Ólafur F og týndu samstarfsmennirnir

Borgarstjóranum helst ekki vel á samstarfsmönnum.  Frá síðustu kosningum man ég í svipinn eftir þremur nánum samstarfsmönnum sem hann hefur losað sig við eða öfugt.  Fyrst má nefna kosningastjóra F-listans sem fór hamförum í Silfrinu í vetur og hef ég aldrei heyrt aðrar eins lýsingar á stjórnmálamanni frá kosningastjóra sínum.  Svo er það auðvitað varaborgarfulltrúi hans, Margrét Sverrisdóttir, og nú síðast aðstoðarmaður hans, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, sem er verið að að setja endanlega út í kuldann núna.  Ég hef gefið fréttum af pólitískum aðstoðarmönnum gaum í mörg ár (ég veit, ekki beint gáfuleg bölvun þetta áhugamál) en ég man ekki eftir að aðstoðarmanni hafi verið hent á dyr eftir svo skamman tíma áður. 

Ég þekki Ólaf F ekki persónulega en það er eitthvað sem segir mér að þetta sé ekki tilviljun.  Fyrir því er yfirleitt góð ástæða ef menn enda ávallt sem einfarar í pólitík.

Ég gef Jakobi Frímanni þrjá mánuði í viðbót.  Borgarstjóri mun útskýra brotthvarfið með því að trúnaður hafi verið brotinn.  Raunverulega ástæðan verður að JFM kaupir ekki þá tuggu borgarstjórans að litlir uppbyggðir "19. aldar" kofar við Laugaveg séu upphaf og endir framþróunar alheimsins.

Gísla Marteini gef ég tvo mánuði þangað til hann snappar opinberlega yfir að Ólafur ræðir ekki stórmál við samstarfsflokkinn.


Meðmæli og mótmæli

Þrátt fyrir tölvu- og netfíkn á háu stigi reyni ég að streitast á móti því að hanga fyrir framan skjáinn á sumrin.  Ekki ýtir það undir bloggskrif eins og þið vesalings lesendur mínir vitið manna best (þið eigið þó samúð mína alla).  Skrif dagsins eru plúsar og mínusar víða að en bera keim af flakki undirritaðs.

+Ódýrt öl í kreppunni
Á Gamla Bauk á Húsavík geturðu keypt níu bjóra kort á 3.500 kr. eða 388 kr stykkið fyrir hálfan lítra!

+Gott í belginn á ferðinni
Potturinn og pannan á Blönduósi býður uppá þrælgóðan alvöru mat við þjóðveg 1 sem er fágætt. Þrátt fyrir langvarandi ástarsamband mitt við sóðalegan skyndibitamat er þetta vel þegin tilbreyting.  Fyrir okkur sem erum með gríslinga geta þeir fengið langþráða útrás í góðu barnahorni þannig að allir fara sáttir aftur af stað í leiðinlegasta kafla leiðarinnar norður.

+Mærudagar á Húsavík
Það er með eindæmum góðmennt á Mærudögum, erfitt að mæla það en efast um að aðrar bæjarhátíðir geti státað af þessu hlutfalli öðlinga.

 -Eyrnablæðingar af mannavöldum
Lagið með Helga Björns sem er verið að spila stöðugt núna er atlaga að eyrum og geðheilsu landsmanna!  Ef ég heyri þessi ósköp einu sinni enn mun ég leggja fram kæru á hendur Helga eða kaupa mér hafnaboltakylfu.  Helgi getur þó sofið rólegur (en með slæma samvisku) þar sem við eigum engin lög um glæpsamlega leiðinlega tónlist og ég hef takmarkaða reynslu af ofbeldisverkum eða löngun til að afla mér hennar.

-Saving the Icelandic news-cucumber, fréttir af Saving Iceland skrílnum
Fjölmiðlar: í Guðs bænum hættið að flytja fréttir af þessu flippi misgáfulegra skemmdarvarga.  Ég hef ekki gert á því vísindalega rannsókn en mig grunar að eftirspurnin eftir þessum fréttum sé jafn mikil
og löngun fólks til að fá ítarlega lýsingu á hverri klósettferð minni.  Ef einhver fjölmiðill vill frekar flytja fréttir af meltingunni hjá mér en þessu bulli er ég í símaskránni, með grafískum lýsingum er þetta öllu fréttnæmara en hvort 6 manns hafi setið í anddyri Landsvirkjunar í dag.


Áhættufjárfestirinn ég

Síðustu mánuði hefur mér æ oftar fundist ég vera spákaupmaður og áhættufjárfestir.  Ekki er þessi tilfinning tilkomin vegna æsilegra viðskipta minna í Kauphöllinni.  Neibb, hreint ekki.  Í utanlandsferð okkar í júní náði ég að kaupa pund sem kostuðu frá 155 - 170 krónur.  Nú er ekki eins og ég hafi verið í London í fleiri vikur, nei, ein vika bauð uppá þessa fjölbreytni.  Þannig að í hvert skipti sem ég borgaði með kreditkortinu eða fór í hraðbankann án þess að vera búinn að taka stöðuna á genginu var maður með öndina í hálsinum, gjörsamlega grunlaus um raunverulegt verð.

Kosturinn við þessa bilun er auðvitað sú að maður kaupir auðvitað mun minna en venjulega erlendis og það vinnur mér inn punkta hjá Seðlabankastjóranum sem er búinn að vera hundsvekktur við mig fyrir að hafa skipt um bíl í ár.

Hin hliðin á áhættufjárfestingum mínum að undanförnu eru bensínkaup.  Ég hef sérhæft mig í að fylla bílinn daginn sem bensín hækkar um 6-8 kr. eða degi áður en einhver stöðin býður uppá 10 kr. framkvæmda- eða opnunarafslátt.  Því er ég alltaf hikandi við dæluna.  Á ég að hanga á síðustu dropunum eitthvað lengur eða fylla áður en þeir hækka aftur?  Þumalputtareglan virðist þó vera þessi, bensínverð sem fer upp hérlendis, fer ekki aftur niður þannig að ég er á höttunum eftir 200 lítra tunnu til að geyma í skottinu.

Hvernig fyrirsögn setur maður á svona samtíning?

Skemmtilegt að koma heim í umræðu um ónýtan gjaldmiðil, þras um álver, ósamstöðu innan Ríkisstjórnarinnar og þá helst innan sama flokksins þar.  Ekki get ég sagt að ég hafi saknað þessarar umræðu sérstaklega í fríinu... Það er nú samt alltaf gott að koma heim, þrátt fyrir allt.  Þakka öðlingunum sem hýstu okkur litlu fjölskylduna í fríinu ásamt því að leiðbeina um Sviss og London (þetta er ekki sama fólkið samt) , með betri ferðum sem ég hef farið í, frábært alveg.

Jakob Fróði fór ekki með á Kiss þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning lesenda við þá tillögu.  Það var líklega skynsamleg ákvörðun enda hávaðinn í Schleyer Halle ægilegur.  Skemmtunin var í réttu hlutfalli við hávaðann, þetta var sýning með sama hætti og við pjakkarnir horfðum á aftur og aftur í gamla daga, ekkert vantaði, Gene Simmons að spúa eldi og spýta blóði, fljúgandi Paul Stanley, sprengjur og eldsúlur.  Helst vantaði reyndar félagsskapinn af vinunum en mér leið nú samt bara eins og heima hjá mér í Stuttgart, stórkostlegt land Þýskaland.

Sá Radiohead halda töluvert frábrugðna tónleika í Victoria Park í London á þriðjudag.  Átti allt eins von á tilraunakenndum hlutum og einhverri sýru miðað við sögur af tónleikum þeirra síðustu ár en svo var alls ekki, langir og frábærir tónleikar þar sem spilamennskan var ótrúlega góð.  Nýja efnið þeirra hljómar mun betur 'live' en ég hafði reiknað með fyrirfram.  Enda 2-3 tæknimenn þarna á stangli, þökkum þeim vel unnin störf.

Svo ég haldi áfram úr einu í annað... Er búinn að vera að fylgjast með webcasti af tónleikum Sigur Rósar í kvöld.  Pottþéttur lagalisti og frábært framtak, ekki síst vel valinn staður fyrir svona uppákomu.  Þegar við Unnur röltum þangað af Gullteignum á sólríkum sumardögum með teppi og bók velti maður því oft fyrir sér hvort ekki væri að hægt að nýta þetta tún betur.  Þó töluvert færi fyrir mér á teppinu var nokkuð greinilega hægt að koma fleirum fyrir þarna.

Vefsíðan með útsendingunni er með yfirskriftinni "Við stöndum með náttúrunni!"  Ég tel mig nú svo sannarlega gera það, en hef samt ekki slæma samvisku af því að styðja gerð Kárahnjúkavirkjunar, álver á Bakka og í Reyðarfirði.  Álver í Helguvík finnst mér hinsvegar vera óskynsamleg framkvæmd og ég er á móti virkjun Skjálfandafljóts, sem einhverjum hefur dottið í hug að hafa sem varaskeifu f.álver á Bakka ef illa gengur að virkja í Kröflu II.   Hvernig ég fell þá í hóp "með eða á móti náttúrunni" verða svo aðrir að dæma ef þeir vilja, það væri nú samt umræðunni til framdráttar ef fólk myndi almennt róa sig í dilkadrættinum.

---
Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður munu Þjóðverjar hampa Evrópumeistaratitlinum á morgun.  Það er áfall fyrir knattspyrnuna ef við áhorfendur fáum ekki að sjá Ballack taka þátt í leiknum en hvort hann verður með eða ekki ræður ekki úrslitunum.  Þetta er einfaldlega vinningsvél sem mun ekki hiksta þegar á reynir.  Öll lið nema Spánn hafa átt slæman dag í þessari keppni en þeirra slæmi dagur verður á morgun.  Auðvitað verður erfitt að horfa á dáðadrengina Casillas, Torres, Alonso og Ramos tárvota í leikslok en í fótboltanum er bara ekkert jafn skemmtilegt eins og þegar Þýskaland klárar svona mót.  Ekki síst er æðislegt að finna fyrir heiftinni í garð liðsins þegar vel gengur og að hitta fyrir stuðningsmenn liðsins á óvæntum stöðum 


Hvað á maður að gera?

Nýbakaðir foreldar þurfa að læra margt og taka margar ákvarðanir sem maður hefur ekki hundsvit á fyrirfram.  Þetta hefur gengið ágætlega til þessa en nú er komið að spurningu sem allir foreldrar standa frammi fyrir einn daginn.  Er búinn að fletta uppí Baby Owner's Manual en það er handbók sem velhugsandi vinir gáfu mér í tilefni af fæðingu frumburðarins.  Bókin hentar afar vel mönnum eins og mér (eða öllu heldur eins og ég var), með tæknibakgrunn en litla reynslu af bleiuskiptingum eða barnsgráti. Málfarið er eins og í handbókum fyrir græjur heimilisins og þar af leiðandi auðskilið fyrir þennan markhóp.  Sem dæmi: "CAUTION: Never shake a baby. Shaking can lead to malfunction".  Annað dæmi, ef meiningin er að hafa samband við lækni eða spítala er ávallt sagt: "Contact the baby's service provider".  Góður nördahúmor er gulli betri en væntanlega sjaldséður í uppeldisbókmenntum.

Þetta var útúrdúr, mæli samt eindregið með þessari bók.  En já, spurningin sem ég hef verið að spyrja mig undanfarna mánuði er auðvitað þessi, hvað þarf Jakob Fróði að vera gamall til að fara á tónleika með Kiss?  Eins og þetta hlýtur að vera algeng klemma sem foreldrar 16 mánaða barna lenda í er lítið um svör á netinu og í náminu hjá Unni var af einhverjum ástæðum ekki sérstakur áfangi um þetta viðfangsefni.  Hann tók fyrstu skrefin á föstudaginn þannig að ekki mun standa á honum að fara í pittinn.

Lesendur geta sagt sitt álit í könnun sem ég setti upp hérna vinstra megin á síðunni en það sem mun ráða úrslitum er þetta: ef rúsínur eru seldar á barnum í Schleyerhalle er minn maður klár, til vara nýmjólk.  Rölli, þú ert alvanur á þýskum tónleikastöðum, er þetta ekki staðalbúnaður?

Jakob Fróði sáttur þó Pabbi sé með versta bindishnút sögunnar

Mynd: Hér má sjá okkur feðga fagna þegar miðarnir komu í hús.  Jakob Fróði er þessi unglegri til vinstri á myndinni.


EM í æð

(Þetta blogg er eingöngu skrifað til að pirra þá vini mína sem hafa áhuga á fótbolta, ekki segja svo að ég hafi ekki varað ykkur við).  Hversu oft höfum við talað um að maður ætti að taka sér frí þegar EM eða HM stendur yfir?  Jú, líklega í hvert einasta skipti sem þessi mót eru haldin síðan við byrjuðum að vinna á sumrin, svona ca. fyrir 14 árum.  Hversu oft höfum við talað um að það væri gaman að fara á eitthvert þessara stórmóta? Örugglega á bilinu 500.000 - 550.000 sinnum, gróflega talið from the top of my head.

Af hverju er ég að rifja þetta núna?  Jú, vegna þess að ég er að fara í frí á miðvikudaginn sem mun vara framyfir úrslitaleikinn.  Híhíhí.  Ekki nóg með það, heldur verðum stórum hluta tímans varið í góðu yfirlæti hjá öndvegisfólki sem bauðst til þess að hýsa okkur rétt hjá Basel í Sviss!  Einhvern veginn held ég að leikirnir verði betri eftir því sem maður kemst nær þeim.  Er reyndar miðalaus og reikna allt eins með að láta mér duga að horfa á leikina á stóru tjöldunum þar sem einhverjir tugir þúsunda koma saman.  Það er svosem ekki hlutskipti til að kvarta yfir...

Hef hlakkað til þessarar ferðar lengur en ég get mögulega munað.  En jesús góður hvað ég er búinn að vera friðlaus frá því í gær! Það er hreinlega fátt sem toppar að horfa á fyrstu leikina í stórmóti og sjá fram á að eiga þrjár vikur af dýrðinni eftir!

Fór ískalt yfir stöðuna og reiknaði út í Excel að Þýskaland (aka Lið fólksins, aka Þýska stálið) verður Evrópumeistari í ár.  Þarna er ég auðvitað fyrst og fremst að tala útfrá þekktum staðreyndum og líkindareikningi, tilfinning hefur lítið með þetta að gera.  Portúgal verður andstæðingurinn í úrslitum og ekki mun vefjast neitt fyrir Klose að fá menn til að gleyma þessum Ronaldo strák sem ég get svosem viðurkennt að er orðinn þokkalega nothæfur leikmaður.

Sá nýju þýsku treyjuna í Jóa Útherja um daginn, ætlaði ekki að kaupa hana strax og spurði strákinn í búðinni hvort hún væri nokkuð alveg að vera uppseld.  Hann sagði svo ekki vera og bætti við að þetta væri nú ekki beint vinsælasta liðið! Merkilegt, en það gerir sigrana líka bara enn sætari. Hlakka einna mest til sigursins gegn Króatíu í 2.umferð, það er fátt skemmtilegra en að vinna liðin hans Ómars.

---
Þetta er orðið gott í bili af ódýrum skotum, sem betur fer er Mogginn ekki búinn að finna upp ennþá að lesendur geti kýlt mann í magann í gegnum athugasemdakerfið...


Grænfriðungarnir hafa smitað mig

Alltaf er ég fyrstur til að skrifa um hitamálin, ætla að taka fyrir Ísbjörninn í dag.  Ísbjörninn með stórum staf því það kemur bara einn til greina, þó björninn í Safnahúsinu á Húsavík sé tvímælalaust helsti björn landsins.

Veit að ég er kannski óraunhæfur barnalegur vitleysingur en mér fannst alveg hundfúlt að bjössi skyldi vera skotinn.  Með því er ég þó ekki að segja að björninn hefði mátt gæða sér á Skagfirðingum eins og sumir froðufellandi æsingsmenn í símatímum útvarpanna hafa ætlað stuðningsmönnum bjössa.  Ég drekk ekki kaffi þannig að ég er heldur ekki einn svokölluðu kaffihúsaspekinga.  Ég er hinsvegar miður mín yfir að björninn gat ekki fengið að búa á mínum uppáhalds skemmtistað í Reykjavík, Húsdýragarðinum, en hann fékk nánast samstundis heimboð þangað og fréttist af honum. 

Nei, það var víst hitt og þetta ekki til í landinu, við eigum lítið af fólki með Bs í ísbjarnabjörgun og við erum auðvitað svo einöngruð að það hefði tekið fleiri mánuði að redda því sem redda þarf, jafnvel ár miðað við áhersluna sem Þórunn Sveinbjarnar lagði á "ekki til í landinu".  Það lá auðvitað mjög mikið á, bjössi kom á land þarna fyrr um morguninn var það ekki?  Nei ætli einhverjir klukkutímar til eða frá hefðu skipt máli.  Örugglega hefði verið nóg framboð af skyttum til að líta eftir honum þangað til nauðsynleg aðföng hefðu borist um kvöldið með einhverri véla IE eða Icelandair.   Það var bara aldrei inní myndinni, menn fóru þarna uppeftir til að skjóta dýr í útrýmingarhættu, aldrei kom annað til greina.

Jæja, ég fer þá bara aftur í vísindatjaldið þegar ég kem í Húsdýragarðinn næst, það verður hvort sem er seint þreytt.

---
Öðlingurinn Ómar Þorgeirsson á afmæli í dag, congrats Mari! Afar vandað eintak hann Ómar.  Ætlaði að gefa þér eftirminnilega gjöf, bestu sæti í Húsdýragarðinum meðan ég glímdi við Ísbjörninn, en kappát við selina á þeirra heimavelli verður að duga.

VARÚÐ! FRUMUDREPANDI LYF!

Þessi viðvörun er búin að vera greypt í huga minn undanfarið ár en í dag, 31.maí,  er einmitt eitt ár liðið síðan Unnur fór í fyrstu lyfjagjöfina af sextán eftir greiningu brjóstakrabbameins fjórum vikum áður. 

Minnir svolítið á klór-umbúðir

Viðvörunin er á kössum eins og þessum hér að ofan sem berast með bláklæddum sendlum frá lyfjablöndun LSH yfir á dagdeild krabbameinslækninga við Hringbraut, deild 11B.  Það var alltaf jafn absúrd að horfa á Hrönn eða einhvern hinna frábæru hjúkrunarfræðinga á deildinni dubba sig upp í hlífðargalla frá toppi til táar og setja hanska á hendur til þess að búa sig undir að koma þessu bersýnilega stórhættulega efni beinustu leið í æðarnar á unnustu sinni!  Fram að þessu hafði ég helst horft uppá fólk setja á sig hlífðarhanska áður en það dælir bensíni, meðhöndlar klór eða önnur spilliefni, ekki til að dæla í lítravís viðkomandi efni í æðarnar á næsta manni.

Unnur bar sig nú vel á þessum degi eins og sjá má þrátt fyrir þessa árás frumudrepandi efnis enda ekki ástæða til annars en að leggja traust sitt á að þetta geri sitt gagn.

Epirubicin flæðir inní vinstri höndina, Unnur lætur það ekki tefja saumaskapinn

Þetta ár er búið að vera ansi strembið og örugglega mun erfiðara en ég hef gefið til kynna við vini mína og kunninga, það er bara svo helvíti leiðinlegt og lítið upplífgandi að bera sig illa að það gerir lítið gagn.  Nú leyfir maður sér hinsvegar að vera bjartsýnn og óendanlega þakklátur fyrir hversu hraust Unnur er orðin ári eftir fyrsta skammtinn af hinu verjandi eitri.  Hún hefur reyndar alltaf verið ótrúlega brött í þessari baráttu, í hennar stöðu hefði ég vælt og skælt, borið mig illa og ekki síst, níðst á vinum mínum til að gera leiðinlega hluti.

---
Ég ætla nú ekki að snúa þessari bloggsíðu almennt uppí væmna dagbók, en í dag mátti ég bara til.  Fyrir þá sem er kippt í þennan "krabbameinsheim" verður sjónarhornið oft ansi þröngt, maður sér varla minningargrein í Mogganum nema þær fjöldamörgu sem skrifaðar eru um alla þá sem falla og maður hefur óskaplega mikla þörf fyrir að heyra sögur af þeim sem hafa þetta af.  Ég er þá alla vega búinn að segja eina örsögu ef einhver í svipaðri stöðu og við kemur hér við...

Uppfærsla á augum, critical update v. 3.05

Þegar Windows eða annar hugbúnaður tilkynnir að ný uppfærsla sé tilbúin til niðurhals er ég fljótur til að uppfæra tölvuna, burtséð frá því hvort ég sé í eigin tölvu eða hjá öðrum.  Ég er nú ekki að þessu af vírusahræðslu heldur vegna þeirrar bjargföstu trúar að ný útgáfa sé á einhvern hátt betri, með nýjum fítusum eða stöðugri.  Þess vegna er alveg magnað að þegar ég vissi í júlí 2007 að augun í mér gætu séð betur hafi ég beðið í tæpt ár með að uppfæra þau, eða þ.e.a.s gleraugun.  Ætli væntumþykja á gömlu gleraugunum og aurum í bland við rótgróna íhaldssemi hafi ekki tafið mann því tilfinningin að setja upp gleraugu með nýjum glerjum er alveg mögnuð, allt verður skarpara á einu augnabliki.  Fyrir þá sem þurfa ekki gleraugu er best að lýsa þessu með að skoða myndina í flatskjáunum á skaplegu verði í Elko og skoða svo draumatækið mitt, Philips 37PFL9732D

Leið reyndar eins og ég hefði drukkið kippu á örskotsstundu því heilinn var lengur en ég hef kynnst áður að stilla sig inná nýju græjurnar.  Hann er búinn að uppfæra sig núna eftir nóttina sem reyndar var óvenju löng því pjakkur litli er lasinn og taldi sig þurfa að ræða heimsmálin kl. 4:30 í nótt.  Minnir óneitanlega á ónefnda vini!

Gleraugu eru svo áberandi útlitseinkenni á sköllum eins og mér að næstu vikur veit ég að margir eiga eftir að líta tvisvar áður en manni er heilsað, fyrir utan hina gullvægu spurningu, "varstu að fá ný gleraugu" þegar það er jafn augljóst fyrir þá sem maður umgengst daglega og að ég myndi birtast einn daginn í vinnunna með tattú á enninu.  Það er nú allt í góðu samt, ég tek t.d. stundum ekki eftir því þótt konur séu óléttar fyrr en þær eru komnar hálfa leið uppá fæðingardeild þannig að maður getur ekki mikið sagt...

Langhundur um misgáfuleg málefni

Ekki get ég látið of langan tíma líða án þess að ræða Samfylkinguna á þessum vettvangi.  Las í gær pistil hjá Gesti en hann vitnar þar í ummæli Ingibjargar Sólrúnar frá 2006 þar sem hún virtist varla geta sofið yfir áhyggjum af því að ríkisstjórnin virtist ekki vera einhuga um að hefja hvalveiðar að nýju.  Því miður var þetta misskilningur hjá Ingibjörgu því Framsóknarflokkurinn studdi þetta heilshugar og gerir enn sem er mér gjörsamlega á móti skapi.  Núna virðist Ingibjörg ekki vera mjög stressuð yfir óeiningu í ríkisstjórninni og auglýsir hana reyndar sérstaklega eins og sjá má í færslunni hjá hjá Gesti.  Æji hvað ég hefði nú verið til í að sjá Samfylkinguna berja í borðið og stoppa þetta þjóðremburugl, ekki meira um það í bili, hef rætt hvalveiðar meira en góðu hófi gegnir síðustu ár. 

Ástæðan fyrir því að Ingibjörg hefur ekki áhyggjur af óeiningu í stjórninni er auðvitað sú að hún virðist ekki muna tvo daga i röð að hún er í lykilstöðu við stjórn landsins.  Skrifar í blöðin eins og manneskja út í bæ til að kalla eftir þjóðarsátt þegar er auðvitað augljóst að árangursríkast fyrir ráðandi aðila sé einfaldlega að taka upp símann, framkvæma frekar en að skrifa í Velvakanda og sjá svo hvað gerist eins og húsmóðir úr Vesturbænum.

Samfylkingin er stundum pínleg á að horfa, minnir nokkuð á hinna stórkostlegu dönsku þætti Klovn nema bara meira sorgleg en fyndin...

---

Það er auðvitað að æra óstöðugan að nefna Magnús Þór Hafsteinsson á nafn enda fáir sem hafa jafn markvisst unnið gegn geðheilsu landsmanna síðustu daga.  Fyrst ég aulaðist til að lesa "vörn" hans fyrir rúmri viku get ég ekki sleppt því að benda á eina klausu:

Nú hefur hann [Gísli Einarsson bæjarstjóri á Akranesi] heldur betur launað fyrir sig því ég veit að hann er búinn að vera að "lobbýa" fyrir því að Akranes taki við 60 flóttamönnum frá Írak. Vitandi það að slíkt myndi eflaust eyðileggja meirihlutann á Akranesi.

Ég hnaut um þetta.  Sérstaklega því Magnús Þór hefur ítrekað í innflytjendaumræðu síðustu ára reynt að sverja af sér að vera illa við útlendinga.  Hann hefur þess í stað hamrað á því að við getum ekki ráðið við allan þennan fjölda á skömmum tíma, þurfum að stjórna flæðinu sjálf (þó það sé ekki fræðilega hægt skv. EES, hér er ekkert atvinnuleysi) og nú síðast var Magnús Þór á móti komu flóttamanna á Skagann vegna þess að einhverjir eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði.  Gísli Einarsson er greinilega skarpskyggn fyrst hann sá sóknarfæri í að sprengja meirihlutann á þessu, hvernig datt honum í hug að mannvinurinn Magnús myndi vera á móti þessu?  Nú er hann ekki rasisti eins og hann hefur margtekið fram síðustu ár.  Þetta er samt athyglisverð tilviljun, að hann sé ávallt í hópi þeirra skeptísku, ávallt til í að vera á bremsunni í innflytjendamálum.

Ég veit fátt dapurlegra en stjórnmálamenn eins og Magnús og kollega hans, nema þá hve mikinn hljómgrunn svona málflutningur fær.   Ef allar þjóðir heimsins myndu hugsa eins og Magnús og co ættu flóttamenn í engin hús að venda nokkurs staðar í veröldinni, því það skiptir engu máli til hvaða lands er leitað, það má alltaf finna óleyst mál í velferðarkerfum hvers einasta ríki heims. 

---
Það er svo ægilega niðurdrepandi að tala um þetta innflytjendamál að ég má til með að hressa mig og ykkur lesendur við.  Hvað er þá betra en menn með enn stærri lúxusvandamál en ég?  Ég hef afskaplega gaman af lúxusvandamálum enda sérfræðingur í að gera góðan úlfalda úr mýflugu, ekki síst ef mýflugan tengist raftækjum, merkjavöru ýmiskonar eða tónleikahaldi.  Í Fréttablaðinu er sagt frá lúxusvandamáli lúxusvandamála - að vera í vandræðum með að geyma einkaþoturnar sínar!  Ég sakna þess nokkuð að eiga ekki bílskýli fyrir Mözduna en það hlýtur að vera algjörlega óþolandi að eiga óvarða þotu í saltrokinu á Reykjavíkurflugvelli.  Vona að flugvallarstjóri bregðist hratt við, enda full ástæða til að hugsa vel um hinn ofursvala Wessmann, hann gaf gamla skólanum mínum miljarð, hversu töff er það?  Hann setti þar reyndar ansi háan standard fyrir mig og aðra velunnara HR en ég get alveg sætt við mig að vera í skugganum af svona mönnum

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband