29.3.2008 | 01:04
Gamlir vinir heimsóttir
Ég játa syndir mínar fúslega um að vera fórnarlamb hæp-maskínunnar, stinga gamla vini úr tónlistinni í bakið, láta þeirra diska sitja á hakanum vegna spennunnar að láta koma sér á óvart með einhverju nýju, eitthvað sem maður getur ekki staðsett fyrir fyrstu hlustun. En mikið er nú gaman að endurnýja kynnin.
Bloc Party slógu öll hæp met á sínum tíma þegar þeir gáfu út Silent Alarm. Eftir að hafa spilað hana gjörsamlega í tætlur var ég kominn með nóg í bili, svaf alveg rólegur þó þeir gæfu út A Weekend in the City fyrir rúmu ári og gleymdi þeim alveg. Lét loksins verða af því að kaupa hann í dásamlegri Fopp-ferð minni í desember og ekki sé ég eftir því. Hafa þróast nokkuð frá frumrauninni, krafturinn þó ennþá til staðar en diskurinn silki mjúkur á köflum, jafnvel útí danstónlist en þetta gengur allt saman upp.
Interpol eru öðlingar frá New York sem ég hlustaði mikið á 2004-2006, bootleg-nördinn kom upp í mér sem aldrei fyrr og ég sankaði að mér töluvert af tónleikum með þeim og framlengdi þannig líf tveggja stúdíó platna þeirra nokkuð. Þrátt fyrir það sýndi ég vítavert kæruleysi í að stressast ekki upp yfir útgáfu þeirra á Our love to admire í fyrrasumar. Blessaðir kallarnir, meistararnir, ég var bara hræddur um að þeir væru búnir að toppa og nú væri þetta niðrávið héðan af en þegar ég heyrði fyrsta lagið, Pioneer to the falls, vissi ég að veislan myndi standa lengur. Hann hefur enst einkar vel, eftir þétta spilun síðasta hálfa árið er hann enn ferskur sem nýupptekinn Hveravallatómatur. Eða eru tómatar niðurteknir?
Þriðji diskurinn sem mig langar að nefna er töluvert frábrugðinn þessum að ofan og kom út löngu áður en breska indí hæp-maskínan var fundinn upp, Revenge með Kiss en hann kom út 1992. Þá var ég að verða 13 ára og við pjakkarnir búnir að eyða síðustu 7 árum í að hlusta á þessa hljómsveit sem er jafn nauðsynleg ungum drengjum og mjólk hvítvoðungum. Kiss lögðu grundvöllinn að tónlistarlegu uppeldi okkar og þeim verður seint fullþakkað hversu vel þeir sinntu því verkefni. En 1992 var ekkert sérstaklega töff að hlusta á Kiss lengur, margir komnir yfir í harðari metal, Pantera, Metallica, Sepultura osfrv. Enn aðrir farnir að hlusta á eitthvert rappdót eða aðra nýmóðins töffaratónlist. Þannig að þegar ég sá Revenge í Ingvarsbúð læddist ég skömmustulegur með veggjum. Ekki var um annað að ræða en að kaupa diskinn þó ég gæti ekki farið hátt með það. Auðvitað var ég gjörsamlega yfir mig hrifinn af þessu, en ekki leyfði maður sér að tala hátt um það samt. Nú ætti að vera óhætt að segja frá þessu, maður verður vonandi ekki lagður í einelti úr þessu!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2008 | 00:46
Grautur
Er ég einn um þá tilfinningu að ansi margir kjörnir fulltrúar hafi komist þangað með því að sýna lagni í að stuða sem fæsta og með því að skapa sér ekki óvini innan stjórnmálaflokkana? Árni er kannski ekki gott dæmi í ljósi þess hvað hann hefur verið að sýsla í vetur en fram að þessu hefur hann nú verið sérstaklega atkvæðamikill ráðherra. Þessar týpur geta lent í vandræðum þegar viðkomandi lendir í hringiðu erfiðra mála, eins og Árni nú. En ég á nú annað og betra dæmi en Árna upp í bakhöndinni, Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi íhaldsins.
Hún sagði á borgarstjórnarfundi eins og frægt er orðið 16. október 2007 og beindi orðum sínum að Birni Inga og Framsóknarmönnum í borginni:
Ég vona svo sannarlega að ykkur líði ekki vel, mér líður hins vegar vel
Til að kóróna þessa verstu ræðu sem ég hef heyrt var málrómur hennar þannig að engum duldist að henni leið ekki beint vel. Var í stórkostlegu ójafnvægi. Ekki má hósta á nýja borgarstjórann án þess að hann fari uppá háa c-ið að kvarta yfir ósæmilegum ummælum, hvað ætli honum þyki um þessi ummæli núverandi samstarfsmanns síns?
Annars hlýtur hún bara að hafa beðist afsökunar á þessu, það fór þó framhjá mér.
-----------------
Til að drepa ekki ópólitísku lesendur þessarar síðu úr leiðindum ætla ég að venda kvæði mínu í kross og fjalla um nýjar íslenskar bjórtegundir! Fátt er jafn spennandi eins og slík skrif... Smakkaði loksins Skjálfta sem hefur selst upp reglulega í Heiðrúnu þessar fyrstu vikur en þvílík vonbrigði. Eins og honum hafði verið lýst fyrir mér taldi ég að þarna væri kominn ljós-dökkur maltbjór, sérsniðinn að mínum þörfum en ekki þótti mér mikið til koma. Vonandi eru einhverjir aðrir með aðra skoðun á þessu því framtakið er gott, umbúðirnar flottar og einkar svalt nafn. Það dugir þó ekki til að ég leggi mér þetta aftur til munns.
Í sömu ferð verslaði ég El Grillo bjór Seyðfirðinga sem er þó bruggaður hjá Ölgerðinni eftir því sem ég best veit. Þar er hinsvegar gæðaöl á ferðinni, bragðmikill en þó ekki beiskur, töluvert sætur án þess að vera í hópi hlandbjóra. Thumbs up og Siv Friðleifsdóttir fær prik fyrir að láta dæla olíunni úr skipinu og þar með leggja grundvöllinn að þessum gæðabjór. Engum hefði dottið í hug að nefna bjór eftir umhverfisslysi.
-----------------
Þessi færsla var furðulegur samtíningur en ég mátti ekki bara til þess hugsa að detta í þann pytt að láta viku líða milli blogga. Þrátt fyrir að hafa varað lesendur við væntanlegri bloggleti minni eru illa uppfærðar síður auðvitað ekki til sóma og ég þarf auðvitað að blogga eins og vindurinn til að ná Flokknum upp nú þegar Þjóðarpúls Gallup er að klára sínar mælingar í mars.
21.3.2008 | 13:06
Er eðlilegt að barma sér yfir þessu á föstudaginn langa?
Sex dögum síðar mun ég fara ásamt heiðursfólkinu Sverri Sigmundar og Rannveigu spúsu hans á Radiohead í London en þeir settu mig gjörsamlega á hliðina fyrir rúmum 10 árum með útgáfu OK Computer. Síðan þá hefur samband okkar verið stormasamt en ég fylgi þeim enn að málum þrátt fyrir að þeir hafi farið yfir öll mörk sérvitrunga.
Þetta er dágott plan og ef ég væri nægjusamur og skynsamur ætti ég ekki að þurfa að fara útúr húsi á árinu en samt vera sáttur. Ég er hinsvegar ekki nægjusamur og þegar kemur að þessari hljómsveit á ég erfitt með að vera skynsamur. Nú voru mér nefnilega að berast fréttir sem verða til þess að ég veit að ég mun verða eirðarlaus og ómögulegur hluta af árinu. Pearl Jam voru að tilkynna 10 tónleika á austurströnd Bandaríkjanna í júní! Þannig að dagana sem forsala aðdáðendaklúbbsins stendur yfir og svo aftur þegar tónleikarnir verða veit ég að ég mun gæla við þá veiku von að ég muni sjá eitthvert af þessum giggum. Það er þó fyllilega óraunhæft og tímasetning tónleikana gæti ekki verið verri hvað mig snertir en samt mun undirmeðvitundin reyna að koma mér þangað yfir. Til að bæta gráu ofan í svart munu Kings of Leon hita upp fyrri part ferðarinnar, þvílík örlög að missa af þessu!
Ef einhver eigandi einkaþotu les þetta og verður djúpt snortinn yfir þessu lúxusvandamáli, þá er númerið mitt í símaskránni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.3.2008 | 22:50
Réttur maður á réttum stað?
Á Íslandi er formaður bankaráðs Seðlabankans Halldór Blöndal.
Þarf maður að segja eitthvað meira?
16.3.2008 | 10:43
Ótrúverðugir stjórnmálamenn
Ég er á því að ein ástæða fyrir almennt lítilli trú almennings á stjórnmálamönnum sé sú algenga gildra sem stjórnarandstæðingar falla í, að tala algjörlega ábyrgðarlaust eins og Ríkissjóður sé ótæmandi gullkista sem ríkisstjórnin lúri á og opni ekki uppá gátt sökum mannvonsku sinnar. Síðan þegar viðkomandi stjórnmálamaður sest hinu megin við borðið og verður jafnvel ráðherra vandast málin, enda eru hlutirnir sjaldnast svona einfaldir.
Ástæðan fyrir þessum inngangi er að sjálfsögðu Kristján Möller. Ég hef ekki verið í aðdáendahópi hans enda hefur mér þótt einsýnt að hann væri þessi gerð af stjórnmálamanni sem ég lýsti hér að ofan. Fyrir kosningar var þverpólitísk samstaða í Norðausturkjördæmi um að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Heimamenn höfðu tekið mikið og gott frumkvæði með stofnun Greiðrar leiðar ehf. og þannig náð að koma undirbúningi mun lengra en ella hefði verið. Framsóknarflokkurinn og Valgerður töluðu um að setja þetta í framkvæmd sem einkaframkvæmd enda voru þau ekki inná vegaáætlun. Veggjöld yrðu innheimt, þó ég sé eindreginn stuðningsmaður gangnanna hefði verið erfitt að réttlæta að kippa þessum göngum framfyrir vegabætur á ónýtum vegum Vestfjarða og víðar, þar sem menn eru að berjast fyrir göngum í stað stórhættulegra vega, já eða einfaldlega malbiki í stað ónýtra malarvega. Eins og mér leiðist Víkurskarðið á veturna gerist það sem betur sjaldan að það lokist lengi í einu.
Kristján Möller taldi sig þurfa að yfirbjóða þetta og ekki var það amalegt sjónarmið sem réði för. Nefnilega jafnréttis- og jafnræðissjónarmið. Þetta sagði Möller fyrir minna en ári, 20.apríl 2007:
Ég er með þessu að segja að veggjald verði ekki innheimt af notendum Vaðlaheiðarganga, ekki frekari en fyrir notkun fyrirhugaðrar Sundabrautar og Suðurlandsvegar þegar hann verður tvöfaldaður. Jafnréttis- og jafnræðissjónarmið ráða því þessari hugmynd minni. (Heimild er hinn góði vefur Samfylkingarinnar, sem geymir marga áþekka gullmola, feitletrunin var nú samt mín, http://kjordaemi.xs.is/Kjordaemi/Nordausturkjordaemi/Greinar/Lesagrein/1650)
Nú á að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar að hluta og Vaðlaheiðargöng. Búið er að greina frá því að veggjöld verði innheimt í Vaðlaheiðargöngum en lítið heyrst um veggjöld á Suðurlandsvegi. Hvar er jafnréttið og jafnræðið núna? Af hverju er ekki rukkað á Suðurlandsvegi?
Kristján þarf ekki að svara til saka hjá mér, en hann skuldar því fólki í Norðausturkjördæmi sem kaus hann í vor útá þennan fagurgala skýringar á því hvað varð um þessi jafnræðissjónarmið.
Ég gæti skrifað greinaflokk um þessa áráttu hans, talið upp gífuryrðin í fyrravor um klúður Sturlu Böðvarssonar í Grímseyjarferjumálinu sem voru skyndilega orðin einhverjum skipaverkfræðingi að kenna eftir kosningar (enda núna með Sturlu í liði). Hann baðst reyndar afsökunar ummælunum síðar, það var samt ekki fyrr en einsýnt væri að hann myndi tapa dómsmáli útá þessi ummæli sín um Einar Hermannsson skipaverkfræðing. Stórmannleg afsökunarbeiðni. Veðrið í dag er bara of gott til að eyða frekari tíma í Kristján Möller.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2008 | 23:09
Ég var einu sinni nörd og er enn...
Einhvern veginn náði ég svo að komast lifandi í gegnum þættina "Ertu skarpari en skólakrakki?" þó stjórnandinn þar hafi gert harða atlögu að geðheilsu landsmanna með hverjum einasta brandara.
Nú er ég þó líklega kominn á botninn. Í gær stóð ég mig að því að hlaða niður af vef Ríkisútvarpsins upptöku af þættinum "Orð skulu standa" af Rás 1 til að setja á iPoddinn. Ekki misskilja mig, þetta er auðvitað mjög vandað útvarpsefni og til mikillar fyrirmyndar. Ég bara hélt þegar ég heyrði þetta fyrst að ég ætti amk 50 ár í að detta niðrí svona þætti en fyrir þá sem ekki vita (líklega allir sem þetta lesa og eru undir fimmtugu) er þetta umfjöllunarefni þáttana:
"Þátttakendur í hljóðstofu spreyta sig á orðum, orðnotkun, orðasamböndum og krossgátum. Óhætt er að fullyrða að mörg orðin virka mjög framandi þó rammíslensk séu. Í þáttunum varpar umsjónarmaður fram fyrriparti sem þátttakendur svara í lok þáttar." (af ruv.is)
Jebb, væntanlega ekki þáttur sem fyllir annan hvern iPod landsins. Það eru ekki einu sinni gefin stig og "dómarinn" gefur þátttakendum hint þegar illa gengur, en samt er ég orðinn forfallinn aðdáandi og þykir þetta vera mikil snilld! Svara þó engu réttu sjálfur nema í besta falli mánaðarlega.
Úrslitin í Gettu Betur eru svo á föstudagskvöldið, er hinsvegar að fara á árshátíð og líður eins og ég sé að missa af úrslitaleiknum í Meistaradeildinni! Ætli Unnur taki nokkuð eftir því þó ég sleppi forréttinum?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.3.2008 | 23:34
Árangursmæling síðunnar
Nú er í tísku að árangurstengja alla skapaða hluti sem er hið besta mál og mun þessi bloggsíða ekki vera eftirbátur þeirrar bylgju. Mælikvarðinn á árangur skrifanna verður þó ekki mældur í heimsóknum eða flettingum eins og tíðkast með vefsíður heldur verður fylgi Framsóknarflokksins í Þjóðarpúlsi Gallup lagt til grundvallar. Það var við síðustu mælingu 7,6% og þannig þarf ég bara að auka fylgi Flokksins um 15,7% til að ná takmarkinu, fylgi Framsóknar í kosningunum 1995. Ég gef mér 7 ár í að ná þessu takmarki, ef það tekst ekki mun ég að sjálfsögðu axla ábyrgð... eða taka gamla góða Villa á þetta og segjast ekki muna neitt.
9.3.2008 | 23:31
Gaspur án innistæðu
Oft upplifði ég það þegar minn flokkur var í Ríkisstjórn að mér fannst ekki nóg að gert í ákveðnum málaflokkum, ekki var gengið nógu langt í e-um málum eða einfaldlega ekki hreyft við málum sem mér fannst vera tilefni til að hrófla við. Það var hinsvegar ekki verið að vekja endalausar væntingar án innistæðu. Þingmenn og ekki síst ráðherrar Samfylkingarinnar hafa verið einstaklega yfirlýsingaglaðir frá því þeir komust í Ríkisstjórn og vakið væntingar sem ég get ekki séð að nein innistæða sé fyrir.
Nú versla ég töluvert á netinu og er því mjög meðvitaður um þau vörugjöld og virðisaukaskatt sem við greiðum af innflutningi. Ég fagnaði því þegar Björgvin Sigurðsson boðaði nýja sókn í neytendamálum í haust, afnám vörugjalda, stimpilgjalda og uppgreiðslugjalda á fyrri hluta kjörtímabilsins. Bendi því til stuðnings á frétt frá því í október í fyrra. Hvað hefur gerst síðan í október? Nú eru næstum 5 mánuðir liðnir en ekki heyrst múkk um þetta nema óljós loforð um stimpilgjöld í tengslum nýgerða kjarasamninga. Viðskiptaráðherra hefur hinsvegar ekki legið á liði sínu um ágæti evru á þessum tíma og hversu vel það gæfist okkur að taka hana upp. Ég get alveg tekið undir þau orð en mikið finnst mér samt leiðinlegt að hlusta á yfirlýsingar eins og þær sem gefa ákveðnar væntingar en þegar kafað er ofan í málin er augljóst að Ríkisstjórnin er ekki að fara að gera neitt í þá átt.
Ráðherrar, vinsamlegast haldið kjafti nema þið séuð raunverulega að fara að breyta einhverju.
Ps. Nú hef ég brotið fyrsta loforð þessarar síðu um að vera latur bloggari og er því litlu skárri en Björgvin G, sem betur fer þigg ég þó ekki laun frá skattgreiðendum meðan ég brýt mín loforð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.3.2008 | 22:53
Hlaut ekki að koma að því?
Önnur ástæða er fyrir stofnun þessarar bloggsíðu. Bestu þingmenn þessa lands vantar sárlega talsmenn á opinberum vettvangi sem jafnframt eru tilbúnir að taka kúlu fyrir þá. Hverjir eru það gætu einhverjir spurt sem þekkja mig ekki? Það eru að sjálfsögðu Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson. Valgerður var tilbúinn að láta á fjölskyldu sinni, sjálfri sér og öðrum stuðningsmönnum dynja endalausar hótanir og árásir þegar hún framfylgdi hugsjónum sínum og vilja Alþingis með byggingu Kárahnjúkavirkjunar en lét ekki bugast og hefur verið einstaklega beitt í stjórnarandstöðu, þrátt fyrir spár andstæðinga hennar. Birkir Jón er einhver heiðarlegasti maður sem ég hef kynnst í þessu pólitíska vafstri mínu og lætur ekki ekki herferð Vísis.is og Reynis Traustasonar á sig fá, enda með góða samvisku, öfugt við þessa snepla.
Jamm, hér með var tónninn var gefinn, ég hyggst ekki draga neitt undan, hrósa mínu fólki og lasta það auðvitað þegar tilefni er til. Gæti t.d. eytt einhverjum orðum í þá sem segja að evrópusinnar innan Framsóknarflokksins séu lítilll minnihlutahópur en nenni því ekki núna, ég verð að hafa eitthvað til að skrifa um síðar.
Best ég taki það fram strax að ég verð örugglega latur penni, kalla það gott ef ég sting niður penna oftar en einu sinni í viku, þess vegna mæli ég með því að fólk noti tól eins og Google Reader sem lætur ykkur vita þegar nýr pistill hefur verið birtur.
Góðar stundir.
KH
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)