Íhaldspungurinn ég

Ég hef verið að gera mér æ betur grein fyrir því hin síðari ár hvað ég er mikill íhaldspungur.  Tek fram strax að þessi íhaldssemi á ekkert skylt við hin steingelda stjórnmálaflokk úr Valhöll sem kennir sig (ekki) við íhald.  Þetta lýsir sér á ýmsa vegu, allt frá því að hindra Unni í að kaupa flíkur í óþarflega rauðbleikum lit á strákinn okkar, stoppa frekar í Brú en Staðarskála nema líf og limir liggi við, í að vera af-því-bara ekkert ginkeyptur fyrir ágætum rökum þeirra sem berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.   Mörg fyrirtæki hafa svo notið góðs af þessu og hafa þau verið mis vel að viðskiptunum komin.

Nú er hinsvegar eitt íhaldsvígið fallið, ég er að skipta um gsm-símfyrirtæki eftir 10 ára sambúð!  Féll fyrir gylliboði Nova sem voru svo elskuleg að bjóða mér (og öðrum á sv-horninu) 2000 kr. inneign næstu 12 mánuði ef ég kæmi í viðskipti.  Þ.e. ef ég keypti mér 3G farsíma sem kostar sömu upphæð, síminn er því ókeypis eða þannig kemur það amk út í praxís.  Áður en ég lét verða af þessu reiknaði ég í dágóða stund sem var ekki jafn auðvelt og ég reiknaði með, verðskrár símfyrirtækjanna eru greinilega hannaðar með það í huga að vera ósambærilegar.  Ég tel þó að ég nái að spara mér einhvern aur með þessu uppátæki en innst inni veit ég alveg hver hin raunverulega ástæða fyrir sinnaskiptunum er.  Hversu dásamlegt er nú að geta loksins verið tengdur með háhraða nettengingu í símann?  Þetta verður auðvitað allt annað líf og þó þetta sé ekki gengið í gegn vegna símnúmeraflutningsins sé ég strax hversu mikið hark það var að lifa án þessa hingað til.  Einhverjir afturhaldsseggir og enn meiri íhaldsfauskar en ég hafa reynt að halda fram við mig að maður hafi ekkert með þetta að gera.  Það er auðvitað alrangt og mun ég sýna fram á það með að nota hvert einasta megabæti í áskriftinni.  Ég var orðinn heitur fyrir þessu en þegar sölustúlkan hjá Nova sýndi mér höktandi sjónvarpsútsendingu í símanum var mér öllum lokið og sjá mátti tár á hvarmi undirritaðs, mikið er nú tæknin frábær!

Ég bið Seðlabankann afsökunar á því að hafa með þessu stuðlað að auknum viðskiptahalla þar sem Nova hafa tæplega líka fengið símann gefins.  Mér til málsbóta bendi ég á lægri símreikningur hjá mér kemur til lækkunar verðbólgu á næstu mánuðum.  Síðan hef ég ekki keypt neitt  á eBay í rúma tvo mánuði, þetta hlýtur að telja Davíð.


Ástkær miðstjórnin og frumlega Ríkisstjórnin

Gallinn við er að vera vikubloggari er að öll mál eru úreld og menn almennt búnir að gleyma þeim þegar ég dusta rykið af lyklaborðinu.  Ég ætla samt að brydda uppá einu "gömlu" máli sem flestir hafa nú þegar bloggað um en það er ræða Guðna frá miðstjórnarfundi Flokksins frá því á laugardag.  Hún á reyndar eftir að eldast eins og gott viský (ég drekk reyndar ekki viský, slæm samlíking).

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf verið neitt sérstaklega hrifinn af ummælum Guðna um Evrópumál í gegnum tíðina en mér fannst hann halda frábæra tölu á laugardag.  Hann hvatti andstæðinga aðildar og stuðningsmenn til að vera ófeimna við að ræða ESB-aðild ítarlega án hræðslu um klofning flokka og virða það að sjónarmið eru skipt innan flestra flokka.  Eitt stærsta vandamálið í Evrópuumræðunni hérlendis er einmitt það að í stærsta flokknum er þagnarbindindi um málið, vegna þess að fyrir forystumenn flokksins skiptir meira máli að halda flokknum saman en hagsmunir almennings (já Geir, ég er að tala um þig og forvera þinn).

Eins var ég sérstaklega hrifinn af því að hann vill vinna ákveðna grunnvinnu strax, s.s. lög vegna þjóðaratkvæðagreiðslu, þá eru slík veigamikil formsatriði ekki í veginum ef þjóðin kýs að ganga til viðræðna.

Helst saknaði ég úr ræðunni að hann þakkaði mér ekki fyrir að auka fylgi flokksins um ca 2,5% á tveimur mánuðum, en það er allt í góðu Guðni, ég er ekki að þessu fyrir egóið.  Framsóknarflokkurinn fór sem sagt upp um tæp 2% í Þjóðarpúlsinum í apríl og hér má sjá hvað í ósköpunum það tengist þessu bloggi.

 ---
Ríkisstjórnin átti stórleik í dag.  Á samráðsfundi hennar með aðilum vinnumarkaðarins var kynnt þessi margslungna, epíska og frumlega hugmynd sem lesa má um á mbl:

Fundurinn hafði verið boðaður með talsverðum fyrirvara og hefur annar fundur verið ákveðinn í sumar. Fyrir þann fund munu sérfræðingar fara yfir mál og greina vandann og koma með tillögur um til hvaða aðgerða megi grípa.  Slóð


Hver mínúta hefur greinilega verið nýtt í botn síðustu vikur og mánuði fyrst þetta er niðurstaða dagsins.  Ég sé í anda einkafyrirtæki þar sem verulegir erfiðleikar steðja að.  Framkvæmdastjórnin hittist nokkrum mánuðum eftir að í óefni er komið og viðskiptavinir farnir að missa trú á vörunni.   Ákveður þá eingöngu að það væri nú gaman að hittast aftur síðar, t.d. í sumar yfir kaffibolla þegar farið er að hlýna, fá nokkra velvalda menn til að henda upp tillögum fyrir þann fund og sjá svo til með framhaldið.  Það er líklega ekki að ástæðulausu af hverju Geir og Ingibjörg  voru ekki keypt í stjórnunarstöður í bankana þegar þeir voru sem duglegastir í hausaveiðunum...

En mikið var nú samt ánægjulegt að heyra þetta frá Geir:

Það er óhætt að segja að að það var mjög góður samhljómur á fundinum og það hefur enginn áhuga á því að verðbólga festist hér í sessi," sagði Geir. „Það var einhugur meðal manna að ná þeim stöðugleika á ný sem er nauðsynlegur. Slóð


Hann hefur líklega átt von á einhverju allt öðru.  Ögmundur að hvetja til þess að reynt yrði að ná amk 25% ársverðbólgu eða Vilhjálmur að tala fyrir almennri upplausn.  Afsakaðu kaldhæðnina Geir, þú veist samt vel að þú bauðst uppá þetta.


1. maí

Af einhverjum ástæðum fer lítið fyrir tölvunarfræðingum á 1.maí.  Á því gæti orðið breyting því ég ætla að birta hér nokkur slagorð sem henta vel á skilti sem kollegum mínum er velkomið að nota endurgjaldslaust.  Ég ætla ekki að nota þau sjálfur þar sem ég held uppá uppstigningardag í dag en ekki 1.maí.

Nauðsynlegt er hafa slagorðin í hástöfum fyrir aukin áhrif:

-STÆRRI SKJÁI, HÆRRI UPPLAUSN!
-ÓDÝRARA PEPPERONI!
-FLEIRI SJÁLFBJARGA NOTENDUR!
-DOWNLOAD SERVER Á HVERT HEIMILI!
-FÆRRI BÖGGA!
-"FÆÐINGARORLOF" VEGNA TÖLVUKAUPA!

Ég gæti haldið lengi áfram, en tölvunarfræðingur framtíðarinnar er svangur og hefur enga þolinmæði frekar en pabbinn þegar kemur að mat.

Hressilegur afþreyingarpistill... eða ekki

Það sem líklega mun verða minn banabiti einn daginn er samviskubit.  Þrátt fyrir að hafa gefið út yfirlýsingar um að verða verulega latur bloggari hópast hér einhver hópur fólks daglega í leit að nýju bloggi.  Mér finnst auðvitað grábölvað að bregðast því fólki, ekki síst á þeim tíma sem námsmenn þurfa auðvitað að finna sér allt annað að gera en að læra.  Kannast vel við þá stöðu.

Ég verð að valda þeim vonbrigðum sem reiknuðu með einhverri jákvæðni úr þessari átt í dag því mér er ekki hlátur í hug heldur ræður kverúlanta-tuðgírinn för.

Oft hefur maður heyrt þann frasa að kostur við mikinn meirihluta í sveitarstjórn/Alþingi sé sá að þá sé kraftur fyrir hendi til að framkvæma mikið, koma í gagnið umdeildum en nauðsynlegum breytingum osfrv.  Núverandi ríkisstjórn hefur þó náð að afsanna þessa kenningu á skömmum tíma en núna virðist stór meirihluti á Alþingi þýða fullkomin kyrrstaða og algjört getuleysi.  Trúðurinn í Iðnaðarráðuneytinu stærir sig af því hvað Geir sé nú töff að þrauka og gera ekkert og Geir segir að við búum bara við innfluttan vanda, þess vegna sé engin ástæða til aðgerða.  Krónan hafi verið of hátt skráð og það hafi allir talað um lengi, gengisfall var því óumflýjanlegt.

Jamm, kannski það, en það var reiknað með gengisfalli þegar stýrivextir yrðu lækkaðir  en hún féll nú samt, þrátt fyrir háa stýrivexti.  Þessi hæsta verðbólga í 18 ár er ekkert grín, lán hjá skuldsettum ungum íbúðareigendum eins og mér hækka meira en ég kæri mig um að nefna um þessi mánaðarmót.  Mér leiðist að heyra Geir tala um að gengisfallið sé að ganga til baka.  Vissulega hefur það skánað, en það er bara að litlu leiti, frá áramótum hefur gengisvísitalan hækkað um 24,3%!  Það er dágóð hækkun Geir.  Þá er ekki mikil huggun að hlusta á ráðamenn tala um að þetta sé "eins skiptis hækkun" osfrv. þegar stýrivextir eru í botni, gengið samt fallið og stærsti flokkurinn forðar sér frá allri umræðu um ESB, að því er virðist aðallega í virðingarskyni við gamla formanninn. 

2002 voru blikur á lofti í efnahagslífinu, útlit var fyrir hækkandi verðbólgu og uppsögn samninga vegna þess.  Þá lögðust allir á eitt og samningar héldu, verðbólgan hjaðnaði og hjól efnahagslífsins fóru aftur að snúast.  Núna gasprar ríkisstjórnin að auðvitað verði samráð, auðvitað verði hitt og þetta en ekki neitt er gert.  Í stjórnarsáttmálanum er þessi setning "Stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa."  Nú er markaðurinn svo gott sem frosinn eftir spá Seðlabankans um 30% raunlækkun en ekki bólar mikið á stimpilgjaldalækkun, nema auðvitað til þeirra sem hafa ekki keypt áður, svona rétt til að gera skattkerfið aðeins einfaldara en það er nú þegar...

Ég er kannski ekki mjög hlutlaus en ég sakna Framsóknarflokksins úr Ríkisstjórn.  Ég er sannfærður um að þá væri, rétt eins og 2002 verið að vinna í að halda verðbólgu niðri með markvissum hætti, ekki bara með óljósum beiðnum til atvinnurekenda í fjölmiðlum.  Þá væri einhver að tala fyrir því að beita Íbúðarlánasjóði til að hreyfa örlítið við fasteignamarkaðnum.  Ekki þyrfti maður að hlusta á svona bull og fyrirslátt eins og frá Geir H. í dag.   Eins og Hallur Magg sagði sem er einfaldlega mun betur að sér en Geir um málefni Íbúðalánasjóðs:

Hvernig getur það verið að fækkun raunverulegra 90% lána úr 33% allra útlána Íbúðalánasjóðs á árinu 2003 í innan við 20% allra útlána Íbúðalánasjóðs á árinu 2005 og síðar í um 1% allra útlána sjóðsins á árinu 2007 geti verið þensluvaldandi? Tekið héðan.


Góð spurning Hallur.  Sjálfstæðismönnum virðist fyrirmunað að skilja að útlánareglur sjóðsins eru takmarkaðar af brunabótamati (og lóðarmati held ég í seinni tíð) sem verður til þess að á helstu þenslusvæðum landsins þýðir 90% lán hjá Íls ekki 90% af kaupverði fasteignar.  Auðvitað skilja þeir þetta, það er einfaldlega vænlegt til árangurs að þylja hina rulluna nógu oft, það er ekki eins og fjölmiðlar hafi nokkurn áhuga á að rengja þessa mítu þeirra um 90% lánin sem orsökuðu ragnarök.

---
Eftir að hafa rennt yfir þessa bölsýnisritgerð aftur má ég til með að koma með örlítinn ljósari punkt í lokin, ekki síst fyrir námsmennina í prófunum sem mega ekki við frekara svartnætti.  Sá punktur er auðvitað grein Jóns Sigurðssonar í Mogganum í gær. Stutt, afar vel rökstudd og beint að kjarna málsins.  Eftirsjá í Jóni úr pólitíkinni.  Hægt er að lesa hana í heild sinni hjá meistara Gesti.


Draumaliðið fallið úr keppni og ein manneskja sagði upp

Átakanlegt að horfa á eftir liði Akureyrar detta út í Útsvari í kvöld.  Ekki hefði mig grunað fyrr í vetur að lenda í þeirri aðstöðu að taka svona nærri mér og raun bar vitni að horfa á eftir liði frá Akureyri detta úr einhverri keppni.  Undir eðlilegum kringumstæðum hefði slíkur viðburður verið sérstakt fagnaðarefni.  En þetta lið var auðvitað eins og Michael Jordan, Magic Johnson og Horace Grant væru búnir að slá saman í þriggja manna streetball lið.  Arnbjörg kaupfélagsdóttir þá auðvitað í hlutverki Grant, ekki jafn augljóslega sterk og hinir tveir en mikilvæg fyrir liðsheildina á ögurstundu.

Það vantaði sigurviljann, skutu úr þriggja stiga körfum þegar örugg tveggja stiga karfa hefði dugað.  Virðingarvert sjónarmið, enda þvílíkar kempur hér á ferð.  Ekki veit ég hverja maður styður þá í framhaldinu, líklega verð ég að vonast bara eftir háðulegri útreið Reykjavíkurliðsins fyrst við Grafarvogsbúar eigum ekki fulltrúa.

---
Lára Ómarsdóttir fréttmaður nokkur sagði víst upp í dag.  Ekki veit ég af hverju uppsagnir fjölmiðlamanna eru fréttaefni á borð við eldgos, jarðskjálfta og afsagnir ráðherra.  Fjölmiðlar gleyma því stundum að það lifa ekki allir í þessari fjölmiðlablöðru sem þeir hrærast í.  Rétt eins og ég gleymi því stundum að allir hafi ekki brennandi áhuga á hræringum í rekstri tryggingafélaganna. 

Venjulegt fólk er held ég ekki sérstaklega upptekið af því hver segir fréttirnar, heldur frekar hvort fréttin sé faglega og skemmtilega unnin, hvort þeir hafi nú nennt að hafa fyrir því að hafa samband við alla málsaðila eða hvort treina eigi fréttina í fleiri fréttatíma í staðinn og þá ná jafnvel á þeirri leið taka einhvern/eitthvert fyrirtæki af lífi.  Nú horfi ég mikið á fréttir en get ekki með nokkru móti lagt mat á hversu góður fréttamaður Lára er.  Ég man helst eftir henni v/þess að mér fannst athyglisvert að hún skyldi fjalla um hverja fréttina á fætur annarri um Kárahnjúkavirkjun og tengd mál á sama tíma og faðir hennar leiddi andstöðu gegn framkvæmdunum og var að reyna að næla sér í vinnu hjá almenningi útá þá andstöðu.  Ætli ekki eitthvað hefði verið sagt ef dóttir stjórnarformanns/forstjóra Landsvirkjunar hefði verið að taka þessi mál fyrir? 

Það er hinsvegar alltaf fúlt að horfa uppá 5 barna foreldra missa vinnunna, tala nú ekki um þegar fólk getur komið með jafn innblásna málsvörn og hún í Kastljósi í kvöld, en það er nóg af mönnum á Íslandi í dag sem eru tilbúnir að tapa peningum á fjölmiðlarekstri þannig að ég efast ekki um einhver laus störf séu í boði!

Svo ég endi þetta raus er best að vera í hrópandi ósamræmi við það sem ég sagði áðan, en ég verð að  viðurkenna að þegar kemur að blaðagreinum skiptir mig töluverðu máli hver skrifar.  Það gefur fréttinni/fréttaskýringu aukið vægi ef maður veit að þarna fer vel tengdur og vandaður blaðamaður (auðvitað er ég hérna að tala um Fréttamókinn, Mara Geirs, Agnesi Bragadóttur og Pétur Blöndal).  Af einhverjum ástæðum finnst mér þetta skipta minna máli í ljósvakamiðlunum, sjálfsagt v/þess að þeir virka oft bara eins og þulir að þylja upp fréttina sem maður er búinn að heyra 10x yfir daginn.

---
Klárlega afleitt og klisjukennt blogg, en við hverju er að búast þegar maður kemur með færslu dag e.dag?

Nou Camp = kirkjugarður, trukkafólk og eigin geðbrestir

Fyrir menn sem blogga 2-3svar í mánuði er bókað að bloggin verða of löng.  Fyrir þá sem hafa kvartað yfir lengdinni (já Snæþór, ég er að tala um þig) bendi ég á að hægt er að búta lesturinn niður og dreifa honum niðrá vikudagana.

----
Ég hef því miður séð alltof lítið af fótboltaleikjum í vetur sökum þrjósku minnar við að versla ekki við Stöð 2 Sport, en þeir fáu sem ég hef séð hafa nánast allir verið með Liverpool.  Því taldi ég mig eiga von á góðu þegar ég sá síðari hálfleik Barcelona og Man Utd í gærkvöldi, ekki hafa ManU menn sparað stóru orðin um gæði síns liðs og þá sér í lagi hversu skemmtilegir þeir eru og þá fylgir iðulega hversu leiðinlegan bolta Liverpool spila.  Þetta var nú samt án vafa það leiðinlegasta sem ég hef séð í sjónvarpi síðan ég þrældi mér í gegnum Rachel Ray þátt um árið.  Þvílík endemis leiðindi og andleysi.  ManU spiluðu þetta auðvitað skynsamlega en þessir meintu snillingar frá Barcelona hefðu nú kannski mátt láta sér detta einhvern tíma í hug að gera ekki það nákvæmlega sama og misheppnaðist í síðustu sókn. 

Hugsanlega er afstaða mín lituð af því að ég horfði á leikinn í blautum baðslopp.  Ég fékk þó öl með þessu þannig að það vann á móti blauta baðsloppnum.  (Bara svo lesendur haldi ekki að ég leggi í vana minn að horfa á fótbolta í blautum baðslopp heima hjá mér var þetta partur af Laugaferð góðra manna sem gerðu misgóða hluti í fótboltamóti í vinnunni).

---
Vegna þessa fótboltamóts í gær missti ég af fréttum og umræðum í Kastljósi um vörubílstjóra og þessi svokölluðu mótmæli þeirra í gær.  Hef litlu við bloggflóðið um það að bæta nema mér þykir merkilegt hvað sumu fólki þykir lítið að því að hindra aðgerðir lögreglu.  Jú einu hef ég við þetta að bæta.  Sá part af beinu útsendingunni á Rúv uppúr hádegi í gær og einhvern veginn kom mér ekki á óvart að sjá leikara í hópi áhorfenda þarna.  Hann var kannski bara að taka bensín á Olís, hvað veit ég, en til að forðast múgsefjun leikara í athugasemdakerfinu segi ég ekki meira í bili.   Ef fólk vill heyra meira er það velkomið í heimsókn, við vorum að fá nýjan sófa þannig að nú þurfa gestir ekki að óttast miltisbrandssmit úr þeim gamla.

---
Þessi vettvangur hefur reynst mér vel til að játninga af ýmsu tagi og því ætla ég að enda þetta með einni slíkri.  Hún er reyndar svo pervisinn og afbrýðileg að ég býst fastlega við að vera lagður inn.  Það kemur fáum á óvart sem mig þekkja að ég er óforskömmuð merkjapíka á ákveðnum sviðum.  Þarna erum við ekki að tala um Innlits-útlits merkjapíku, mér gæti ekki verið meira sama þó Gunnar Birgisson hefði hannað hjá mér baðkarið frekar en Philippe Starck sem Vala Matt hefur ófáum sinnum hampað sem Messíasi í þáttum sínum. 

Ég á hinsvegar verulega bágt þegar kemur að raftækjum.  Nýlega endurnýjaði ég iPoddinn minn og keypti 8gb iPod Nano sem er að reynast mér prýðilega þrátt fyrir skammarlega lítið diskapláss.  Þegar ég pantaði hann ákvað ég að panta í leiðinni "armband" til að hafa hann á upphandleggnum við uppvaskið.  Ég skoðaði fjölmargar útgáfur og eyddi drjúgum tíma í að lesa dóma, samt vissi ég alltaf innst inni að eingöngu eitt kæmi til greina, algjörlega burtséð frá góðum dómum og verði.  Það er þetta hér.  Fyrir hið óþjálfaða auga virðist þetta vera bara eins og hvert annað "armband" en nei, þetta er nefnilega það eina fyrir minn iPod sem er frá Apple.  Og það er akkurat málið, ég bara gat ekki hugsað mér að setja Apple iPoddinn minn í eitthvað annað en frá Apple.

Jamm, þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, en svona er þetta nú samt.  Þarna kostaði þessi geðveila mig 20 dollara.  Þetta dæmi er auðvitað bara toppurinn á ísjakanum en ég get ekki lagt meira á ykkur í bili þrátt fyrir að eiga skuggaleg dæmi um Sony videóvél og Case Logic tösku, svona leyndarmálum verður maður að ljóstra upp hægt og hljótt.

Gleðilegt sumar gott fólk og takk fyrir að lesa.  Gaman að sjá hversu mikið endemis sómafólk leggur leið sína hingað þrátt fyrir að fá auðvitað ekki nýtt blogg nema á nokkurra vikna fresti.  Þetta er bara ekki spurning um magn heldur gæði.


Ég og þú borgum þessum manni laun

Ögmundur Jónasson hefur ekki verið í sérstöku uppáhaldi undirritaðs.  Það breyttist ekki við lestur á viðtali við hann í Fréttablaðinu í dag.  Eitt breyttist þó, Ögmundur fór ekki í taugarnar á mér eins og vanalega heldur finn ég hreinlega til með honum.  Ögmundur leggur lykkju á leið sína til að hnýta í mann sem hefur gefið gríðarlega háar upphæðir til hinna ýmsu málefna eftir að hann efnaðist.  Leyfum Ögmundi sjálfum að hafa orðið:

Það er dásamað þegar auðmennirnir gefa fátækum, sjúkum, hrjáðum og listamönnum. Jafnvel Þjóðminjasafnið er orðið háð svona framlögum. Björgólfur er að verða einhvers konar Móðir Teresa, hann læknar og líknar en hvaðan eru peningarnir fengnir? Þeir koma frá samfélaginu og pólitíska spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort við viljum að auðæfi samfélagsins séu til ráðstöfunar af hálfu þessara aðila í staðinn fyrir að vera undir lýðræðislegri stjórn. Völdin hafa verið færð til auðmannanna og þeir reyna að kaupa sér velvild með aflausnarbréfum.

Björgólfi ber ekki nokkur skylda til að gefa krónu af sínum auðæfum.  Hann gæti auðvitað setið bara á þeim, látið lítið fyrir sér fara, grætt enn meira og sleppt því að gefa pening til að styggja ekki alþingismann eins og Ögmund.  Ögmundur sá ekki ástæðu til að nafngreina auðmenn sem ekki hafa verið jafn rausnarlegir og Björgólfur.  Nei, hann sá ástæðu til að gefa í skyn að Björgólfur hefði slæma samvisku og væri að reyna að "kaupa sér velvild með aflausnarbréfum".  Ekki misskilja mig, þessir nýríku menn eru ekki yfir gagnrýni hafnir og mér leiðist fátt meira en einhver helgislepja gagnvart þeim.  Gott dæmi um það sem ég á við er þegar starfsmenn Stöðvar 2 taka viðtal við eigenda sinn.  Aðdáun spyrlana á Jóni Ásgeiri skín svo úr augum þeirra og spurningum að maður á allt eins og von á að síðasta spurning viðtalsins verði bónorð.

Ögmundur er eins og alltof margir Íslendingar einfaldlega sjúklega öfundsjúkur.  Getur ekki samglaðst öðrum sem gengur vel.  Hann skýlir sér á bakvið þessa stórkostlegu klisju: "ég vil snúa aftur til jöfnuðar og gera um leið hroka, bruðl og misskiptingu útlæg".  Þetta tal Ögmundar og kollega um jöfnuð er óþolandi klisja sem á að ganga í augun á ákveðnum hópi kjósenda.  Hvað þýðir jöfnuður?  Er hann að tala um að sá sem tekur þá ákvörðun að fara ekki í framhaldsskóla og fer frekar strax á vinnumarkaðinn eigi að hafa sömu laun og sá sem fer í 3-4 ár í framhaldsskóla, og svo í 10 ára háskólanám til að læra vera læknir með sérmenntun ?  Er hann að tala um að duglegu fólki sé ekki umbunað umfram lötum?  Nei, það getur varla verið, ég trúi ekki að hann sé svo blindur þó ég trúi Ögmundi til alls í þessum málum.  Til að læknirinn geti borgað upp námslánin sem var safnað á launalausum árum, þá þarf hann einfaldlega að hafa há laun eftir nám, annars borgar þetta sig ekki og við fáum ekki fólk í þessi störf.  Læknirinn getur þá vonandi verðlaunað sig fyrir dugnaðinn með húsi í Skálabrekkunni (eða á Arnarnesinu svo þið f.sunnan skiljið) með tíð og tíma en þar komast ekki allir að.  Hvar er jöfnuðurinn þá?  Veit Ögmundur ekki hvernig þær fjölmörgu sósíalísku tilraunir gengu sem reyndar voru á síðustu öld?

Jöfnuðurinn sem Ögmundur talar um snýst ekki um að hækka lægstu laun, heldur lækka hæstu laun og helst koma því þannig fyrir að allir hafi það jafn skítt svo hann þurfi ekki að horfa uppá Björgólf styrkja t.d. Ljósið, stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda sem ég og mín frú höfum notið mjög góðs af síðastliðið ár.   Björgólfur hefur reyndar ekki flíkað því, frekar en fjölmörgum öðrum styrkjum, enda eins gott svo hann raski ekki ró þingmanna eins og Ögmundar.

Álver í Helguvík

Alli skrifaði góðan pistil um Helguvíkurálverið í vikunni.  Ég hef litlu við það að bæta fyrir utan samsæriskenningu um einn þáttinn í þessari framkvæmd.  Það er taktíkin sem Norðurál og heimamenn nota, þ.e. að hefja framkvæmdir án þess að vera búnir að skrifa undir samninga nema fyrir helmingi orkunnar.  Þetta er að sjálfsögðu úthugsað.  Orkan er til, en það er stór spurning hvort pólitískur vilji sé fyrir því að virkjað sé í þágu þessarar verksmiðju, ekki síst ef menn sjá frammá að álver á Bakka geti orðið að veruleika. 

Því hef ég þá grunaða um að ætla sér að eyða í þetta töluverðum fjármunum, komast mun lengra í sýnilegum framkvæmdum en Alcoa f.norðan og ná að telja almenningi trú um að "ekkert" sé eftir nema að ganga frá kaupum á orku.  Þannig á að byggja upp þrýsting og skapa sér samningsstöðu, því fáir kjörnir fulltrúar munu hafa bein í nefinu til að standa í vegi fyrir að þeir geti klárað dæmið.  Annars hefur miklum peningum verið sóað og hver vill að álverið keyri bara á hálfum afköstum fyrst menn eru komnir svona langt?

Ótæmandi vasar skattborgarana

Ég er kverúlant eftir allt saman.  Þrátt fyrir að sýna því ekki nokkurn áhuga í síðustu færslu að láta þotuleigu ráðherra fara í taugarnar á mér hefur það snögglega breyst.  Eins og frægt er orðið fór Geir H. Haarde ásamt yfirlýsingaglaða viðskiptaráðherranum til Svíþjóðar í vikunni með einkaþotu.  Nú var kostnaðurinn mun hærri en að ferðast með almenningsflugvél, öfugt við fyrra tilfellið, en nú var valinn 900 þús kr. dýrari ferðamáti skv frétt ruv.is.  Þetta er 7 manna sendinefnd (þar af reyndar tveir gestir) og sagt er að með þessu sparist 1-2 vinnudagar.  Nú eru menn farnir að teygja sig í afsökununum.  Ég tel ekki þessa gesti með enda Þorsteinn Pálsson tæplega lífsnauðsynlegur farangur forsætisráðherra, en 1-2 vinnudagar þessara fimm starfsmanna, dagpeningar, hótel osfrv. kostar ekki 900 þús.  Geir er búinn að margtaka það fram að Ríkisstjórnin hyggist ekki gera handtak vegna erfiðleika á mörkuðum (f.utan að hugsanlega auka gjaldeyrisvaraforða SÍ) þannig að ekki kaupi ég þau rök að hann þurfi bráðnauðsynlega að vera heima v.þess ástands.

Þetta er því bruðl.  Ríkisstjórnin er ekki í nokkru sambandi við hvað er að gerast í þessu landi.  Stíft kostnaðaraðhald er nú hjá stærstu fyrirtækjum landsins, mörg þeirra hafa sagt upp starfsfólki, enn fleiri eru með ráðningarstopp og vafalaust er víða tímabundin launafrysting þó lítið hafi heyrst af slíku ennþá.  Á slíkum tímum ætti Ríkisstjórnin að sjálfsögðu að ganga fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og sýna aðhald, ekki veitir af eftir stórkostlega kostnaðaraukningu í síðustu fjárlögum að menn færu að koma sér niðrá jörðina.

Það sem fyllti þó mælinn hjá mér og varð til þess að ég skrifaði þennan Ögmundarlega pistil er þingsályktunartillaga 14 þingmanna um að koma upp Vefmyndasafni Íslands.  Kostnaðurinn við þetta gæluverkefni er áætlaður 225 milljónir fyrir utan rekstur sem er vafalaust töluverður enda þarf nú að pússa linsurnar ef þetta á að vera í lagi, halda þessu í skefjum frá skemmdarverkum osfrv.   (Tek reyndar fram að þessi kostnaðartali er fengin frá Vísi.is sem er tæplega góð heimild).  Þetta er auðvitað stórskemmtileg hugmynd, ég yrði fyrsti gestur en hvernig stendur á því að þessu er ekki frekar beint að þeim fjölmörgu aðilum sem hafa fjárhagslega hagsmuni af komu ferðamanna til landsins?  Af hverju dettur mönnum alltaf fyrst í hug að seilast í vasa skattgreiðenda?  Svarið er því miður augljóst, virðingin fyrir okkar peningum er einfaldlega ekki meiri.

Aftur í ferðalögin.  Ég var að lesa þetta yfir og ég verð bara að aðgreina mig frá Ögmundi.  Einkaþotum hef ég öfugt við kommúnista þessa lands mjög gaman af og fagna ég ferðalögum nýríkra (og fyrrv. nýríkra) Íslendinga um Reykjavíkurflugvöll í slíkum farartækjum.  Þetta er nefnilega hin besta afþreying.  Ég hef eytt drjúgum tíma við glugga á Landsspítalanum í að fylgjast með þeim taka á loft og lenda, velta vöngum yfir því hver er að fara hvert og hvort tilefni sé til að kaupa hlutabréf áður en tilefni ferðarinnar spyrst út.  Þær eru lygilega snöggar upp, mögnuð tæki.  Geir mætti því ferðast með geimskutlu til að fara norður á Kópasker ef það er fjárhagslega hagkvæmast mín vegna. 

Svona, þarna sannaði ég það, ég er minni kverúlant en Álfheiður, Ömmi og Jón Bjarna.

---
Eftir þessa alltof löngu romsu líður mér betur og þegar Unnur les þetta í fyrramálið mun henni líða enn betur yfir því að ég skuli hafa dembt þessu hingað inn frekar en að bölsótast yfir þessu þegar hún er að reyna að sofna.  Það hefði reyndar verið rómantískt. 

---
Mikið var nú gaman að geta gert þá frændur og austfirðinga, Stefán Boga og Snæþór, snælduvitlausa útaf austfirskum fjöllum í athugasemdunum við síðustu færslu.  Það sá ég ekki fyrir þegar þessi síða var stofnuð en gefur þessu svo sannarlega gildi.

Útsvar, Samfylking og blessuð Kinnarfjöllin

Ég hef komist að því að þessi vettvangur er ágætur til að játa syndir sem ég hélt að þyldu ekki dagsins ljós.  Þessi synd sem ég ætla að játa núna er reyndar gríðarlega slæm en ég get ekki einfaldlega ekki afneitað þessu.  Eins og áður hefur komið hér fram hef ég sérstakt dálæti á spurningaþáttum.  Vinsælt hefur verið í vetur að dissa spurningaþáttinn Útsvar sem mér þykir aftur á móti prýðilegur og missi alls ekki af honum ótilneyddur.  Það er þó ekki vafasamt í sjálfu sér heldur er það liðið sem ég styð eftir að Norðurþing féll úr keppni. Jamm, haldið ykkur fast, ég styð nefnilega lið Akureyrar í keppninni!  Það er einfaldlega ekki annað hægt, þvílíkt endemis all-star lið sem þarna er komið saman!  Tveir öflugustu spurningakeppnamenn landsins ásamt sómakonunni Arnbjörgu Hlíf sem var góðvinkona mín þegar við vorum kaupfélagsstjórabörn.

Sveitarfélög þessa lands hafa annars engan veginn sýnt nógu mikinn metnað í þessari keppni.  Mikið hefur verið lagt uppúr því að hafa þekkt andlit, þó þau geri gjörsamlega í brækurnar.  Nær væri að draga upp helstu nirði sveitarfélagana, burtséð frá því hvort þeir séu sveittir, skítugir, feimnir, gormæltir eða þola almennt ekki dagsins ljós.  Þarna eiga menn að sjálfsögðu að spila til sigurs!  Svona keppnir snúast alls ekki um að hafa gaman af þeim heldur heiður sveitarfélagsins.

---
Stjórnarandstöðugírinn.  Ég á erfitt með að komast í hann, þ.e. að tapa mér í móðursýki yfir öllu sem ríkisstjórnin gerir og froðufella yfir hverju einasta hitamáli sem upp kemur.  Öfugt við Kommúnistaflokk Íslands sé ég enga ástæðu til að missa þvag þó Geir og Ingibjörg hafi reiknað út að hagstæðara væri að fara með einkaþotu á NATO fund heldur en með áætlunarflugi í gegnum Heathrow.  Ef þeir útreikningar reynast réttir er það hið eðlilegasta mál, þ.e. peningalega séð. Hinsvegar er þetta enn eitt gott dæmi um að Samfylkingin var að sjálfsögðu úlfur í sauðagæru þegar þau settu upp umhverfisverndargrímuna í fyrra.  Einkaþotur eru ekki umhverfisvænn ferðamáti, þó þær séu vafalaust þægilegar.  Össur sagði í vikunni að ríkisstjórnin myndi ekki koma í veg fyrir álver í Helguvík vegna þess að það þyrfti lagasetningu til!  Það er eitthvað nýtt að ríkisstjórnin geti ekki sett lög, fyrir ári talaði Samfylkingin eins og lög ríkisstjórnarinnar réðu veðurfarinu, nú er ríkisstjórnin viljalaust verkfæri utanaðkomandi aðstæðna sem virðist ekki hafa nokkur ítök í löggjafarsamkomunni.  Þórunn Sveinbjarnar innsiglaði þessa stöðu Samfylkingarinnar með að hafa ekki bein í nefinu til að hafna ákvörðun Skipulagsstofnunar.  Eitthvað hefði nú heyrst frá Samfylkingunni ef Jónína Bjartmarz hefði gert það sama. 

Stórkostlegur vindhanaflokkur Samfylkingin.  Hver man eftir orði um ESB í síðustu kosningabaráttu, einni sjónvarpsauglýsingu, einni útvarpsauglýsingu eða einni blaðaauglýsingu um ESB?  Neibb, það var ekki neitt sem minnti kjósendur á ESB, enda var stuðningur við ESB aðild á niðurleið á þeim tíma.  Samfylkingin sagði ekki orð þá en leikur á alls oddi núna þegar meira en helmingur þjóðarinnar styður ESB-aðildarviðræður, þó þau hafi samþykkt stjórnarsáttmála sem boðar algjöra kyrrstöðu í þessum málum.

---
Árangur þessarar síðu er ótvíræður.  Eins og ég kynnti í upphafi er árangur síðunnar mældur í gengi Framsóknarflokksins í Þjóðarpúlsi Gallups.  Flokkurinn fór upp um 1% í mars sem er svo sannarlega skref í rétta átt og í átt að langtímamarkmiði síðunnar.   Í tilefni af þessu hefur verið blásið til nýrrar sóknar með nýju útliti en það gamla var forkastanlega ljótt.  Græni liturinn var það eina jákvæða við það en nú var honum fórnað til að litirnir myndu tóna við þennan glæsilega haus.  Hér er auðvitað um að ræða Skjálfanda sjálfan með glæsilegasta fjallgarð veraldar í baksýn, Kinnarfjöllin.  Hér tala ég auðvitað sem óhlutdrægur almennur gagnrýnandi fjallgarða, tek það fram.  Unnur fær þökk fyrir þessa glæsilegu mynd sem ég þurfti reyndar að klippa óþarflega mikið til að passa hér.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband