrir hendi til að framkvæma mikið, koma í gagnið umdeildum en nauðsynlegum breytingum osfrv.  Núverandi ríkisstjórn hefur þó náð að afsanna þessa kenningu á skömmum tíma en núna virðist stór meirihluti á Alþingi þýða fullkomin kyrrstaða og algjört getuleysi.  Trúðurinn í Iðnaðarráðuneytinu stærir sig af því hvað Geir sé nú töff að þrauka og gera ekkert og Geir segir að við búum bara við innfluttan vanda, þess vegna sé engin ástæða til aðgerða.  Krónan hafi verið of hátt skráð og það hafi allir talað um lengi, gengisfall var því óumflýjanlegt.

Jamm, kannski það, en það var reiknað með gengisfalli þegar stýrivextir yrðu lækkaðir  en hún féll nú samt, þrátt fyrir háa stýrivexti.  Þessi hæsta verðbólga í 18 ár er ekkert grín, lán hjá skuldsettum ungum íbúðareigendum eins og mér hækka meira en ég kæri mig um að nefna um þessi mánaðarmót.  Mér leiðist að heyra Geir tala um að gengisfallið sé að ganga til baka.  Vissulega hefur það skánað, en það er bara að litlu leiti, frá áramótum hefur gengisvísitalan hækkað um 24,3%!  Það er dágóð hækkun Geir.  Þá er ekki mikil huggun að hlusta á ráðamenn tala um að þetta sé "eins skiptis hækkun" osfrv. þegar stýrivextir eru í botni, gengið samt fallið og stærsti flokkurinn forðar sér frá allri umræðu um ESB, að því er virðist aðallega í virðingarskyni við gamla formanninn. 

2002 voru blikur á lofti í efnahagslífinu, útlit var fyrir hækkandi verðbólgu og uppsögn samninga vegna þess.  Þá lögðust allir á eitt og samningar héldu, verðbólgan hjaðnaði og hjól efnahagslífsins fóru aftur að snúast.  Núna gasprar ríkisstjórnin að auðvitað verði samráð, auðvitað verði hitt og þetta en ekki neitt er gert.  Í stjórnarsáttmálanum er þessi setning "Stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa."  Nú er markaðurinn svo gott sem frosinn eftir spá Seðlabankans um 30% raunlækkun en ekki bólar mikið á stimpilgjaldalækkun, nema auðvitað til þeirra sem hafa ekki keypt áður, svona rétt til að gera skattkerfið aðeins einfaldara en það er nú þegar...

Ég er kannski ekki mjög hlutlaus en ég sakna Framsóknarflokksins úr Ríkisstjórn.  Ég er sannfærður um að þá væri, rétt eins og 2002 verið að vinna í að halda verðbólgu niðri með markvissum hætti, ekki bara með óljósum beiðnum til atvinnurekenda í fjölmiðlum.  Þá væri einhver að tala fyrir því að beita Íbúðarlánasjóði til að hreyfa örlítið við fasteignamarkaðnum.  Ekki þyrfti maður að hlusta á svona bull og fyrirslátt eins og frá Geir H. í dag.   Eins og Hallur Magg sagði sem er einfaldlega mun betur að sér en Geir um málefni Íbúðalánasjóðs:

Hvernig getur það verið að fækkun raunverulegra 90% lána úr 33% allra útlána Íbúðalánasjóðs á árinu 2003 í innan við 20% allra útlána Íbúðalánasjóðs á árinu 2005 og síðar í um 1% allra útlána sjóðsins á árinu 2007 geti verið þensluvaldandi? Tekið héðan.


Góð spurning Hallur.  Sjálfstæðismönnum virðist fyrirmunað að skilja að útlánareglur sjóðsins eru takmarkaðar af brunabótamati (og lóðarmati held ég í seinni tíð) sem verður til þess að á helstu þenslusvæðum landsins þýðir 90% lán hjá Íls ekki 90% af kaupverði fasteignar.  Auðvitað skilja þeir þetta, það er einfaldlega vænlegt til árangurs að þylja hina rulluna nógu oft, það er ekki eins og fjölmiðlar hafi nokkurn áhuga á að rengja þessa mítu þeirra um 90% lánin sem orsökuðu ragnarök.

---
Eftir að hafa rennt yfir þessa bölsýnisritgerð aftur má ég til með að koma með örlítinn ljósari punkt í lokin, ekki síst fyrir námsmennina í prófunum sem mega ekki við frekara svartnætti.  Sá punktur er auðvitað grein Jóns Sigurðssonar í Mogganum í gær. Stutt, afar vel rökstudd og beint að kjarna málsins.  Eftirsjá í Jóni úr pólitíkinni.  Hægt er að lesa hana í heild sinni hjá meistara Gesti.


Ég og þú borgum þessum manni laun

Ögmundur Jónasson hefur ekki verið í sérstöku uppáhaldi undirritaðs.  Það breyttist ekki við lestur á viðtali við hann í Fréttablaðinu í dag.  Eitt breyttist þó, Ögmundur fór ekki í taugarnar á mér eins og vanalega heldur finn ég hreinlega til með honum.  Ögmundur leggur lykkju á leið sína til að hnýta í mann sem hefur gefið gríðarlega háar upphæðir til hinna ýmsu málefna eftir að hann efnaðist.  Leyfum Ögmundi sjálfum að hafa orðið:

Það er dásamað þegar auðmennirnir gefa fátækum, sjúkum, hrjáðum og listamönnum. Jafnvel Þjóðminjasafnið er orðið háð svona framlögum. Björgólfur er að verða einhvers konar Móðir Teresa, hann læknar og líknar en hvaðan eru peningarnir fengnir? Þeir koma frá samfélaginu og pólitíska spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort við viljum að auðæfi samfélagsins séu til ráðstöfunar af hálfu þessara aðila í staðinn fyrir að vera undir lýðræðislegri stjórn. Völdin hafa verið færð til auðmannanna og þeir reyna að kaupa sér velvild með aflausnarbréfum.

Björgólfi ber ekki nokkur skylda til að gefa krónu af sínum auðæfum.  Hann gæti auðvitað setið bara á þeim, látið lítið fyrir sér fara, grætt enn meira og sleppt því að gefa pening til að styggja ekki alþingismann eins og Ögmund.  Ögmundur sá ekki ástæðu til að nafngreina auðmenn sem ekki hafa verið jafn rausnarlegir og Björgólfur.  Nei, hann sá ástæðu til að gefa í skyn að Björgólfur hefði slæma samvisku og væri að reyna að "kaupa sér velvild með aflausnarbréfum".  Ekki misskilja mig, þessir nýríku menn eru ekki yfir gagnrýni hafnir og mér leiðist fátt meira en einhver helgislepja gagnvart þeim.  Gott dæmi um það sem ég á við er þegar starfsmenn Stöðvar 2 taka viðtal við eigenda sinn.  Aðdáun spyrlana á Jóni Ásgeiri skín svo úr augum þeirra og spurningum að maður á allt eins og von á að síðasta spurning viðtalsins verði bónorð.

Ögmundur er eins og alltof margir Íslendingar einfaldlega sjúklega öfundsjúkur.  Getur ekki samglaðst öðrum sem gengur vel.  Hann skýlir sér á bakvið þessa stórkostlegu klisju: "ég vil snúa aftur til jöfnuðar og gera um leið hroka, bruðl og misskiptingu útlæg".  Þetta tal Ögmundar og kollega um jöfnuð er óþolandi klisja sem á að ganga í augun á ákveðnum hópi kjósenda.  Hvað þýðir jöfnuður?  Er hann að tala um að sá sem tekur þá ákvörðun að fara ekki í framhaldsskóla og fer frekar strax á vinnumarkaðinn eigi að hafa sömu laun og sá sem fer í 3-4 ár í framhaldsskóla, og svo í 10 ára háskólanám til að læra vera læknir með sérmenntun ?  Er hann að tala um að duglegu fólki sé ekki umbunað umfram lötum?  Nei, það getur varla verið, ég trúi ekki að hann sé svo blindur þó ég trúi Ögmundi til alls í þessum málum.  Til að læknirinn geti borgað upp námslánin sem var safnað á launalausum árum, þá þarf hann einfaldlega að hafa há laun eftir nám, annars borgar þetta sig ekki og við fáum ekki fólk í þessi störf.  Læknirinn getur þá vonandi verðlaunað sig fyrir dugnaðinn með húsi í Skálabrekkunni (eða á Arnarnesinu svo þið f.sunnan skiljið) með tíð og tíma en þar komast ekki allir að.  Hvar er jöfnuðurinn þá?  Veit Ögmundur ekki hvernig þær fjölmörgu sósíalísku tilraunir gengu sem reyndar voru á síðustu öld?

Jöfnuðurinn sem Ögmundur talar um snýst ekki um að hækka lægstu laun, heldur lækka hæstu laun og helst koma því þannig fyrir að allir hafi það jafn skítt svo hann þurfi ekki að horfa uppá Björgólf styrkja t.d. Ljósið, stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda sem ég og mín frú höfum notið mjög góðs af síðastliðið ár.   Björgólfur hefur reyndar ekki flíkað því, frekar en fjölmörgum öðrum styrkjum, enda eins gott svo hann raski ekki ró þingmanna eins og Ögmundar.

Álver í Helguvík

Alli skrifaði góðan pistil um Helguvíkurálverið í vikunni.  Ég hef litlu við það að bæta fyrir utan samsæriskenningu um einn þáttinn í þessari framkvæmd.  Það er taktíkin sem Norðurál og heimamenn nota, þ.e. að hefja framkvæmdir án þess að vera búnir að skrifa undir samninga nema fyrir helmingi orkunnar.  Þetta er að sjálfsögðu úthugsað.  Orkan er til, en það er stór spurning hvort pólitískur vilji sé fyrir því að virkjað sé í þágu þessarar verksmiðju, ekki síst ef menn sjá frammá að álver á Bakka geti orðið að veruleika. 

Því hef ég þá grunaða um að ætla sér að eyða í þetta töluverðum fjármunum, komast mun lengra í sýnilegum framkvæmdum en Alcoa f.norðan og ná að telja almenningi trú um að "ekkert" sé eftir nema að ganga frá kaupum á orku.  Þannig á að byggja upp þrýsting og skapa sér samningsstöðu, því fáir kjörnir fulltrúar munu hafa bein í nefinu til að standa í vegi fyrir að þeir geti klárað dæmið.  Annars hefur miklum peningum verið sóað og hver vill að álverið keyri bara á hálfum afköstum fyrst menn eru komnir svona langt?

Ótæmandi vasar skattborgarana

Ég er kverúlant eftir allt saman.  Þrátt fyrir að sýna því ekki nokkurn áhuga í síðustu færslu að láta þotuleigu ráðherra fara í taugarnar á mér hefur það snögglega breyst.  Eins og frægt er orðið fór Geir H. Haarde ásamt yfirlýsingaglaða viðskiptaráðherranum til Svíþjóðar í vikunni með einkaþotu.  Nú var kostnaðurinn mun hærri en að ferðast með almenningsflugvél, öfugt við fyrra tilfellið, en nú var valinn 900 þús kr. dýrari ferðamáti skv frétt ruv.is.  Þetta er 7 manna sendinefnd (þar af reyndar tveir gestir) og sagt er að með þessu sparist 1-2 vinnudagar.  Nú eru menn farnir að teygja sig í afsökununum.  Ég tel ekki þessa gesti með enda Þorsteinn Pálsson tæplega lífsnauðsynlegur farangur forsætisráðherra, en 1-2 vinnudagar þessara fimm starfsmanna, dagpeningar, hótel osfrv. kostar ekki 900 þús.  Geir er búinn að margtaka það fram að Ríkisstjórnin hyggist ekki gera handtak vegna erfiðleika á mörkuðum (f.utan að hugsanlega auka gjaldeyrisvaraforða SÍ) þannig að ekki kaupi ég þau rök að hann þurfi bráðnauðsynlega að vera heima v.þess ástands.

Þetta er því bruðl.  Ríkisstjórnin er ekki í nokkru sambandi við hvað er að gerast í þessu landi.  Stíft kostnaðaraðhald er nú hjá stærstu fyrirtækjum landsins, mörg þeirra hafa sagt upp starfsfólki, enn fleiri eru með ráðningarstopp og vafalaust er víða tímabundin launafrysting þó lítið hafi heyrst af slíku ennþá.  Á slíkum tímum ætti Ríkisstjórnin að sjálfsögðu að ganga fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og sýna aðhald, ekki veitir af eftir stórkostlega kostnaðaraukningu í síðustu fjárlögum að menn færu að koma sér niðrá jörðina.

Það sem fyllti þó mælinn hjá mér og varð til þess að ég skrifaði þennan Ögmundarlega pistil er þingsályktunartillaga 14 þingmanna um að koma upp Vefmyndasafni Íslands.  Kostnaðurinn við þetta gæluverkefni er áætlaður 225 milljónir fyrir utan rekstur sem er vafalaust töluverður enda þarf nú að pússa linsurnar ef þetta á að vera í lagi, halda þessu í skefjum frá skemmdarverkum osfrv.   (Tek reyndar fram að þessi kostnaðartali er fengin frá Vísi.is sem er tæplega góð heimild).  Þetta er auðvitað stórskemmtileg hugmynd, ég yrði fyrsti gestur en hvernig stendur á því að þessu er ekki frekar beint að þeim fjölmörgu aðilum sem hafa fjárhagslega hagsmuni af komu ferðamanna til landsins?  Af hverju dettur mönnum alltaf fyrst í hug að seilast í vasa skattgreiðenda?  Svarið er því miður augljóst, virðingin fyrir okkar peningum er einfaldlega ekki meiri.

Aftur í ferðalögin.  Ég var að lesa þetta yfir og ég verð bara að aðgreina mig frá Ögmundi.  Einkaþotum hef ég öfugt við kommúnista þessa lands mjög gaman af og fagna ég ferðalögum nýríkra (og fyrrv. nýríkra) Íslendinga um Reykjavíkurflugvöll í slíkum farartækjum.  Þetta er nefnilega hin besta afþreying.  Ég hef eytt drjúgum tíma við glugga á Landsspítalanum í að fylgjast með þeim taka á loft og lenda, velta vöngum yfir því hver er að fara hvert og hvort tilefni sé til að kaupa hlutabréf áður en tilefni ferðarinnar spyrst út.  Þær eru lygilega snöggar upp, mögnuð tæki.  Geir mætti því ferðast með geimskutlu til að fara norður á Kópasker ef það er fjárhagslega hagkvæmast mín vegna. 

Svona, þarna sannaði ég það, ég er minni kverúlant en Álfheiður, Ömmi og Jón Bjarna.

---
Eftir þessa alltof löngu romsu líður mér betur og þegar Unnur les þetta í fyrramálið mun henni líða enn betur yfir því að ég skuli hafa dembt þessu hingað inn frekar en að bölsótast yfir þessu þegar hún er að reyna að sofna.  Það hefði reyndar verið rómantískt. 

---
Mikið var nú gaman að geta gert þá frændur og austfirðinga, Stefán Boga og Snæþór, snælduvitlausa útaf austfirskum fjöllum í athugasemdunum við síðustu færslu.  Það sá ég ekki fyrir þegar þessi síða var stofnuð en gefur þessu svo sannarlega gildi.

Grautur

Hverjir eru eiginlega stuðningsmenn Árna Mathiesen?  Nú fylgist ég ágætlega með pólitísku snakki en einhvern veginn finnst mér Árni ávallt vera einn á báti þegar að honum er sótt.  Hvort sem um er að ræða útaf kaupum bróður hans og co á eignum ríkisins á Keflavíkurflugvelli, v/ráðningar Þorsteins Davíðs eða nú vegna óvenjulegs svarbréfs til umboðsmanns Alþingis.   Ég hef haft á tilfinningunni að hann eigi ekki mikið bakland eða marga heita stuðningsmenn.  Sá grunur var nú eiginlega staðfestur í prófkjöri íhaldsins í Suðurkjördæmi 2006 þegar fyrrverandi fangi gerði ansi harða atlögu að þáverandi (og núverandi) fjármálaráðherra.  Einstakt alveg.

Er ég einn um þá tilfinningu að ansi margir kjörnir fulltrúar hafi komist þangað með því að sýna lagni í að stuða sem fæsta og með því að skapa sér ekki óvini innan stjórnmálaflokkana?  Árni er kannski ekki gott dæmi í ljósi þess hvað hann hefur verið að sýsla í vetur  en fram að þessu hefur hann nú verið sérstaklega atkvæðamikill ráðherra.   Þessar týpur geta lent í vandræðum þegar viðkomandi lendir í hringiðu erfiðra mála, eins og Árni nú.  En ég á nú annað og betra dæmi en Árna upp í bakhöndinni, Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi íhaldsins.

Hún sagði á borgarstjórnarfundi eins og frægt er orðið 16. október 2007 og beindi orðum sínum að Birni Inga og Framsóknarmönnum í borginni:

Ég vona svo sannarlega að ykkur líði ekki vel, mér líður hins vegar vel

Til að kóróna þessa verstu ræðu sem ég hef heyrt var málrómur hennar þannig að engum duldist að henni leið ekki beint vel.  Var í stórkostlegu ójafnvægi.  Ekki má hósta á nýja borgarstjórann án þess að hann fari uppá háa c-ið að kvarta yfir ósæmilegum ummælum, hvað ætli honum þyki um þessi ummæli núverandi samstarfsmanns síns? 

Annars hlýtur hún bara að hafa beðist afsökunar á þessu, það fór þó framhjá mér. 

-----------------
Til að drepa ekki ópólitísku lesendur þessarar síðu úr leiðindum ætla ég að venda kvæði mínu í kross og fjalla um nýjar íslenskar bjórtegundir!   Fátt er jafn spennandi eins og slík skrif... Smakkaði loksins Skjálfta sem hefur selst upp reglulega í Heiðrúnu þessar fyrstu vikur  en þvílík vonbrigði.  Eins og honum hafði verið lýst fyrir mér taldi ég að þarna væri kominn ljós-dökkur maltbjór, sérsniðinn að mínum þörfum en ekki þótti mér mikið til koma.  Vonandi eru einhverjir aðrir með aðra skoðun á þessu því framtakið er gott, umbúðirnar flottar og einkar svalt nafn.  Það dugir þó ekki til að ég leggi mér þetta aftur til munns.

Í sömu ferð verslaði ég El Grillo bjór Seyðfirðinga sem er þó bruggaður hjá Ölgerðinni eftir því sem ég best veit.  Þar er hinsvegar gæðaöl á ferðinni, bragðmikill en þó ekki beiskur, töluvert sætur án þess að vera í hópi hlandbjóra.  Thumbs up og Siv Friðleifsdóttir fær prik fyrir að láta dæla olíunni úr skipinu og þar með leggja grundvöllinn að þessum gæðabjór.  Engum hefði dottið í hug að nefna bjór eftir umhverfisslysi.

-----------------
Þessi færsla var furðulegur samtíningur en ég mátti ekki bara til þess hugsa að detta í þann pytt að láta viku líða milli blogga.  Þrátt fyrir að hafa varað lesendur við væntanlegri bloggleti minni eru illa uppfærðar síður auðvitað ekki til sóma og ég þarf auðvitað að blogga eins og vindurinn til að ná Flokknum upp nú þegar Þjóðarpúls Gallup er að klára sínar mælingar í mars.

Ótrúverðugir stjórnmálamenn

Ég er á því að ein ástæða fyrir almennt lítilli trú almennings á stjórnmálamönnum sé sú algenga gildra sem stjórnarandstæðingar falla í, að tala algjörlega ábyrgðarlaust eins og Ríkissjóður sé ótæmandi gullkista sem ríkisstjórnin lúri á og opni ekki uppá gátt sökum mannvonsku sinnar.  Síðan þegar viðkomandi stjórnmálamaður sest hinu megin við borðið og verður jafnvel ráðherra vandast málin, enda eru hlutirnir sjaldnast svona einfaldir.

Ástæðan fyrir þessum inngangi er að sjálfsögðu Kristján Möller.  Ég hef ekki verið í aðdáendahópi hans enda hefur mér þótt einsýnt að hann væri þessi gerð af stjórnmálamanni sem ég lýsti hér að ofan.  Fyrir kosningar var þverpólitísk samstaða í Norðausturkjördæmi um að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng.  Heimamenn höfðu tekið mikið og gott frumkvæði með stofnun Greiðrar leiðar ehf. og þannig náð að koma  undirbúningi mun lengra en ella hefði verið.  Framsóknarflokkurinn og Valgerður töluðu um að setja þetta í framkvæmd sem einkaframkvæmd enda voru þau ekki inná vegaáætlun.  Veggjöld yrðu innheimt, þó ég sé eindreginn stuðningsmaður gangnanna hefði verið erfitt að réttlæta að kippa þessum göngum framfyrir vegabætur á ónýtum vegum Vestfjarða og víðar, þar sem menn eru að berjast fyrir göngum í stað stórhættulegra vega, já eða einfaldlega malbiki í stað ónýtra malarvega.  Eins og mér leiðist Víkurskarðið á veturna gerist það sem betur sjaldan að það lokist lengi í einu.

Kristján Möller taldi sig þurfa að yfirbjóða þetta og ekki var það amalegt sjónarmið sem réði för.  Nefnilega jafnréttis- og jafnræðissjónarmið.  Þetta sagði Möller fyrir minna en ári, 20.apríl 2007:

Ég er með þessu að segja að veggjald verði ekki innheimt af notendum Vaðlaheiðarganga, ekki frekari en fyrir notkun fyrirhugaðrar Sundabrautar og Suðurlandsvegar þegar hann verður tvöfaldaður. Jafnréttis- og jafnræðissjónarmið ráða því þessari hugmynd minni. (Heimild er hinn góði vefur Samfylkingarinnar, sem geymir marga áþekka gullmola, feitletrunin var nú samt mín, http://kjordaemi.xs.is/Kjordaemi/Nordausturkjordaemi/Greinar/Lesagrein/1650)

Nú á að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar að hluta og Vaðlaheiðargöng.  Búið er að greina frá því að veggjöld verði innheimt í Vaðlaheiðargöngum en lítið heyrst um veggjöld á Suðurlandsvegi.  Hvar er jafnréttið og jafnræðið núna?  Af hverju er ekki rukkað á Suðurlandsvegi?

Kristján þarf ekki að svara til saka hjá mér, en hann skuldar því fólki í Norðausturkjördæmi sem kaus hann í vor útá þennan fagurgala skýringar á því hvað varð um þessi jafnræðissjónarmið.

Ég gæti skrifað greinaflokk um þessa áráttu hans, talið upp gífuryrðin í fyrravor um klúður Sturlu Böðvarssonar í Grímseyjarferjumálinu sem voru skyndilega orðin einhverjum skipaverkfræðingi að kenna eftir kosningar (enda núna með Sturlu í liði).  Hann baðst reyndar afsökunar ummælunum síðar, það var samt ekki fyrr en einsýnt væri að hann myndi tapa dómsmáli útá þessi ummæli sín um Einar Hermannsson skipaverkfræðing. Stórmannleg afsökunarbeiðni.  Veðrið í dag er bara of gott til að eyða frekari tíma í Kristján Möller.


Árangursmæling síðunnar

Nú er í tísku að árangurstengja alla skapaða hluti sem er hið besta mál og mun þessi bloggsíða ekki vera  eftirbátur þeirrar bylgju.  Mælikvarðinn á árangur skrifanna verður þó ekki mældur í heimsóknum eða flettingum eins og tíðkast með vefsíður heldur verður fylgi Framsóknarflokksins í Þjóðarpúlsi Gallup lagt til grundvallar.  Það var við síðustu mælingu 7,6% og þannig þarf ég bara að auka fylgi Flokksins um 15,7% til að ná takmarkinu, fylgi Framsóknar í kosningunum 1995.  Ég gef mér 7 ár í að ná þessu takmarki, ef það tekst ekki mun ég að sjálfsögðu axla ábyrgð... eða taka gamla góða Villa á þetta og segjast ekki muna neitt.


Gaspur án innistæðu

Oft upplifði ég það þegar minn flokkur var í Ríkisstjórn að mér fannst ekki nóg að gert í ákveðnum málaflokkum, ekki var gengið nógu langt í e-um málum eða einfaldlega ekki hreyft við málum sem mér fannst vera tilefni til að hrófla við.  Það var hinsvegar ekki verið að vekja endalausar væntingar án innistæðu.  Þingmenn og ekki síst ráðherrar Samfylkingarinnar hafa verið einstaklega yfirlýsingaglaðir frá því þeir komust í Ríkisstjórn og vakið væntingar sem ég get ekki séð að nein innistæða sé fyrir. 

 Nú versla ég töluvert á netinu og er því mjög meðvitaður um þau vörugjöld og virðisaukaskatt sem við greiðum af innflutningi.  Ég fagnaði því þegar Björgvin Sigurðsson boðaði nýja sókn í neytendamálum í haust, afnám vörugjalda, stimpilgjalda og uppgreiðslugjalda á fyrri hluta kjörtímabilsins.  Bendi því til stuðnings á frétt frá því í október í fyrra.  Hvað hefur gerst síðan í október?  Nú eru næstum 5 mánuðir liðnir en ekki heyrst múkk um þetta nema óljós loforð um stimpilgjöld í tengslum nýgerða kjarasamninga.  Viðskiptaráðherra hefur hinsvegar ekki legið á liði sínu um ágæti evru á þessum tíma og hversu vel það gæfist okkur að taka hana upp.  Ég get alveg tekið undir þau orð en mikið finnst mér samt leiðinlegt að hlusta á yfirlýsingar eins og þær sem gefa ákveðnar væntingar en þegar kafað er ofan í málin er augljóst að Ríkisstjórnin er ekki að fara að gera neitt í þá átt.

Ráðherrar, vinsamlegast haldið kjafti nema þið séuð raunverulega að fara að breyta einhverju.

Ps. Nú hef ég brotið fyrsta loforð þessarar síðu um að vera latur bloggari og er því litlu skárri en Björgvin G, sem betur fer þigg ég þó ekki laun frá skattgreiðendum meðan ég brýt mín loforð.


Hlaut ekki að koma að því?

Auðvitað hlaut að koma að því að tölvunjörður og stjórnmálafíkill eins og ég myndi stofna bloggsíðu.  Af hverju núna er eðlileg spurning?  Svarið er einfalt, misvitrir andstæðingar Framsóknarflokksins hafa haldið því fram að hann lifi ekki aldar afmæli sitt eftir 8 ár.  Ég er einungis 28 ára (þó ég líti út fyrir að vera mun eldri) en hyggst lifa mun lengur. Mun lengur en 8 ár og þar með er spurningunni um aldarafmæli Framsóknarflokksins auðsvarað.  Helvíti líður mér vel að vera búinn að eyða þessari óvissu óvina Flokksins með einni bloggfærslu.  Nú geta þeir einbeitt sér að öðru.

Önnur ástæða er fyrir stofnun þessarar bloggsíðu.  Bestu þingmenn þessa lands vantar sárlega talsmenn á opinberum vettvangi sem jafnframt eru tilbúnir að taka kúlu fyrir þá.  Hverjir eru það gætu einhverjir spurt sem þekkja mig ekki?  Það eru að sjálfsögðu Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson.  Valgerður var tilbúinn að láta á fjölskyldu sinni, sjálfri sér og öðrum stuðningsmönnum dynja endalausar hótanir og árásir þegar hún framfylgdi hugsjónum sínum og vilja Alþingis með byggingu Kárahnjúkavirkjunar en lét ekki bugast og hefur verið einstaklega beitt í stjórnarandstöðu, þrátt fyrir spár andstæðinga hennar.  Birkir Jón  er einhver heiðarlegasti maður sem ég hef kynnst í þessu pólitíska vafstri mínu og lætur ekki ekki herferð Vísis.is og Reynis Traustasonar á sig fá, enda með góða samvisku, öfugt við þessa snepla.

Jamm, hér með var tónninn var gefinn, ég hyggst ekki draga neitt undan, hrósa mínu fólki og lasta það auðvitað þegar tilefni er til.  Gæti t.d. eytt einhverjum orðum í þá sem segja að evrópusinnar innan Framsóknarflokksins séu lítilll minnihlutahópur en nenni því ekki núna, ég verð að hafa eitthvað til að skrifa um síðar. 

Best ég taki það fram strax að ég verð örugglega latur penni, kalla það gott ef ég sting niður penna oftar en einu sinni í viku, þess vegna mæli ég með því að fólk noti tól eins og Google Reader sem lætur ykkur vita þegar nýr pistill hefur verið birtur.

Góðar stundir.
KH

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband