Færsluflokkur: Dægurmál

Hvernig fyrirsögn setur maður á svona samtíning?

Skemmtilegt að koma heim í umræðu um ónýtan gjaldmiðil, þras um álver, ósamstöðu innan Ríkisstjórnarinnar og þá helst innan sama flokksins þar.  Ekki get ég sagt að ég hafi saknað þessarar umræðu sérstaklega í fríinu... Það er nú samt alltaf gott að koma heim, þrátt fyrir allt.  Þakka öðlingunum sem hýstu okkur litlu fjölskylduna í fríinu ásamt því að leiðbeina um Sviss og London (þetta er ekki sama fólkið samt) , með betri ferðum sem ég hef farið í, frábært alveg.

Jakob Fróði fór ekki með á Kiss þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning lesenda við þá tillögu.  Það var líklega skynsamleg ákvörðun enda hávaðinn í Schleyer Halle ægilegur.  Skemmtunin var í réttu hlutfalli við hávaðann, þetta var sýning með sama hætti og við pjakkarnir horfðum á aftur og aftur í gamla daga, ekkert vantaði, Gene Simmons að spúa eldi og spýta blóði, fljúgandi Paul Stanley, sprengjur og eldsúlur.  Helst vantaði reyndar félagsskapinn af vinunum en mér leið nú samt bara eins og heima hjá mér í Stuttgart, stórkostlegt land Þýskaland.

Sá Radiohead halda töluvert frábrugðna tónleika í Victoria Park í London á þriðjudag.  Átti allt eins von á tilraunakenndum hlutum og einhverri sýru miðað við sögur af tónleikum þeirra síðustu ár en svo var alls ekki, langir og frábærir tónleikar þar sem spilamennskan var ótrúlega góð.  Nýja efnið þeirra hljómar mun betur 'live' en ég hafði reiknað með fyrirfram.  Enda 2-3 tæknimenn þarna á stangli, þökkum þeim vel unnin störf.

Svo ég haldi áfram úr einu í annað... Er búinn að vera að fylgjast með webcasti af tónleikum Sigur Rósar í kvöld.  Pottþéttur lagalisti og frábært framtak, ekki síst vel valinn staður fyrir svona uppákomu.  Þegar við Unnur röltum þangað af Gullteignum á sólríkum sumardögum með teppi og bók velti maður því oft fyrir sér hvort ekki væri að hægt að nýta þetta tún betur.  Þó töluvert færi fyrir mér á teppinu var nokkuð greinilega hægt að koma fleirum fyrir þarna.

Vefsíðan með útsendingunni er með yfirskriftinni "Við stöndum með náttúrunni!"  Ég tel mig nú svo sannarlega gera það, en hef samt ekki slæma samvisku af því að styðja gerð Kárahnjúkavirkjunar, álver á Bakka og í Reyðarfirði.  Álver í Helguvík finnst mér hinsvegar vera óskynsamleg framkvæmd og ég er á móti virkjun Skjálfandafljóts, sem einhverjum hefur dottið í hug að hafa sem varaskeifu f.álver á Bakka ef illa gengur að virkja í Kröflu II.   Hvernig ég fell þá í hóp "með eða á móti náttúrunni" verða svo aðrir að dæma ef þeir vilja, það væri nú samt umræðunni til framdráttar ef fólk myndi almennt róa sig í dilkadrættinum.

---
Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður munu Þjóðverjar hampa Evrópumeistaratitlinum á morgun.  Það er áfall fyrir knattspyrnuna ef við áhorfendur fáum ekki að sjá Ballack taka þátt í leiknum en hvort hann verður með eða ekki ræður ekki úrslitunum.  Þetta er einfaldlega vinningsvél sem mun ekki hiksta þegar á reynir.  Öll lið nema Spánn hafa átt slæman dag í þessari keppni en þeirra slæmi dagur verður á morgun.  Auðvitað verður erfitt að horfa á dáðadrengina Casillas, Torres, Alonso og Ramos tárvota í leikslok en í fótboltanum er bara ekkert jafn skemmtilegt eins og þegar Þýskaland klárar svona mót.  Ekki síst er æðislegt að finna fyrir heiftinni í garð liðsins þegar vel gengur og að hitta fyrir stuðningsmenn liðsins á óvæntum stöðum 


Grænfriðungarnir hafa smitað mig

Alltaf er ég fyrstur til að skrifa um hitamálin, ætla að taka fyrir Ísbjörninn í dag.  Ísbjörninn með stórum staf því það kemur bara einn til greina, þó björninn í Safnahúsinu á Húsavík sé tvímælalaust helsti björn landsins.

Veit að ég er kannski óraunhæfur barnalegur vitleysingur en mér fannst alveg hundfúlt að bjössi skyldi vera skotinn.  Með því er ég þó ekki að segja að björninn hefði mátt gæða sér á Skagfirðingum eins og sumir froðufellandi æsingsmenn í símatímum útvarpanna hafa ætlað stuðningsmönnum bjössa.  Ég drekk ekki kaffi þannig að ég er heldur ekki einn svokölluðu kaffihúsaspekinga.  Ég er hinsvegar miður mín yfir að björninn gat ekki fengið að búa á mínum uppáhalds skemmtistað í Reykjavík, Húsdýragarðinum, en hann fékk nánast samstundis heimboð þangað og fréttist af honum. 

Nei, það var víst hitt og þetta ekki til í landinu, við eigum lítið af fólki með Bs í ísbjarnabjörgun og við erum auðvitað svo einöngruð að það hefði tekið fleiri mánuði að redda því sem redda þarf, jafnvel ár miðað við áhersluna sem Þórunn Sveinbjarnar lagði á "ekki til í landinu".  Það lá auðvitað mjög mikið á, bjössi kom á land þarna fyrr um morguninn var það ekki?  Nei ætli einhverjir klukkutímar til eða frá hefðu skipt máli.  Örugglega hefði verið nóg framboð af skyttum til að líta eftir honum þangað til nauðsynleg aðföng hefðu borist um kvöldið með einhverri véla IE eða Icelandair.   Það var bara aldrei inní myndinni, menn fóru þarna uppeftir til að skjóta dýr í útrýmingarhættu, aldrei kom annað til greina.

Jæja, ég fer þá bara aftur í vísindatjaldið þegar ég kem í Húsdýragarðinn næst, það verður hvort sem er seint þreytt.

---
Öðlingurinn Ómar Þorgeirsson á afmæli í dag, congrats Mari! Afar vandað eintak hann Ómar.  Ætlaði að gefa þér eftirminnilega gjöf, bestu sæti í Húsdýragarðinum meðan ég glímdi við Ísbjörninn, en kappát við selina á þeirra heimavelli verður að duga.

Uppfærsla á augum, critical update v. 3.05

Þegar Windows eða annar hugbúnaður tilkynnir að ný uppfærsla sé tilbúin til niðurhals er ég fljótur til að uppfæra tölvuna, burtséð frá því hvort ég sé í eigin tölvu eða hjá öðrum.  Ég er nú ekki að þessu af vírusahræðslu heldur vegna þeirrar bjargföstu trúar að ný útgáfa sé á einhvern hátt betri, með nýjum fítusum eða stöðugri.  Þess vegna er alveg magnað að þegar ég vissi í júlí 2007 að augun í mér gætu séð betur hafi ég beðið í tæpt ár með að uppfæra þau, eða þ.e.a.s gleraugun.  Ætli væntumþykja á gömlu gleraugunum og aurum í bland við rótgróna íhaldssemi hafi ekki tafið mann því tilfinningin að setja upp gleraugu með nýjum glerjum er alveg mögnuð, allt verður skarpara á einu augnabliki.  Fyrir þá sem þurfa ekki gleraugu er best að lýsa þessu með að skoða myndina í flatskjáunum á skaplegu verði í Elko og skoða svo draumatækið mitt, Philips 37PFL9732D

Leið reyndar eins og ég hefði drukkið kippu á örskotsstundu því heilinn var lengur en ég hef kynnst áður að stilla sig inná nýju græjurnar.  Hann er búinn að uppfæra sig núna eftir nóttina sem reyndar var óvenju löng því pjakkur litli er lasinn og taldi sig þurfa að ræða heimsmálin kl. 4:30 í nótt.  Minnir óneitanlega á ónefnda vini!

Gleraugu eru svo áberandi útlitseinkenni á sköllum eins og mér að næstu vikur veit ég að margir eiga eftir að líta tvisvar áður en manni er heilsað, fyrir utan hina gullvægu spurningu, "varstu að fá ný gleraugu" þegar það er jafn augljóst fyrir þá sem maður umgengst daglega og að ég myndi birtast einn daginn í vinnunna með tattú á enninu.  Það er nú allt í góðu samt, ég tek t.d. stundum ekki eftir því þótt konur séu óléttar fyrr en þær eru komnar hálfa leið uppá fæðingardeild þannig að maður getur ekki mikið sagt...

Íhaldspungurinn ég

Ég hef verið að gera mér æ betur grein fyrir því hin síðari ár hvað ég er mikill íhaldspungur.  Tek fram strax að þessi íhaldssemi á ekkert skylt við hin steingelda stjórnmálaflokk úr Valhöll sem kennir sig (ekki) við íhald.  Þetta lýsir sér á ýmsa vegu, allt frá því að hindra Unni í að kaupa flíkur í óþarflega rauðbleikum lit á strákinn okkar, stoppa frekar í Brú en Staðarskála nema líf og limir liggi við, í að vera af-því-bara ekkert ginkeyptur fyrir ágætum rökum þeirra sem berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.   Mörg fyrirtæki hafa svo notið góðs af þessu og hafa þau verið mis vel að viðskiptunum komin.

Nú er hinsvegar eitt íhaldsvígið fallið, ég er að skipta um gsm-símfyrirtæki eftir 10 ára sambúð!  Féll fyrir gylliboði Nova sem voru svo elskuleg að bjóða mér (og öðrum á sv-horninu) 2000 kr. inneign næstu 12 mánuði ef ég kæmi í viðskipti.  Þ.e. ef ég keypti mér 3G farsíma sem kostar sömu upphæð, síminn er því ókeypis eða þannig kemur það amk út í praxís.  Áður en ég lét verða af þessu reiknaði ég í dágóða stund sem var ekki jafn auðvelt og ég reiknaði með, verðskrár símfyrirtækjanna eru greinilega hannaðar með það í huga að vera ósambærilegar.  Ég tel þó að ég nái að spara mér einhvern aur með þessu uppátæki en innst inni veit ég alveg hver hin raunverulega ástæða fyrir sinnaskiptunum er.  Hversu dásamlegt er nú að geta loksins verið tengdur með háhraða nettengingu í símann?  Þetta verður auðvitað allt annað líf og þó þetta sé ekki gengið í gegn vegna símnúmeraflutningsins sé ég strax hversu mikið hark það var að lifa án þessa hingað til.  Einhverjir afturhaldsseggir og enn meiri íhaldsfauskar en ég hafa reynt að halda fram við mig að maður hafi ekkert með þetta að gera.  Það er auðvitað alrangt og mun ég sýna fram á það með að nota hvert einasta megabæti í áskriftinni.  Ég var orðinn heitur fyrir þessu en þegar sölustúlkan hjá Nova sýndi mér höktandi sjónvarpsútsendingu í símanum var mér öllum lokið og sjá mátti tár á hvarmi undirritaðs, mikið er nú tæknin frábær!

Ég bið Seðlabankann afsökunar á því að hafa með þessu stuðlað að auknum viðskiptahalla þar sem Nova hafa tæplega líka fengið símann gefins.  Mér til málsbóta bendi ég á lægri símreikningur hjá mér kemur til lækkunar verðbólgu á næstu mánuðum.  Síðan hef ég ekki keypt neitt  á eBay í rúma tvo mánuði, þetta hlýtur að telja Davíð.


Draumaliðið fallið úr keppni og ein manneskja sagði upp

Átakanlegt að horfa á eftir liði Akureyrar detta út í Útsvari í kvöld.  Ekki hefði mig grunað fyrr í vetur að lenda í þeirri aðstöðu að taka svona nærri mér og raun bar vitni að horfa á eftir liði frá Akureyri detta úr einhverri keppni.  Undir eðlilegum kringumstæðum hefði slíkur viðburður verið sérstakt fagnaðarefni.  En þetta lið var auðvitað eins og Michael Jordan, Magic Johnson og Horace Grant væru búnir að slá saman í þriggja manna streetball lið.  Arnbjörg kaupfélagsdóttir þá auðvitað í hlutverki Grant, ekki jafn augljóslega sterk og hinir tveir en mikilvæg fyrir liðsheildina á ögurstundu.

Það vantaði sigurviljann, skutu úr þriggja stiga körfum þegar örugg tveggja stiga karfa hefði dugað.  Virðingarvert sjónarmið, enda þvílíkar kempur hér á ferð.  Ekki veit ég hverja maður styður þá í framhaldinu, líklega verð ég að vonast bara eftir háðulegri útreið Reykjavíkurliðsins fyrst við Grafarvogsbúar eigum ekki fulltrúa.

---
Lára Ómarsdóttir fréttmaður nokkur sagði víst upp í dag.  Ekki veit ég af hverju uppsagnir fjölmiðlamanna eru fréttaefni á borð við eldgos, jarðskjálfta og afsagnir ráðherra.  Fjölmiðlar gleyma því stundum að það lifa ekki allir í þessari fjölmiðlablöðru sem þeir hrærast í.  Rétt eins og ég gleymi því stundum að allir hafi ekki brennandi áhuga á hræringum í rekstri tryggingafélaganna. 

Venjulegt fólk er held ég ekki sérstaklega upptekið af því hver segir fréttirnar, heldur frekar hvort fréttin sé faglega og skemmtilega unnin, hvort þeir hafi nú nennt að hafa fyrir því að hafa samband við alla málsaðila eða hvort treina eigi fréttina í fleiri fréttatíma í staðinn og þá ná jafnvel á þeirri leið taka einhvern/eitthvert fyrirtæki af lífi.  Nú horfi ég mikið á fréttir en get ekki með nokkru móti lagt mat á hversu góður fréttamaður Lára er.  Ég man helst eftir henni v/þess að mér fannst athyglisvert að hún skyldi fjalla um hverja fréttina á fætur annarri um Kárahnjúkavirkjun og tengd mál á sama tíma og faðir hennar leiddi andstöðu gegn framkvæmdunum og var að reyna að næla sér í vinnu hjá almenningi útá þá andstöðu.  Ætli ekki eitthvað hefði verið sagt ef dóttir stjórnarformanns/forstjóra Landsvirkjunar hefði verið að taka þessi mál fyrir? 

Það er hinsvegar alltaf fúlt að horfa uppá 5 barna foreldra missa vinnunna, tala nú ekki um þegar fólk getur komið með jafn innblásna málsvörn og hún í Kastljósi í kvöld, en það er nóg af mönnum á Íslandi í dag sem eru tilbúnir að tapa peningum á fjölmiðlarekstri þannig að ég efast ekki um einhver laus störf séu í boði!

Svo ég endi þetta raus er best að vera í hrópandi ósamræmi við það sem ég sagði áðan, en ég verð að  viðurkenna að þegar kemur að blaðagreinum skiptir mig töluverðu máli hver skrifar.  Það gefur fréttinni/fréttaskýringu aukið vægi ef maður veit að þarna fer vel tengdur og vandaður blaðamaður (auðvitað er ég hérna að tala um Fréttamókinn, Mara Geirs, Agnesi Bragadóttur og Pétur Blöndal).  Af einhverjum ástæðum finnst mér þetta skipta minna máli í ljósvakamiðlunum, sjálfsagt v/þess að þeir virka oft bara eins og þulir að þylja upp fréttina sem maður er búinn að heyra 10x yfir daginn.

---
Klárlega afleitt og klisjukennt blogg, en við hverju er að búast þegar maður kemur með færslu dag e.dag?

Nou Camp = kirkjugarður, trukkafólk og eigin geðbrestir

Fyrir menn sem blogga 2-3svar í mánuði er bókað að bloggin verða of löng.  Fyrir þá sem hafa kvartað yfir lengdinni (já Snæþór, ég er að tala um þig) bendi ég á að hægt er að búta lesturinn niður og dreifa honum niðrá vikudagana.

----
Ég hef því miður séð alltof lítið af fótboltaleikjum í vetur sökum þrjósku minnar við að versla ekki við Stöð 2 Sport, en þeir fáu sem ég hef séð hafa nánast allir verið með Liverpool.  Því taldi ég mig eiga von á góðu þegar ég sá síðari hálfleik Barcelona og Man Utd í gærkvöldi, ekki hafa ManU menn sparað stóru orðin um gæði síns liðs og þá sér í lagi hversu skemmtilegir þeir eru og þá fylgir iðulega hversu leiðinlegan bolta Liverpool spila.  Þetta var nú samt án vafa það leiðinlegasta sem ég hef séð í sjónvarpi síðan ég þrældi mér í gegnum Rachel Ray þátt um árið.  Þvílík endemis leiðindi og andleysi.  ManU spiluðu þetta auðvitað skynsamlega en þessir meintu snillingar frá Barcelona hefðu nú kannski mátt láta sér detta einhvern tíma í hug að gera ekki það nákvæmlega sama og misheppnaðist í síðustu sókn. 

Hugsanlega er afstaða mín lituð af því að ég horfði á leikinn í blautum baðslopp.  Ég fékk þó öl með þessu þannig að það vann á móti blauta baðsloppnum.  (Bara svo lesendur haldi ekki að ég leggi í vana minn að horfa á fótbolta í blautum baðslopp heima hjá mér var þetta partur af Laugaferð góðra manna sem gerðu misgóða hluti í fótboltamóti í vinnunni).

---
Vegna þessa fótboltamóts í gær missti ég af fréttum og umræðum í Kastljósi um vörubílstjóra og þessi svokölluðu mótmæli þeirra í gær.  Hef litlu við bloggflóðið um það að bæta nema mér þykir merkilegt hvað sumu fólki þykir lítið að því að hindra aðgerðir lögreglu.  Jú einu hef ég við þetta að bæta.  Sá part af beinu útsendingunni á Rúv uppúr hádegi í gær og einhvern veginn kom mér ekki á óvart að sjá leikara í hópi áhorfenda þarna.  Hann var kannski bara að taka bensín á Olís, hvað veit ég, en til að forðast múgsefjun leikara í athugasemdakerfinu segi ég ekki meira í bili.   Ef fólk vill heyra meira er það velkomið í heimsókn, við vorum að fá nýjan sófa þannig að nú þurfa gestir ekki að óttast miltisbrandssmit úr þeim gamla.

---
Þessi vettvangur hefur reynst mér vel til að játninga af ýmsu tagi og því ætla ég að enda þetta með einni slíkri.  Hún er reyndar svo pervisinn og afbrýðileg að ég býst fastlega við að vera lagður inn.  Það kemur fáum á óvart sem mig þekkja að ég er óforskömmuð merkjapíka á ákveðnum sviðum.  Þarna erum við ekki að tala um Innlits-útlits merkjapíku, mér gæti ekki verið meira sama þó Gunnar Birgisson hefði hannað hjá mér baðkarið frekar en Philippe Starck sem Vala Matt hefur ófáum sinnum hampað sem Messíasi í þáttum sínum. 

Ég á hinsvegar verulega bágt þegar kemur að raftækjum.  Nýlega endurnýjaði ég iPoddinn minn og keypti 8gb iPod Nano sem er að reynast mér prýðilega þrátt fyrir skammarlega lítið diskapláss.  Þegar ég pantaði hann ákvað ég að panta í leiðinni "armband" til að hafa hann á upphandleggnum við uppvaskið.  Ég skoðaði fjölmargar útgáfur og eyddi drjúgum tíma í að lesa dóma, samt vissi ég alltaf innst inni að eingöngu eitt kæmi til greina, algjörlega burtséð frá góðum dómum og verði.  Það er þetta hér.  Fyrir hið óþjálfaða auga virðist þetta vera bara eins og hvert annað "armband" en nei, þetta er nefnilega það eina fyrir minn iPod sem er frá Apple.  Og það er akkurat málið, ég bara gat ekki hugsað mér að setja Apple iPoddinn minn í eitthvað annað en frá Apple.

Jamm, þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, en svona er þetta nú samt.  Þarna kostaði þessi geðveila mig 20 dollara.  Þetta dæmi er auðvitað bara toppurinn á ísjakanum en ég get ekki lagt meira á ykkur í bili þrátt fyrir að eiga skuggaleg dæmi um Sony videóvél og Case Logic tösku, svona leyndarmálum verður maður að ljóstra upp hægt og hljótt.

Gleðilegt sumar gott fólk og takk fyrir að lesa.  Gaman að sjá hversu mikið endemis sómafólk leggur leið sína hingað þrátt fyrir að fá auðvitað ekki nýtt blogg nema á nokkurra vikna fresti.  Þetta er bara ekki spurning um magn heldur gæði.


Útsvar, Samfylking og blessuð Kinnarfjöllin

Ég hef komist að því að þessi vettvangur er ágætur til að játa syndir sem ég hélt að þyldu ekki dagsins ljós.  Þessi synd sem ég ætla að játa núna er reyndar gríðarlega slæm en ég get ekki einfaldlega ekki afneitað þessu.  Eins og áður hefur komið hér fram hef ég sérstakt dálæti á spurningaþáttum.  Vinsælt hefur verið í vetur að dissa spurningaþáttinn Útsvar sem mér þykir aftur á móti prýðilegur og missi alls ekki af honum ótilneyddur.  Það er þó ekki vafasamt í sjálfu sér heldur er það liðið sem ég styð eftir að Norðurþing féll úr keppni. Jamm, haldið ykkur fast, ég styð nefnilega lið Akureyrar í keppninni!  Það er einfaldlega ekki annað hægt, þvílíkt endemis all-star lið sem þarna er komið saman!  Tveir öflugustu spurningakeppnamenn landsins ásamt sómakonunni Arnbjörgu Hlíf sem var góðvinkona mín þegar við vorum kaupfélagsstjórabörn.

Sveitarfélög þessa lands hafa annars engan veginn sýnt nógu mikinn metnað í þessari keppni.  Mikið hefur verið lagt uppúr því að hafa þekkt andlit, þó þau geri gjörsamlega í brækurnar.  Nær væri að draga upp helstu nirði sveitarfélagana, burtséð frá því hvort þeir séu sveittir, skítugir, feimnir, gormæltir eða þola almennt ekki dagsins ljós.  Þarna eiga menn að sjálfsögðu að spila til sigurs!  Svona keppnir snúast alls ekki um að hafa gaman af þeim heldur heiður sveitarfélagsins.

---
Stjórnarandstöðugírinn.  Ég á erfitt með að komast í hann, þ.e. að tapa mér í móðursýki yfir öllu sem ríkisstjórnin gerir og froðufella yfir hverju einasta hitamáli sem upp kemur.  Öfugt við Kommúnistaflokk Íslands sé ég enga ástæðu til að missa þvag þó Geir og Ingibjörg hafi reiknað út að hagstæðara væri að fara með einkaþotu á NATO fund heldur en með áætlunarflugi í gegnum Heathrow.  Ef þeir útreikningar reynast réttir er það hið eðlilegasta mál, þ.e. peningalega séð. Hinsvegar er þetta enn eitt gott dæmi um að Samfylkingin var að sjálfsögðu úlfur í sauðagæru þegar þau settu upp umhverfisverndargrímuna í fyrra.  Einkaþotur eru ekki umhverfisvænn ferðamáti, þó þær séu vafalaust þægilegar.  Össur sagði í vikunni að ríkisstjórnin myndi ekki koma í veg fyrir álver í Helguvík vegna þess að það þyrfti lagasetningu til!  Það er eitthvað nýtt að ríkisstjórnin geti ekki sett lög, fyrir ári talaði Samfylkingin eins og lög ríkisstjórnarinnar réðu veðurfarinu, nú er ríkisstjórnin viljalaust verkfæri utanaðkomandi aðstæðna sem virðist ekki hafa nokkur ítök í löggjafarsamkomunni.  Þórunn Sveinbjarnar innsiglaði þessa stöðu Samfylkingarinnar með að hafa ekki bein í nefinu til að hafna ákvörðun Skipulagsstofnunar.  Eitthvað hefði nú heyrst frá Samfylkingunni ef Jónína Bjartmarz hefði gert það sama. 

Stórkostlegur vindhanaflokkur Samfylkingin.  Hver man eftir orði um ESB í síðustu kosningabaráttu, einni sjónvarpsauglýsingu, einni útvarpsauglýsingu eða einni blaðaauglýsingu um ESB?  Neibb, það var ekki neitt sem minnti kjósendur á ESB, enda var stuðningur við ESB aðild á niðurleið á þeim tíma.  Samfylkingin sagði ekki orð þá en leikur á alls oddi núna þegar meira en helmingur þjóðarinnar styður ESB-aðildarviðræður, þó þau hafi samþykkt stjórnarsáttmála sem boðar algjöra kyrrstöðu í þessum málum.

---
Árangur þessarar síðu er ótvíræður.  Eins og ég kynnti í upphafi er árangur síðunnar mældur í gengi Framsóknarflokksins í Þjóðarpúlsi Gallups.  Flokkurinn fór upp um 1% í mars sem er svo sannarlega skref í rétta átt og í átt að langtímamarkmiði síðunnar.   Í tilefni af þessu hefur verið blásið til nýrrar sóknar með nýju útliti en það gamla var forkastanlega ljótt.  Græni liturinn var það eina jákvæða við það en nú var honum fórnað til að litirnir myndu tóna við þennan glæsilega haus.  Hér er auðvitað um að ræða Skjálfanda sjálfan með glæsilegasta fjallgarð veraldar í baksýn, Kinnarfjöllin.  Hér tala ég auðvitað sem óhlutdrægur almennur gagnrýnandi fjallgarða, tek það fram.  Unnur fær þökk fyrir þessa glæsilegu mynd sem ég þurfti reyndar að klippa óþarflega mikið til að passa hér.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband